Sigtryggur Magnason: Höfundurinn í leikhúsinu

Höfundurinn í leikhúsinu?
Eftir Sigtrygg Magnason, leikskáld.

Það er vorið 1995 og ég er tuttugu og eins árs. Síðan eru liðin nokkur ár. Þetta var veturinn sem ég byrjaði í Háskóla Íslands, sat kúrs hjá Sveinbirni I. Baldvinssyni og skrifaði leikrit sem var sýnt í Stúdentaleikhúsinu og hét Sú kalda ást sem höfundarnir gleyma og öllum sem vissu lítið um bókmenntir þótti svo kunnuglegur titill. Þetta vor var eflaust einhvern veginn svona veðurfarslega, en þetta vor var mér leiklistarlega mjög hagstætt. Svona leiklistarlega innblásturslega.
Og hvað var það nú sem heillaði mig svona?
Ég hafði frá árinu 1994, um haustið, komið inn í Þjóðleikhúsið þegar sýningum var að ljúka og rifið niður sviðsmyndir með góðu fólki. Ég hafði séð lokin á Gauragangi nokkrum sinnum, farið upp í turninn hans Tobíasar oftar en ég kærði mig um að muna og dílað við helvítis Fávitann eftir Dostojevskí. Þetta voru ekki náin kynni við leikhúsið en nóg af uppklöppum.
Ég hafði séð margar sýningar hjá Leikfélagi Húsavíkur með ömmu minni sem átti tvær fullar skúffur af leikskrám og heilagasti gripurinn þar var Íslandsklukkan sem hún sá þrim sinnum í Þjóðleikhúsinu, hvorki meira né minna. Amma mín horfði á Íslandsklukkuna eins og mín kynslóð horfði á Friends.
Já, ég hafði séð allt þetta á afsláttarkjörum, eftir að ég náði að kría út starfsmannaskírteini í Þjóðleikhúsinu: Fávitann, Gauragang, hinn endalausa Egner, sem ég botna æ minna í eftir því sem ég eldist (og ég held reyndar að sé einfaldlega óhollur börnum), og 1994 hafði ég líka séð Blóðbrullaup í Þjóðleikhúsinu – sem var áhrifamikið.
En það er þetta með vorið 1995, þá var ég tuttugu og eins árs. Síðan eru liðin nokkur ár en ég man að þetta var á sunnudegi og það var einhver veisla í fjölskyldunni, einhver að fermast, skírast, útskrifast, eitthvaðast, og ég hafði bitið það í mig að ég yrði að fara á miðnætursýningu, síðustu sýningu, hjá Nemendaleikhúsinu. Ég veit ekki af hverju. Þetta var á þeim tíma sem ég vissi varla hvað leikari var.
En allavega, ég sneikaði mér úr veisludreggjunum, frekar óvinsæll, eiginlega mjög óvinsæll, ef ég man rétt og ég man rétt. Dreif mig niður í Nemendaleikhús. Á þessum árum mætti ég alltaf alltof of snemma á alla hluti og í hæfilega eilífð sat ég einn og horfði á ungan Árna Pétur Guðjónsson dedúa í andyrinu, reyndar svo ungan Árna Pétur Guðjónsson að þetta reyndist vera Kjartan Guðjónsson.
Svo bættist í hópinn og ég settist einn með ókunnugu fólki, núna get ég mér þess til að þetta hafi verið bransinn, síðasta sýning, allt í rassgati, ég verð að sjá þetta áður en sýningar hætta, settist einn með ókunnugu fólki inn í salinn og verkið byrjaði. Skömmu síðar endaði verkið, þetta gerist, og ég gekk út í vornóttina og hugsaði: þetta langar mig að gera.
Og hvað var það nú sem heillaði mig svona?
Maríusögur eftir Þorvald Þorsteinsson. Brilljant. Þetta verk kallaðist einhvern veginn á við mitt sálarlíf, sem var svo sem ekki upp á marga fiska, en það var svo íslenskt, týpurnar svo íslenskar í öllum sínum absúrdisma.
Síðan hef ég alltaf verið að reyna að skrifa þetta leikrit. En gengið illa.
En þetta var á þeim árum sem ég var sviðsmaður í Þjóðleikhúsinu. Og eins og við vitum þá er munurinn á sviðsmanni og leikskáldi sá að það er alltaf einhver sviðsmaður í fastri stöðu í íslensku leikhúsi.

Ég ætla að taka Davíð á þetta. Ég ætla að draga upp skýrar línur. Jafnvel vera ósanngjarn. Hugsa aðeins upphátt.
Ég held því fram að eini listamaðurinn í leikhúsinu sem þarf að vera SNILLINGUR og ég segi þetta með hástöfum, sé leikskáldið. Leikskáldið þarf að geta gengið inn á skrifstofu leikhúsanna með verk sem leikhússtjórarnir leggja á borðið við hliðina á öllum katalógnum: Grikkjunum, Shakespeare, Ibsen, Miller, Söruh Kane (hún er þarna) og félögum. Þetta verk, nýskrifað einhversstaðar í kvistherbergi á Skúlagötunni, er yfirleitt ekki tekið í leiklestur, bara lestur og stundum líður manni eins og ekki sé gert ráð fyrir því að neitt gerist á æfingatímabilinu sem taki verkið lengra, geri það að leiksýningu. Og er þetta ekki eins og að sitja á fyrsta samlestri á Hamlet og leikarinn sem leikur Hamlet segir fyrstu línuna sína og leikstjórinn segir, nei, þetta er ekki Hamlet, Hamlet á ekkert að vera svona, og biður svo bara um Sir Laurence Olivier. Hann gerði þetta svo vel.
Listirnar eru svo sammannlegar. Og maðurinn breytist ekki neitt. Þess vegna getum við alltaf, þegar eitthvað bjátar á, efnahagshrun og svoleiðis, leitað í Grikkina eða Shakespeare eða Brecht eða Miller. Í þeim finnum við alltaf, og það er alveg rétt, í þeim finnum við alltaf erindi við samtímann, af því þetta eru góð listaverk. En ef samtímamenn Shakespeare hefði bara sett upp Grikkina af því þeir áttu alltaf svo augljóst erindi við samtíma Shakespeares, hvar stæðum við þá í dag? Hvað ef Stanislavsky hefði bara sett upp Shakespeare og sleppt Tsjekhov? Hvað ef Brecht hefði bara sett upp Tsjekhov?
Getur ný aðferð ein og sér breytt sýn fólks á heiminn eða þarf ný aðferð og nýtt innihald að fara saman til að breyta gangi listasögunnar.
Eitt einkenni íslensk leikhúss undanfarin ár, kannski er þetta einkenni samtímans, veit ekki, eru leikgerðir. Hin frábæra sýning, Fólkið í kjallaranum, fékk til dæmis Íslensku leiklistarverðlaunin í ár. En er leikrit og leikgerð sami hluturinn? Þegar spurningin um leikgerð og leikrit er borin upp koma markaðslögmálin sterk inn. Það er auðveldara að selja leiksýningu byggða á óeigingjörnu markaðsstarfi bókaforlaganna um síðustu jól en að selja nýtt íslenskt leikrit ef það er ekki eftir Ólaf Hauk. Og að því sögðu: er það ekkert áhyggjuefni fyrir íslenskt leikhús að Ólafur Haukur hætti að skrifa og við sitjum eftir án leikskálds sem nýtur vinsælda út fyrir raðir okkar sem hér sitjum og vina okkar?
En aftur að þýðingunum. Ég var að ræða við bókmenntamann fyrir skömmu sem undraðist að í leikhúsinu væru lögmálum bókmenntaheimsins snúið á hvolf. Í jólabókaflóði bókmenntanna er lítið gert af því að ota þýddum bókmenntum að fólki og þar er íslenskt já takk í forgrunni. Í leikhúsinu sýndist honum þessu vera öfugt farið. Bókmenntamanninum, sem reyndar er öflugur þýðandi, þótti það áhugavert í hversu miklum þýðingum íslenskt leikhús stæði Öllu áhugaverðara þótti honum þó þessi áhersla íslenska leikhússins á það að þýða bókmenntir yfir á leikhús. Það má því spyrja: er íslenskt leikhús svona langt frá því að vera sjálfbært, eða, eins og Jón Bjarnason myndi orða það: búum við við leikritaöryggi? Kannski þurfum við að leita í hugmyndafræði Bændasamtakanna til að efla íslenska framleiðslu og taka upp sérstaka verndartolla fyrir íslenska frumsköpun í leikhúsi. Broskarl.
Það má kannski halda því fram að tilvistarkreppa leikskálda sé ekki vandi leikhússins en ég held að svo sé. Ég held sérstaklega að fari saman hagsmunir leikskálda og leikara, tala nú ekki um leikkvenna, því ekki eru klassísku leikbókmenntirnar stútfullar af stórum kvenrullum. Það er ótrúleg reynsla að fá að skrifa fyrir hóp. Ákveðinn afmarkaðan hóp leikara. Það hlýtur líka að vera ótrúleg reynsla fyrir leikara, leikhóp, að fá verk skrifað fyrir sig.
Á síðustu áratugum eru tvö fyrirbæri í íslensku leikhúsi sem snerta leikritun sérstaklega. Fyrst skal nefna Útvarpsleikhúsið sem hefur verið íslenskum leikskáldum, sérstaklega ungum leikskáldum, lífsnauðsynlegur vettvangur. Síðan er það Hafnarfjarðarleikhúsið Hermóður og Háðvör sem bókstaflega hafði það að aðalmarkmiði að sýna ný íslensk verk, frumsamin í bland við leikgerðir. Því miður eru Hermóður og Háðvör hætt saman. Og enn á eftir að skrifa glæsileg eftirmæli um það merka samband. Ég sakna þeirra. Það var alltaf svo gaman að koma til þeirra.
Jæja. Þetta er að verða gott. Ég er bara helvíti ánægður. Ég er helvíti ánægður með að hafa fengið tækifæri til að sjá sýningar eftir verkunum mínum, sýningar sem ég er stoltur af. Ánægður með að hafa fengið að vinna með listamönnum sem hafa tekið verkin mín og farið með þau lengra en ég hafði séð fyrir. Ég er helvíti ánægður með íslenskara leikara. En fyrst og fremst er ég í dag ánægður að vera leikskáld og að hafa fengið að hlýða á þessa leiklestra í gær og fyrradag, hlýða á verk sem mörg eiga erindi við samfélagið og samtímann. Takk fyrir að hlusta. Takk.

Erindi þetta var flutt af höfundi á málþingi Grósku s.l. haust.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s