Sýning ársins sýning ársins!

Viltu vita hvað Framsóknarmenn vilja sjá í leikhúsi? Hvort Sjálfstæðismenn hafi fellt tár á leiksýningunum, eða hver sé vinsælasti leikari þjóðarinnar. Þetta eru nokkrar af þeim fjölmörgu spurningum sem Félagsvísindastofnunar kannar og leikhópurinn Sextán elskendur gera sér mat úr í há-vísindalegri sýningu sem ber ekki minni titil en Sýning ársins.

Þessi gagnrýni verður með ögn breyttu sniði og er líklega í takt við efni sýningarinnar. Leikskrá verksins er nefnilega eins konar rannsóknarskýrsla þar sem niðurstöðurnar úr könnun félagsvísindastofnunar er að finna. Og svörin eru vægast sagt forvitnileg. Ég ætla að gera grein fyrir því sem mér fannst áhugaverðast í þessari könnun. Þetta er að sjálfsögðu ekki tæmandi yfirferð. Fyrir þá sem vilja lesa rýnina og hafa engan áhuga á tölfræði  er hægt að skrolla niður um miðbik greinarinnar og lesa rýnina um sýninguna sjálfa.


Við viljum ástarsögu

Flestir landsmenn vilja að leikhús skapi upplifun eða um 40 prósent. Aðeins 26 prósent krefjast þess að sögð sé saga. Ef maður rýnir í tölurnar sér maður að það er lítill munur á körlum og konum sem vilja upplifun í leikhúsinu. Konan er þó ögn ákveðnari hvað þetta varðar, en 43 prósent kvenna vildu upplifun á móti 38 prósentum karla. Gunnskólamenntaðir eru þó minnst hrifnir af þeirri tilfinningu. Þeim finnst leikhúsið þurfa að segja sögu.

Háskólamenntaðir vilja upplifun en gera ekkert sérstaklega mikla kröfu til sögunnar. Þá er kannski athyglisvert að segja frá því að ellilífeyrisþegar vilja ekki að leikhúsið veki upp tilfinningar, en aðeins átta prósent svöruðu á þann veg. Þeir gera þó sterka kröfu um að ástarsaga sé til staðar í leikritinu og að það gerist á vorkvöldi.

Við viljum eitthvað létt

Það kemur kannski ekki á óvart að 86 prósent þjóðarinnar vill sjá létta og skemmtilega leiksýningu. Helmingurinn vill óhefðbundna sýningu. Það hlýtur að teljast þokkalega víðsýnt viðhorf. Þá vilja 60 prósent raunsæja sýningu á meðan 40 prósent vilja draumkennda sýningu. 67 prósent vilja sjá leikrit á stóru sviði en aðeins 33 prósent vilja sjá sýningu á litlu sviði.

Ef maður rýnir í tölurnar má sjá að aðeins 14 prósent vilja dramatíska sýningu. Konur og karlar eru nokkuð sammála um þetta. Karlmenn gera örlítið ríkari kröfu um léttu skemmtilegu sýninguna, eða 87 prósent. 85 prósent kvenna vilja sjá slíka sýningu.

Það eru sjálfstæðismenn sem vilja helst létta og skemmtilega leiksýningu. Eða 95 prósent. Kjósendur Samfylkingarinn setja slíkt ekki alfarið fyrir sig en 75 prósent þeirra vildu sjá létta og skemmtilega sýninguna; fjórðungur vildi dramatískt verk.

40 prósent aðspurðra vildu draumkennda sýningu, 60 prósent vildu raunsæja sýningu. Munur milli stjórnmálaflokka og kyns er ekki mikil hvað þetta varðar.

    Ragnar Ísleifur Bragason í hlutverki kynnis.

Karlar vilja farsa konur vilja söngleiki

Þá er athyglisvert að langflestir Íslendingar vilja sjá nýtt íslenskt leikverk, eða 32 prósent. Næstflestir vildu sjá söngleik, eða 23 prósent. Þá er lítill áhugi fyrir sígildum verkum á meðal almennings. 13 prósent svarenda vildu sjá þannig verk.

Óvinsælasta sviðslistaformið hér á landi er brúðuleikhús. Aðeins eitt prósent er til í að sjá slíka sýningu. Óperur og danssýningar eiga einnig undir högg að sækja en aðeins 4 prósent voru til í að sjá þannig sýningu þegar þau voru spurð hvað þau væru til í að sjá færu þau í leikhús kvöldið sem þau voru spurð.

Ef tölurnar eru skoðaðar út frá kynjum þá finnst konum farsar mun óáhugaverðari en karlmönnum en þar mátti finna mestan mun svara í þessum flokki. Þannig svöruðu 15 prósent kvenna að þær væru til í að horfa á farsa á meðan 25 prósent karla langar að sjá slíkan ærslagang á sviði.

Konur voru aftur á móti jafn mikið til í að sjá söngleik og nýtt íslenskt verk og karlmenn.

Framsókn vill fáklæddar konur í íslensku leikverki

Framsóknarflokkurinn vill eitthvað íslenskt. Það kemur kannski ekki mikið á óvart þar sem flokkurinn hefur lengi haft gömul og góð íslensk gildi í heiðri. 40 prósent kjósenda flokksins vildu helst sjá nýtt íslenskt verk á sviði. Framsóknarmenn hafa aftur á móti lítinn áhuga á sígildum verkum. 5 prósent kjósenda flokksins töldu slík verk hæfa sér.

Markhópur óperuverka, danssýninga og brúðuleikhúsa eru Hreyfingin, eða aðrir flokkar, og svo Vinstri grænir.

Ellilífeyrisþegar eru einnig ágætismarkhópur hvað fyrrnefndu listformin varðar. 32 prósent ellilífeyrisþega voru til í að sjá óperur, dansverk eða brúðuleikhús.

En hvað vill fólk upplifa í leikhúsi?

Jú, allir svöruðu því til að þeir vildi upplifa gleði. 91 prósent vilja upplifa uppljómun. Óvinsælasta tilfinningin í leikhúsi er samviskubit.

Framsóknarmenn vilja ást, eða 92 prósent þeirra. Þeir eru hinsvegar ekkert sérstaklega æstir í reiðina. En 84 prósent kjósenda flokksins svöruðu nei við þeirri spurningu. Raunar er reiði ekki mjög vinsæl tilfinning í leikhúsi samkvæmt niðurstöðunni.

Rúmlega 30 prósent Framsóknarmanna hafa grátið í leikhúsi. Þeir eru hinsvegar æstastir í að sjá leikarana fáklædda. Þannig vildu flestir Framsóknarmenn sjá leikarana hálfklædda, eða 31 prósent.

Fimm prósent Framsóknarmanna vilja sjá leikara á nærfötunum, sem er einu prósentustigi yfir Samfylkingarmönnum. Framsóknarmenn eru hinsvegar áberandi æstir í að sjá leikarana kviknakta. 17 prósent vildu sjá þá nakta á meðan aðeins 8 prósent kjósenda Hreyfingarinnar, annarra flokka og hinna hlutlausu, vildi sjá leikarana nakta. Enginn þeirra kjósenda var hinsvegar til í að sjá leikarana á nærfötum. Framsókn til varnar vildi tæplega helmingur kjósenda flokksins hafa sína leikara fullklædda.

Framsóknarmenn eru að sama skapi áhættusækinn þjóðfélagshópur. Þannig vildu 76 prósent þeirra upplifa áhættu í leikhúsi.

Vinstrimenn vilja samviskubit og sorg

Vinstri grænir er sólgnir í sorgina samkvæmt könnuninni. Þannig vill rúmur helmingur kjósenda flokksins upplifa sorg í leikhúsi. Konur virðast reyndar meira í mun að upplifa sorgmædda tilfinningu en karlar. 46 prósent kvenna vilja sorg í leikhúsi á meðan 38 prósent karla vilja upplifa sömu tilfinningu.

Kjósendur VG vilja líka mikla reiði og skera sig frá öðrum kjósendum hvað þetta varðar. Alls vildu 46 prósent kjósenda VG reiði. Greinilega reiður hópur þar á ferð. Ríkisstjórninni er því óhætt að fara í leikhús saman því 34 prósent Samfylkingarmanna vildu líka upplifa reiði.

Samviskubit er tilfinning sem höfðar sterklega til Vinstri grænna. 48 prósent kjósenda flokksins vilja sitja sakbitnir á leiksýningum. Kjósendur VG eru reyndar áberandi sólgnir í samviskubitið sé tekið mið af viðhorfum annarra kjósenda. 30 prósent kjósenda Samfylkingarinnar vill finna fyrir samviskubiti í leikhúsi.

Raunar er talsverður munur á kynjunum í þessum flokki, því samviskubitið virðist höfða mun sterkar til karla en kvenna. 32 prósent karla vildu finna fyrir samviskubiti á meðan 17 prósent kvenna vildu upplifa sömu tilfinningu. Því er óhætt að segja að karlkyns kjósendur VG vilja upplifa samviskubit í leikhúsi. Hreyfingin eða aðrir flokkar vilja ekki fá samviskubit samkvæmt niðurstöðunni.

Kjósendur VG vilja einnig upplifa sorgina, líkt og samstarfsflokkurinn. 54 prósent VG vildu sorg, nánast sama prósentutala (53%) og hjá Samfylkingunni.

Augljóslega vilja vinstri flokkarnir upplifa átakanlegar tilfinningar í leikhúsi. 56 prósent kjósenda Vinstri grænna hafa grátið á leiksýningu. 54 prósent kjósenda Samfylkingarinnar hafa einnig grátið. Fæstir Sjálfstæðismenn hafa grátið í leikhúsi.

Hressandi undirspil og sumarkvöld

Ef Sjálfstæðisflokkurinn er tekinn sérstaklega fyrir, þá vilja þeir gleði á stóru sviði, jákvæðar tilfinningar og hressandi undirspil.

Íslendingar vilja helst að leikrit gerist á sumarkvöldum. Flestir vilja heyra talmál í leikhúsi, eða 70 prósent.

Flestir vilja sjá sýningu á stóru sviði sem skapar upplifun, sé létt og skemmtileg. Hún þarf einnig að vera raunsæ.

Vinsælustu leikarar landsins, samkvæmt könnuninni, eru Ingvar E. Sigurðsson og Ilmur Kristjánsdóttir.

Vinstri grænum finnst Ingvar E. Sigurðsson langbesti leikarinn. 45 prósent töldu hann þann sem þau vildu helst sjá á sviði. Aftur á móti vilja þau síst sjá Ilmi á sviði, eða 5 prósent. Kjósendur Vinstri grænna eru meira fyrir Kristbjörgu Keld. Hinir hlutlausu eru hrifnir af Ingvari en vilja líka sjá Hilmi Snæ Guðnason.

Framsóknarflokkurinn er aftur á móti mjög hrifin af Ilmi. Hún nýtur þó mest hyllis á meðal nema.

Þorsteinn Guðmundsson má sætta sig við að vera óvinsælasti leikarinn samkvæmt könnuninni. Þá vilja fæstir sjá Guðlaugu Ólafsdóttur á sviði.

Lokaniðurstaðan er eftirfarandi:

Verkið á að vera íslenskt og á að vekja gleði, uppljómun og ást á meðal áhorfenda. Leikararnir eiga að vera fullklæddir og leikmyndin skrumskæling á raunveruleikanum. Svarendur vilja helst sjá Ingvar E. Sigurðsson og Ilmi Kristjánssyni á sviðinu.

Leikritið á að gerast að kvöldi til um sumar og mikilvægt er að söguþráður sé í verkinu. Textinn á að vera sígildur, óbundinn talmálstexti. Tónlistin á að vera hefðbundin og styðja við framvindu verksins. Hún þarf einnig að vera flutt á staðnum og vera hressandi. Séu danshreyfingar í verkinu eiga þær að vera samhæfðar.

Ef við skoðum málið út frá stjórnmálaflokkum þá vill Framsókn fáklæddar konur í nýju íslensku sviðslistaverkið.

Sjálfstæðisflokkurinn vill skemmta sér á meðan Vinstri grænir og Samfylkingin vilja upplifa reiði, sorg og samviskubit.

    Áhorfendur eru flokkaðir en fyrst safnast allir saman í biðsal.

Þá að sviðslistaverkinu sjálfu…

Leikverk sextán elskenda er vægast sagt með óhefðbundnu sniði. Þarna er verið að ganga inni í félagsvísindalega rannsókn þar sem listamennirnir hafa sniðið verkið eftir þörfum gestanna.

Í fyrstu er hringt dyrabjöllu fram á gangi inni í skrifstofuhúsnæði í Rúgbrauðsgerðinni. Einum gesti er hleypt inn í einu. Þannig tekur nokkra stund að ganga inni í verkið.

Því næst fóru allir áhorfendur inni í herbergi þar sem þeir biðu þar til allir væru komnir inn. Á meðan spígsporuðu leikararnir allt í kring klæddir bolum sem á stóð leikari. Þeir afhentu hverjum og einum gesti nokkurskonar auðkenniskort. Á því mátti finna nafn, kennitölu og mynd af hverjum gesti.

Á auðkenniskortinu mátti svo finna nokkra flokka. Gestunum er skipt upp eftir þessum flokkum. Í stuttu máli þá eru þessir flokkar niðurstöður hópsins úr könnuninni. Þarna má meðal annars finna ellilífeyrisþega, 18-29 ára og svo frjálst val. Þannig mega gestir hafa áhrif á framvindu leikhúsreynslu sinnar.

Sjálfur valdi ég meðal annars flokkinn „Samfylkingarkonur“ í frjálsu vali. Ekki spyrja af hverju.

Í þeim flokki mátti finna skúrandi karlmann, róandi tónlist og ofurraunsætt umhverfi. Þá þarf varla að geta þess að allir voru kappklæddir. Verkið var bráðskemmtilegt. Þó ég samsvari mér ekki með Samfylkingunni, hvað þá kvenkyns kjósendum flokksins. Eða hvað? Það var allavega skuggaleg uppgötvun.

Nokkrir textar voru fluttir í sýningunni. Einn texti, sem Jón Atli Jónasson samdi, var fluttur hugvitssamlega undir afar mismunandi aðstæðum. Það var semsagt farið með sama texta þegar áhættusækið leikverk með mikilli spennu var flutt – þetta sem er fyrir 18 til 29 ára. Og svo rómantískt leikverk sem gerist á vorkvöldi – þetta sem ellilífeyrisþegar vilja helst sjá.

Fáklæddar konur

Eftir hlé var komið að leikhúsreynslu fyrir karla og konur. Þá fyrst voru allir áhorfendur sameinaðir í einn sal. Tvö verk voru flutt. Karlaverkið var farsi með klúru yfirbragði sem Hrafnhildur Hagalín samdi og Stefán Jónsson leikstýrði. Kvennaverkið var nákvæmlega eins – fyrir utan að leikkonan var smekklega klædd og stundum brutust þau út í söng. Það var Kristín Eysteinsdóttir sem leikstýrði verkinu en Hrafnhildur skrifaði það einnig.

Til þess að hármarka upplifunina lék Ilmur Kristjánsdóttir kvenhlutverkið, en flestir vildu sjá hana samkvæmt könnunni. Ingvar E. Sigurðsson er staddur erlendis og gat því ekki leikið karlhlutverkið. Því var brugðið á það ráð að fá sjöunda vinsælasta leikarann samkvæmt könnuninni. Það er segja Örn Árnason.

Áleitið verk

Á heildina litið er verkið vel heppnað. Þarna er að finna áleitnar spurningar um viðhorf almennings til listar. Þá er jafnvel enn betri spurning hvort leikhús reyni ekki á þessa rannsókn og láti semja ný íslensk leikverk með vinsælustu tilfinningarnar að hliðsjón. Aftur á móti gæti maður upplifað það sama og maður upplifir á þessari sýningu – það er eitthvað óeðlilegt við að blanda hárnákvæmum vísindum við listina.

Aftur á móti er afar athyglisvert að skoða þjóðfélagshópa og stjórnmálaflokka í gegnum viðhorf þeirra til sviðslistaverka. Kemur það til að mynda einhverjum á óvart að Framsókn vilji sjá eitthvað íslenskt?

Og það var nokkuð fyrirsjáanlegt að þegar Sjálfstæðismenn eru komnir með leið á að grilla á kvöldin, þá skella þeir sér á létt og skemmtilegt leikrit sem vekur helst ekki upp tilfinningar.

Það var heldur digurbarkarlegt þegar leikhópurinn Sextán elskendur steig fram og sagðist ætla að semja sýningu ársins. En viti menn – þeim tókst það. Sýning ársins er sýning ársins. Kannski er það besta vísbendingin um að vísindin og listin geta unnið saman með einstökum hætti. Sextán elskendur eiga hrós skilið fyrir ótrúlega hugvitssamlega sýningu sem er á sama tíma afar áleitin.

Valur Grettisson

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s