Listin að afhjúpa leyndarmál – gagnrýni


Unnur Ösp í Eldhafi. Mynd af vef Borgarleikhússins.

Borgarleikhúsið frumflutti leikritið Eldhaf (e. Incendies) eftir Wajdi Mouwad í gærkvöldi í leikstjórn Jóns Páls Eyjólfssonar.

Leikritið segir sögu tvíburanna Jeanne og Símon Nawal (Lára Jóhanna Jónsdóttir og Guðjón Davíð Karlsson). Þau missa móður sína, Nawal, (Unnur Ösp Stefánsdóttir) fimm árum eftir áfall sem varð til þess að hún þagnaði alfarið.

Þegar móðir þeirra deyr fara tvíburarnir á fund skiptastjórans Lebels (Bergur Þór Ingólfsson), sem móðir þeirra vann hjá sem ritari. Lebel tilkynnir tvíburunum að móðir þeirra vilji ekki aðeins láta jarðsetja sig á heldur óheðfbundinn hátt, heldur bíði þeirra tvö umslög; tvö sérkennileg verkefni.

Jeanne er gert að finna föður sinn og afhenda honum bréf frá móður sinni. Símon fær keimlíkt verkefni, hann á að afhenda bróður sínum annað eins bréf. Vandamálið er hinsvegar að tvíburarnir hafa hingað til staðið í þeirri trú að faðir þeirra væri látinn. Og þau hafa aldrei heyrt um bróður sinn.

Einn plús einn eru alltaf tveir, segir Jeanne. En er það alltaf niðurstaðan?

Þannig hefst flókin ráðgáta um uppruna og sögu móður þeirra sem er frá ónefndu stríðshrjáðu landi þar sem er flakkað á milli nútíðar og fortíðar í um þriggja klukkustunda löngu leikriti.

Sækir í arf harmleikjanna
Verkið er í raun nútímalegur grískur harmleikur í stríðshrjáðum heimi Mið-Austurlanda á áttunda áratugnum. Foreldrar skáldsins eru líbanskir flóttamenn og það fer ekki á milli mála að á sama tíma og hann afhjúpar leyndarmál Nawal, þá afhjúpar hann grimmdina og óhugnaðinn sem átti sér stað í fimmtán ára borgarastríði Líbanons árin 1975 til 1990, þar sem minnst 150 þúsund manns dóu, 200 þúsund særðust og um milljón manns flýðu heimili sín.

Þjóðarbrot tókust á í stríðinu. Allir voru böðlar. Palestínumenn líka. Stríðið varð alræmt þar sem borgurum var ekki hlíft í átökunum. Þannig framkvæmdu Palestínumenn í PLO samtökunum fjöldarmorð á kristnum, sem hefndu sín aftur og svo framvegis. Þessi óhugnanlegu átök eru ekki dregin fram í sýningunni. Þar er talað um erlenda innrásarherinn, sem eiga greinilega að vera Ísraelar (þess má geta að Sýrland réðist líka inní Líbanon) og svo er vísað í hryllileg fjöldamorð hinna kristnu Falangista, sem myrtu að minnsta kosti 300 manns í flóttamannabúðum Palestínu árið 1982. Sumir telja að 3500 manns hafi látist í árásunum.

Flott sviðsmynd en slakir búningar
Sviðsmyndin er áhrifamikil. Myndin samanstendur af hvítum veggjum, tilvísun í múrinn sem skilur að Ísrael og Palestínumenn, sem myndheiminum er varpað á. Arnar Steinn Friðbjarnarson og Ilmur Stefánsdóttir fá þannig hreina tíu fyrir að varpa ólíkum umhverfum stórborga, líbanskra smáþorpa og rómantískum skógi á sviðið. Sviðið verður þáttakandi í þeirri flóknu sögu sem Jón Páll reynir að segja. Eins eru umskiptingar sýningarinnar, þar sem flakkað er á milli áttunda áratugarins og nútímans, vel heppnuð.

Sumir búningar sýningarinnar eru þó sérkennilegri. Næstum undarlegir. Unnur Ösp er klædd upp í skólastelpulegan kjól sem virðist ekki eiga neina skírskotun í menningu Mið-Austurlanda í fyrri hluta sýningarinnar. Eins lítur búningur Nazira, barnsföður Nawal (Guðjón Davíð Karlsson) út fyrir að vera hallærislegur hippaklæðnaður frá Austur-Evrópu. Lára Jóhanna lítur út fyrir að vera á leiðinni á ball hjá Techno.is á Nasa.

Beiskur sannleikur
Af leikurum stóð Unnur Ösp sig best. Hún var sterk og ákveðin í erfiðu hlutverki Nawal. Af eftirminnilegum sprettum Unnar þá var einræða hennar í réttarhöldunum yfir Nihad (Þórir Sæmundsson) einstaklega sterk. Og líklega er það hjarta verksins. Þar neitar hún að þaga yfir voðaverkum atvinnuhermannsins og nauðgarans; hún neitar að þegja, því með þögninni er hún samsek í ódæðum Nihads. Sannleikurinn er beiskur, segir hún þegar hún lýsir því hvernig hann misþyrmdi henni.

Unnur Ösp túlkar erfiða umbreytingu Nawal vel; annarsvegar hina rómantísku og barnslegu Nawal, sem finnur lífið í eigin líkama og svo Nawal sem er umkringd martröð stríðsins; sem hún sameinast að lokum með hryllilegum afleiðingum.

Bergur Þór Ingólfsson er góður sem Leber. Maður fær á tilfininguna að hann hafi elskað Nawal. Að hann búi yfir ástarsögu sem aldrei varð. Manni þótti vænt um persónuna.

Birgitta Birgisdóttir leikur hina ólæsu Sawda sem ferðast með Nawal og leitar að syni hennar í stríðinu. Birgitta er yfirdrifinn í sínu hlutverki. Atriðið þar sem hún ryðst inn í nútíð sögunnar og leitar örvætingafull af Nawal – og spyr tvíburana ítrekað hvort þau viti hvar hana er finna – er næstum kómískt. Líklega á atriðið ekki að vera það.

Dularfull ráðgáta
Guðjón Davíð fer vel af stað í verkinu. Hann sýnir fram á flókið og tilfinningalega kalt samband systkinanna við móður sína. Hann er svikinn sonur sem naut aldrei ástar móður sinnar og það er sorglegt hlutskipti. En svo heldur Guðjón einfaldlega áfram að vera ótrúlega reiður. Ef ekki reiður þá er hann hundpirraður út í systur sína og skipar henni fyrir með ógnandi stjórnsemi. Ef hann er ekki að níðast á systur sinni þá eltir Lára Jóhanna persónu Guðjóns út af sviðinu og spyr ítrekað hvort hann sé að gráta. Aftur var ég aldrei viss hvort ég ætti að hlæja eða ekki.

Lára Jóhanna Jónsdóttir, sem leikur Jeanne, tvíburasysturina, er lágstemmdari persóna. Í raun svo lágstemmd að það var stundum erfitt að koma auga á hana á sviðinu, jafnvel þegar hún var að tala. Hún mætti tileinka sér hluta af ákveðni Guðjóns Davíðs. Á milli þeirra var eiginlega ekkert jafnvægi.

Líklega er það vegna syskinanna sem maður verður aldrei beinlínis spenntur yfir þessari dularfullu ráðgátu. Guðjón er alltaf í uppnámi og Lára Jóhanna læðist um sviðið eins og mús. Hún hlustar á þögn móður sinnar og reynir að rekja ferðir hennar í heimalandinu í seinnihluta verksins. Allt þetta verður frekar máttlaust.

Langt kvöld
Það verður að segjast eins og er, verkið verður mjög langdregið á köflum. Sum atriðin virðast tilgangslaus og ekki til þess fallinn að dýpka persónur né þýðingarmikil fyrir framgang sögunnar. Atriðin frá Mið-Austurlöndum verða einsleit utan þau sem Þórir kemur fyrir í, sem stóð sig þokkalega.

Gömlu arabísku kellingarnar eru allar jafn afundnar og rogast um sviðið með bogið bak og spakmæli á vör. Svo birtist byltingaleiðtoginn Chamseddine óvænt í meðförum Jörundar Ragnarsson og leysir ráðgátuna. En hann er aldrei kynntur til sögunnar. Fyrst hélt ég að maðurinn væri einhverskonar farastjóri. Þess má geta að Jörundur leikur sex hlutverk í sýningunni. Þau eru öll frekar einsleit.

Það varð mér til bjargar að ég var búinn að sjá kvikmyndina Incendies, sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna, sem besta bíómyndin á erlendu tungumáli, á síðasta ári. Annars væri ég líklega enn að klóra mér í höfðinu yfir því hvernig ein af lykilpersónum verksins, Chamseddine í túlkun Jörundar, sem býr yfir sjálfu leyndarmálinu, var settur á svið.

Jón Páll gerir margt mjög vel í sýningunni. Umgjörð hennar er frábær. Unnur Ösp heldur sýningunni uppi. En það er ekki nóg. Það vantar einhvern kraft. Sannleikurinn er kannski beiskur, en þarf hann að vera svona langdreginn?

Valur Grettisson

Advertisements

One thought on “Listin að afhjúpa leyndarmál – gagnrýni

  1. Fín gangrýni, og eflaust sanngjörn. Verst þykir mér hvað þetta dró úr löngun minni til að sjá verkið. Ég á líka eitthvað erfitt með að sjá Guðjón Davíð Karlsson fyrir mér í alvarlegu hlutverki, en það er ekki við hann að sakast. Og helsti ókostur margra sýninga er að verða langdregnar.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s