Hvar eru öll leikritin?

Hart í bak (1983) frá Leikfélagi Reykjavíkur.
Ég legg líka til að Þegar Þen si i gerst.
eyfst. Tja, ekki dæma.
Ég er ekki að tala um nýju leikritin. (Ég væri til í að sjá þau líka).
Ég er að tala um gömlu leikritin.
Ég væri til í að sjá gamalt íslenskt leikrit upp á sviði.
Í alvörunni.
En ekki hvað sem er, hvernig sem er. Ég væri til í að sjá gott verk sett upp á nýstárlegan máta. Það er þannig sem hefð verður til. (Ég held að við hefðum gott af smá hefð á Íslandi, þó það væri ekki nema bara til þess að við gætum gert uppreisn gegn henni).
Ég væri til í að sjá gamalt íslenskt leikrit, jafnvel pínu endurskrifað, jafnvel pínu undarlega, jafnvel pínu óvænt…


Ég væri til í að íslensk leikrit ættu sér lengra líf heldur en bara þetta hálfa ár sem það er sýnt. Af því þau eiga skilið betur.  Hvernig stendur á því að allar evrópuþjóðir eiga sér einhver leikritaskáld sem allir þekkja, allir geta talað um, deilt um og vitnað í, en ekki við.
Jökull Jakobsson á góðri stundu.
Ég vil meina að við höfum átt slík skáld, við höfum bara gleymt þeim í öllum hamaganginum. Það virðist stundum ekki vera nein íslensk leikritunarhefð. Við eigum skáld sem skjóta upp kollinum eins og Jóhann Sigurjónsson eða Jökul Jakobs, en svo enga tengingu eða framhald. Verkin eru ekki sýnd aftur og þegar þau eru sýnd eru þau sjaldan þróuð áfram af leikhópnum.. Íslenskir leikhópar eru góðir í að taka leikrit frá útlöndum sem hafa verið sýnd margoft og vinna með þau, kannski af því það er þegar einhver búinn að fást við þau. Í raun er þetta vítahringur, við kunnum ekki að kljást við íslensk leikrit því við höfum enga hefð fyrir því að kljást við íslensk leikrit.  Þau eru sýnd svo sjaldan að venjulegt fólk getur ekki munað nöfnin á þeim. Ég held að eina leikritið sem venjulegum Íslending myndi ráma í ef spurður, væri Kardimommubærinn (sem auðvitað er norskt verk en ekki íslenskt).  Það ásamt Dýrunum í Hálsaskógi er eina verkið sem er reglulega rifjað upp, skoðað upp á nýtt og búin til einhvers konar hefð í kringum. Hefð er nefnilega fyrirbæri sem við manneskjurnar búum til, ekki eitthvað sem er sjálfkrafa til. Til að vera sanngjarn þá hefur myndast ákveðin hefð í kringum Laxness, en oft á tíðum finnst mér ekki nógu mikið gert með þau verk hans sem eru sett upp.  Það er of mikið eftir bókinni og ekki nógu mikið leikhús, en það væri virði að skrifa heila aðra grein um það.

Hálsaskógur er reglulega heimsóttur.


Nú er mikið talað um nauðsyn þess að Þjóðleikhúsið og önnur leikhús rífi sig upp af rassgatinu og geri eitthvað fyrir nýsköpun í íslenskri leiklist.  Sumir segja að lagaákvæði hindri leikhúsið í að koma íslenskri leikritun í fullan gang, það sé of bundið öðrum menningarhlutverkum. Ég segi þó að Þjóðleikhúsið sé ekki bara á góðri leið með að drepa íslenska nútímaleikritun. Það er líka á góðri leið með að drepa íslenska leikritunarhefð. Af því öll leikskáld standa út í eyðimörk, við erum ekki í samtali hvort við annað, við heyrum bara nöfn hvors annars í vindinum. Yfirleitt er þetta bergmál frá manneskju sem hefur löngu dáið úr þorsta.
En það er ljótt að byrja greinar á tómri neikvæðni. Mig langar nefnilega að biðja leikhúsin um greiða og kannski í leiðinni rifja upp góða stund í leikhúsi.
Vér Morðingjar settu upp (H)art í bak.

Reyndar er eiginlega ekki beint hægt að tala um leikhús, meira niðurnídda billjarðstofu sem í stutta stund varð lifandi listarými (ætli þetta niðurnídda húsnæði sé ekki enn jafn niðurnítt og ónotað þar sem það stendur stutt frá Kex Hostel og Aktu Taktu, það er langt síðan ég hef gengið þennan stíg svo ég veit ekki alveg hver staða hússins er).
En mig langar til þess að rifja upp þessa góðu leiklistarstund engu að síður.
(H)art í bak var viðburðurinn kallaður en þessi gjörningur stóð frá morgni til kvölds í þessu niðurnídda rými og þar var Hart í Bak leiklesið nokkrum sinnum, og meðan leiklestrinum stóð var umhverfinu gjörbreytt, drasli og spýtnabraki var umbreytt í búninga og sviðsmynd, og textinn fékk líf.
Textar fá ekki alltaf líf. Hann lifnar að vísu við ef þú einbeitir þér að því að lesa hann, eða jafnvel upphátt, en þetta líf umbreytist sjaldan í almennilega lífveru sem getur stappað fótum, sveiflað hala, urrað á þig eða látið klappa sér.
Hart í bak (2008) í uppfærslu Þjóðleikhússins.

Ég hef til dæmis séð Hart í Bak sett upp af Þjóðleikhúsinu gjörsamlega líflaust. Minnti mig á aftöku satt að segja. Það var ómögulegt að skilja hvers vegna það var sett upp, hvers vegna það átti erindi við mig.
Það eru hörð orð en ég held að það sé líklegt að leikritið lifi ekki af margar svona uppsetningar í viðbót af hendi Þjóðleikhússins. Jökull Jakobsson er mjög ástsæll höfundur, það sést vel ef maður rekst á fyllibyttur sem eru nógu gamlar til þess að vera afi manns. Þær rifja upp gamla tíma ekki endilega bara á barnum, heldur fyrst og fremst í leikhúsinu. Ég hef upplifað það nokkrum sinnum að fólk rifji upp fyrstu sýninguna í Iðnó, liggur við með tár í augum. Sú sýning kemur aldrei aftur tilbaka, en ég skil svo sem vel að fólk þrái að upplifa hana aftur. Það er því miður ekki hægt.
Af einhverjum völdum er aldrei hægt að blása lífinu aftur í lík.
En ólíkt líkamanum þá á textinn sér mörg líf. Af því hann getur skilið gömlu hræin eftir og hoppað inn í nýjan líkama og nýja túlkun. Það er einmitt nýju túlkuninni sem er ábótavant en ekki sjálfum verkunum.
Sýningin sem ég sá í Þjóðleikhúsinu var tilraun til þess að gera Hart í Bak eftir minningunni, eftir nostalgíunni og fyrir hóp nostalgískra. Þetta var verk sem höfðaði til ellilífeyrisþega en það talaði ekki til mín. Þegar þessi kynslóð ellilífeyrisþega er farin þá verður ekki fólk til sem hefur gaman af svona nostalgíuvelling.
Sýningin sem Vér morðingjar settu upp í niðurníddu billjarðstofunni höfðaði til mín. Það var pönk í henni, hráleiki, þetta er ein af þeim listupplifunum sem ég gæti talað um síðar, kannski dag einn þegar ég verð fyllibytta á eftirlaunaaldri þreyti ég einhvern með þeirri sögu.
Þarna var eitthvað nýtt að gerast, fólk að spinna, fólk að leika sér, fólk að búa til nýja vinkla og nýja sýn. Þetta var grófara en gerist í öðrum leikhúsum, ekki af því að fólk makaði sig með einhverjum vessum eða blótaði, heldur grófari í þeim skilningi sem pönkhljómsveit er grófari en sinfóníuhljómsveit. Grófara af því að það er ekki verið að einbeita sér að smávægilegum smáatriðum, heldur verið að fókusa á lífsgleðina.
Leikrit eru dauð þar til einhver leikur þau. Frá frumsýningu til seinustu sýningu er þetta svo hægfara dauðdagi þar sem fyrstu vikurnar eru yfirleitt bestar.  Þess vegna er það augljóst að ef reynt er að vekja dauða leiksýningu upp 40 árum síðar þá verður þetta alltaf hálfgjör uppvakningur.
Þess í stað á að taka gömul leikrit og nálgast þau upp á nýtt. Sjá hvað hægt er að gera með þau. Reyna að finna erindi þeirra aftur. Ekki ganga frá því sem vísu að við vitum allt nú þegar.
Eins og fólk gerir yfirleitt með Shakespeare.
Öll verk hans hafa verið gerð á alla mögulega vegu. Með frábærum og hörmulegum afleiðingum.

Sýning ársins á síðasta leikári.

Því miður líður manni svolítið eins og það megi ekki gera það með gömul íslensk skáld. Það á bara að endursýna ekki endurgera. Það eru til ágætis undantekningar, mér fannst margt gott í uppfærslum Benedikt Erlingssonar og Baltasar Kormáks á Laxness.  Ég spyr mig engu að síður að því hvað við fáum út úr því að gera leikgerðir upp úr skáldsögum Laxness á hálfs árs fresti? Er þetta það sem fólk er raunverulega mest spennt fyrir? Eða það sem á mest erindi til fólks? (Af hverju skapa þessar leiksýningar aldrei umræðu? Hvers vegna finnst mér skáldsögurnar betri?  Hvers vegnar meikar t.d. þriðji parturinn í Íslandsklukkunni engan sens, ég meina hvað er pointið, hver trúir því í alvörunni að Kaupmannahöfn hafi verið reist fyrir íslenskt fé? Það meikar engan sens.)
Ég legg til að næst þegar Þjóðleikhúsið setur upp Laxness að það fái útlendan leikstjóra sem aldrei hafi heyrt um Laxness áður. Bara svona til þess að velta upp spurningunni: Er þetta góð saga? Af hverju? Ég veit að slíkt fólk er af skornum skammti, og þó, vitið þið hver vann nóbelsverðlaunin 1957?
Ég legg líka til að Þjóðleikhúsið seti upp ekki bara skáldsögur. Og ekki bara þýdd verk. Og ekki bara ný íslensk leikrit þau örfáu skipti sem það gerist. Ég legg til að það setji upp gömul íslensk leikverk en fái til þess fólk sem vill ekki bara fara eftir hefð heldur takast á við hana. Ímyndið ykkur hvernig það væri ef fólk fengi að sjá tvær útgáfur af sama verki.
Að lokum frekar klén og einföld myndlíking:
Ímyndið ykkur ef þið þyrftuð að ganga um í sömu fötunum alla ævi. Það er óþægilegt, það klæjar og hæfir ekki lengur tilefninu.Þannig virka gömul íslensk verk oft í endurflutningi. Við þekkjum þau ekki nema í stífpressuðum jakkafötum. Við vitum ekki einu sinni hvers vegna þau fóru í jakkafötin þó okkur gruni innst inni að einhver hafi dáið. En þarf það að vera svona? Erum við kannski búin að misskilja eitthvað?
Ég væri til í að sjá eitthvað sem ég hef ekki séð áður. Það má samt vera gamalt.
Ég bíð spenntur eftir svari.

Snæbjörn Brynjarsson.
Leikhúsmaður og japönskunemi.
Advertisements

6 thoughts on “Hvar eru öll leikritin?

  1. Kærar þakkir fyrir þetta Snæbjörn. Um að gera að halda þessari umræðu áfram um íslenska leikritun. Það var reynt fyrir 5 árum að fá mjög þekktan erlendan leikstjóra (Suzanne Osten) til að setja upp Fjalla-Eyvind í Þjóðleikhúsinu en tókst ekki. Henni fannst að íslenskur leikstjóri t.d. Benedikt Erlingsson sem sótti námskeið hjá henni sem byggði á Fjalla-Eyvindi ætti t.d. að gera það. Mikið væri gaman að sjá Galdra-Loft t.d. í höndum einhvers Þjóðverjans.Ostermeier hefur t.d. gert frábærar uppfærslur á Ibsen og gengið langt í að færa okkur nútímafólki verk eins og Brúðuheimilið og Heddu Gabler með eftirminnilegum hætti sem hreyfði og snerti. En það er ýmislegt af því sem þér finnst vanta sem er kraumandi undirniðri og á leiðinni upp. Marta Nordal hefur verið að dekonsturera Fjalla-Eyvind og er núna í Svartfugli Gunnars Gunnarssonar sem verður frumsýndur innan skamms. Og ég er sammála þér í því að það er hægt að ganga miklu lengra með nýrri klassík sem leikhúsin hafa reynt að endurverkja eins og t.d. Jökul. Kristín Jóhannesdóttir átti dágóða spretti með Dómínó og Sumarið 37 í Borgarleikhúsinu fyrir rúmum áratug en auðvitað má alltaf reyna að ganga lengra í nálgun og afbyggingu verkanna. Aðalatriðið er að þeir sem ráða yfir öllu fjármagninu í leikhúsunum átti sig á því að allt þetta er hægt ef ástríðan, viljinn og þekkingin er fyrir hendi. Mér sýnist þó að stjórnendur séu kannsi rumska enda hefur verið stanslaus umræða um þessi mál s.l. ár bæði meðal listamannanna sjálfra og opinberlega. Það er ýmislegt í vændum sem á eftir að koma verulega á óvart.
    Hlín Agnarsdóttir

  2. Það er þá kannski við hæfi að tilkynna það hér að næsta verkefni Vér Morðingja er einmitt Galdra Loftur. (Jón Viðar verður ekki sáttur)

  3. En gaman! Það var eitt fyrsta leikritið sem ég setti upp eftir að ég kom heim frá leiklistarnámi í útlöndum. Gerði líka klukkutíma versjón af leikritinu einu sinni í London þegar ég var þar í námi. Og hver ætlar að leikstýra hjá Oss morðingjum og hverjir ætla að leika? Er ekki búið að loka leyndarmáladeildinni með þessum vef? Hvers vegna verður Jón Viðar ekki sáttur? Er mikilvægt fyrir leikhópinn að hann verði sáttur eða hluti af konseptinu kannski?

  4. Alltaf gaman af kommentum.

    Þó ég nefni það ekki í greininni þá fannst mér einmitt Fjalla Eyvindur vera besta sýning seinasta árs, a.m.k. sú eina sem virkilega hrærði í mér þannig að ég bókstaflega táraðist. Það gerist kannski á svona þriggja ára fresti.

    Snæbjörn

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s