Af lostafullri paradís og kristilegri martröð

Kristbjörg Kjeld og Jóhann Sigurðarson – af facebook síðu Borgarleikhússins

Söguþráður kvikmyndarinnar, Fanny og Alexander, er í raun sáraeinfaldur. Sagan segir frá systkinunum Fanny og Alexander, sem tilheyra hinni litríku og stórskemmtilegu Ekdahl fjölskyldu. Ein jólin fellur faðir þeirra óvænt frá og í kjölfarið giftist móðir þeirra biskup, í von um skjól og öryggi; það reynist þó svikalogn.

Í raun fjallar kvikmyndin um kúgun, trú, sakleysi, hreinleika, illsku mannsins og harðvítug átök andstæða. Hún er síðasta tilraun Ingmar Bergmans til þess að eiga samræður við guð. Til þess að skilja hann í listaverki. Hún er síðasta meistaraverkið sem sænski snillingurinn kvikmyndaði. Myndin er að mörgu leytinu til byggð á hans eigin ævi. Þannig var faðir hans íhaldssamur prestur sem aðhylltist ofbeldisfullum uppeldisaðferðum. Sjálfur sætti Bergman miklu harðræði af hálfu föður síns. Hann var meðal annars læstur í myrkum skáp þegar hann braut af sér sem barn. Í leikverkinu fær Alexander að velja um þrennskonar refsingar. Að drekka laxerolíu, að vera hýddur eða vera læstur í myrkum kjallara. Alexander velur umsvifalaust hýðinguna.

Því skal enginn halda að hér sé um venjulega fjölskyldusögu að ræða.

Kvikmyndin var í upphafi fjórir sjónvarpsþættir. Síðar klippti Bergman þættina niður í eina heildstæða kvikmynd sem var frumsýnd árið 1982. Sjálfur sá hann alltaf eftir því. Kvikmyndin varð samt sem áður til þess Bergman hlaut fern Óskarsverðlaun. Slíkt er fáheyrt í Hollywood fyrir kvikmyndir á öðru tungumáli en ensku.

Það var ekki fyrr en árið 2009 sem leikritið var fyrst sett upp á svið. Og það í Þjóðleikhúsinu í Noregi. Leikgerðin er meira eða minna eins og verk Bergmans, fyrir utan endinn.

Leikmynd Vytautasar Narbutas er tilkomumikil. Enda er honum gert að túlka mikilvægustu umskipti sýningarinnar, sem eru skarpar andstæður hömlulausrar tilveru Ekdahl fjölskyldunnar og svo kristilegrar martraðar biskupsfjölskyldunnar. Þá er tilraun hans til þess að smækka tilveru fjölskyldunnar niður í brúðuleikhús Alexanders frumleg og skemmtileg. Umhverfið kallast því á við lykilræðu Óskars Ekdahls, þar sem hann talar um hinn litla heim leikhússins sem speglar stundum raunveruleikann, og stundum speglar raunveruleikinn leikhúsið.

Vytautas tekst vel upp.

Sagan hefst á jólaboði Ekdahl fjölskyldunnar. Þar er Óskar Ekdahl, faðir systkinanna, áberandi í fyrstu. Þröstur Leó Gunnarsson leikur þessa Hamletísku persónu af festu. Hann er einhverskonar jafnvægi í hinni lostafullu Ekdahl-fjölskyldu ásamt móður sinni, sem Kristbjörg Kjeld leikur vel. Jóhann Sigurðarson fer með hlutverk hins sígraða Gústafs Adoldfs, sem þráir umfram allt lífið og áfengið og konurnar. Hlutverk Jóhanns er tilþrifamesta hlutverk sýningarinnar. Jóhann fer listilega vel með það og túlkar saurlífssegginn á nákvæmlega jafn grófan hátt og slíka persónu þarf að túlka. Það er því óhætt að segja að hann sé fyrirferðamestur í verkinu.

En stjarna sýningarinnar, að öðrum ólöstuðum, hefði átt að vera Rúnar Freyr Gíslason í hlutverki biskupsins, Edvards Vergérus. Annað eins illmenni hefur sjaldan birst á hvíta tjaldinu. Edvard er margslunginn vargur, sem krefst samúðar áhorfandans. Hann óttast hugarheim hin frjóa Alexanders; kristilegri tilveru hans er ógnað af hugmyndafluginu einu. Emilía, sem er leikin af Halldóru Geirharðsdóttur, segir meðal annars í tilhugalífi þeirra tveggja, að hún vilji rannsaka guð og kynnast krafti hans í gegnum Edvald. Og Bergman sýndi áhorfendum velviljaðan mann haldinn kvalalosta í nafni trúarinnar. Hann stendur í þeirri ósveigjanlegu trú að hann búi ekki aðeins yfir sannleikanum, heldur réttlætinu einnig. Hann uppsker fyrir vikið hatur Emelíu og barna hennar. Edvard játar svo fyrir óhamingjusamri konu sinni, að óvild þeirra komi honum á óvart. Sjálfur stóð hann alltaf í þeirri trú að hann væri vel þokkaður og víðsýnn. Skrímsli vilja ekki alltaf öðrum illt. Ekki frekar en guð.

Rúnar Freyr er ekki sannfærandi í þessu kröftuga hlutverki. Þar liggur veikleiki sýningarinnar. Þungi og áhersla leikstjórans, Stefáns Baldurssonar, virðist vera á lífsgleði Ekdahl-fjölskyldunnar, og það tekst vel upp. Á sama tíma verður andstæðan hjáróma. Það er auðvelt að túlka gleði Ekdahl-fjölskyldunnar. En að túlka eymdina í berstrípuðum heimi biskupsins er snúið. Það er nefnilega ekki hægt að prumpa á kerti í þeim heimi, né halda framhjá með húshjálpinni, eins og meðlimir Ekdahl fjölskyldunnar gera svo eftirminnilega.

Eins verður að segjast, að Halldóra Geirharðsdóttir túlkar hina samúðarfullu Emíliu, af undarlegri hörku.

Þá missir atriðið á milli Alexanders og hins kynlausa Ísmaels, algjörlega marks. Því miður. Enda eitt af sterkustu atriðunum í kvikmynd Bergmans. Kristín Þóra Haraldsdóttir veldur ekki hlutverki hins hrollvekjandi Ísmaels. Hún er aftur á móti góð í hlutverki þjónustustúlkunnar og frillu Gústafs Adolfs, Maju.

Af öðrum leikurum verður að minnast á aðalsöguhetjuna Alexander, sem Hilmar Guðjónsson leikur. Hann fer vel með sitt hlutverk. Sú staðreynd að hann er talsvert eldri en sögupersónan þvælist aldrei fyrir áhorfandanum. Aftur á móti verður að segjast, að þó leikritið heiti Fanny og Alexander, þá mæðir ekki mikið á þessum tveimur persónum, og minnst á Fanny. Áherslur Bergmans voru annarsstaðar.

Á heildina litið er sýningin vel heppnuð. Leikritið eru þrír tímar að lengd og áhorfandanum ætti ekki að leiðast í eina sekúndu. Hvert atriði er hnitmiðað. Samræður eru skemmtilega lifandi. Töfraveröld verksins svífur yfir vötnum. Stefáni tekst það. Á því er enginn vafi. Og það sem gerir verkið aðgengilegra en ella, er einmitt sú staðreynd, að það er góð afþreying, á sama tíma komast heimspekilegar hugmyndir Bergmans ágætlega til skila.

Valur Grettisson.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s