Gagnrýni: Tvær tvennur í Tjarnarbíói

Leikhópurinn, Fullt hús, frumsýndi leikverkið Póker (e. Dealer´s choice) eftir Patrick Marber í Tjarnarbíói í gærkvöldi. Leikhópurinn samanstendur af misreynslumiklum leikurum. Það er Valdimar Örn Flygering sem leikstýrir.

Leikskáldið Patrick Marber hlaut heimsfrægð með kvikmynd sinni Closer árið 2004. Bíómyndin var gerð eftir samnefndu leikriti Marbers, sem sló í gegn í Bretlandi árið 1997. Árið 2006 vakti handrit hans að hinni stórgóðu, Notes on Scandal, einnig heimsathygli. Þar fór Cate Blanchett með aðalhlutverkið.

Marber tilheyrir frægri leikhúsbylgju sem er nefnd In-your-face leikhús. Líklega er frægasta leikskáldið úr þeim hópi, hin goðsagnakennda Sarah Kane, sem gestir Borgarleikhússins fengu til dæmis að kynnast í verkinu, Rústað, sem var frumsýnt árið 2009.

Verk Marbes, Dealer´s choice, var frumsýnt í London árið 1995. Leikritið er það fyrsta sem Marbers skrifaði auk þess sem hann leikstýrði því. Stórleikarinn Ray Winstone lék kokkinn Sweeney í upprunalegu uppfærslunni. Tom Georgeson lék svo í verkinu, þess má reyndar geta að hann lék einnig í kvikmyndinni Notes on a Scandal. Verkið er að mörgu leytinu til byggt á persónulegri reynslu Marbers, sem er sjálfur spilafíkill.

Það var Jón Stefán Sigurðsson sem þýddi leikritið og er annar framleiðanda. Hann fer einnig með hlutverk þjónsins Frankie.

Vonlaus tilvera

Leikriti fjallar í grunninn um brostna drauma og spilafíkn. Þarna má finna vitleysinginn Mugsy (Magnús Guðmundsson) sem dreymir um að opna veitingastað á almenningssalerni, Sweeney (Finnborgi Þorkell Jónsson), sem tekur fjárhættuspilið fram yfir barnið sitt og Frankie (Jón Stefán Sigurðsson) sem dreymir um að flytja til Las Vegas; höfuðborgar fjárhættuspilsins.

Veitingahúsaeigandinn og silfurrefurinn Steven (Ellert Austmann Ingimundarson, eða Ingimyndarson, eins og hann heitir í leikskránni) er föðurleg fígúra sem ber hag starfsmanna sinna fyrir brjósti. Hann heldur pókerkvöld á hverjum sunnudegi og skráir að auki niðurstöður hverrar einustu viðureignar að kvöldi loknu.

Sonur Stevens, Charlie (Ingi Hrafn Hilmarsson), hyggur á samstarf með Mugsy, saman stefna þeir á að opna veitingastað í versta hverfi borgarinnar. En til þess að slíkt geti orðið að veruleika, þurfa þeir fjármagn. Og ef ekki frá pabba gamla, þá í pókernum, þar sem glettilega háar fjárhæðir skipa um hendur vikulega.

Öruggri, en frekar vonlausri tilveru þessara mismisheppnuðu fjárhættuspilara, er ógnað þegar Ash (Þorsteinn Gunnar Bjarnason) tekur þátt í spilinu í boði Charlies. Hann er auðvitað úlfur í sauðagæru.

Heimur karla

Uppsetning verksins er fremur einföld. Fyrir hlé fáum við kynnast persónunum á veitingastaðnum. Á sviðinu er eitt borð og stóll. Svo eyja með pönnu og öðrum eldhúsáhöldum. Það er ekki fyrr en eftir hlé sem pókerinn tekur við, sem fram fer í kjallara veitingahússins. Það umhverfi er ágætlega heppnað, enda ofureinfalt.

Þetta er strákaverk. Þarna er karlægur heimur fjárhættuspila rannsakaður. Þar sem fjárhættuspilarar eru grobbnir og grófir og þrá ekkert annað en að sigra. Auðvitað eru þeir ekki að spila við neitt annað en sína eigin djöfla.

Leikararnir eru misgóðir. Ellert og Þorsteinn Gunnar eru langbestir í sínum hlutverkum. Enda hlutverkin veigamest. Uppgjörið þeirra á milli, þar sem Ash afhjúpar veitingahúsaeigandann Steven með afgerandi hætti, er vel uppsett rimma. Þarna takast nefnilega á úlfur og refur – og það er ljóst hvernig slík viðureign endar í náttúrunni; báðir ganga frá boði með skertan hlut.

Finnbogi gæti farið mun betur með rullu kokksins sem fórnar dóttur sinni fyrir næsta spil. Hann er í raun tragískasta persóna verksins, ef Steven er frátalinn. Leikur hans er hinsvegar allt of yfirdrifinn, og á stundum beinlínis óhnitmiðaður, til þess að örlög persónunnar hafi sérstök áhrif á mann þegar að því kemur.

Ingi Hrafn, sem leikur Steven, kemst ágætlega frá sínu. Hann er misheppnaður veitingahúsaprins og fórnarlamb fjáhættuspilana. Þar kemur fyrir kunnulegt stef um syndir feðranna.

Jón Stefán er eftirtektaverður í hlutverki sínu sem þjónninn Frankie. Hann dreymir um paradís í Las Vegas og spilar grimmt til þess að eiga fyrir miðanum aðra leið. Markmiðið er auðvitað jafn sorglegt og persónan sjálf. En Jón Stefán glæðir hana sjálfstrausti, og af starfsmönnum veitingahússins, er hann hvað eðlilegastur í leik sínum.

Trúðsleg persóna

Ástæðan fyrir vinsældum sýningarinnar úti í heimi, er líklega persóna Magnúsar Guðmundssonar; Mugsy. Hann er trúðslegt fyrirbæri sem er svo illa haldið af spilafíkn að það verður beinlínis kómískt. Það fer mikið fyrir Mugsy í verkinu enda keyrir persónan framvindu sögunnar áfram. En á stundum voru áhorfendur hreinlega yfirkeyrðir af þessari fyrirferðamiklu persónu.

Magnús gerir reyndar margt gott sem Mugsy, hann nær fáránleika persónunnar nokkuð vel, en hún er svo yfirgengilega trúðsleg að það verður beinlínis þvingandi á köflum. En ég deili ekki við áhorfendur, sem hlógu dátt að persónu Magnúsar. Kannski er tilganginum náð þar.

Umgjörð sýningarinnar var ágætlega heppnuð. Lýsingin við pókerborðið var áhrifarík og undirstrikaði spennuna ágætlega. Tónlistin var að sama skapi vel valin.

Þá voru nokkur brögð í sýningunni hálf hallærisleg. Eins og atriðið þegar allt fer í háaloft í tvennum samræðum á sama tíma á veitingastaðnum í fyrri hluta sýningarinnar. Augnablikið er fryst með einhverri ljósasýningu, sem maður fékk á tilfinninguna að hafi verið svalt bragð árið 1999.

Eins er eitthvað hallærislegt við það þegar Ellert gengur af sviði í lok seinni hluta verksins og smellir fingrum og ljósin slökkna í kjölfarið. Líklega var það vegna þess að sýningin á að vera eitursvöl. Hún á að sýna breiskleika ofursvals heims þar sem allir tapa. En hið svala skilar sér aldrei fyllilega.

Þýðing Jóns Stefáns er ágæt. Það er mikið slett og mikið af frösum. Það sleppur. Það eykur á trúverðugleikann. Tungutakið á ágætlega við persónur og leikara, sem eru flestir ungir menn.

Sýningin hefur skemmtilega skírskotun til íslensks samfélags. Það er nefnilega spilaður póker í annarri hvorri stofu á Íslandi hverja helgi. Því væri ekki vitlaust fyrir pókerklúbbana að fjölmenna á sýninguna fyrir spil. Það gæti jafnvel opnað augu einhverra – án þess að ég hafi nokkuð út á fjárhættuspil að setja.

Leikhópurinn leggur allt undir. Sýningin er klaufsk á stundum, en heldur velli. Þeir eru kannski ekki með fullt hús á hendi, eins og nafnið gefur til kynna, frekar tvær tvennur – og slík hönd leiðir furðuoft til sigurs.

Valur Grettisson

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s