Einstök sýning

Þegar nöfnurnar Alice og Alice kyssast óvænt á markaðnum í Dublin er þeim báðum dálítið brugðið. Þrátt fyrir að hafa eytt lunga ævi sinnar í sambúð, komnar hátt á sjötugsaldur, þá kyssast þær ekki á almannafæri. Þær vilja nefnilega ekki sjást. Þegar þær telja sig öruggar kemur leikstjóri að tali við þær og tilkynnir að hún hafi orðið vitni af kossinum. Leikstjórinn býður þeim að hitta sig vikulega og greina frá lífi sínu, helst þessu hversdagslega. Alice Slattery, þessi áræðna, tekur boðinu, hin er efins en lætur til leiðast að lokum.
Afrakstur þessara samtala við leikstjórann er heimildarleikhús sem óhætt er að segja að hafi slegið í gegn allstaðar þar sem það hefur verið sýnt. Verkið var flutt á leiklistarhátíð Lókal á föstudagskvöldinu en sýningin fór fram í Hafnarhúsinu.
Það sem verður að bæta við er að verkið er í raun leikrit og er skrifað af Amy Conroy. Verkið var fyrst flutt í Írlandi fyrir tveimur árum síðan. Amy leikur einnig annað hlutverk sýningarinnar en mótleikkona hennar Clare Barrett hefur verið verðlaunuð fyrir leik sinn í verkinu.
Amy vildi að áhorfendur fengu tilfinningu fyrir því að þarna færi raunverulegt fólk en ekki þjálfaðir leikarar. Því setur hún verkið upp eins og heimildarleikhús.
Þrátt fyrir að það séu sannarlega leikkonur sem fara með hlutverkin, þá er fátt sem minnir á það. Áhrifaríkasta aðferðin er sú að konurnar hækka aldrei róminn heldur var búið að líma lítinn hljóðnema framan á þær.
Persónurnar tvær eru augljóslega óvanar sviðsframkomu þegar þær ganga inn á sviðið. Þær standa á sitthvorum enda sviðsins og telja í sig kjark, þylja möntrur; áhorfendur eru vinir þínir. Ekki örvænta. Ef þú gleymir textanum, horfðu á kortið á bak við þig.
Umgjörð sýningarinnar er einföld. Á miðju sviðinu er eldhúsborð. Öðru megin er plötuspilari, hinumegin er bollastell. Alísunar eiga hlutina, þeir láta þeim líða vel. Á svörtum veggjunum eru myndir, póstkort og stórt spjald með nokkurskonar samræðupunktum sem þær fara yfir í verkinu.
Eftir nokkra stund hefja þessar tvær eldri frúr að þylja upp líf sitt. Hvernig þær kynntust. Fyrstu lesbísku reynslunni. Þegar samband þeirra molnaði næstum vegna framhjáhalds. Hvernig alvarleg veikindi styrktu samband þeirra aftur. Hvernig þær hafa þurft að lifa í felum alla tíð. Þangað til núna.
Sýningin er ótrúlega hlý. Ljúfsár saga kvennanna er algjörlega heillandi. Hún er allt í senn sprenghlægileg og sorgleg; umfram allt hjartahlý.
Á sama tíma og Alísurnar útskýra fyrir áhorfenduna að þær geti rifist um einföldustu hluti gengur bakki á milli áhorfenda með smákökum á. Önnur Alísan réttir bæði bakkann og ljósmynd fram í salinn svo áhorfendur geti virti fyrir sér myndina og gætt sér á kökunum á meðan. Og kökurnar voru góðar ef þið eruð að velta því fyrir ykkur.
Ég veit satt að segja ekki hvernig best er að lýsa þessu verki. Líklega er skásta leiðin sú að lýsa andrúmsloftinu í salnum á meðan Alísurnar töluðu um líf sín. Ég heyrði fólk snökta, taka andköf, jafnvel hvísla “nei” í örvæntingu sinni. Það var tiltölulega bjart í salnum og þar sem ég sat aftast þá gat ég séð alla gestina. Og það var athyglisvert að fylgjast með pörunum. Þrjú pör (eitt lesbískt) héldu utan um hvort annað þegar leið á sýninguna. Eitt parið horfði brosandi í augu hvors annars og konan strauk manninum um vangann, líkt og tilfinningarnar sem leikararnir lýstu, vektu upp ljúfar minningu hjá þeim sjálfum. Um stund hvarflaði að mér að taka utan um bláókunnuga konuna sem sat við hliðina á mér. Líklega hugsaði hún það sama. Stemmningin var einhvernveginn þannig.
Undir lok sýningarinnar gat maður varla hætt að brosa og kveið satt að segja fyrir endanum.
I (Heart) Alice (Heart) I er einstök sýning. Ein af þessum sem maður sér á nokkurra ára fresti. Leikhúsunnendur mega vera þakklátir frábæru framtaki skipuleggjanda Lókal hátíðarinnar, sem fluttu þessa einstöku sýningu til landsins.

Valur Grettisson

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s