Gull, gull, gull…


Björn Jörundur leikur Langa Jón Silfur

Nær allir krakkar þekkja söguna um fjársjóðseyjuna eftir Robert Louis Stevenson. Þetta er ein frægasta sjóræningjasaga allra tíma. Persóna Langa Jóns Silfurs er illi sjóræninginn holdi klæddur, einfætt fúlmenni, veikur fyrir rommi og skínandi gulli.

Þessi saga hefur nú verið sett á svið á Akureyri þar sem Björn Jörundur túlkar sjóræningjann fræga. Þetta er fjölskyldusýning þar sem er sungið og dansað. Og sem slík gengur hún á aðdáunarverðan hátt upp.

Styrkleiki sýningarinnar liggur fyrst og fremst í kröftugum leikhóp. Það er augljóst að hópurinn hefur gaman að því sem hann er að gera. Einar Aðalsteinsson leikur Jim Hawkins sem kemst yfir fjársjóðskort og leggur af stað í ævintýraleik. Ekki gengur betur en svo að skipshöfnin sem hann fær um borð er hópur sjóræningja, með Langa Jón Silfur í fararbroddi.


Leikararnir skipta áreynslulaust milli persóna. Til dæmis Kjartan Guðjónsson sem fór hreinlega á kostum í hlutverki Ben Gun – sjóræningjans sem Langi Jón Silfur skilur eftir á Gulleyjunni. Atriðið þar sem hann brestur í söng um ást sína á mismunandi tegundum af ostum var skemmtileg absúrd kómík.

Björn Jörundur nýtur sín svo vel í hlutverki sjóræningjans illskeytta. Hann sækir augljóslega í brunn Johnny Depp sem hefur í raun skapað sitt eigið sjóræninga genre. Birni tekst að búa til ógnvekjandi en einnig aumkunarverða fígúru, sem gerir allt til að bjarga eigin skinni þegar tjaldið fellur – hann ber virðingu fyrir hugrekki Jim Hawkins og óskar þess kannski innst inni að fara í ævintýraleit með honum.

Leikgerðin er eftir Karl Ágúst Úlfsson og Sigurð Sigurjónsson en sá síðarnefndi er jafnframt leikstjóri. Spaugstofuandinn svífur yfir vötnum. Orðaleikir sem hitta í mark jafnt hjá yngstu kynslóðinni og þeim eldri. Og krakkarnir í salnum ætluðu að ærast úr hlátri í löngu atriði þar sem sjóræningjarnir kepptust við að skyrpa út í áhorfendasal.

Þarna skein kannski styrkleiki uppsetningarinnar best í gegn. Það er mikil nánd í samkomuhúsinu á Akureyri. Og leikararnir léku sér með þessa nánd. Þeir léku fyrir áhorfendur, áhorfendur voru hluti af sýningunni og slíkt er að mínu mati nauðsynlegt á sýningum sem eiga að höfða til yngstu kynslóðarinnar.

Og á þessari sýningu stóð maður sig að því að falla fyrir galdrinum þegar leikararnir hengu í mastri og sveifluðust yfir höfði manns, eða stukku niður af svölum og á svið.

Þar kemur að þætti sviðsmyndarinnar. Á einfaldan hátt barst leikurinn frá sjóarakrá, um borð í skipið og svo á eyjuna þar sem seglið féll og myndaði Gulleyjuna sjálfa. Sú ákvörðun að setja fjársjóðinn sjálfan á svið gekk vel upp, ætli það hafi ekki kviknað smá sjóræningi upp í manni sjálfum þegar góssið blasti við.

Miðað við hve mikil vinna og natni var lögð í sviðsmynd, búninga og handrit fannst mér miður hve tónlistin eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson var gervileg. Nánast eins og hún væri öll samin á hljómborð og send með tölvupósti frá stúdíóinu. Hún var ekki í anda við fagurfræði verksins, Disneyleg og flókin. Hljóðblöndun var einnig verulega ábótavant, tónlistin allt of hátt spiluð meðan söngur lá aftarlega og var stundum ógreinilegur.

Það er ánægjulegt að Akureyringar fá nú að njóta þeirrar skemmtunar sem Gulleyjan er. Leikárið hefur gengið brösuglega fyrir norðan og Svarta kómedían, síðasta sýning fyrrverandi leikhússtjórans Maríu Sigurðardóttur, var langt í frá boðleg. Þessi sýning ber þess merki að vera vel undirbúin og faglega unnin. Þar verður að minnast á þátt Borgarleikhússins en sýningin er samstarfsverkefni leikhúsanna tveggja.

Símon Birgisson

Hægt er að hlusta á umfjöllunar Símonar og Þórhalls Gunnarssonar í Djöflaeyjunni hér.

Advertisements

2 thoughts on “Gull, gull, gull…

  1. Ég get ekki verið sammála því að Svarta kómedían hafi ekki verið boðleg. Hún var ekkert fullkominn, en að vera ekki boðleg finnst mér ekki sanngjörn lýsing. Get talið upp margar sýningar sem eiga þann stimpil miklu frekar skilið en hafa einhvernveginn sloppið við það að miklu leyti. Læt það samt eiga sig að telja þær upp hér;)

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s