Af martröðum og kristilegum kærleik


Írski leikhópurinn Brokentalkers flutti verk sitt, Blue Boy, í Tjarnarbíói á laugardag og sunnudag á leiklistarhátíðinni Lókal. Verkið hefur óhugnanlega skírskotun í íslenskan veruleika en þar segir frá hryllilegu ofbeldi sem heilu kynslóðirnar urðu fyrir á kaþólskum munaðarleysingjaheimilum eftir að Írland fékk sjálfstæði á fimmta áratug síðustu aldar.


Landið var svo fátækt að það þáði fegins hendi aðstoð kirkjunnar sem tók að sér munaðarlaus börn. Auðvitað héldu allir að börnin myndu alast upp við gott atlæti kirkjunnar sem var óumdeild stofnun í samfélaginu á þeim tíma. Raunin var önnur. Börn voru beitt hryllilegu ofbeldi, þeim var þrælað út, svelt, misnotuð kynferðislega og námið var til málamynda. 
Hljómar kunnuglega, ekki satt? 

Það var ekki fyrr en árið 2009 sem skýrslan Ryan-skýrslan leit dagsins ljós. Þá hafði nefnd unnið að því í tíu ár að rannsaka vist írskra barna, sem nú eru á fullorðinsaldri, á munaðarleysingjahælum kirkjunnar.

Skýrslan varpaði ljósi á eitthvert viðustyggilegasta ofbeldi sem hefur viðgengist kerfisbundið gegn börnum í hinum vestræna heimi.

Leiksýningin Blue Boy fjallar um þessa erfiðu sögu. 


Annar leikstjóri verksins, Gary Keegan, er nokkurskonar sögumaður. Hann var hversdagslega klæddur á sviðinu og byrjaði leikritið á því að segja sögu afa síns, sem var útfarastjóri. Hann var oft kallaður að munaðarleysingjahælinu og grunnskólanum Artane þar sem hann fann stundum óútskýrða áverka á börnum þegar hann mældi lengd og ummál líkama þeirra svo hann gæti smíðað líkkistur fyrir þau.

Á sviðinu var hvítt tjald sem Gary notaði til þess að varpa myndskeiðum og oft heilu viðtölunum við fólk sem hafði dvalið í skólanum.

Þegar lýsingin breyttist sá maður svið á bak við tjaldið þar sem dansarar með afmynduð andlit túlkuðu vítisvist barnanna í köldum faðmi kirkjunnar.

Og það er óhætt að segja að túlkun dansaranna var allt í senn hrollvekjandi og heillandi.

Verkið dregur nafn sitt af draugasögu um ungan dreng sem fannst látinn í skólanum. Ekki er ljóst hvernig dauða hans bar að. Sumir vildu meina að viðurnefnið blái drengurinn væri tilkomið vegna einkennisbúnings skólans, sem er blár. Aðrir vildu meina að hann hefði verið læstur inni í ísskaldri hlöðu yfir nótt í refsingarskyni og fundist látinn daginn eftir. Allavega er dauði bláa drengsins enn ráðgáta og vinsæl draugasaga á meðal drengja sem bjuggu í eða nærri skólanum.

Leikritið Blue Boy verður líklega skilgreint sem heimildarleikhús, þó hrollvekja sé raunar réttnefni yfir það.

Ofbeldinu eru gerð góð skil, meðal annars er bútur úr Ryan-skýrslunni spilaður fyrir áhorfendur. Gary biður áhorfendur um að hafa í huga að þar er verið að tala um börn. Ég neita því ekki, mér leið beinlínis illa þegar ég hlustaði á lýsingar af kristilegu ofbeldinu sem börnin voru beitt.
Það sló mig hversu grimmir þjónar guðs virðast hafa verið. Börnin máttu þola ótta við að vera beitt ofbeldi af hvaða starfsmanni sem var, hvenær sem var og oft af litlum eða engum ástæðum. Sum barnanna minntust sumra starfsmanna með hlýju. Það var ekki vegna þess að þeir sýndu þeim einhverskonar vott af væntumþykju, heldur vegna þess að þeir létu það vera að misþyrma þeim. 

Börnin túlkuðu þetta sem velvild í sinn garð.

Kona sem rætt var við í verkinu sagði að henni hefði fundist verst að sjá þjóna guðs beita yngstu börnin ofbeldi þegar hún var orðin ögn eldri. Þá erum við að tala um börn allt niður í fjögurra ára gömul. Hún sagðist muna hversu sársaukafullt ofbeldið var þegar hún var sjálf beitt því á unga aldri, því barn skilur ekki af hverju verið er að ganga í skrokk á því.

Mörgum miðlum er steypt saman í verkinu. Tónlistin var spiluð á staðnum, meðal annars af einum dansaranum. Þá var viðtalsbútur við tónlistarstjóra Artane-skólahljómsveitina úr írskum skemmtiþætti sýnt. Það var hrollvekjandi að horfa á það, ekki síst vegna þess að sá maður er sagður hafa beitt piltana í hljómsveitinni miklu ofbeldi.
Áhrif sýningarinnar eru sterk. Efninu var komið vel til skila og það hafði, eins og fyrr sagði, ógnvekjandi skírskotun í íslenskan veruleika. Því á sama tíma og það mátti finna helvíti í kaþólskum kirkjum Írlands, var verið að misþyrma íslenskum börnum í Breiðavík. 

Enn á eftir að segja þá martraðakenndu og einkennilegu sögu á leiksviði hér á landi. Það væri satt að segja forvitnilegt að sjá það, ef einhverjir hugrakkir listamenn þora að takast á við verkefnið.

Valur Grettisson
Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s