Frelsið til að afbyggja


Úr Eldhafi. Mynd: Grímur Bjarnason.

Það vantar ekki pólitískar tilvísanir í uppsetningu Jóns Páls Eyjólfssonar á leikriti Wajdi Mouawad, Eldhafi. Leikið er fyrir framan og ofan á múrnum sem skilur að Ísrael og Palestínumenn. Jón Páll er óhræddur við að stækka ramma verksins. Þar er hann trúr leikritinu því leikskáldið setur sjálfur söguna upp í óræðu landi.

Sagan er kunnuglegt stef. Móðirin deyr og tvíburabörn hennar fá ekki arfinn nema að leysa tvær þrautir. Dóttirin þarf að finna bróður sem þau systkinin vissu ekki að þau ættu. Og bróðir hennar föður sem þau héldu að væri dáinn. Leitin færir þau svo nær móður sinni, sem þau þekktu greinilega ekki neitt. Í arabaheiminum er hún kölluð konan sem syngur.

Að verða upplýstur
Söguþráðurinn er á köflum ótrúverðugur. En þetta er leikrit, einskonar dæmisaga um hörmungar stríðs og ofbeldis og því sættir maður sig við að sumt gangi ekki upp. Stundum finnst manni leikritið líkast tölvuleik þar sem þú þarft að leysa þrautir til að fá næstu vísbendingu og komast í næsta borð.

Maður á stundum erfitt með að skilja af hverju móðirin Nawal (Unnur Ösp) vill leggja þessar byrgðar á börnin. Að komast að því hræðilega leyndarmáli sem leikritið hverfist um og væri ósanngjarnt að upplýsa um hér. Er ekki stundum betra að láta satt kyrtt liggja – eða er allt leikritið úthugsuð hefnd Nawal á kvalara sínum?

Svarið er líklega sannleikurinn, sem höfundurinn er upptekinn af. Hér er unnið með hið gamla stef að sannleikurinn veiti manni frelsi. Amma Nawal skipar henni að yfirgefa þorpið, læra að lesa og skrifa. Þar með geti hún rofið keðju reiði og ofbeldis. Hún er í raun að segja henni að losna úr viðjum ósjálfræðis og verða upplýst, líkt og Kant boðaði.

Nawal brýst út úr samfélagi ólæsis og ofbeldis eftir að barn hennar er tekið af henni. Og hún fer fram á það sama við börn sín nokkrum áratugum síðar. Þau verða að leggja á sig ferðalag, komast að sannleikanum um uppruna sinn og móðurinnar, til að fá að rita nafn hennar á legsteininn eins og hún ritaði nafn ömmu sinnar á legsteininn.

Framandi heimur
Sumt skilur maður í verkinu – annað ekki. Arabaheimurinn er okkur Íslendingum líklega framandi. Fjölskylduhefðir, heiður, stolt. Þetta eru hlutir sem okkur finnst erfitt að skilja. Við megum jú allt og getum allt. Orðstír og heiður fjölskyldu er eitthvað sem við erum löngu hætt að vera upptekin af.

Að því leyti er leikritið kærkomið ferðalag inn í framandi heim. Ferðalag tvíburanna er ferðalag okkar áhorfenda. Uppgötvanir þeirra eru jafnframt uppgötvanir okkar. Höfundur verksins segist sjálfur vera að skrifa grískan harmleik. Vissulega minnir lokaniðurstaða verksins á grískan harmleik. En þó er einn stór munur á.

Í grísku harmleikjunum vissu allir hver örlög hetjunnar yrðu. Það vissu allir að Ödipus myndi sænga hjá móður sinni og verða föðurbani. Allir nema hann. Og í því var harmleikurinn fólginn – að fylgjast með manni í frjálsu falli, þar sem hver einasta ákvörðun er röng ákvörðun og mun leiða til þeirra óhjákvæmilegu niðurstöðu sem allir vita fyrirfram hver er.

Kaþarsis er ekki það sama og óvæntur endir.

Sameiginleg ábyrgð
Nawal rífur ekki úr sér augun frammi fyrir sannleikanum. Hún hættir að tala. Hún þagnar. Eins og allir þeir sem standa frammi fyrir sannleikanum munu, samkvæmt verkinu, gera. Hún segir böðulinn bera jafn mikla ábyrgð á fórnarlambinu og fórnarlambið á böðlinum. Þar með varpar hún upp spurningum um samfélagslega ábyrgð. Á sama hátt mætti segja að almenningur beri jafn mikla ábyrgð á glæpum útrásarvíkinganna og þeir sjálfir. Að ekkert spretti úr engu.

Samt læðist að manni grunur að sú heimsmynd sem verkið byggist á sé örlítil einföldun. Ræða húsvarðarins um hvernig átökin hófust, þar sem hann rekur hefndaraðgerðirnar allt til rifrildis um vantsbrunn en man svo ekki lengra, táknar vonleysi þeirrar stefnu sem heitir auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. En eru öll stríðsátök svo einföld? Hvað með olíuna, demantana, peningana, landamærin, eða hreinlega pólitíkina? Er ekki heitið á nútímastríði flugbann?

Það er vissulega sniðug hugmynd að láta verkið gerast í óræðu landi, á óræðum stað. En um leið fær verkið á sig brag dæmisögu eða ævintýris og maður verður að taka afstöðu með gjörðum persónanna út frá afar einföldum forsendum. Dæmi er ákvörðun Nawal að myrða einn af foringjum þeirra kristnu. Hún vill gjalda líku líkt eftir að hafa séð þá kristnu slátra hópi múslíma í rútu. En fangavistin er nauðsynleg til að harmleikurinn verði uppfylltur.


Úr Zombieljóðum Mindgroup.

Spennandi leikstjóri
Jón Páll er pólitískur leikhúsmaður. Vinna hans með Mindgroup hefur fjallað um íslenskan samtíma. Slúðurfjölmiðla, stjórnmálamenn, hrundansinn, útrásarvíkinga og kringlufólk. Þar hefur hann notað stíl hins performatíva leikhúss. Vinnuaðferðirnar minna á fræga hópa eins og Forced Entertainment. Nálgunin á efnið er oft meira út frá sjónarhóli heimildaleikhúss. Mindgroup hefur fengið frelsi til að gera tilraunir innan ramma stofnanaleikhússins á Íslandi.

Leikstíll Mindgroup byggir á spuna, á leikjum, og því prinsippi að allt sé leyfilegt. Engin sýning er eins. Textinn er síbreytilegur og oft runninn beint undan rifjum leikaranna sjálfra.

Sem leikstjóri er Jón Páll á allt annarri línu. Hann velur sér reyndar áhugaverð viðfangsefni. Maríubjallan og Herra Kolbert voru kraftmiklar sýningar sem vöktu miklar athygli á Akureyri fyrir fáeinum árum. En ef þessar uppsetningar eru bornar saman við vinnu Jóns Páls með Mindgroup sér maður að leikstíllinn og uppsetningaraðferð er allt önnur.

Jón Páll leitar í Staníslavskí og jafnvel afbrigði af kenningum hans sem kallast method acting sem varð vinsælt í Bandaríkjunum og er oft kallað kvikmyndaleikur. Þá lifa leikararnir sig inn í hlutverkið, verða persónan sem þeir leika, og nálgast hana út frá tilfinningaminni. Andstæðan við þennan leikstíl er eflaust framandgerving Berthold Brecht. Þar sýnir leikarann persónu sína á sviðinu í staðinn fyrir að vera hún.

Ekkert er heilagt
Framandgervingin einkennir enn evrópskt nútímaleikhús, sér í lagi í Þýskalandi. Á meðan arfleifð Staníslavskí hefur orðið að norminu í kvikmyndum. Sú leið að skilja á milli leikarans og persónunnar sem hann leikur er einnig eitt af einkennum hins performatíva leikhúss. Þar eru yfirleitt listamennirnir sjálfir á sviðinu (líkt og í Þú ert hér og Zombieljóðum Mindgroup) að fara með texta og bregða sér í hlutverk.

Þessi miklu skil milli sviðslistamannsins Jóns Páls, líkt og hann birtist í Mindgroup, og leikstjórans Jóns Páls, eru athyglisverð. Væri hægt að sameina þessa tvo stíla, þrátt fyrir að viðfangsefnið sé tiltölulega hefðbundið leikrit. Eða myndi henta Jóni Páli betur að leita í klassíkina þar sem frelsið til að afbyggja er meira, til að brjóta niður? Ætti Jón Páll kannski að leita í hina raunverulegu grísku harmleiki?

Jón Páll hefur leitast við að færa okkur verk sem vekja upp siðferðislegar og pólitískar spurningar. Dæmi eru Eldhaf og Elsku barn, sem vakti mikla athygli á síðasta leikári. Nú finnst mér tími kominn á að Jón Páll veki einnig upp spurningar um leikhúsið sjálft – að róttækni hans endurspeglist jafnt í leikstíl, sviðsetningu og efnisvali.

Persónulega langar mig að sjá hann kljást við klassíkina næst og sýna mér að ekkert sé heilagt.

Símon Birgisson

Hér má sjá umjöllun um Eldhaf í Djöflaeyjunni. Innslagið hefst með viðtali við Jón Pál á 24. mínútu.

Advertisements

3 thoughts on “Frelsið til að afbyggja

  1. Persónulega sé ég ekki að Jón sé í miklu method acting með leikrit sín.

    það er kannski bara ég.

    En hvað varðar einhver klassísk verk. Ég held að Jón Páll yrði eflaust einhver lúmskt íhaldsamasti leikstjóri íslensks leikhúss.

  2. Hvers vegna heldur þú að hann yrði íhaldssamur? Íhaldssamur á hvaða hátt? Hvernig myndir þú lýsa leikstílnum í verkum Jóns Páls? Báðar athugasemdir eiga fullkomnlega rétt á sér og eru forvitnilegar, en umræðan verður að innihalda fleira en staðhæfingar. Gaman væri einnig ef umræðan gæti birst undir nafni…

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s