Vesalings vesalingarnir

Vesalingarnir er sá söngleikur sem hefur víst verið hvað lengst á fjölunum í heiminum. Hann hefur samt ekkert alltaf fengið neitt sérlega góða gagnrýni. En hann nær til fjöldans og milljónir hafa séð verkið á sviði.
Hér á Íslandi er allt lagt í að gera verkið sem glæsilegast. Þetta er tvímælalaust stærsta sýning ársins. Ég vil samt leyfa mér að hafa skoðun á gæði þessa verks. Ég hef nefnilega oft varnagla á þegar reynt er að selja mér eitthvað með þeim rökum að svo margir aðrir hafi keypt það. Auðvitað getur það þýtt að varan sé frábær og á vinsældirnar skilið. En svo þarf ekki alltaf að vera.
Bókin, eftir Victor Hugo, er mikil í smiðum. Hér hefur sagan verið einfölduð og verður í þessu leikriti hálfgert melódrama. Tónlistin er miðlungsgóð, fáein lög eftirminnileg og svo er keyrt á sömu upphækunum og dramatískum lokatónum til að reyna að framkalla hughrif hjá áhorfendum. Öll trixin í bókinni eru notuð til að búa til sjónarspil.
Stundum dettur verkið niður í tilfinningaklám – dæmi er dauði lítils drengs í byltingarsenu verksins. Hann syngur þar til hann er skotinn niður.
En fólk fílar þetta! Nú þegar hafa hátt í tuttugu þúsund miðar verið seldir. Eða svo heyrir maður í auglýsingunum.
Það kemur þó ekki í veg fyrir að maður geti haft skoðun á verkinu sjálfu. Sagan er á köflum samhengislaus. Lítil spenna er í sambandi Jen Valjean og Javert lögreglustjóra. Thénardier kráreigandi og eiginkona hans eru líkt og klippt úr öðru leikriti. Ástarsambandið milli Marius og Cosette ótrúverðugt. Í stuttu máli. Mér finnst verkið sjálft innihaldslítið og gallað.
En hvað með uppsetninguna? Aðrir þeir sem fjalla um verkið á opinberum vettvangi eiga vafalítið eftir að fara yfir frammistöðu einstakra leikara og deilda. Ég vil hins vegar minnast á tónlistarflutninginn. Þar fannst mér ekki takast nógu vel til. Ég sagði í Djöflaeyjunni að mér þætti það slæm ákvörðun að hljómsveitin hefði verið minnkuð. Mér hefur verið bent á að þessi útsetning á Vesalingunum sé ný og aðkeypt og sé sú sama og notuð sé í Queens Theater. Rafmagnspíanóin, sem notuð eru til að fylla upp í hljóminn, komi með útsetningunni og Þjóðleikhúsið hafi flutt inn mann til að kenna leikhúsinu á þá tækni.
Ég stend við þá gagnrýni mína á þessa aðferð – að nota litla hljómsveit og láta hljóðið koma úr hátölurum. Mér finnst hljómurinn verða flatur og gervilegur. Mér fannst Þorvaldur Bjarni einnig ekki standa sig nógu vel að draga fram fínni blæbrigði verksins á viðkvæmum augnablikum. Tónlistarflutningur var einsleitur og ekki nógu lifandi hljómur. Þó eitthvað sé eins og í London þýðir það ekki sjálfkrafa að það sé gott.
Þjóðleikhúsið telur sig væntanlega vera að uppfylla lagalega skyldu sína með uppsetningu á þessu verki. Lögin segja jú að Þjóðleikhúsið eigi að gera öllum til geðs, sé fyrir alla. Samt get ég ekki annað en hugsað um peningana sem farið hafa í þessa sýningu. Um hve margar sýningar á borð við Svartan hund prestsins, Dagleiðina löngu, Heimsljós eða þau fjölmörgu verkefni sem hafa vakið áhuga manns í Þjóðleikhúskjallaranum þetta árið væri hægt að setja á svið fyrir kostnaðinn af þessu. Megintilgangur uppsetningu söngleikja hvar sem er í heiminum er að græða á þeim – og eru þá ekki einkaaðilar sem gætu uppfyllt þörf landsmanna í söngleiki og grætt á þeim í leiðinni?
Ein áhugaverðasta sýning þessa árs er Sýning ársins eftir 16 elskendur. Hún fjallar um hóp sem lætur gera fyrir sig ítarlega könnun á því sem almenningur á Íslandi vill sjá í leikhúsi. Þar kemur margt áhugavert í ljós. Til dæmis að flestir Íslendingar (32%) vilja sjá nýtt íslenskt leikrit í leikhúsi. Helmingur landsmanna vill sjá eitthvað óhefðbundið. Og aðeins 23% hafa áhuga á söngleikjum.
Boðskapur sýningar ársins er þó sá að ekki er hægt að búa til leikhús út frá markaðskönnunum. Sýning sem reynir að gera öllum til geðs verður að leikhúsi fáránleikans. En hvað með heilt leikhús. Er það ekki óraunhæft markmið í sjálfu sér að eitt leikhús eigi að geta gert heillri þjóð til geðs?
Símon Birgisson
Hér má sjá umfjöllun Maríu Kristjánsdóttur og Símonar Birgissonar um Vesalingana í Djöflaeyjunni.
Athugasemd: Hér í morgun birtist eldri útgáfa af grein Símonar sem höfundur hafði síðar breytt. Sú grein var tekin út.
Advertisements

4 thoughts on “Vesalings vesalingarnir

 1. Afsakið, en ég get ekki hætt. Enn og aftur: Frá upphafi hafa verið 2 hljómborð skrifuð þarna inn.. og já til uppfyllingar eins og öll hljóðfæri eru.. ekki satt?

  Hér er svolítið merkilegt:
  http://www.theatermania.com/london/news/02-2011/orchestra-for-west-ends-les-miserables-to-be-expan_34360.html

  Ertu ekki að tala í a.m.k. hálfhring?:
  “Samt get ég ekki annað en hugsað um peningana sem farið hafa í þessa sýningu. Um hve margar sýningar á borð við Svartan hund prestsins, Dagleiðina löngu, Heimsljós eða þau fjölmörgu verkefni sem hafa vakið áhuga manns í Þjóðleikhúskjallaranum þetta árið væri hægt að setja á svið fyrir kostnaðinn af þessu. Megintilgangur uppsetningu söngleikja hvar sem er í heiminum er að græða á þeim”.

  Bestu kveðjur,

  Sigurvald Helgason

 2. Nú er ég 100% ekki partur af þessum 23% sem myndu svara í könnun að það sem þeir myndu helst vilja sjá á sviði væri söngleikur. Ég var ekki bjartsýnn þegar ég lagði leið mína á Vesalingana, ég hafði heyrt eitt og eitt lag í gegnum tíðina og fundist þetta frekar mikið tilfinningavæl.

  Í lok sýningar var ég einn af þeim fyrstu á lappir (hefði verið gott að hafa ykkur Maríu til að taka eftir því hver vann þann slag)!
  Málið var bara að allt þetta melódramatíska “tilfinningarúnk” náði mér. Ég hló, græt og setti persónulegt met í gæsahúð. Þetta bara náði mér, og ástæðan fyrir því er að þetta var bara einfaldlega bara svo vel gert.
  Allir póstar virkuðu, leikmynd, búningar, tónlist (Hefði mátt vera hærri ef eitthvað) og söngurinn. Helvítis söngurinn! Hver páverballaðan á eftir annarri, sungin af okkar bestu söngvurum, kryddað með unaðslegri klisjukenndri mellódramatík. Snilld.

  Auðvitað var þetta allt rosa útblásið, sviðshreyfingar allar aðeins of stórar og svona en ef maður ætlar að fara að hengja sig í það þá getur maður bara hengt sig. Þetta er ekki realískt, fólkið syngur allt sem það lætur frá sér for kræing át lát!

  Þetta er leikhúsupplifun sem að ég veit að mun sitja í fólki, fólki sem er að borga fáránlega mikið fyrir miðann sinn (sem að við boðsmiðaliðið gleymum oft) og á skilið það allra besta fyrir peninginn, þó að verkið sé vinsælt í útlöndum. Fólk á skilið fagleg vinnubrögð á sviði sem og í innlendri dagskrágerð(!)

  Ég er manna hlynntastur fyrir því að Þjóðleikhúsið noti peninga sína vel og það hefur það því miður ekki alltaf gert. Ný íslensk verk er til dæmis það sem ég myndi vilja sjá í fararbroddi og þá er ég ekki að tala um gamlar skáldsögur eins og Heimsljós eða Engla Alheimsins sem eru bara sett upp vegna þess að allir hafa lesið bókina og fundist hún góð. Eða að fólk hafi sagt þeim að hún sé góð.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s