Hrollvekjandi Macbeth

Það er sagt að bölvun fylgi leikritinu Macbeth, og ekki að ósekju. Valdafíkn og blóðug sturlun einkenna þetta myrkasta og öflugasta drama sem William Shakespeare skrifaði snemma á sautjándu öldinni. Fleiri en einn leikari hafa látið lífið við uppsetningu þess í gegnum tíðina. Sagan segir að galdraþulur sem nornirnar þrjár fara með í verkinu hafi verið raunverulegar, því hafi nornir lagt bölvun á verkið vegna hroka leikskáldsins.
Breski leikarinn Michael York þóttist hafa fundið upp á móteitri við þessari skæðu bölvun, sem var að rjúka út strax og einhver sagði nafn Macbeth, ganga í kringum leikhúsið, hrækja yfir vinstri öxlina, bölva hraustlega og bíða þess að vera boðið inn í húsið á ný.

Til þess að spara sér ferðina talar leikhúsfólk aðeins um skoska leikritið af ótta við bölvunina. Það er líklega betra að hafa varann á.

Björn Thors í hlutverki Macbeth. Mynd-Þjóðleikhúsið.

Banvænn spádómur

Leikritið, í leikstjórn ástralska leikstjórans Benedict Andrews, segir sögu Macbeth (Björn Thors) sem hittir fyrir þrjár ófrýnilegar örlaganornir (Atli Rafn Sigurðarson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir) sem spá því að hann verði konungur einn daginn. Þær veita félaga hans, Bankó (Hilmir Snær Guðnason), besta félaga Macbeth, minni athygli, en svara því þó að börn hans muni verða konungar. Sá spádómur verður seinna hans banabiti.
Þessi sérkennilegi spádómur, sem virðist fjarlægur í fyrstu, verður innan seilingar eftir að í ljós kemur að næstráðandi konungs, jarlinn Kafdor, hefur aðstoðað innrásarheri Írlands og Noregs, sem tapa fyrir vöskum Skotum í blóðugri orustu. Sjálfur geldur jarlinn fyrir með lífi sínu og tignin erfist til Macbeth. Það eina sem Macbeth þarf að gera nú, er að myrða konung Skotlands (Pálma Gestsson) – þá verða völdin hans.

En auðvitað er það eins og með flesta karlmenn; þeir þurfa góða konu til þess að verða að mikilmennum. Lafði Macbeth (Margrét Vilhjálmsdóttir) vökvar örlítið fræ í hjarta Macbeth – hvetur hann til þess að myrða konung – og þannig hrifsa til sín völdin. Úr verður kolsvart illgresi og myrkraverkið dregur blóðugan dilk á eftir sér.

Ofbeldið einangrað
Þegar gestir setjast inn í sal Þjóðleikhússins, þar sem verkið var frumsýnt á öðrum í jólum, er þá þegar ljóst að ástralski leikstjórinn ætlar ekki að fara að bjóða áhorfendum upp á steingelt riddaradrama í bundnu máli. Verkinu er fundinn staður í samtímanum, en á óræðum stað, sem á þó að vera Skotland. Raunar ættu áhorfendur að vera kunnugir Andrews, sem setti upp Lér Konung síðustu jól, með óhefðbundnum, en eftirminnilegum hætti.
Börkur Jónsson sér um einfalda leikmyndina. Hún er kubbslaga, þakin ljósbrúnum spónarplötum frá lofti til gólfs. Rýmið er galtómt fyrir utan að á suðurenda veggsins er stofnanlegur málmvaskur, sápuskammtari og handþurrkur í glærum hólki líkt og maður finnur á almenningsklósettum. Rýmið vekur nokkur hughrif. Þau fyrstu sem mér datt í hug var bólstraður klefi á geðveikrahæli. Einmannaleiki og einangrun koma einnig upp í hugann. Andrúmsloftið er kalt og ópersónulegt.
Í loftinu eru ljós sem breyta rýminum með afgerandi hætti. Þess má reyndar geta að blikkljós sýningarinnar munu að öllum líkindum kalla fram eitt flogakast áður en yfir líkur. Ljósunum stjórnar Halldór Örn Óskarsson og gerir vel.
Þegar áhorfendur halda að sviðsmyndin sé algjörlega ferköntuð opnast botnin á sviðinu, og í ljós kemur meðal annars svefnherbergi feigs manns og ljóðrænn hryllingur matarboðs, sem ber ekkert í skauti sér, annað en andlega hnignun Macbeth. Þetta allt saman er vel heppnað. Börkur nær enn og einu sinni að fanga allt það sem verður ekki fangað með orðum í leikmynd sinni. 
Á stundum stóð ég beinlínis á öndinni, þá sérstaklega í þeirri sterku mynd þegar ljósin slökkna og Margrét – Lafði Macbeth – skríður upp á matarborðið í fallegum kvöldkjól undir ágengum hljóðheimi Kristins Gauta Einarsson og Oren Ambarchi, og tendrar kertin á sama tíma og borðinu er rúllað löturhægt inn á mitt sviðið. Raunar er öll sú sena gríðarlega sterk.
Ferskir straumar
Það verður að segjast eins og er að samspil hljóðs, leikmyndar og lýsingar – eins og þær koma fyrir í þessu verki – eru fáséðar (og heyrðar) – hér á landi. Það er ekkert heilagt. Nútímatónlist, aggresívt rapp í bland við rokk og ról fá að hljóma, auk dramatísks hljóðheimsins, sem er óspart spilaður undir einræðum eða samtölum, án þess þó nokkurntímann að vera truflandi. Allt þetta magnar upp textann og persónur og merkingu. En er fyrst og fremst magnar þetta upp kitsch-aða stemmningu verksins sem þarf að feta í fótspor þúsundir uppsetninga leikritins í gegnum tíðina.
Búningar sýningarinnar, sem voru í höndum Helgu I. Stefánsdóttur, eru athyglisverðir. Þannig er Pálmi í hlutverki konungs klæddur í rauða Helly Hansen úlpu sem minnir frekar á skandinavískan konung í nútímanum. Macbeth og félagar eru klæddir í nútímaherbúninga og brynjan er skothelt vesti. Launmorðingjar eru klæddir í Iron Maiden boli og adidas-galla að hætti íslenska smáglæpamannsins étandi skyndibita. Þessi aðlögun er áhrifarík og krefst þess af áhorfandanum að finna sögunni stað í nútímanum. 
Hætta á vinnuslysi
Burðarhlutverk sýningarinnar eru í raun ekki mörg. Það mæðir mest á Birni, Margréti og Hilmi Snæ. Auðvitað standa þau sig með sóma. Hilmir Snær er öflugur í hlutverki Bankó, sem horfir fram á þau hörmulegu örlög að verða myrtur vegna spádóms. Þegar persóna Hilmis snýr aftur sem blóðug sýn sturlaðs konungs, er hann ógnvekjandi og yfirþyrmandi. Hilmir má hafa sig allan við að skyggja ekki á Björn sjálfan.
Ólafía Hrönn Jónsdóttir stelur svo senunni eins og nær alltaf þegar hún birtist á sviði þessa dagana. Hún leikur grófan dyravörð sem ríður ýmist kynlífsdúkku eða skautar varfærnislega, en sprenghlægilega, yfir blóðugt sviðið þar sem hún lyftir meðal annars handlóðum. Blóðið er raunar svo mikið á sviðinu að það er nær ómögulegt að standa á því án þess að renna á rassinn. Það þarf enga örlaganorn til þess að spá vinnuslysi í Þjóðleikhúsinu innan skamms.
Aðrir standa sig ágætlega og börnin sem leika í sýningunni eru frábær.
Ég var reyndar sérstaklega hrifinn af grófri nálgun leikstjórans á örlaganornunum sem voru sviptar þessari mystísku rómantík og birtust okkur sem forljót skækja, sem Atli Rafn lék, starfsmaður kjörbúðar, sem Ólafía Hrönn lék, og hálf biluð pillukerling sem virtist nýútskrifuð af réttargeðdeildinni – sem fór raunar Guðrúnu Gísladóttur sérkennilega vel. Nálgunin er í raun ótrúlega lógísk, fyrst verkið er nútímavætt, á annað borð. Stendur ekki líka önnur hver húsmóðir á Íslandi í einhverskonar kukli, hvort sem það er reiki eða hvað þetta rugl heitir allt saman?
Tálkvendið Lafði Macbeth
Margrét Vilhjálmsdóttir gerir það mesta sem hún getur úr Lafði Macbeth. Hún vélar hikandi eiginmann sinn til þess að hrifsa til sín völdin með blóðugum hætti, og smitar þannig Macbeth af ofbeldisfullum valdavírus. Margrét tekst á við þessa persónu sem tálkvendi og gerir vel.
Einræða hennar, ein sú frægasta í leikhúsbókmenntunum – þar sem Lafði Macbeth ráfar um í svefnmóki og tekst á við alla þá djöfla sem umkringja þau hjónin – er þó ekki fullnægjandi. Atriðið er hrátt, leikstjórinn skrúfar augljóslega niður í öllum möguleikum leikhússins, sem hann nýtir þó til hins ýtrasta að öðru leyti, og leyfir Margréti að fara með þetta atriði – ómengað – ef svo má að orði komast.
Augnablikið var nístandi – því verður ekki neitað. En atriðið var engu að síður hráslagaralegt. Ég vildi ögn meira.
Margrét sýnir samt og sannar að hún er algjörlega mögnuð, kynþokkafull og stórhættuleg. Hennar besta stund var þegar myndavél og flatskjár voru notuð – og hún fór með einræðu undir teppi á miðju sviðinu. Atriðið smaug inn að beinum og sýndi þá endanlega að myndbandstæknin, sem notast var við í sýningunni, var vel heppnuð viðbót við þennan einmannalega heim blinds metnaðar.

Margréti tekst einnig það erfiða hlutverk að túlka einsemd og brjálsemi persónu sinnar með slíkri sannfæringu að hún afhjúpar raunverulegt eðli konungsins, sem er ekki að hann sé aðeins brjálaður, heldur lítilmenni að auki.

Hræddur eiginmaður
Björn Thors fær það erfiða hlutverk að túlka þennan sinnusjúka konung sem áður hafði heiður og heiðarleika að leiðarljósi. En það eru auðvitað örlög konunga að verða drepnir. Að vera steypt af stóli. Það veit Macbeth fullvel.
Björn tekst á við þessa áskorun með festu. Honum tekst að umbreyta persónunni úr heiðvirðum þjóni konungs, fullur af dáð og heiðarleika, í blóðþyrstan og metnaðarfullan mann sem svífst einskins til þess að viðhalda völdum sínum.
Ég verð að játa að ég var fullur efasemda til að byrja með. Það er eitthvað sérkennilega sakleysislegt við Björn sem leikara. Eitthvað við þetta tóma augnaráð, þessa rödd, sem virðist ekki uppfullt af valdi eða ógnum. Macbeth í fórum Björn virðist logandi hræddur. Allt sem hann gerir er knúið af sturluðum ótta við að missa völdin. Þessu kemur Björn ágætlega til skila. Ég hefði þó kosið dýpri túlkun á stundum. Eins fann maður fyrir einhverskonar ójafnvægi á milli Björns og Margrétar, líkt og þau næðu ekki fyllilega saman. En ekki misskilja mig, Björn var góður í sínu og olli engum vonbrigðum.

Leikstjóri með skýra sýn
Það er ljóst að Macbeth er leikstjórasýning. Andrews hefur svo skýra sýn á verkið að það gleypir allt annað nær lifandi. Nálgun Andrews sækir í hrollvekjur kvikmyndanna. Í viðtali í menningarþættinum Djöflaeyjan á Rúv fyrir jól sagði hann að hann liti á valdafíkn Macbeth og konu hans sem vírus. Svipaðan og þann sem heltekur uppvakninga í nútímalegri nálgunum leikstjóra á sköpunarverki Georg A. Romero. Andrews beintengir svo verkið við hrollvekjuformið þegar ættbogi konunga hríslast inn á sviðið með snjóhvít andlit og blóð í munnvikunum. Síðastur gengur Bankó alblóðugur inn á sviðið með spegil og þvingar konunginn til þess að horfa á sig sjálfan, og áhorfendur um leið, sem sitja á bak við hann.
Önnur athyglisverð tilvísun, sem ég þóttist sjá úr heimi hryllingsmyndanna, er hreyfing Margrétar þar sem hún liggur fáklædd á bakinu með spegil í fanginu í fyrri hluta verksins, skömmu áður en hún vélar eiginmann sinn til þess að hrifsa til sín völdin. Hún lyftir líkama sínum upp og gengur eins og könguló. Hreyfingin er sú frægasta úr alræmdustu hrollvekju samtímans, The Exorcist, sem fjallar um illvígan djöful sem tekur sér bólfestu í líkama ungrar stúlku. Í þessu tilviki var það hömluleysi valdafíknarinnar.
Spegillinn er notaður í báðum fyrrnefndum atriðum, annarsvegar þegar Macbeth horfist í augu við uppvakningana – áhorfendur – hinsvegar þegar djöfullinn virðist taka sér bólfestu í Lafði Macbeth.
Kannski er Andrews að reyna að segja okkur eitthvað.
Notkun leikstjórans á myndabandsupptökuvélinni er einnig athyglisverð. Þannig eru kaldrifjuð barnsmorð tekin upp og að lokum hrottaleg aftaka konungs, sem minnir satt að segja á aftökur Abu Musab al-Zarqawi sem var alræmdastur fyrir aftökur sínar í Íraksstríðinu, sem hann birti á netinu, um miðbik síðasta áratugar. Aftökuaðferð hans var sláandi lík þeirri sem áhorfendur Þjóðleikhússins horfðu upp á í lok sýningarinnar, þegar valdatíð Macbeth lauk og ættbogi hans þar með.
Í stuttu máli
Sýning Andrews er góð. Hún er djörf, áleitin og fyrst og fremst nútímaleg. Þarna er að eiga sér stað vísir að formbyltingu á stóra sviði Þjóðleikhússins sem hófst fyrir löngu í mið Evrópu og íslenskt leikhúsfólk ætti að vera búið að tileinka sér fyrir mörgum árum síðan. Hefðbundnar nálganir á verk eins og Macbeth – og verk Laxness – eiga ekki heima á stóru sviði Þjóðleikhússins. Og um það sama má segja um svo margar sýningar sem íslenskir leikstjórar eru enn að bera á borð fyrir íslenska leikhúsgesti. 
Stjarna sýningarinnar er Benedict Andrews sem tekst að virkja alla þá hæfileika sem finna má í Þjóðleikhúsinu og samstilla þá með þeim hætti að úr verður frábær leiksýning; þar sem minnsta tannhjól verður að virka – allt frá þeim sem býr til blóðið yfir í ljósamann – og svo má lengi telja.
Þegar ég kom út af sýningunni, þorði ég ekki öðru en að ganga þrjá hringi í kringum leikhúsið, hrækja yfir vinstri öxlina og blóta hraustlega. Vonandi verður mér boðið aftur inn. Sýningin var nefnilega kyngimögnuð.
Valur Grettisson.
Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s