Þokkaleg tilraun til þess að nýta tímann


Það eru gömul sannindi og ný að við sjáum ekki hlutina eins og þeir eru, heldur eins og við erum. Þetta er meðal þess sem Leifur Þór Þorvaldsson rannsakar í dansleikhúsverkinu Stundarbrot í Borgarleikhúsinu. Þar er tíminn rannsakaður út frá vísindalegu sjónarhorni. Svo virðist sem hver fruma líkamans endurnýji sig áður en yfir líkur. Þannig erum við ekki sama manneskjan og við vorum þegar við vorum börn. Bókstaflega.

Tíminn er athyglisvert rannsóknarefni í listum. Það er órætt, teygjanlegt og í raun óskiljanlegt að mörgu leyti þegar uppi er staðið. Líklega vegna þess við skynjum tímann og reynum að ná utan um hann með uppfinningu mannanna, sem er klukka. En það er engin klukka sem nær að fanga tímann. Ekki frekar en að við getum fangað vindinn í net.


Þversvögn

Það er hópurinn Sublima sem stendur að verkinu en í honum, auk Leifs, eru dansararnir  Ásrún Magnúsdóttir, Kara Hergils Valdimarsdóttir, Védís Kjartansdóttir og Þyrí Huld Árnadóttir.

Dansinn er hægur til að byrja með og endurtekningasamur. Fyrri hluti verksins liðast áfram með ofurhægum hreyfingum undir vel heppnaðri tónlist Lydíu Grétarsdóttur. Hreyfingarnar eru svo brotnar upp með texta sem dansarnir fara með. Þeir tala með vélrænum hætti, gjörsamlega sneiddum tilfinningum. Það er ljóst af textanum að Leifur nálgast tímann með vísindalegum hætti. Og nákvæmlega þar myndast einhverskonar þversögn í verkinu.

Það er nefnilega lagt upp með að tíminn sé órætt fyrirbæri sem verður ekki fangaður öðruvísi en með ógreinilegri skynjun Maðurinn upplifir ekki tímann út frá vísindum. Engu að síður nálgast Leifur tímann út frá vísindalegri skynjun heldur en tilfinningalegri.

Í raun er fátt í heiminum sem er gremjulegra fyrir manneskjuna en tíminn. Hann felur í sér dauða. Hann felur í sér augnablik sem við viljum endurupplifa, en fáum aldrei, vegna þess að miskunnarleysi tímans leyfir það ekki. Hann felur í sér líkamlegar takmarkanir og eftirsjá.

Dansarar verksins skila endurtekningu tímans, eins við skiljum hann, með góðum hætti. Áhrifaríkasta atriði verksins – og á sama tíma það atriði sem reynir hvað mest á þol áhorfandans – er þegar tveir dansarar endurtaka sama dansinn í langan tíma, alveg þar til þeir dansa í takt að lokum og verða samhliða í tíma og rúmi.

Fjórir verða átta

Sviðið er algjörlega strípað. Þar er ekkert nema ein hurð með Exit-merki fyrir ofan. Umhverfið er hráslagaralegt, tómlegt. Dansaranir eru svartklæddir til þess að auka á einfaldleikann.

Í fyrstu fór þetta nokkuð í taugarnar á mér. Mér fannst umhverfið of látlaust, hugmyndin of ógreinileg. Þegar líður á verkið þyngist róðurinn. Áhrifin verða töluverð þegar sviðið er loksins nýtt með ljósum. Einfaldleiki þessarar sniðugu lausnar breytir bókstaklega skynjun áhorfandans – því skyndilega verða dansaranir átta.

Skuggarnir dansa með og verða nær sjálfstæðar verur. Þessi útfærsla er sterkasta augnablik sýningarinnar.

Hinn síaukni hraði sem verður í verkinu nær þó ekki að yfirstíga hina sérkennilegu þversögn. Tíminn verður ekki fangaður með klukku. Vindurinn verður ekki veiddur í net. Samt sem áður nálgast Leifur hugmyndina út frá vísindalegri rökhyggju, reynir að veiða tímann með rökhyggjunni að vopni, eins og bersýnilega kemur fram í texta verksins.

Þar kemur meðal annars fram að hættuástand hugans hægir ekki á tímanum. Einstaklingurinn upplifir tímann út frá eigin aldri eins og þegar hann lítur á forseta Íslands eða Bandaríkjanna. Við upplifum ekki tímann eins og sessunautur okkar sem hefur hugsanlega séð sýninguna áður eins og einn dansarinn bendir okkur á með vélrænni túlkun.

Áhrifaríkt á köflum

Í raun eru vonbrigði mín frekar fólgin í þeim tækifærum sem misfórust í verkinu. Sem eru einfaldar sammannlegar tilfinningar sem verða tímanum að bráð og eru aldrei rannsakaðar. Mér er satt að segja sama um endurnýjun líkamans í fyllingu tímans. Hvernig ég skynja setu þjóðarleiðtoga. Það segir mér ekkert um fyrirbærið. En ég á æskuminningu sem ég myndi gera mikið fyrir að endurheimta. Æskuást sem ég vildi að ég hefði haldið í.

Föður sem ég vildi að ég hefði eytt meiri tíma með.

Framkvæmdin er þó góð. Hægagangurinn í fyrrihluta verksins eykur verulega á vel heppnaðan seinni hluta verksins. Dansarnir eru góðir og tónlistin er frábærlega vel heppnuð. Þó Leifi mistakist að nýta tímann er verkið verulega áhrifaríkt á köflum.

Valur Grettisson

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s