Djörfung og forvitni – um Kviss Búmm Bang


Eðlileikarnir eftir Kviss Búmm Bang – af facebook síðu hópsins.

Það eru fáir sviðslistamenn sem hafa fengið mig til að hugsa: djöfullinn, þetta hefði ég viljað gera, þessu hefði ég viljað finna upp á. Karl Ágúst Þorbergsson átti eitt verkefni í skóla sem gerðist í kassa og ég dáðist að, ég öfundaði Bjarna Snæbjörnsson af uppfærslu sinni með FG-ingum á söngleiknum Chicago og ég hefði verið upp með mér ef ég hefði komið Þeim Ljóta frá mér eins og Kristín Eysteinsdóttir gerði. Ég dáðist að útskriftarverkefni Tyrfings Tyrfingssonar, Grande og Ingibjargar Huldar Haraldsdóttur Spuna, eða Kameljón fjárhirðisins eftir Eugéne Ionesco. Ég var innblásin af verki Hreyfiþróunarsamsteypunar Shake Me.

Ég leit (og lít) upp til þeirra, fannst ég sjá eitthvað hjá minni eigin kynslóð sem veitti mér innblástur, eitthvað sem hvatti mig til að vera betri listamaður, hugsa stærra, greina betur, lesa meira, skrifa meira, reyna aftur og enn á ný þar til eftir mig stæði eitthvað sem gæti veitt öðrum jafn mikinn innblástur.

Ekki misskilja mig, aðrar kynslóðir í íslensku leikhúsi hafa gert margt stórkostlegt, en leiðir þeirra til framkvæmda, val á efni og annað stendur mér náttúrulega fjær en það sem ofangreint fólk hefur verið að fást við (og auðvitað margir fleiri). Hver kynslóð hefur sitt og er ekkert nema gott um það að segja. Þess vegna er gaman að fara í leikhús, til að sjá sýn annara á verk og líf.

Í lagi að vera ósammála
Einn hópur hefur undantekningalaust fyllt mig innblæstri. Það er Kviss Búmm Bang. Sýning þeirra Eðlileikarnir var sú sterkasta sem ég sá það árið, ef ekki nokkru sinni og sýningar þeirra Get A Life og Great Group og Eight höfðu báðar sterk áhrif á mig. En sterkustu áhrifin komu af hugmyndafræðinni, vinnuaðferðunum, sýninni á lífið.

Nú geri ég mér grein fyrir að ég er að tala um konur sem ég þekki, tvær þeirra nokkuð vel, Vilborgu Ólafsdóttir og Evu Rún Snorradóttur, eftir að hafa eytt með þeim þremur árum í skóla við nám við Fræði og framkvæmd. Það þarf þó ekki að þýða að ég sé óhæf um að líta þær gagnrýnum augum. Þar sem ég veit hvað þær lærðu í skóla veit ég einnig hvar veikleikar þeirra liggja, hvar eru mögulegar brotalamir í hugmyndafræðinni, hvað er hægt að ætlast til af þeim. Í skóla vorum við aldrei á sömu blaðsíðunni, ef ég sá sýningu sem ég elskaði hötuðu þær hana yfirleitt, ef þær fundu einhverja snilld var ég fyrst til að gengisfella hana. Ég vildi verða leikstjóri, helst setja upp Shakespeare og Tjekov. Þær vildu endurhugsa leiklist, byggja hana upp frá grunni á allt öðrum stað.

Hvílík djörfung, að finna upp nýtt form leiklistar! Leiklistar þar sem áhorfandinn er leikarinn, handritið er sett í hendurnar á honum og svo fær hann að upplifa sjálfur hluta af galdrinum, fær að setja sig í spor annarra, skilja aðstæður þeirra á allt annan máta en fyrr, án nokkurra milliliða. Formið, sem þær hafa kosið að kalla framandverk, eða extended life performance (sjá hér.), er sem sagt splunkunýtt og algjörlega hugarsmíð þeirra sjálfra. Það gerir mig agndofa af virðingu eitt og sér. Að það virki í raun er enn merkilegra.

Hvað er eðlilegt?
En hvernig virkar það? Á Eðlileikunum virkaði það þannig að þátttakendur fengu bundna inn í möppu upplýsingar um persónu sína í hendurnar. Þeir lásu sér til um persónuna og svo var þeim ekið í pörum á raunveruleg heimili víðsvegar um borgina. Þar áttu þau að fylgja, eftirlitslaust, handriti sem gaf þeim fyrirmæli um efni til samræðna og gjörðir. T.d. að elda mat, drekka bjór, fara í bað, gera æfingar og annað sem þær KBB stöllur höfðu fundið út að væri „eðlilegt“ í gegnum viðtöl við ýmis „eðlileg“ hjón eða pör. Sýningin varði í fjóra tíma.

Fjórir tímar voru nóg, en ekki ofaukið, til að upplifa á eigin skinni heilt hjónaband eða samband. Setja sig fullkomnlega í spor annarar manneskju, fara að halda með henni, hata aðrar persónur verksins, öfunda, þrá og verja „manns“ nýja „eðlilega“ líf. Það er skemmst frá því að segja að allir þátttakendur í mínum hópi upplifðu verkið mjög sterkt. Þeir gerðu hluti sem þau ætluðu sér ekki að gera, fundu tilfinningar sem þeim voru áður ókunnar og umfram allt gátu ekki trúað hverskonar snilld þeir hefðu tekið þátt í. Þátttakendur voru, eins og ég, allir á svipuðum aldri og þær Kvissur.

Áhorfendur í lífsstílsmeðferð
Get A Life var svo allt önnur Ella. Sú sýning varði í sex vikur að mig minnir og byggðist á tveggja tíma námskeiði með viku millibili á Restaurant Reykjavík. Þar áttu þátttakendur (ekki áhorfendur, ekki leikarar) að komast til botns í lífi sínu, endurbyggja það á mettíma og læra umfram allt að vera ekki svona hallærislegir. Okkur var kennt að „networka“, mála okkur, hlúa að ástinni, skipuleggja tíma okkar, drekka grænt gums til að laga sýrustigið í vatni líkama okkar, velja rétt vín með matnum, stofna eigið fyrirtæki og ég veit ekki hvað. Fyrirlestrar voru haldnir af fólki sem í alvöru heldur svona fyrirlestra (og hjálpa eflaust mörgum) auk þess sem þær Kvissur sýndu frábæra takta sem námskeiðshaldarar. Í stuttu máli var námskeiðið samansafn allra skyndilausna sem nokkurntíma hafa verið settar fram og ýmsir hafa aðhyllst. Eitt stórt sjálfshjálpar-„galúr“, snögg leið til að verða betri manneskja.

Það var aldrei á huldu að það var verið að gera grín að hugmyndinni að a) þú þurfir að vera einhvernveginn öðruvísi en þú ert til að vera gjaldgengur og b) að það sé hægt að breyta þér einn tveir og tíu og þá munir þú eiga betra líf. En það merkilega sem gerðist var að þátttakendur námskeiðsins gleymdu sér. Ýmsir fóru að drekka grænt gums til að laga sýrustig vatns síns, aðrir pældu augljóslega meira í því hvernig þeir klæddu sig og enn aðrir tóku glósur eins og lífið liggi við. Við lærðum öll eitthvað. Við lærðum að við erum trúgjörn og alveg jafn ginnkeypt fyrir skyndilausnum og hver annar. Við lærðum að kannski er óþarfi að dæma annað fólk.


Upptaka af Divorce party eftir Kviss Búmm Bang – af Youtube.
Great Group of Eight
var svo enn önnur pæling þar sem þátttakendur tóku sér hlutverk leiðtoga á hendur í nokkrar klukkustundir, ræddu heimsmálin, héldu erindi fyrir framan aðra heimsins leiðtoga, átu fínt, voru keyrðir um á limmósínu og fundu fyrir valdi. Verkið er þeirra sísta að mínu mati, enda viðfangsefnið fjær þeim en nokkuð annað þar áður og erfitt fyrir þátttakendur að setja sig í svo ókunnug spor. Hinsvegar upplifðu allir í mínum hópi leiðtoga að þeir hefðu gert eitthvað sem var þvert á þeirra eigin samvisku, notið þess að hafa vald yfir öðrum, vanist lúxusnum furðuhratt og fundið eitthvað í sjálfum sér sem þeir vildu ekki kannast við. Það er bara feikinógur gróði af einni leiksýningu. Sýnir kannski enn frekar hvað hinar voru sterkar, að manni fyndist þessi vera síst. Væntingar mínar til Kviss Búmm Bang eru nú orðnar í einu orði rosalegar.

Ég hef ekki getað tekið þátt í (því að sjá sýningar Kviss Búmm Bang er ekki hægt) Safari og mun missa af Hótel Keflavík. En ég hvet allt áhugafólk um leiklist til að kynna sér það brautryðjendastarf sem hópurinn stendur fyrir.

Spurningum varpað fram
Varðandi hugmyndafræðina þá er hún í sjálfu sér ekki brautryðjandi. Það að efast um forsendur hefða og gilda í nútíma samfélagi er ekkert nýtt. Hugmyndir þeirra um hvernig sé best að skoða gildin og hefðirnar og allt það sem gerir samfélagið eins og það er, hvort sem það er kallað gagnkynhneigð forræðishyggja eða kapitalísk valdastefna, eða bara það að við skulum lita á okkur hárið, eru nýjar. Að það geti enginn vitað neitt um neitt án þess að fá að prófa er stórkostleg gjöf til sviðslista á Íslandi. Þátttökuleikhús verður aldrei samt.

Allt starf Kviss Búmm Bang er litað svo einlægri forvitni um hvers vegna maðurinn velur að haga sér eins og hann gerir að maður getur ekki annað en velt vöngum sjálfur: Hvað liggur að baki gjörðum mínum? Afhverju bursta ég tennurnar? Hvað finnst mér vera eðlilegt? Hvað finnst mér vera spillt? Hvað geri ég af vana og hvað hef ég valið mér að gera? Hér er engu slengt fram sem sannleika, hér er ekki reynt að predika nokkurn boðskap (nema bara að vera endalaust að spyrja sig „afhverju“) og við þeim ótal spurningum sem verkin vekja eru engin skýr svör, bara persónubundin reynsla.

Í landslagi þögulla, kurteisra leikhúsgesta sem kunna eða kunna ekki að meta það sem borið er á borð fyrir þá veit ég fátt merkilegra en þetta: Forvitni, djörfung og hugmyndaauðgi til að prófa eitthvað nýtt. Eða: Kviss, Búmm og Bang.

Kolbrún Björt Sigfúsdóttir
Leikstjóri og leikskáld

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s