Gestirnir kortlagðir

Ljósmynd tekin af heimasíðu mindgroup
Leikhúshópurinn Mindgroup er líklega orðinn flestum kunnur. Á s.l. leikári gerði hópurinn verkið Zombíljóðin í Borgarleikhúsinu en nú setti hluti hópsins upp verkið Map of the World á alþjóðlegu leiklistarhátíðinni Lókal. Í þetta skiptið samanstóð hópurinn af leikstjóranum Jóni Páli Eyjólfssyni, skáldinu Jóni Atla Jónassyni, Bryndísi Björgvinsdóttur, þjóðfræðingi og barnabókahöfundi, og svo Aude Busson sem útskrifaðist nýverið úr leiklistarfræði og framkvæmd frá LHÍ.
Hópurinn hefur hingað til farið óhefðbundnar leiðir í nálgun sinni á leikhús. Hér var engin breyting á.
Sýningin, eða leikurinn, fór fram í Nýlistarsafninu við Skúlagötu. Rýmið var tómt en í enda þess var stafli af stólum sem gestir sóttu sjálfir og komu sér fyrir í salnum.
Í raun er verkið leikur. Nokkurskonar spil. Í fyrstu var kosið um nokkrar tillögur gesta um hvar kortið ætti að vera. Niðurstaðan var sú að lokum að það ætti að vera á gólfinu. Sjálfur kaus ég með tillögunni um að það ætti að vera í loftinu. Sú hugmynd fékk tvö atkvæði.
Gestum var síðan tilkynnt að þeir ættu að teikna upp kort af heiminum. Raunar benti einn áhorfandi á að hann gerði greinarmun á heiminum og jörðinni, því kom Jón Atli með þá ágætu tillögu um að kortið væri af jörðinni/heiminum.
Samkvæmt viðtali við Jón Atla og Jón Pál í Víðsjá áttu áhorfendur í upphafi að fylgja ströngum reglum um hvernig teiknað væri á kortið. Það var augljóslega búið að falla frá því stranga leikjaformi sem  var lagt upp með á sunnudagskvöldinu þegar ég sá sýninguna. Jón Páll útskýrði ástæðuna að hluta til með því að á föstudaginn, þegar verkið var frumsýnt, hafi áhorfendur verið mjög andsnúnir fyrirkomulaginu og úr varð frekar frústreruð kortagerð.
Leikreglurnar voru því afar frjálsar. Þeir sem vildu máttu teikna á kortið, Jón Páll bað áhorfendur um að teikna stað á kortið sem fyllti þá einhverskonar ró eða angurværð. Og ýmislegt komst á kortið. Fólk teiknaði staði í heiminum þar sem því leið vel á. Ein kona teiknaði sólarupprásina í Kjós á meðan aðrir skrifuðu að þeir ættu eftir að finna þennan stað.
Töluvert samtal var á milli gesta/kortagerðamanna og svo leikstjórnenda. Þannig áttu sér til að mynda stað samræðurnar milli reynds leikhúsfólks (sem var á meðal áhorfenda) og stjórnenda. Þá runnu næstum tvær grímur á mig þegar hið lýðræðislega fyrirkomulag var orðið mjög ráðandi en sjálfur sat ég við hlið fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Einstaklings sem kann kannski frekar að fá sínu fram með lýðræðislegum aðferðum en við hin.
Ráðherrann fylgdist þó vel með á hliðarlínunni en endaði raunar á því að búa til nýja vídd við kortið þar sem hann teiknaði öll stjörnumerkin (ljón, vog, naut og svo framvegis) og hengdi upp á snúru. Það er ákveðið afrek að muna hvernig öll stjörnumerkin líta út, sem gaf mér nýja sýn á þennan ágæta ráðherra, sem hefur ekki tekið þátt í stjórnmálum í nokkur ár.
Á móti teiknaði landsfrægur leikari svarthol og hengdi á vegg hinumegin í salnum. Ekki galnara en hvað annað.
Kortagerð er nákvæmnisvinna sem lítið fór fyrir í þessu verki. Gestir teiknuðu heiminn út frá sínu eigin hjarta. Auk persónulegu staðanna mátti finna húsið hans Fróða Bilbós úr Hringadróttinssögu, borgirnar New York, Tókýó og London. Og svo Eyrabakka.
Þegar leið á sýninguna fann ein útlensk kona sig knúna til þess að teikna Egyptaland, þar sem hún starfaði, og átökin þar í landi. Í ljósi þess að hún kunni ekki að teikna óskaði hún eftir aðstoð teiknara, sem hún og fékk. Síðar átti Afríka eftir að komast á kortið ásamt sóvéska gúlaginu og Norður-Kóreu.
Kortið varð sem sagt pólitískara eftir því sem leið á kvöldið. Eðlilega. Landakort eru pólitísk í eðli sínu. Þannig skiptum við upp heilu löndunum, samanber Afríku, samanber Þýskalandi eftir heimstyrjöld. Þó kortagerð sé nákvæmnisvinna sem á að endurspegla nákvæma mynd af veröldinni þá fangar það ekki ástfangið par að kyssast í Tókýó, átök í Sýrlandi eða hungursneyð í Darfúr.
Heimsmynd áhorfandanna var jákvæð – útópísk. Þetta var veröld sem ég hefði viljað búa í.
Það er einnig heillandi að sjá 50 einstaklinga í salnum þetta kvöld koma sér saman um heimsmyndd. En  ekki var auðvelt að komast að slíkri niðurstöðu. Einn gestanna sem ég ræddi við sagði kvöldið hafa sannað endanlega fyrir sér að beint lýðræði væri meingallað fyrirbæri.
“Hugsaðu þér ef þetta væri deiluskipulag í Reykjavík,” sagði gesturinn hlæjandi og benti á kortið.
Tilraunin var engu að síður athyglisverð. Hún dýpkaði ekki skilning minn á kortagerð eða legu jarðarinnar (í landafræðilegum skilningi). En hún afhjúpaði fólkið í kringum mig. Því auðvitað voru það gestirnir sjálfir sem voru kortlagðir þetta kvöld en ekki heimurinn sem slíkur. 
Valur Grettisson
Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s