Heimsljós á einu kvöldi – gagnrýni

Það er gríðarlegt verk að koma Heimsljósi á svið. Kjartan Ragnarsson skrifar leikgerðina og leikstýrir verkinu. Hann einblínir á Höll Sumarlandsins og Hús skáldsins og gerir tilraun til þess að segja sögu Ólafs Kárasonar ljósvíkings í heild sinni á einni kvöldstund.

Tvískiptur ljósvíkingur
Í útgáfu Kjartans eru ljósvíkingarnir tveir. Hilmir Snær Guðnason og Björn Thors skipta hlutverki Ólafs Kárasonar með sér. Hilmir sem Ólafur eldri og Björn Thors sem sá yngri. Ljósvíkingur Hilmis lítur yfir farinn veg, stígur einnig inn í hlutverk þriðju persónu sögumanns. Þau innskot voru uppbrot í takti verksins, kærkomin, líkt og öll samskipti ljósvíkinganna tveggja.

Samleikur Hilmis Snæs og Björn Thors var með ágætum. Sérstaklega átti Hilmir eftirminnileg augnablik. Er þar hægt að nefna ræðu Ólafs Kárasonar á byltingarfundinum á heimili hans sem fjallar um hlutverk skáldsins í heiminum. “Þann dag sem heimurinn er orðinn góður hættir skáldið að finna til, en fyr ekki. En um leiðir hættir hann líka að vera skáld,” segir Ólafur.

Samtal Ólafs Kárasonar við Örn Úlfar (Ólafur Egill Egilsson) við dánarbeð barnsins var einnig fyrnasterkt. Þar var tekist á um réttlætið og kærleikann, tvö stef sem óma í verkinu í samhljómi við fegurðarþrána og þörfina til skáldskapar.

Sterkustu augnablik þeirra Hilmis og Björn Thors náðust þegar þeir brutust inn í sögu hvors annars, áttu í samskiptum. Það sem vantaði upp á þeirra í millum var kannski skýrari barátta. Sú hugmynd að endurspegla innri togstreitu Ólafs Kárasonar með því að skipta persónunni á tvo leikara er sniðug – en til þess að hún gangi upp á sviði þarf að mála þessa baráttu skýrari dráttum. Hér varð þetta leið til að nálgast söguna, fara úr einni senu yfir í aðra, einum tíma yfir í annan, á einfaldan hátt. En alltof sjaldan sást örla á baráttu milli þessara tveggja sjálfa.

Fyrir hvað stóð ljósvíkingur Hilmis Snæs og ljósvíkingur Björn Thors. Í bókinni togast sífellt á í lífi Ólafs, þörfin til að skrifa, vera skáld og svo hinsvegar þörfin til að lifa af, sjá fyrir sér og öðrum. Þessi togstreita varð ekki skýr í útgáfu Kjartans.

Og á stundum gefst ljósvíkingurinn upp – líkt og þegar hann sver eið að beiðni Péturs Þríhross án þess að vita hverju nákvæmlega hann var að lofa. Á slíkum augnablikum hefði verið mögulegt að nýta hina leikstjórnarlegu hugmynd til að brjótast út úr texta verksins og leyfa leikritinu að öðlast sitt eigið líf. Hefði Ólafur Kárason endurtekið eiðinn hefði hann átt þess kost að fara til baka á nýjan leik?

Í stað raunverulegra átaka milli hina tveggja sjálfa Ólafs voru samskipti þeirra frekar á gamansömum nótum líkt og þegar Ólafur yngri eggjar hinn eldri til að ýta Jarþrúði yfir sýslumörkin á dramatískum hápunkti verksins. Góðlátlegt grín á vitlausum stað.

Fegruð mynd
Uppsetning Kjartans Ragnarssonar er trú bókinni. Honum tekst að einfalda söguna og segja hana á einu kvöldi. Fyrir unnendur bókarinnar er mörgu sleppt, hægt er að nefna persónur líkt og Júel J. Júel og Reimar skáld sem eru hvergi að finna. Og persónur sem spila stóra rullu í bókinni verða oft flatar og einsleitar á sviðinu þar sem vantaði baksögu þeirra. Hlaupið var hratt yfir fyrsta hluta sögunnar þar sem Ólafur er meira og minna rúmliggjandi. Og efni fjórðu bókarinnar er stytt svo um munar; barnamisnotkun Ólafs er sleppt, réttarhöldunum, fangelsisdvöl hans í Reykjavík og endurfundum við móður sína.

Það er ógjörningur er að halda öllu inni þegar stórvirki eins og Heimsljós er fært á svið á einni kvöldstund. Kjartan kýs ennfremur að einfalda hinn pólitíska heim verksins og þar með persónu Péturs Þríhross og beina þess í stað athyglinni á konurnar í lífi Ólafs Kárason ljósvíkings.

Þórunn í Kömbum, Jórunn í Veghúsum, Vegmey Hansdóttir og Jarþrúður eiginkona Ólafs eru þau öfl sem toga í Ólaf Kárason ljósvíking og hafa mótandi áhrif á hann. Kannski táknar Ólafur fyrir þeim einhverskonar hugmynd um frelsi. Skáld í heimi sem Laxness lýsir sem endalausum grjótburði og fylleríi í minnisnótum sínum að verkinu. Slíkur maður hlýtur að vera heillandi. En gleði Ólafs er ávalt skammvinn. Eftir að hafa barnað Vegmey er hún lofuð öðrum manni í öðrum firði.

Ólafi tekst aldrei að skilja þrá Þórunnar í Kömbum sem Vigdís Hrefna Pálsdóttir leikur. Þórunn er fórnarlamb aðstæðna. Sterk kona í karllægum heimi. Örlög Þórunnar eru grátbrosleg, draumur um útrás byggða á lygum og blekkingum. En samt er eitthvað heiðarlegt við konuna sem reisir Ólaf af börunum, í einfeldni sinni trúir Ólafur kraftaverkinu en misskilur ástina.

Ást Ólafs á Jóu sem hæðir hann fyrir að láta snúa sér við með börurnar er lostafull ást, endurgoldin ást, en hún kostar sitt. Kjartan sameinar svo Jóu og Beru – sem Ólafur hittir í skipi á leið frá Reykjavík í fjórðu bók. Það er Bera sem gefur Ólafi spegilinn sem hann gefur síðan aumingjanum til að horfa á jökulinn. Í leikritinu kemur spegillinn frá Jóu og er sniðulega notaður þegar Ólafarnir tveir fara með Maístjörnuna.

Gallar á leikgerð
En mest mæðir líklega á Ólafíu Hrönn Jónsdóttur sem fer með hlutverk Jarþrúðar, eiginkonu Ólafs. Þar koma gallar á leikgerðinni í ljós. Mikið vantar upp á til að Jarþrúður verði trúverðug persóna. Í bókinni sér maður hana fyrir sér, litla, flogaveika – undirokaða eiginkonu stórskáldsins sem getur ekki fært björg í bú. Og maður sér einnig upprisu hennar í fjórðu bók, þegar Ólafur kemst að því hvaða konu hún hefur að bera.

Í leikriti Kjartans verður Jarþrúður uppáþrengjandi nöldurskjóða. Og þar með dettur botninn úr hápunkti verksins, sem í útgáfu Kjartans, er sú ákvörðun Ólafs að senda Jarþrúði burt, út fyrir sýslumörkin, aftur til síns heima. Kannski er það eina skiptið sem Ólafur hættir að vera hlutlaust rekald í endalausri baráttu heimsins. Tekur ákvörðun með eigin hag fyrir brjósti, eigin hamingju.

En sú hamingja er skammvinn. Þegar hann ætlar að kveikja í kofaræksninu sér hann að Jarþrúður er snúin aftur. Og meðaumkun Ólafs með mönnum og skepnum er slík að hann fórnar ástinni fyrir þessa konu.

Hvernig á maður svo að lesa í lokaatriði verksins þegar horft er á dramatúrgíu Kjartans. Ákveður hann að ganga upp jökulinn því hann er svo fúll að Jarþrúður sneri aftur. Þegar lokahluta sögu Ólafs Kárasonar er sleppt verður endir verksins illskiljanlegur.

Gráir tónar
Þrátt fyrir vankanta var margt gott í uppsetningu Kjartans. Verkið heldur sér, og það er auðvelt að gleyma sér í leikhúsinu. Texti Laxness naut sín vel á sviðinu og það eru forréttindi að geta hlustað á svo fagra íslensku á leiksviði hér á landi. Verkið er alls ekki of langt, kannski var öðru hléinu ofaukið, hægt hefði verið að lengja verkið og sleppa hléinu, mér að ósekju.

Sviðsmyndin var grá og bauð ekki upp á marga tóna. Í raun var öll umgjörð verksins gamaldags og búningar virkuðu oft úr takti, meira í anda við hollývúdd myndir eða klipptir úr Þrúgur Reiðinnar eftir Steinbeck án þess að gengið væri lengra í þeirra stílfærslu.

Upphaf verksins var áhugavert þar sem spilað var brot út gömlu viðtali við Laxness þar sem hann sönglar lag við Maístjörnuna sem fáir þekkja. Ekkert var þó unnið meira með þetta stef í verkinu. Upplagt hefði verið að vitna í þetta fágæta lag í tónlist verksins, en það var ekki gert. Tónlistin virkaði sem undirspil. Var aðeins notuð til að skapa meiri dramatík á dramatískum augnablikum verksins en opnaði fáar dyr.

Lýsingin var smekkleg og skapaði mikla dýpt, sér í lagi í lokamyndinni, jökulgöngu Ólafs Ljósvíkings en sú mynd var ein sú sterkasta í verkinu.

Misskilið skáld
Sú tilraun Kjartans að segja sögu Ólafs Kárasonar ljósvíkingsins á einni kvöldstunds tekst. En kostar miklar fórnir sem aðdáendur bókarinnar þurfa að sætta sig við. Það mistekst hins vegar að láta tvo leikara um hituna, þar skortir á skýrari drætti í leikgerðinni, og baráttu milli leikaranna tveggja. Oft örlar í þá baráttu og glóð sem hefði getað orðið að eldi í sýningunni sjálfri en dó út í einföldum bröndurum og athugasemdum.

Þá er sú leið að einblína á konurnar í lífi Ólafs ljósvíkings áhugaverð tilraun og sýnir hve mikilvægt er að þessi þjóðararfur okkar, verk okkar stærsta skálds, séu í sífelldri endurskoðun. Kjartan Ragnarsson hefur skilað sínu. Í heild er samt leikrit Kjartans aðeins of saklaust, of fallegt. Lýsingar Halldórs Laxness á Sviðinsvík og Fóti undir Fótarfæti eru oft eins og í hryllingsmynd. En í Þjóðleikhúsinu er hryllingurinn aðeins of falinn.

Símon Birgisson

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s