Viðkunnalegasti lygari heimsins.

Ævintýri Munkhásens var frumsýnt 22. mars í Gaflaraleikhúsinu undir leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Ásamt Sævari Sigurgeirssyni handritshöfundi setur Gaflaraleikhúsið fram verk  byggt á  Lygasögum Munchausens baróns. 
Munkhásen nafnið hefur varðveist í tímans rás og er nú í dag helst þekkt innan læknisfræðinnar sem Münchausen syndrom (eða Munkhásen heilkennið). Sjúkdómurinn dregur nafn sitt frá baróninum Karls Friedrich Hieronymus Freiherr von Münchhausen sem átti að hafa sagt svo ótrúlegar lygasögur um sjálfan sig að þegar átti að finna nafn fyrir lygaheilkenni nokkurt varð nafn barónsins fyrir valinu.
Þökk sé úrhellisrigningu síðustu daga gengu áhorfendur rennvotir inn í dimman sal Gaflaraleikhússins. Þar voru samankomin börn, foreldrar, afar, ömmur, vinir og aðrir gestir. Sviðsumgjörðin minnti á háaloft, eins og maður man eftir þeim úr ævintýrasögum. Þar var að finna ýmsan forvitnilegan klæðnað, píanó, riddarabúning og fleira sem vakti forvitnina. Þegar sýningin hófst lifnaði öll sviðsmyndin við og hver hlutur fékk sitt hlutverk. Axel Hallkell Jóhannesson er leikmyndahönnuður sýningarinnar og á hann hrós skilið fyrir að skapa töfraheim úr að því er virtist engu. Bakgrunnurinn var skemmtilega útfærður, einfaldir litirnir leyfðu ímyndunaraflinu að fylla upp í það sem leikhúsbygging getur ekki rúmað. 
Gunnar Helgason er hæfileikaríkur sögumaður svo ekki sé meira sagt. Það er erfitt að vera ekki hlutdrægur eftir að hafa alist upp við að elska Gunna og Felix en í Ævintýri Munkhásens fékk leikgleði og orka hans sannarlega lausan tauminn. Hér birtist hann sem eldri útgáfan af baróninum en Magnús Guðmundsson leikur Munkhásen yngri. Ágústa Eva Erlendsdóttir leikur gúrkuprinsessuna Katarínu sem fer í gegnum helstu tilfininningabaráttu sögunnar; hvernig hún geti nálgast sinn heittelskaða barón án þess að koma upp um hver hún raunverulega er. Það er nú ekki seinna vænna en að fræða börn og fullorðna strax um þá nauðsyn að sýna hugrekki og fylgja hjartanu. Sævar Sigurgeirsson fær prik í hattinn fyrir að búa til prinsessu sem er svo klók og ákveðin að enginn, ekki einu sinni Eldfjallakóngurinn Vúlkanus þorir að kljást við hana.  Með önnur hlutverk fara Gríma Kristjánsdóttir, Huld Óskarsdóttir, Gunnar B. Guðmundsson og Virginia Gillard. Söngkonu sýningarinnar Söru Blandon ber sérstaklega nefna fyrir góða færni í hinum ýmsu söngstílum. Hún virtist hafa lítið fyrir því að framkalla hvaða tón sem henni datt í hug.
Handrit Sævars Sigurgeirssonar er mjög skemmtilegt. Þar dregur hann hugmyndir úr Grímsævintýrunum, Shakespeare leikhúsinu og svo ekki sé talað um Notebook tenginguna í sambandi Munkhásen hjónanna. Gunnar Helgason og Virginia Gillard voru svo yndisleg að mann langaði næstum að taka þau með sér heim. 
Ævintýri Munkhásens er leikverk með söngvum þar sem stuðst er við hin ýmsu hljóðfæri. Hugmyndir tónlistastjóranna Þorgeirs Tryggvasonar og Eggerts Hilmarssonar voru ótrúlega skemmtilegar og áhorfendur hlógu hjartanlega yfir ýmsum þeim útfærslum sem á sviðinu birtust; býflugnaherinn og sportbílahljóð hlauparans slógu sérstaklega í gegn hjá einum litlum sem sat við hliðina á mér. 

Leikgleðin í Gaflaraleikhúsinu var svo mikil að sum börn í salnum áttu í virkilegum erfiðleikum með að halda sér í sætunum. Nokkur gripu tækifærið við lófaklappið í lok sýningar og hlupu á svið til að taka þátt í ævintýrinu. Ætli það sé ekki besti mælikvarði á áhrif leikhússins. Töfrabrögðin virkuðu svo vel að áhorfendur reyndu hvað þeir gátu að taka þátt og vonandi munu sem flestir gera það einnig.

Sólveig Ásta Sigurðardóttir
Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s