Fjölskylduhelvíti Þórhildar

,,Ég er ekki fangavörður og þetta er ekki fangelsi,” segir Tyrone eldri við Marion eiginkonu sína í fyrri hluta verksins. Ekkert er fjær sanni. Öll fjölskyldan býr í fangelsi og þau eru bæði verðir og fangar hvors annars. Um það fjallar Dagleiðin langa eftir Eugene O´Neill; um þær tvær hliðar sem búa í hverjum manni og á þessum örlagaríka sólarhring í lífi fjölskyldunnar eru skuggahliðarnar í aðahlutverki. 

Hver tilraun til góðmennsku er kæfð í fæðingu. Enginn er annars bróðir í leik.

Þórhildur Þorleifsdóttir, leikstjóri verksins, ber virðingu fyrir efninu og virðingu fyrir listinni. Hún sker verkið og styttir það, strikar jafnvel heila persónu út. Það að bera virðingu fyrir listaverki merkir ekki að leikstjórar megi ekki eiga við það. Leiklistin er lifandi listform, listin er það sem á sér stað á sviðinu, ekki í bókum. Ætli Illugi Jökulsson þýðandi verksins eigi ekki líka sinn þátt í því hve textinn flæddi vel á sviðinu.

Styttingarnar skila sér jafnframt í seinni hluta verksins sem verður tour de force, sannkölluð rússíbanareið um mannlegt eðli og tilfinningar.  

Ónýt fjölskylda
Dagleiðin langa er fjölskyldudrama. En um leið er slík skilgreining minnkandi fyrir verkið. Þetta sjálfsævisögulega verk Eugene O´Neill er uppgjör við listina, tilgang þess að standa á sviði, að skapa. Þetta er líka verk um fíkn – um lygar, blekkingu og ofbeldi – geðveiki og hatur. Þetta er verk um fjölskyldu sem er eyðilögð af alkahólisma fjölskylduföðursins, morfínfíknar móðurinnar. Synirnir tveir eru því ónýt eintök, fíklar í sársauka, rifrildi og ofbeldi; menn sem kunna ekkert nema að lifa í köldu fjölskyldustríði.

Þórhildur hefur lýst verkinu sem fjölskylduhelvíti. Sú lýsing á vel við. Í hvert sinn sem örlar á einhverskonar sátt bregða meðlimir fjölskyldunnar fyrir sig næsta vopni. Ekkert er heilagt. Lokamynd verksins þegar Marion birtist í stiganum, Ófelía sem hefur misst vitið, var sársaukafullt en á sama augnabliki fagurt.

Lokaorðin um hamingjuna sem hún upplifði í nokkra daga með Tyrone svo átakanlega sönn. 

Leikarar í forgrunni
Uppsetningaraðferð Þórhildar gæti verið lýst sem hefðbundinni. Hér er ekki reynt að fara nýjar leiðir, hvorki í sviðsmynd né búningum (Jósef Halldórsson). Líf verksins liggur í  textanum og Þórhildur reynir ekki að vinna á móti honum með stílfærslu. Tónlist og ljósanotkun (Hörður Ágústsson) er jafnframt stillt í hóf.

Kannski er slíkt líka óþarfi þegar um jafn sterkt verk er að ræða og Dagleiðina löngu. Þórhildur hefur lýst því yfir að hún vildi gefa framúrskarandi leikurum tækifæri á að spreyta sig á framúrskarandi verki. Slík yfirlýsing lýsir auðmýkt listamanns sem áður hefur fylgt stórum sýningum eftir með stórum yfirlýsingum. Hér er það listin sem talar. 

Erindi verksins
Það er samt óþarfi að efast um erindi og gildi Dagleiðinnar löngu til Íslendinga í dag. Vissulega fjallar verkið ekki um efnahagshrun eða kreppu – en það fjallar um efni sem stendur öllum Íslendingum nærri. Áfengi er fjölskyldusjúkdómur og hér er fjallað um þann eyðileggingarmátt sem áfengi getur haft á kynslóðir.

Viðhorf Eugene O´Neill til Bandaríkjanna er eitthvað sem við Íslendingar ættum einnig að eiga auðvelt með að tengja okkur við. Ef fjölskyldan stendur fyrir þau glötuðu tækifæri, vonir og væntingar og fyrirheit sem Bandaríkin byggðust á (Jón Viðar Jónsson fjallar betur um þennan vinkil í gagnrýni sinni í DV) er það heilbrigður minnisvarði fyrir okkur hér – sem reynum að byggja nýtt samfélag úr rústum þess gamla – að ekkert breytist ef aftur er byggt á sama ónýta grunni.

Sterkur leikhópur
Hér verður ekki gert upp á milli Atla Rafns, Hilmis Snæs, Arnars Jónssonar eða Guðrúnar Gísladóttur. Að leika í sýningu sem þessari er vinna hóps og undir leiðsögn Þórhildar var hópurinn vel samstillt hljóðfæri. Enginn getur sýnt stórleik án aðstoðar þess sem hann leikur á móti og það var áhrifamikið að verða vitni að því hvers nokkrir af okkar bestu leikurum eru megnugir. 

Sönn list fær mann til að efast, spyrja spurninga. Það mun engum líða vel sem gengur út af Dagleiðinni löngu en það hefur jú verði nóg af sýningum þetta leikárið sem keyra á innantómri gleði. Sannleikanum verður hver sárreiðastur – það sannast í orðræðunni á hverjum degi.

Dagleiðin langa er skyldusýning fyrir alla leikhúsunnendur.

Símon Birgisson  

Hér má sjá umfjöllun Maríu Kristjánsdóttur, Símonar Birgissonar og Þórhalls Gunnarssonar um Dagleiðina löngu í Djöflaeyjunni (Innslagið hefst á 10. mínútu).

Og hér má sjá samtal Símonar við Þórhildi Þorleifsdóttur í fyrsta þættinum af Reykvélinni.

Advertisements

2 thoughts on “Fjölskylduhelvíti Þórhildar

 1. Ég má til með að gera svolitla athugasemd varðandi það sem Símon segir hér um styttingarnar. Ég gagnrýndi þær í dómi mínum í DV, einkum það uppátæki leikstjórans að strika allt út sem lýtur að hinum írska uppruna persónanna. Hann er sem sé alls ekkert aukaatriði í verki O´Neills. Long Day´s Journey into Night er eitt af þeim leikritum sem fátt, ef nokkuð er ofaukið í, þrátt fyrir lengdina, og hið írska baksvið gegnir þar margvíslegu hlutverki. Það undirstrikar í fyrsta lagi hina félagslegu vídd: að þetta fólk er sprottið upp úr þjóð og samfélagi fjarlægu í tíma og rúmi, samfélagi sem það hefur glatað tengslum við. Rótleysið er einmitt eitt af stóru þemunum í skáldskap O´Neills, þrá okkar eftir að tengjast lífi forfeðranna – eða öllu heldur því sem var gott í lífi þeirra; í þessu tilviki til dæmis sagnaarfinum og húmornum – og augljóslega einnig trúnni sem er mjög stór partur í vefnum. En hinar írsku vísanir gera fleira: afstaða persónanna til hins írska er blendin og mótsagnakennd sem kemur ekki síst fram í hinu endalausa naggi feðganna. Tyrone gamli rómantíserar allt það írska (jafnframt því sem hann auðvitað óttast fátæktina sem hann tengir því trúlega meir ómeðvitað en meðvitað), en synirnir eru sífellt að hnjóða í það, hamra á göllum þess, eymdinni og fáfræðinni, ekki endilega af neinni sannfæringu, nei aðallega að því er best verður séð til þess að særa föðurinn, ná sér niðri á honum, skora enn eitt markið í því linnulausa stríði sem dagleg samskipti þeirra eru. Þannig notar O´Neill Írlandsdýrkunina og Írlandsníðið til þess að draga fram pirringinn, gremjuna, reiðina og hatrið sem þarna blundar undir en sífellt er að brjótast fram og verður æ óbærilegra. Og þetta finnst mér meistaralega gert hjá honum – eins og svo sem allt í þessu magnaða verki – og mikil eftirsjón að því. Með styttingum sínum hefur leikstjórinn því gert verkið mun fátækara en það hefði getað orðið. Eins gegnir atriðið með þjónustustúlkunni Katrínu sínu hlutverki; þó að henni sé lýst sem takmarkaðri hefur hún að sumu leyti objektívari sýn á það sem fram fer en aðrir (td minnir hún Mary Tyrone á það hvað maður hennar elski hana sem hún sjálf man etv ekki alltaf eftir, lifandi í sínum einkaheimi)auk þess sem atriði þeirra tveggja undirstrikar betur en flest annað þá skelfilegu einsemd sem konan býr við – og hefur búið sér sjálf með því að láta fíknina ná tökum á sér og loka heimilinu fyrir umheiminum.
  Ef ég skil Þórhildi rétt þá ver hún þessar styttingar með því að hún vilji beina sjónum að hinum alkóhólísku flækjum innan fjölskyldunnar sjálfrar, auk þess sem hún talar einnig um lengd verksins sem eina ástæðu (sbr. leikskrárgrein). Um hvorugt get ég verið henni sammála. Hvað alkóhólismann varðar þá get ég ekki séð að allt sem honum tengist verði nokkuð skýrara við slíka aftengingu við sögulega og félagslega þætti sem auðvitað spila alltaf inní það nána og persónulega – einnig hjá okkur sjálfum (og þetta verk er sannarlega um okkur sjálf, því miður). Hvað lengdina varðar þá hafa þær sýningar sem ég hef séð á verkinu, að heita má óstyttu, haldið mér fullkomlega föngnum. Og ekki hef ég miklar efasemdir um að þeir leikarar sem hér eiga í hlut hefðu getað gert það: látið okkur sitja bergnumin í fjóra klukkutíma, eða þar um bil, haldandi skýrum fókus á það sem þarna er að gerast frá einu andartaki til annars.
  Hitt er svo annar handleggur að aðstæður til slíks hefðu vissulega verið mun betri á stóra sviðinu en í þeim óþægindum og þrengslum sem áhorfendur mega búa við í þessum óláns-“kassa” Þjóðleikhússins – aðrir en þeir sem eru svo heppnir að sitja á fyrsta bekk! Jón Viðar Jónsson

 2. Þetta er áhugavert að lesa!

  Ég hlakka til þess að heyra viðbrögð Þórhildar við þessum skrifum beggja enda tel ég að þarna sé verið að kasta upp afar áhugaverðri spurningu um tilgang styttina (og jafnvel leikgerða) í leikhúsinu.

  Skerpir maður á dramana (fókuserar maður) með því að skera út málalenginar sem þó vissulega geta dýpkað á skilningi áhorfandans?

  Eða er innihald texta mikilvægara en tempó sýningarinnar?

  og hvar liggja þessi skil…

  Þorleifur Arnarsson

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s