Svör við gagnrýni á gagnrýni

Því er hætt við að þegar gagnrýni á hugleiðingar um gagnrýni eru gagnrýndar að umræðan færist út í eintómt gagg en ekki gagn. En það er svo oft kvartað yfir skorti á leiklistarumræðu á Íslandi að ég ætla að hætta á það að skrifa eitthvað heimskulegt sem svar við gagnrýni á gagnrýni, heldur en að þegja. Til að rekja söguna í stuttu máli fyrir þá sem ekki þekkja þá er hún eitthvað á þessa leið:
Benedict Andrews gerir leiksýningu. Jón Viðar gagnrýnir leiksýningu. Hallgrímur Helgason gagnrýnir gagnrýni Jón Viðars. Mér þykir umræðan skemmtileg en tel hana snúast of mikið um hvað hægt sé að finna í frumtexta leikrita og skrifa smá hugleiðingu um gagnrýni þar sem ég velti fyrir mér hvort að gagnrýnendur á Íslandi séu kannski aðeins of bókmenntalegir í hugsun. Valur Grettisson svarar mér og skýtur föstum skotum á þessa grein mína. Þessi grein er mitt mótsvar.
Valur skrifar:
[…]grein Snæbjarnar ekki nægilega vel ígrunduð á stundum. Þannig hefur hann grein sína á orðunum: Að vera gagnrýnandi á Íslandi er erfitt og vanþakklátt starf. Ólíkt leikurum og öðru fólki sem kemur nærri leiklist eru framavonir litlar.

Þarna varð strax ljóst að Snæbjörn hefur lítinn skilning á hlutverki gagnrýnandans. Það er ekki draumur gagnrýnandans að vinna sig upp úr rýninni og inni í listformið sem hann gagnrýnir. Þetta er engu að síður helsta vörn listamannsins þegar hann fær lélega gagnrýni. Hún er slegin af borðinu vegna þess að í huga listamannsins er gagnrýnandinn öfundssjúkur yfir því að vera ekki listamaður sjálfur.

Hér er mér gerður upp ásetningur. Ég sagði aldrei neitt í líkingu við að gagnrýnandinn væri öfundsjúkur út í listamanninn, ég lít ekki einu sinni á að þeir séu í sama bransa. Gagnrýnandinn vinnur innan fjölmiðlunar, listamaðurinn innan lista. Ekki er stjórnmálaskýrandinn öfundsjúkur út í forsætisráðherra. Samt eru mér eða öðrum sem tjá sig um gagnrýni gefnar ansi annarlegar kenndir í næstu málsgrein:
Það er ágæt þumalputtaregla að þegar listamaður segir þér að gagnrýnandi sé bara öfundsjúkur, er sá sami að öllum líkindum lélegur listamaður.
Ég hef litla reynslu af gagnrýni í fjölmiðlum en sú sem ég hef haft persónulega hefur verið ágæt. Ég hef fengið nokkra dóma í blöðum og útvarpi, og allir hafa verið jákvæðir svo ég hef enga harma að hefna. Með því að gefa það í skyn er verið að búa til strámann. Alveg eins og ég tel að gagnrýnendur séu ekki bitrir út í listamenn, vona ég að gagnrýnendur gruni mig ekki um að vera bitur út í þá.
Það sem ég átti við með að staða gagnrýnandans sé ekki öfundsverð er að menningarumfjöllun á Íslandi er bágborin, og stóru fjölmiðlarnir eru í krísu. Menningarumfjöllun er í mörgum tilfellum orðin að litlu horni undir slúðurdálkunum, og það er ekki við gagnrýnandann sjálfan að sakast, því margir vinna metnaðarfullt verk á því sviði. Erlendis er sambærileg krísa en engu að síður er geirinn stærri, gagnrýnandinn getur unnið sig upp innan menningardeildar stórs blaðs. Ef Jón Viðar væri staddur erlendis held ég að hann nyti miklu meiri virðingar eftir margra áratuga starf í þessum geira en hann gerir hér heima. Hann hefur unnið mikið þrekvirki í tengslum við leikminjasafn Íslands, en ég er viss um að maður með hans greind og menntun væri löngu orðinn formaður virtrar menningarstofnunar ef hann ynni erlendis. Er þetta röng ályktun, að menningarrýni hljóti lítið pláss í fjölmiðlum og að þeir sem sinna henni eigi sér ekki miklar framavonir?
Í fyrri grein skrifaði ég að gagnrýnendur eins og Jón Viðar og Elísabet Brekkan gengu oft með fyrirfram ákveðnar skoðanir inn á leiksýningar, og ef leiksýningin tikkaði ekki við rétt box þætti þeim illa til tekist. Jafnvel þótt að sýningin hafi alls ekki stefnt að því að passa inn í þetta box. Við þessu segir Valur:
Snæbjörn gerir þó eftirfarand mistök: Ég hef ekki orðið var við slíkar vinnuaðferðir hjá t.d Jóni Viðari og Elísabetu Brekkan sem verða oft ævareið yfir að sýningar séu ekki eins og þau höfðu ímyndað sér áður en þau stigu inn í kassann.
Dæmin eru mörg. Nærtækasta í sambandi við Jón Viðar er Macbeth sýningin umtalaða sem gerir ekki það sem Jón Viðar krefst af Macbeth uppfærslu. Það dylst engum að hann verður ætíð ósáttur þegar eitthvað víkur frá venju.  Ég get gefið tvö dæmi um það sem mér þykir ófagmennska af hálfu Elísabetar Brekkan. Fyrra verkið hét Þjóðarsálin og var reyndar sýnt fyrir nokkru síðan. (Leikstýrð af Sigrúnu Sól Ólafsdóttur). Ég var í salnum það kvöld sem áhorfandi en hef engin tengsl við sýninguna sjálfa og þar kom Elísabet þá gagnrýnandi hjá DV ásamt vinkonu sinni Maríu Kristjánsdóttur. Báðar voru að skrifa gagnrýni fyrir sitthvorn miðilinn. Mér þótti heldur undarleg framkoma þeirra, og þær trufluðu bæði mig og aðra leikhúsgesti. Um dóminn ætla ég ekki að hafa mörg orð, en það spruttu upp miklar ritdeilur í kjölfarið og ég vísa í grein frá leikstýrunni um þetta mál:

Grein Sigrún Sólar.

Seinasta dæmi sem ég man eftir var þegar Elísabet mætti á leiksýningu á Lókal. Þetta var Downtown 24/7 sem var site-specific verk sýnt í Kringlunni. Áhorfendum var úthlutað ipod sem leiddi þá í gegnum sýninguna svipað og upptökutæki leiða fólk stundum í gegnum listasöfn. Viðfangsefnið var viðkvæmt, það voru reynslusögur kvenna sem höfðu gengið í gegnum vændi en það kallaðist á við ýkt umhverfi verslunarmiðstöðvarinnar. Sökum þess að einungis einn áhorfandi gat farið inn í einu voru allir beðnir um að fylgja ákveðnum reglum, nauðsynlegt var að vera kominn á vissa staði á réttum tíma til að allt gengi snurðulaust. Gagnrýnandinn sýndi bæði aðstandendum sýningarinnar og áhorfendum vanvirðingu, hún tók af sér heyrnartólin sem áttu að leiðbeina henni í gegnum sýninguna, fór í verslunarspásserí og spjallaði við vinkonur. Ég var orðlaus yfir þessu framferði, en þessi áhrifamikli gagnrýnandi sem skrifaði í mestlesna blað landsins var eini áhorfandinn sem hagaði sér á þennan máta. Ég gæti tínt til einhverjar fleiri sögur frá öðrum en höldum okkur í bili við það sem ég get staðfest með eigin vitnisburði. Mér þykir þessi dæmi sýna að gagnrýnandi er á engan hátt opinn fyrir verkum sem eru frábrugðin því sem hún á að venjast. Ég er ekki að segja að Elísabet Brekkan ætti að hætta að gagnrýna eða tjá sig, hún mætti bara taka þetta til athugunar.

Á öðrum stað í svari sínu stillir Valur upp góðri spurningu:
Snæbjörn kemur svo með dramatíska fullyrðingu: Það sem ég barma mér yfir er að íslensk gagnrýni sé föst í öngstræti bókmenntalegrar túlkunar á sviðslistum.

Ég spyr á móti, getur verið að þessu sé öfugt farið? Eftir að ég hóf að skrifa pistla á Reykvélina um leikhús, hefur það oft slegið mig hversu mikil áherslan er á tungumálið, á bókmenntaverkið sjálft, í leikhúsi í dag. Hið sjónræna virðist ekki alltaf jafn mikilvægt þó þar séu kröftugar undantekningar (svo sem Macbeth). Getur ekki verið að gagnrýnendur séu frekar að endurspegla ákveðinn veruleika sem er að eiga sér stað á fjölum leikhúsanna á Íslandi?

Þetta gæti meira en vel verið, en er hætt við að verða eins og spurningin um hænuna og eggið. Þrátt fyrir að íslensk leikritun hafi lengi staðið höllum fæti þá er íslensk leikhúshefð frekar íhaldsöm og textabundin. Kannski eru gagnrýnendur bara að endurspegla þá staðreynd. Kallar íhaldsöm list kannski bara fram íhaldsama gagnrýni? Höfum samt í huga að það er tekið mark á gagnrýni, hún hefur áhrif á miðasölu og oftast er hún eina heimildin eftir leiksýningu. Umfjöllun um leiklist í fjölmiðlum er ekki áhrifalaus, hún hefur jafnvel meiri áhrif en sýningarnar sjálfar.
Hvað sem því líður, eitthvað veldur því allavega að umfjöllun um klassísk verk, eða jafnvel sviðsetningar sem sækja innblástur í bækur snúast oftar en ekki um hversu vel leikhópar ná að fylgja eftir hinu upprunalegu verki.
Ég persónulega hafna því viðhorfi að hægt sé að finna einn kjarna leikritum eða öðrum textum, og að leiksýningar eigi að reyna að finna hann. Ég hafna því líka að við eigum að reyna setja okkur inn í hugarheim löngu látinna höfunda. Það er fátt meira óþolandi en að fara í bíó með einhverjum sem hefur lesið bókina og stillir sig ekki um að hvísla sífellt í eyrað á manni að það sé búið að breyta hinu og þessu, og að hann/hún botni nú ekkert í því hvers vegna. Maður á bara að leyfa verkum að njóta sín og dæma þau á þeirra forsendum.
Ég held reyndar að Valur sé sammála mér í því þótt hann endi á að gefa grein minni falleinkunn. Ástæðan er sú að í lokin segi ég eins og er að gagnrýni Jón Viðars sé fallega skrifuð og að ég viti ekki hvort hægt sé að taka umræðuna á hærra plan. Ég segi bara eins og er, gagnrýni er afþreying og Jón Viðar skrifar skemmtilega og vel, þótt að „við“ séum mörg ósammála honum um aðferðafræði. Það vill enginn að Jón Viðar hætti að skrifa, en það hlýtur að vera hægt að tala um gagnrýni alveg eins og það er hægt að gagnrýna listir. Það er óþarfi að gera mér og öðrum listamönnum sem tjá sig um menningarfjöllun upp annarlegar og meinfýsnar kenndir.
Ég skrifa bara eins og satt er, að ég efast um að gagnrýni sé á leiðinni eitthvert hærra upp. Íslenskir fjölmiðlar hafa ekki rými fyrir slíka umfjöllun um listir, þeir hafa pláss til að gefa verkum falleinkannir eða mæla með þeim, en þeir hafa ekki pláss fyrir raunverulega fagurfræðilega umræðu. Slík umræða verður að fara fram á sjálfboðamannabloggi eins og þessu, og hún verður til með þátttöku bæði listamanna og menningarrýna.  Það verður því í okkar höndum Valur, já og ykkar hinna sem lesa þetta að taka upp fartölvurnar og hefja menningarumræðu á Íslandi upp til skýjanna.

Snæbjörn Brynjarsson.

Advertisements

3 thoughts on “Svör við gagnrýni á gagnrýni

 1. Þessi umræða er skemmtileg. Snæbjörn klárlega með Val on the ropes…

  Annars finnst mér greinin hennar Sigrúnar Sólar best. Reyndar mjög áhugavert að viðkomandi “gagnrýnendur” séu enn við störf (allavega einn)

  Ég persónulega hef haft þann sið á þeim sýningum sem ég hef sett á svið að bjóða þeim einfaldlega ekki (allavega ekki EB). Það erum nefnilega við listafólkið sem að gefum gagnrýnendum vægið sem þeir hafa. Ef að þeir skrifa jákvætt, setjum við nafn þeirra og komment á plakatið en ef þeir segja eitthvað slæmt eru þetta bara einhverjir vitleysingar sem vita ekki neitt.
  Það meikar ekki sens.

  Áfram umræða um leiklist!

  Vignir Rafn

 2. Örlítil árétting. Ég kann ekki alveg við að leggja vefinn undir þessa deilu. En eitt verður þó að koma fram.

  Þegar ég skrifaði: „Þetta er engu að síður helsta vörn listamannsins þegar hann fær lélega gagnrýni.“

  Þá var ég ekki sérstaklega að vísa til þín Snæbjörn. Það er því óþarfi að taka setninguna til þín.

  Sjálfur virðist ég hafa misskilið setningu þína úr fyrstu grein Þinni, Hugleiðingar um gagnrýni, sem hljóðaði svona:

  „Að vera gagnrýnandi á Íslandi er erfitt og vanþakklátt starf. Ólíkt leikurum og öðru fólki sem kemur nærri leiklist eru framavonir litlar.“

  Ég túlkaði þessa setningu þannig að þú litir svo á að gagnrýnendur væri að reyna að rýna sig inni í listformið.

  Þú skerpir ágætlega á þessum punkti í seinni greininni.

  Við erum ágætlega sammála sýnist mér um flest annað.

  Sýnist þið Sigrún Sól þó vera ósammála um tilgang og eðli gagnrýninnar.

  Sigrún vill fagmennsku á meðan þú lítur á gagnrýni sem afþreyingu.

  Sýnist ágreiningurinn því ekki vera okkar á milli.

  Kv. Valur Grettisson

 3. Ég þakka ykkur áhugaverða umræðu herramenn.

  Langaði einfaldlega að vekja máls á því að, eins og þið vitið, eru afar skiptar skoðanir um hversu mikið má hrófla við leiktextanum sjálfum, sérstaklega ef það hefur í för með sér breytingar á eðli/boðskap/tilgangi verksins. Það er að segja, hversu miklu er leyfilegt að breyta í kjarna sýningarinnar til þess að hún teljist enn vera sú sýning sem leikskáldið skrifaði? Í þessu samhengi má nefna tilvitnun í Laxness sem sagði um uppfærslu á einhverju leikverki eftir hann: “Alveg sjálfsagt mál að þið styttið það, en helst ekki bæta miklu við” eða eitthvað á þá leið.

  Það þýðir ekki að það megi ekki afbyggja og breyta sjálfri umgjörð sýningarinnar, eða stytta texta ef svo ber undir. Einungis það að það er viðkvæmt mál að breyta eða bæta í textann og kynna það samt verk til tekins höfundar, sem hafði ekkert með umræddar breytingar að gera (og kærði sig jafnvel ekki um þær).

  Eitt allra áhrifamesta leikskáld 20.aldar, Nóbelsskáldið Harold Pinter, vildi til að mynda helst gefa verkin sín út á prenti áður en þau yrðu tekin til sýninga, því að hann kærði sig ekki um að leikstjórar og leikarar hrærðu í því orðalagi sem hann hefði skapað karakterunum. Gott dæmi um þessa staðföstu trú Pinters á leiktextanum er sú staðreynd að hann sat í stjórn Breska Þjóðleikhússins þegar upp koma deila um hið mikla snilldarverk The Importance of Being Earnest e. Wilde. Jonathan Miller sem einnig var í stjórn leikhússins barðist fyrir því að verkið yrði tekið til sýninga með einungis karlkynsleikurum. Pinter lagðist alfarið gegn þessu, vegna þess að svoleiðis hefði verkið ekki verið skrifað og það væri ennþá meira aðkallandi að vera verk látinna rithöfunda, heldur en þeirra sem lifandi eru. Flestir töldu nú að ef Wilde hefði lifað hefði hann eflaust haft mjög gaman af slíku uppátæki. Þetta mál varð þó aldrei útkljáð og Jonathan Miller kom þessari útgáfu af Earnest á endanum á fjalirnar á öðrum vettvangi.

  Með þessari sögu langaði mig einfaldlega að benda á þá staðreynd að menn þurfa ekki endilega að vera afturhaldsmenn þó að um einhverskonar íhaldssemi sé að ræða. Seint verður t.d. hægt að ásaka Harold Pinter um að hafa verið afturhaldssamann, fáir valdið jafn miklum straumhvörfum í leikritunarsögunni en einmitt hann.

  Þá myndu margir segja að eitt helsta vandamálið í íslensku leikhúsi í dag væri ekki ofuráhersla á texta, heldur ofuráhersla á texta sem ekki er til staðar. Það er að segja að enn sé unnið út frá textaleikhúsinu, þó að textinn sem unnið var með þá sé að stórum hluta horfinn. Þórhildur Þorleifsdóttir vill til dæmis meina að það vegi mjög að íslenskri leikritunarhefð að flestir, ef ekki allir leikarar, sem útskrifast á Íslandi álíti sig færa um að semja leiktexta sem gefi leikskáldum ekkert eftir, á meðan það hafi þurft til mikla snillinga til þess að skrifa stærstu perlur leikbókmenntasögunnar. Þetta er vissulega sjónarmið og í því samhengi má nefna að í sýningum Vesturports, sem margar eru stórkostlegar, er handritið oftar en ekki lang veikasti hlekkurinn í annars frábærri heild.

  Það er rétt sem Snæbjörn segir að áhorfendur geta vissulega sökkt sér í blekið og skapað sína eigin sýningu með ímyndunaraflið eitt að vopni, en þó að verkið sé öðrum þræði bókmenntaverk liggur hinn þráðurinn svo sannarlega upp á sviðið. Það er fátt skemmtilegra en að lesa leikrit annað hvort áður eða eftir að maður hefur séð það á sviði, til þess að geta séð það ljóst og skýrt hvað mat leikhópurinn hefur gert sér úr verkinu. En það hlýtur að vera krafa að það sé sama verkið.

  Vilhjálmur B. Bragason

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s