Sjónvarpssöfnun fyrir Afríku. Fyrst sem tragedía svo farsi.


 Ég var einn þeirra sem horfði á söfnun til handa Unicef á Stöð 2 síðastliðið föstudagskvöld. Ég ætla ekki að fara út í langar útskýringar á því hvað mér finnst um ástandið í Afríku eða þá staðreynd að börn þar deyja úr hungri og eru hneppt í þrældóm, vændi og sjálfsagt fleira sem mig skortir ímyndunarafl til að fara nánar út í. Það er í einu orði skelfilegt. Eins er ég þeirrar skoðunnar að allir menn séu bræður og beri að hjálpa hvor öðrum. Þá er það frá.

Það vöknuðu margar spurningar í huga mér þegar ég horfði á sjónvarpssöfnunina á föstudagskvöldið. Í fyrsta lagi hef ég vissar efasemdir varðandi dagskránna sem var í boði. Að klippa saman myndskeið af börnum sem eru að svelta í hel við hressandi uppistand í sjónvarpssal. Ég barðist við að reyna að skilja hvernig mér ætti að líða. Hvort ég ætti að hlæja og gráta á víxl? Ég veit það ekki. Ég gerði reyndar hvorugt.  Eitt af atriðunum sem var boðið upp á var sms happdrætti þar sem maður sendi sms með orðinu barn í gjaldtökunúmer og átti þar með möguleika á því að vinna ýmsa vinninga. Meðal annars tveggja vikna ferð til Costa del Sol á fjögurra stjörnu hóteli. Ég tók þátt í því en dauðsá svo náttúrulega eftir því. Ég gat ekki hugsað mér að vinna. Ég hefði ekki getið hrist af mér þá hugsun niðri á Costa Del Sol að það hefði í raun verið fyrir tilstilli sveltandi barna í Afríku að ég sæti við sundlaugarbakkann á lúxushóteli. Ég veit það ekki. Kannski er Spánn ennþá of nálægt Afríku. Eins skyldi ég ekki söngatriði nokkurra íslenskra leikara sem voru klæddir í afrískar batíkmussur og sveifluðu svartri smábarnadúkku. Ekki veit ég hvað stjörf og líflaus dúkkan átti að tákna. Kannski öll börnin sem hafa dáið úr hungri í Afríku? Reyndar var manni leiðbeint í gegnum þessa furðulegu atburðarás í sjónvarpssal af kynnum kvöldsins. Sem voru ýmist sorgmæddir í framan eða brosandi. Allt eftir þvi hvort um tragedíu eða farsa var að ræða. Ein þeirra sem kynnti dagskránna hefur getið sér gott orð fyrir matreiðsluþætti á Stöð 2. Hún fræddi áhorfendur á því að fyrir tvö þúsund króna framlag væri hægt að kaupa ein fjörutíu hnetusmjörsstykki, sem eru einstaklega næringarrík og hafa bjargað óteljandi mannslífum. Ég bjóst allt eins við því að hún gæfi okkur uppskrift að hnetusmjörsmúffum eða einhverju álíka bakkelsi. Það hefði alls ekki verið úr takti við það sem á undan var gengið. Önnur spurning sem vaknaði hjá mér við að horfa á söfnunina var sú hvort við myndum nenna að horfa á þáttinn ef það væri enginn farsi? Bara tragedía? Sennilega ekki.  Best tókst upp þegar trúðurinn Barbara, Páll Óskar og Mugison sungu fyrir börn á Haítí og íslensk börn sungu með. Þar var maður áminntur um hið sammannlega. Trúðurinn var sá eini sem bar kennsl á það. Þar vöknuðu ekki óþægilegar spurningar á borð við það hvort Bergur Ebbi hefði verið fyndnari en Ari Eldjárn. Eða hvort Mugison hafi sungið betur en  Páll Óskar. Og hvort dýfingarkeppnin í Sundhöllinni hafi verið of löng og leiðinleg eða bara skemmtilega flippuð. En má maður spyrja að því þegar börn eru að deyja um allan heim?  Helgar tilgangurinn ekki meðalið? Ég veit það ekki. Kannski erum við orðin svona ferlega dofin. Að við nennum ekki til dæmis ekki að horfa á umfjöllum um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum í Kastljósinu án þess að fá lag með Skítamóral í kjölfarið. Ég er ekki að efast um heilindi þeirra sem taka þátt í svona sjónvarpsþætti. Ég er ekki að efast um góðan ásetning þeirra og vilja til að breyta heiminum. En ég set fyrirvara við atlöguna. Mér finnst hún ýja að því að við þurfum einhvers konar gulrót. Hæfilega blandaðan kokteil af tragedíu og farsa. Ég veit ekki með ykkur en mér svelgdist dálítið á honum.

Jón Atli Jónasson

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s