Hamingjan sko…

Á sviðinu er upphækkaður pallur til hægri, frá áhorfendum séð. Á honum stendur ung kona í svörtum kjól og borðar íspinna. Hún tekur inn áhorfendur þegar þeir taka sér sæti, hver og einn með bolla með sætu poppi í. Hún segir hitt og þetta við áhorfendur: „Flottir skór,“ „Gaman að sjá þig“ og brosir. Hurðin lokast og ungur maður með hár sem stendur upp í loft, í svartri skyrtu og svörtum buxum, en með kóngablá axlarbönd, kemur inn og kynnir sig. Hann heitir Chris, hún heitir Jess og það eru allir aðrir farnir á djammið, dottnir í það. Nema þau og við sem sitjum í salnum. En það er allt í lagi. Þau vona að við séum hamingjusöm. Virkilega. Sjálf eru þau þunglynd, heltekin af hugmyndum um hamfarir og hörmungar. Þau eru sorgmædd. Sem þýðir auðvitað að þau eru hamingjusöm. 

TRAILER: http://vimeo.com/30445708
We Hope That You‘re Happy (Why Would We Lie?) eftir Made in China er ljúfsár upplifun. Margt af því sem parið segir okkur er fyndið, fallegt, einlægt jafnvel. Þau eru bestu vinir. Þau héldu einu sinni að þau væru eins, jafnvel sama manneskjan. En svo fóru þau í lautarferð. Og alltaf síðan, þegar þau ætla að fara í lautarferð, verða þau vitni að einhverju hræðilegu; flóðbylgju í Thailandi, hryðjuverkum í London og New York. Þau sem ætluðu í þessa dýrindis lautarferð.
Því meira sem þau segja okkur af upplifun sinni af heiminum því ömurlegri verða dansdúettar þeirra undir diskókúlu, bjórarnir sem þau þamba, ísarnir sem þau troða í sig. Upp er dregin, áreynslulaust að manni virðist, ótrúlega lúmsk en stingandi mynd af nútímamanninum, óhófsömum alsnægtarsegg sem getur ekki fyrir sitt litla líf fundið hamingjuna. Það er svo mikið betra að einbeita sér að því vonda í lífinu, það gefur eitthvað svo undarlega fullnægju að lifa allar þessar hörmungar af.
Uppbygging sýningarinnar er þannig að þó hún sé sett upp sem samtal þeirra á sviðinu við okkur í salnum er handritið engu að síður niðurneglt í endurtekningum og áhrif áhorfenda lítil sem engin. Endurtekningarnar innan verksins verða brotakenndari og brotakenndari þegar á líður og í samræmi við hversu mikið er gefið upp um raunverulega heimsýn vinanna á sviðinu. Titillinn We Hope That You Are Happy (Why Would We Lie?) er í sama mund fullkomin lýsing á innihaldi sýningarinnar. Þau vonast innilega til þess að við séum hamingjusöm, en á sama tíma hafa þau stungið inn lyginni, vísvitandi, til þess að áhorfandinn geti áhyggjulaust efast um hverja einustu setningu sem þau segja. Sjálf draga þau sannindi þess sem þau segja í efa. En af hverju ættu þau að ljúga? Þannig spila þau á mjög einfaldan hátt á samband sitt við áhorfendur.
Það er skemmst frá því að segja að sýningin gengur upp í alla staði. Endurtekningarnar eru aldrei ástæðulausar, átið á íspinnunum, dansinn, bjórdrykkjan eru öll tilkomin af dramatúrgískum ástæðum sem verða áhorfendum ljósar á meðan sýningunni líður og eru ekki leifar spuna eins og stundum verður með samsettar sýningar. Handritið er fagmannlega uppbyggt, framkoma leikaranna hrífandi og boðskapurinn, ef boðskap mætti kalla, þarfur og skýr. Hamingjan liggur kannski í ljótleikanum, hvers vegna ekki?
Fylgjast má með Made in China hér: http://www.madeinchinatheatre.com/

Kolbrún Björt Sigfúsdóttir

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s