Óhuggulegt fjölskyldudrama

Borgarleikhúsið frumsýnir Fanny og Alexander á þrettándanum líkt og kemur fram í tilkynningu frá leikhúsinu í dag:

20.12.2011


Fanný og Alexander hin ástsæla fjölskyldusaga Ingmars Bergmans verður frumsýnd á Stóra sviði Borgarleikhússins á þrettándanum, 6. janúar næstkomandi. Hér er sögð saga systkinanna Fannýjar og Alexanders sem alast upp á ástríku, hlýju heimili þar til faðir þeirra fellur óvænt frá og líf þeirra umbreytist í vondan draum. Leikgerðin byggir á sjónvarpsþáttum Bergmans sem hann stytti síðan í kvikmynd árið 1982. Myndin var síðasta kvikmyndaverk leikstjórans og eins konar þakklætisóður til leikhússins þar sem andi Hamlets svífur yfir vötnum…

Upprunalega var frumsýningin áætluð þann 29. desember en seinkanir í tengslum við uppsetningu á sviðsmynd verksins urðu til þess að frumsýningunni var frestað. Hún er því nú viku fyrir 115 ára afmælið. Þetta verður að teljast hálf vandræðalegt fyrir leikhúsið en vanalega hefur mikil barátta verið um bestu jólasýninguna – líkt og síðustu jól þegar tveir erlendir leikstjórar settu upp Shakespeare – Benedict Andrews með Lér konung og Oskar Korsunovas með Ofviðrið.

Fanny og Alexander er engu að síður ótrúlega spennandi verkefni. Mikilvægt er þó að taka ekki verkinu eingöngu sem “ástsælli fjölskyldusögu” líkt og segir í kynningartexta Borgarleikhússins. Í mynd Bergmanns er sögð saga af hefðarfjölskyldu sem lifir í ímynduðum heimi peninga og valda. Í upphafsatriði myndarinnar, jólaskemmtun fjölskyldunnar, fær maður að vita að framhjáhald, ofdrykkja og ólifnaður er daglegt brauð á heimilinu. Þjónustustúlkum er riðið á jólanótt og aðalskemmtiatriði drykkjurúts fjölskyldunnar er að kveikja í prumpi sínu fyrir framan börnin.

Eftir þessa kynningu á fjölskyldunni er sjónarhorninu beint að börnunum tveimur. Fanny og Alexander. Þegar pabbi þeirra, leikarinn, fellur frá giftist móðir þeirra biskupnum. Við tekur einn óhuggulegasti kafli myndarinnar. Í ljós kemur að biskupinn þjáist af einskonar kvalalosta. Hann misnotar börnin og konuna og við fáum að vita að fimmtán árum áður hafði fyrrverandi kona hans og tvö börn drukknað í ánni. Hinn ungi Alexander býr til sögur, hann er einskonar spegilmynd Bergmanns sjálfs, og biskupinn launar skáldskapargáfu hans með vandarhöggum og einangrun.

Það verður spennandi að sjá hvernig Borgarleikhúsið nálgast þennan hluta sögunnar. Það er nánast ómögulegt annað en að hugsa um mál Guðrúnar Ebbu og Ólafs Skúlasonar þegar horft er á myndina. Hin mikla umræða um misnotkun kirkjunnar manna á síðustu árum hér heima og erlendis er í raun verðugt tilefni til að setja upp Fanny og Alexander.

Kvikmyndin á sér fleiri hliðar. Draumasenan sem fylgir flóttanum af heimili biskupsins er klassískt dæmi um áhrif sálgreiningar og Freuds á myndir og verk Bergmanns. Þar er kafað í undirmeðvitundina – hinn kynferðislegi undirtónn er altumlykjandi. Alexander er tekinn föngum af kynlausri veru, manni sem er hvorki maður né kona. Það er ferðalag hins unga inn á slóðir kynvitundarinnar, sjálfsins.

Í lokin heldur saga fjölskyldunnar áfram. Barn þjónustustúlkunnar sem varð til á jólanóttina er nýjasti meðlimurinn og næsta partý er í undirbúningi.

Það er tilhlökkunarefni að þetta meistaraverks Bergmanns rati á svið Borgarleikhússins. Það verður áhugavert að sjá hvaða tökum Stefán Baldursson, leikstjóri verksins, taki þátt biskupsins í verkinu. Og ég vona að ekki verði farið með þjölina á verkið til þess að búa til fjölskyldusýningu fyrir alla. Fanny og Alexander býður upp á svo miklu meira. – SB

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s