Nasistagrín á Hótel Volkswagen

Leikritið Hótel Volkswagen var frumsýnt á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu þann 24. mars. Leikstjóri er Benedikt Erlingsson.

Það er óhætt að segja að leikritsins, Hótel Volkswagen, hafi verið beðið með nokkurri eftirvæntingu. Aðallega vegna höfundarins, Jóns Gnarr, eða Jón Krakk, eins og hann var víst kallaður, samkvæmt bráðskemmtilegum pistli rithöfundarins Auðar Jónsdóttur, og birtist í vel heppnaðri leikskrá.

Þetta er sennilega í fyrsta skiptið sem borgarstjóri Reykjavíkur skrifar leikrit og er frumflutt á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu (þessu sama og borgin fjármagnar). Þannig þetta var söguleg stund að auki.

Verkið fjallar í grófum dráttum um sérkennilega einstaklinga á Hótel Volkswagen. Þar má finna litskrúðugt persónugallerí eins og má búast við úr smiðju borgarstjórans. Bifreið feðganna Pálma (Bergur Þór Ingólfsson) og Sigga litla (Dóra Jóhannsdóttir) bilar nærri hótelinu. Hótelstjórinn Svenni (Hallgrímur Ólafsson) býðst til þess að gera við bifreiðina og býður feðgunum að auki að gista á hótelinu á meðan viðgerðinni stendur yfir. Þannig kynnast feðgarnir kynóðum nasista (Þorsteinn Gunnarsson) sem minnist fjöldamorða sinna í gegnum vinnustaðamóral og barnungs sprellara sem gerði kúnstir fyrir nöguð bein og sígarettur.

Það má einnig finna par á hótelinu sem vill eignast barn. Eini vandinn er sá að það vantar eggjastokkana í hefðarfrúna Paul Jenkins (Jörundur Ragnarsson). Eiginmaðurinn, Adrian Higgings (Halldór Gylfason) deyr þó ekki ráðalaus. Þannig ættlæddi parið rússneskan drykkjusjúkling með nokkuð fyrirsjáanlegum afleiðingum.

Þessar undarlegu persónur bregðast að lokum við óvæntum ísraelskum njósnara með því að halda réttarhöld yfir nasistanum, þar sem dómari, kviðdómendur, verjandi og sækjandi eru gestir hótelsins.

Úr verður það sem mætti kalla svört fáránleikakómedía. Einhverskonar absúrd kómík.


Stóra salnum í Borgarleikhúsinu er skipt í tvennt. Þannig er leiksviðið fyrir miðju og áhorfendur sitja í kring. Sviðið er rauðleitt, með einu barborði og tveimur borðum þar sem gestir sitja. Á milli atriða er barborðinu rennt yfir á hinn enda sviðsins og eru allar skiptingar ágætar. Sviðsmyndin er einföld. Hún nær andrúmslofti hótelsins. Einfaldleikinn er slíkur að persónur Jóns fá að njóta sín.

Leikararnir voru allir sterkir. Hallgrímur Ólafsson bar af í sínu hlutverki. Bæði var gervið hreint út sagt sprenghlægilegt og persónan jafn litrík og hún reyndist aumkunarverð. Hallgrímur á stjörnuleik þar sem hann kallar fram ofsahlátur í salnum með því einu að bera fram orðið vatnskassi. Hans hlutverk er einnig það mikilvægasta í sýningunni, enda bindur hann persónur saman og gerir vel. Þessi furðulegi hippi í handbremsu, sem þykist búa yfir heimspekilegi djúpspeki, er jafn átakanlega fyndinn og skemmtilegustu persónur Jóns Gnarr í gegnum tíðina – og er líklega á pari við Georg Bjarnfreðarson – án þess að þessar persónur eigi nokkuð sameiginlegt annað en höfundinn.

Þá verð ég að minnast á hlutverk Jörundar sem leikur hefðardömuna Paul Jenkins. Jörundi tekst að gera þessari súrrealísku persónu einstaklega kómísk skil. Honum tókst að hefja smávægilegt hlutverkið upp úr því einu að vera fyndið vegna þess að þarna var karlmaður í kjól.

Og þá að handritinu sjálfu.

Það er alveg ljóst að styrkleiki Jóns felst í að búa til athyglisverðar persónur. Honum tekst það sannarlega í þessu verki. Svenni, sem Hallgrímur leikur er frábær. Nasistinn, sem Þorsteinn Gunnarsson leikur, er vígalegur að sjá og á sama tíma brjóstumkennanlegur. Það er völlur á honum þar sem hann spígsporar um sviðið vopnaður tveimur þýskum fjárhundum. Gervið var ógnandi, sem kemur svo sem ekkert á óvart þegar nasisminn á í hlut. Fyrirfram hélt ég að nasistinn yrði þreyttari persóna en svefnsýki, enda ekki beinlínis nýtt að gera grína að nasistum.

Persóna Sigga litla, sem Dóra leikur vel, er nákvæmlega jafn óþolandi og hún er geðsjúk, og verður um leið eftirminnileg. Samspil Sigga litla við föður sinn, sem Bergur Þór leikur, er á stundum nístandi óþægilegt. Þar má finna ofboðslega þrúgandi ofbeldi sem skýrist væntanlega af því að Siggi litli er ekki sá sem maður raunverulega heldur að hann sé. Ofbeldið þeirra á milli er í raun óskiljanlegt þar sem persóna Bergs tekur annarsvegar þátt í geðsjúkri blekkingu sonar síns, en beitir hann hörðu andlegu ofbeldi þegar sá sami viðrar barnslegt hugmyndaflug sitt. En kannski var það hluti af súrraelismanum, að taka þátt í einni blekkingu en hafna þeirri næstu án þess að þar væri rökrétta skýringu að finna.

Sagan er endasleppt. Í fyrri hluta verksins er keyrt á þessum litríku persónum, og það virkar lengi vel. Eftir hlé heldur grínið áfram, höktir í sömu hjólförunum og verður vægast sagt fyrirsjáanlegt – þreytt er kannski orðið yfir það.

Verkið sem slíkt er ekki algalið þó persónugalleríið sé það.

Til þess að búa til einhverskonar atburðarrás umbreytist Siggi litli með farsakenndum hætti í furðulega persónu til þess að knýja atburðarrásina af stað. Úr verða réttarhöld yfir nasistanum léttlynda sem finnur andlega tengingu við misheppnaða heimspekinginn Svenna. Og það er ljóst að réttarhöldin eru ákveðin skírskotun í íslenska hrunið – þar sem enginn er ábyrgur. Því samfélagið er lítið. Eins og fyrr segir í rýninni sitja vinir og kunningjar í öllum sætum þegar dæmt er í málinu á Hótel Volkswagen. Niðurstaðan er fyrirsjáanleg; jafnvel sá sem er ábyrgur fyrir dauða 30 þúsund manns, eða meira, er ekki sekur í slíku samfélagi. Og það sem verra er, þetta samfélag er reiðubúið til þess að umbera skrímslið og jafnvel taka þátt í sjálfsréttlætingum þess á eigin myrkraverkum.

Þess ber reyndar að geta að Jón lauk við verkið sumarið 2011. Það er að segja talsvert fyrir Landsdóm. En verkið gæti engu að síður virkað sem hárbeitt gagnrýni á allt það stórfurðulega ferli.

Þessi skarpa gagnrýni drukknar í gríninu. Í snarbiluðum persónum. Í föður sem hótar sífellt sjálfsmorði þegar sonurinn sakar hann um að vera slæmur faðir. Í drykkfelldum klæðskiptingi sem skilur ekki að hann sé ekki með eggjastokka. Í brjáluðum nasista með skýrt markmið.

Grínið er ófrumlegt. Eiríkur Guðmundsson, rithöfundur og útvarpsmaður, skrifar bráðskemmtilega hugleiðingu um verkið í leikskránni. Þar talar hann um að þarna sé gert grín að því sem ekki má gera grín að. Hann nefnir í því samhengi samkynhneigð, barnagirnd og útrýmingarbúðir. En vandinn er þessi; það er margbúið að gera grín að útrýmingabúðum, samkynheigð/klæðskiptingum og barnagirnd.

Benedikt Erlingsson, sem leikstýrir verkinu með styrkri hönd, segir í leikskránni, að hann búist allt eins við að einhverjir gangi út vegna grínsins. Það er rangt metið. Íslendingar tengja ekki við helförina á sama máta og mið-Evrópubúar.

Og sá enginn Happiness þar sem gert var grín að barnagirnd?

Svartur húmor Jóns bitnar á nasistum og ræflum. Á samkynhneigðum og geðsjúkum. Er það ekki hópur sem hefur hingað til þótt nokkuð óhætt að grín að?

Verkið býr yfir skemmtilegu persónugalleríi. Hallgrímur beinlínis neglir hótelstjórann. En handritið er endasleppt. Hótel Volkswagen höktir letilega í þriðja gír og kemst upp með það. Afþreyingagildið er ótvírætt. En má ég frekar biðja um Benz.

Valur Grettisson

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s