Bátsferð með Beckett og nokkur orð um einfaldleikann – gagnrýni


Hannes Óli og Hilmir Jensson í hlutverkum sínum.

Ég er vindurinn, eftir norska leikskáldið Jon Fosse, var frumsýnt í Þjóðleikhúskjallaranum í gær. Leikstjóri verksins er Ingibjörg Huld Haraldsdóttir. Uppsetningin er á vegum leikfélagsins Sómi þjóðar.

Hannes Óli Ágústsson og Hilmir Jensson túlka tvær nafnlausar persónur sem sigla, að því er virðist stefnulaust, um ónefnt haf. Sviðsmyndin er látlaus. Svartir veggir þrengja að persónunum og áhorfendur horfa beint inn í þröngan afmarkaðan heim sem aðeins tveir leikarar rúma.

Í upphafi er ljóst að verkið gerist á tveimur mismunandi tímum. Fyrir og eftir atburð, sem skýrist í lokin. En í þessu verki er það vegferðin sem skiptir máli. Aðstæður persónanna eru slíkar að maður fer ósjálfrátt að velta sjóferðinni fyrir sér sem myndmáli. Hvort þeir séu látnir. Lifandi. Formfesta dauðans eða tilgangsleysi lífsins. Hugrenningatengslin bera mann fljótlega að verkum Samuel Beckett, andi tilvistarheimspekinnar svífur yfir vötnum.

Að stökkva eða ekki stökkva
Hugmyndin að stökkva frá borði sækir í sífellu að persónu Hannesar Óla. Hann getur ekki varist þeirri hugsun þegar hann siglir einn. Í aðra röndina vill hann sigla fjarri öllu lífi, en að sama skapi óttast hann einsemdina sem gæti fylgt slíkri sjóferð.

Með honum um borð er persóna Hilmis sem óttast dauðann. Óttast breytingar. Og á stundum virðist hann óttast hugsanir skipfélaga síns. Saman drekka þeir viskí úr fleyg til þess að deyfa sig. Til að fagna því að skipið liggi fyrir landfestum.

Samleikur Hilmis og Hannesar er með ágætum. Leikurinn er jarðbundinn, næstum dofinn, sem eykur talsvert á sérkennilega melankólíu verksins. Minnstu smáatriði ná að fylla verkið þrunginni merkingu. Þá er sérstaklega eftirminnilegt eitt örlítið augnsamband þeirra á milli, sem sýnir á magnþrunginn hátt, að sjóferð þeirra endar með skelfingu.

Þá var heillandi að sjá hvernig leikarnir nýta sér ofurlítið sviðið. Þar má beinlínis finna hárfína næmni sem undirstrikar aðstæður vel.

Góður leikur
Báðir leikararnir stóðu sig vel. Af tveimur góðum var Hannes Óli betri. Hann túlkaði persónu sína af aga og dulúð. Hann fangaði áhorfandann. Hannes Óli er tvímælalaust ein af skærustu stjörnum af yngri kynslóð leikara hér á landi.

Þýðing verksins, sem var í höndum Hilmis Jenssonar, er ágæt. Það fór þó örlítið í taugarnar á mér þegar talað var um rólegt haf og hraðan vind. Hefði ekki verið eðlilegra að tala um stillt haf og kröftugan vind?

Undir ofureinfaldri umgjörðinni hljómar tónlist Völu Gestsdóttur, sem undirstrikar mun á tíma og rúmi, óræðið andrúmsloft og dularfullan aðdraganda að hápunkti verksins. Hljóðheimur verksins dýpkar það talsvert og er bráðnauðsynlegur í ljósi einfaldleikans.

Hlutverk áhorfenda
Hughrif verksins eru kröftug. Einfaldleikinn knýr áhorfendur til þess að fylla upp í eyðurnar. Til þess að hlusta vandlega á dularfullan texta Fosse. Og í sífellu reynir maður að leysa gátuna í eigin huga. Hvað vilja þessir menn? Hvert eru þeir að fara? Og af hverju? Án þess að sýna okkur það í formi leikmyndar, þá fylgjumst við með stilltu hafi, klettóttri eyju og endalausu úthafi í gegnum upplifun persónanna. Og úthafið táknar óhugnanlegt tóm í huga persónu Hilmars, en í huga persónu Hannesar, frelsandi endalok.

Það er alveg ljóst að leikskáldið Jon Fosse er ekki fyrir alla. Verkið er samblanda af tilvistarhyggju og töfraraunsæi þar sem tími og rúm er óskýr stærð. Dulúðin er alltumlykjandi í þessu tæplega klukkutíma langa leikriti, sem virðist á stundum ekki stefna neitt, en býr vissulega yfir niðurstöðu. Þá er verkið víst það síðasta sem Fosse skrifaði, og kemur fram í leiksrkrá að hann hafi lýst því yfir að hann muni ekki skrifa annað leikrit.

Bátsferð með Beckett er ein leið til þess að lýsa verkinu, en er líklega ekki fyllilega sanngjörn niðurstaða. Það er hinsvegar fyllilega sanngjarnt að segja að leikritið „Ég er vindurinn“ sé hrífandi verk í meðförum leikfélagsins Sómi þjóðar.

Valur Grettisson.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s