Ruglingslegur Axlar-Björn – gagnrýni

Mynd tekin af heimasíðu Borgarleikhússins

Saga Axlar-Bjarnar er í senn hrottaleg, myrk og þjóðsagnarkennd. Eins og í mörgum sögum af voðaverkum forfeðra okkar, spila draumar, djöflar og ógnvænleg tilfinning fyrir hinu illa stór hlutverk. Þó að heimildum beri ekki fullkomlega saman um alla þætti og framvindu sögunnar, þá er úr nógu að moða. Það er líka áhugavert verkefni fyrir listafólk að fylla í eyðurnar, velta upp ósvöruðum spurningum og túlka óskráðar tilfinningar sem þeim fylgja.
Björn Hlynur Haraldsson hefur ráðist í það verkefni að skrifa og leikstýra verki byggðu á sögu hrottans fræga undir merkjum Vesturports. Með öll hlutverk fara Atli Rafn Sigurðarson og Helgi Björnsson.
Sundurleit saga
Í sýningunni á að vera „sögð saga eins kaldrifjaðasta morðingja Íslandssögunnar[.]“ og hún „veltir einnig upp sígildum spurningum um þá brenglun sem leiðir til óhæfuverka“ (sjá vef Borgarleikússins).
Að hluta til er þessi saga sögð, með beinum vísunum í ýmsu formi. Inn í verkið spinnast svo aðrar sögur og persónur nútíma og fortíðar, sem virðast ýmist uppspunnar eða byggðar á raunverulegum persónum.
Það er flakkað vítt og breytt í tíma og rúmi og leikarar fara með fjölda hlutverka hvor um sig.
Af þeim sökum verða frásagnir sem tengjast Axlar-Birni oft og tíðum mjög óljósar og saga hans því afar sundurleit.
Saga annars morðingja
Saga bandaríska fjöldamorðingjans John Wayne Gacy, er hins vegar mjög áberandi og nánast drekkir sögu Axlar-Bjarnar. Umræddur fjöldamorðingi er ekki bara nefndur á nafn, heldur birtist hann í formi trúðsins (sem hann var þekktur fyrir að leika) og þáttastjórnandans.
Persóna Atla Rafns (Axlar-Björn?) hefur sætt slæmri meðferð að hálfu föður síns og einnig verið beitt kynferðisofbeldi í æsku. Draugur föðurins (leikinn af Helga Björns) biður hann afsökunar á framferði sínu, sem hefur átt þátt í að móta sturlaðan persónuleika sonarins. Þetta eru allt saman á beinan eða óbeinan hátt vísanir í sögu Gacys og er reynt að tengja þær við sögu Axlar-Bjarnar með því að gefa í skyn að kynferðisníðingurinn hafi verið fjósamaður (Axlar-Björn er sagður hafa átt vingott við fjósamann þar sem hann var tekinn í fóstur og líklegt að sá hinn sami hafi orðið hans fyrsta fórnarlamb).
Þetta er því ekki saga Axlar-Bjarnar í sjálfu sér, heldur saga breisks nútímamanns –raðmorðingja samtíðarinnar, sem er haldinn alvarlegri geðveiki, líklega með rofinn persónuleika. Sagan er um það hvernig hann finnur tengingu við aðra raðmorðingja mannkynssögunnar og sér þá í sjálfum sér, hvernig hans tilfinningar, reiði, eftirsjá og þrár birtast í fjöldamörgum persónum í hans ímyndaða heimi. Hvernig hann býr til sína eigin veröld og reynir, í samtali við sjálfan sig, að finna svör við áleitnum spurningum um eigin hegðun og tilfinningar.
Ef til vill var markmiðið að gera sýninguna kaótíska til að áhorfendur yrðu fyrir þeim áhrifum að upplifa sig inni í hugarheimi þessa alvarlega geðsjúka manns og til að undirstrika líðan hans. Ef svo er, vantaði eitthvað uppá til að það tækist fullkomlega. Sýningin virkaði frekar ótilbúin; eins og glefsur úr vinnuferlinu, senur sem átti eftir að klippa til og raða betur saman og persónur sem átti eftir að vinna nánar.
Endirinn er hins vegar flottur og sögnin mjög augljós.
Drungaleg byrjun
Í anda verksins ætla ég að flakka örlítið í tíma, fara aftur á byrjunarreit.
Axlar-Björn Vesturports byrjar svo sannarlega drungalega – svo drungalega að áhorfendum verður hvelft við. Þar hafði hljóðmynd Kjartans Sveinssonar mögnuð áhrif. Með öndina í hálsinum og óstjórnlega myrkfælni í þeirri hlið sem vísaði að ganginum, sat ég og beið þess að sýningin héldi áfram að hræða úr mér líftóruna. Fljótlega fjaraði þó undan og þó persónur verksins hafi án efa átt að vera ógnvænlegar og hrottafengnar á köflum, tókst þeim það sjaldnast eða aldrei. Þær voru heldur ekki hlægilegar. Og allra síst aumkunarverðar.
Kannski var ástæðan sú að verkið var ekki nægilega markvisst. Notast var við marga stíla í leik og sviðsetningu. Til dæmis var leikur Atla Rafns hádramatískur á köflum, (sú dramatík virkaði reyndar oft pínd fram), á meðan leikur Helga Björns var oft mjög realískur og hann virkaði betur jarðtengdur.
Þeim félögum tókst þó sem betur fer að ná sér á strik hér og hvar. Helgi var t.d. frábær bæði sem trúðurinn og þáttastjórnandinn, en honum tókst misvel upp með aðrar og hæglátari persónur. Kannski var hlutverk Helga of veigamikið fyrir leikara sem er nýsnúinn aftur á svið eftir nokkuð langt hlé.
Atli Rafn setti mikið púst í sumar af sínum persónum, en vantaði stundum dýpt. Tryllinginn vantaði ekki, en Atli má vara sig á að ofleika ekki.
Hvorugur leikaranna fannst mér þó trúa nægilega vel á sumar persónur sínar og eiga jafnvel í erfiðleikum með að skilja á milli þessa fjölda persóna sem þeir léku og úr urðu heldur þunnir og allt of margir ótrúverðugir karakterar sem erfitt var að finna til samúðar með. Skiptin milli leikpersóna gengu heldur ekki alltaf nægilega vel upp, urðu stundum klaufaleg og óskýr. Það vantaði líka betri skil á milli karaktera, bæði í rödd og líkams holningu. Eitt stuðaði mig sérstaklega hvað leikinn varðar, en það var hvernig konur voru gjarnan leiknar á kjánalegan og barnalegan hátt.
Svarað en ekki spurt
Samkvæmt lýsingu verksins, var markmið sýningarinnar að spyrja spurninga og þá hugsanlega gera tilraun til að skyggnast inn í hugarheim þeirra sem framkvæma slík voðaverk og reyna að skilja hvað liggur þeim að baki.
Þó að persóna Atla Rafns finni kannski ekki svörin, eru skilaboð sýningarinnar skýr. Fjöldamorðingjar drepa vegna þess að þeir eru haldnir alvarlegri persónuleikaröskun eða geðklofa, sem aftur má rekja til skelfinga í barnæsku, ofbeldisfulls og/eða afskipts uppeldis, kynferðismisnotkunar og hræðilegra áfalla. Hér skal ekki deila um hvort sú sé virkilega raunin, en sýningin gefur áhorfendum ekki mikið svigrúm til að velta þessum spurningum fyrir sér, heldur sendir þá út með svör við þeim.
Hnitmiðuð umgjörð ruglingslegrar sýningar
Eins og áður hefur komð fram var hljóðmynd Kjartans Sveinssonar kröftug og áhrifamikil. Þó má setja spurningamerki við lag sem Atli Rafn og Helgi sungu saman, sem virkaði algjörlega tilgangslaust og úr takt við efnið, að textanum undanskildum. Ef aðstandendum verksins fannst nauðsynlegt að þeir syngju saman, hefði verið betur við hæfi að velja lag Sufjan Stevens, John Wayne Gacy Jr, þó það hefði verið heldur klisjukennt.
Birni Helgasyni tekst virkilega vel upp með lýsinguna og nær að skapa viðeigandi stemmningu á listilegan hátt. Leikmynd Axels Hallkells Jóhannessonar er fín, hún er einföld og þjónar sínum tilgangi vel. Búningar Munda eru á sama hátt alveg ágætir og ganga vel upp fyrir verkið.
Axlar-Björn Vesturports fjallar í raun ekki um Axlar-Björn, þó saga hans sé hluti af verkinu, heldur fjallar hún um viðjar persónuleikaröskunar, ástæður hennar og (hugsanlegar) afleiðingar. Þrátt fyrir stórt og áhugavert efni, tekst í þessu tilfelli því miður ekki að skapa nægilega áhugaverða sýningu. Sagan er sundurleit og ómarkviss, persónurnar ótrúverðugar og samúð fyrir þeim því hvergi nærri. Þeir þættir sem ganga upp nægja ekki til að hefja upp það sem uppá vantar.
Sé ruglingsleg framsetning og blöndun í stíl með ráðum gerð til að skapa ákveðið andrúmsloft eða hughrif, er sú ákvörðun skiljanleg en virkar ekki sem skyldi.
Ástbjörg Rut Jónsdóttir
Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s