Bókmenntalegur sjávarháski


Leikskáldið Jon Fosse.

Leikhópurinn Sómi Þjóðar setur upp verkið Ég er vindurinn, eftir Jon Fosse, í Þjóðleikhúskjallaranum. Það er rétt ákvörðun hjá Þjóðleikhúsinu að opna kjallarann fyrir leikhópa og nú þegar hafa áhugaverðar sýningar litið þar dagsins ljós – skemmst er að minnast Shakespeare einleiks Sigurðar Skúlasonar og Uppnáms, sem flutt hefur verið á stóra sviðið.

Verkið fjallar um tvo menn um borð í skipi. Annar þeirra er kallaður sá eini (Hannes Óli). Hann höndlar ekki lífið, þráir dauðann og talar um sjálfsmorð en er um leið hræddur við hið óþekkta. Hann leitar sífellt að myndum eða metafórum til að lýsa eigin lífi og líðan.

Það er hann sem er vindurinn – hann finnur orðin.

Félagi hans, hinn (Hilmir Jensson), reynir að lýsa hinu ólýsanlega með orðum. Hann vill skilja, upplifa. Hjálparleysi hans er algjört. Örlögin óumflýjanleg. Jafnvel þegar hann rekur burt heldur hann áfram að tala. Orðin hjá Jon Fosse hafa kraft.

Sýningin hefur brag hugleiðslu. Textinn endurtekningasamur, ljóðrænn, nánast eins og tónlist. Og tónlistin eykur undir þessu hugleiðsluáhrif. Það er auðvelt að loka augunum og láta hugann reika meðan á sýningu stendur. Verkið er dáleiðandi og uppfærslan mínímalísk.

Áhorfendur eru settir um borð í skip. Við sitjum þröngt og horfum fram á dekk. Þar eru sjómennirnir tveir, í fílósófísku uppgjöri við lífið. Með einföldum ljósabreytingum stökkvum við milli innri hugarheims þess eina og hinns og svo erum við aftur komin um borð, ströndin fjarlægis, vitinn, skerin.

Verkið hefur verið sett upp á annan hátt. Í uppsetningu Matthias Hartmann í Zürich árið 2009 var sviðið falið í þoku. Báturinn raunverulegur. Og tæknibrellur og hljóð notuð til að tákna ölduganginn og baráttu mannana tveggja. Sú sýning vakti talsverða athygli. Sér í lagi fyrir notkun sviðstækni og effekta.

Þess vegna var gaman að sjá Ingibjörgu Huld Haraldsdóttur nálgast verkið á sinn hátt. Hún treystir textanum til að leiða áhorfendur inn í þennan dularfulla heim. Hún treystir leikurunum til að athafna sig inn í afar þröngu rými, án utanaðkomandi hjálpar.

Sýningin er eftirtektarverð frumraun Ingibjargar í atvinnuleikhúsi.

Þetta er aðeins annað verkið eftir Jon Fosse sem sett er upp hér á landi. Það fyrsta Sumardagur í leikstjórn Egils Heiðars Antons Pálssonar, fékk slæmar viðtökur og kannski hefur það hrætt íslenska leikhúsmenn frá þessum norska höfundi sem er oft sagður þeirra stærsta leikskáld á eftir Ibsen.

En kannski er ástæðan önnur. Texti Fosse, líkt og í þessari sýningu, er stundum eins og upphafinn, jafnvel gervilegur. Tónlist í orðum. Um leið fjallar hann um efni sem stendur Íslendingum nærri – sjóskaða. Hér fáum við listrænu útgáfuna af sjóskaðanum, raunveruleikinn er víðs fjarri.

Það er kannski helsta vandamál sýningarinnar. Þetta exístensíalíska sjávarháskadrama er að mínu mati of yfirborðskennt, það ristir of grunnt. Kannski er maður líka með hugann við hina mögnuðu sögu Eiríks Inga Jóhannssonar, sem bjargaðist eftir að Haraldur SI sökk við Noregsstrendur.

Sú saga var oft á tíðum ótrúlegri en nokkurt leikrit en um leið svo raunveruleg að íslenska þjóðin sat agndofa og sameinaðist á einu augnabliki yfir örlögum þessara manna. Með fullri virðingu fyrir Jon Fosse þá átti maður erfitt með að finna til mönnunum tveimur sem hann setur um borð í hið ónefnda fley. Örlög þeirra og harmur eru frekar bókmenntalegs eðlis.

Íslenskir leikhúsunnendur ættu hins vegar að kunna leikhópnum Sóma þjóðar þakkir. Allt of algengt er að íslenskir leikhópar í frjálsu senunni sæki í öruggar aðsóknartölur með því að velja miðlungsgóð leikverk frá Bretlandi. Þau verk bjóða upp á natúralískan leik og bíómyndaplott en eru oft efnislega rýr.

Að setja upp Jon Fosse og gera tilraunir með stílfærðan leik, tónlist og ljós gerir Ég er vindurinn að einni áhugaverðustu sýningu ársins í frjálsu senunni.

Símon Birgisson

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s