100°Berlin 2013


Berlín hefur lengi verið einn helsti áfangastaður nýungagjarns íslensks  sviðslistafólks. Leiklistarhátíðin Theatertreffen er líklega sá viðburður sem trekkir einna flesta að. Hátíðin er haldin í maí ár hvert, í lok leikársins, og er því eins konar uppskeruhátíð þýsku leikhúsanna þar sem boðið er upp á það besta og áhugaverðasta í leikhúsi hins þýskumælandi heims það árið. Slík stefna gæti hljómað vafasöm í eyrum sumra og vilja margir meina að Theatertreffen sé lítið annað en svimandi þægilegt freyðivínsbað snobbaðrar menningarelítu. Sjálfur hef ég farið nokkrum sinnum á Theatertreffen og hef skemmt mér ágætlega við að pota tánum ofan í volgt (og dýrt) baðvatnið. En freyðivín eitt og sér verður fljótlega þreytandi og maður verður stundum svo djöfull þunnur af því.
Frá 100° Berlin.

En Theatertreffen er aldeilis ekki upphaf og endir alls því nóg er af sviðslistahátíðum hér í borg sem vert er að veita athygli. Í október á hátíðin Foreign Affairs sviðið, Tanztage i Sophiensæle fer fram í byrjun janúar og í lok febrúar er það svo sviðslistamaraþonið 100° Berlin. Sú síðastnefnda fór fram núna um nýliðna helgi og langar mig hér að gera stuttlega grein fyrir henni.
Á 100° vottar ekki fyrir freyðivíni. Baðvatnið hér kemur beint úr Spree, er gruggugt og vont, en það sýður. Hátíðin er hápunktur leikárs hins óháða sviðslistageira og á henni ægir öllu saman, hinu góða, hinu slæma og hinu mjög, mjög slæma. Hér fær grasrótin að láta ljós sitt skína; nemar og nýútskrifað ungt sviðslistafólk er áberandi og fær gott tækifæri til að gera tilraunir og prófa hugmyndir sínar á opnari vettvangi en kannski gengur og gerist venjulega. En hátíðin vill vera eins hlutlaus og mögulegt er og velur ekki verk inn á hátíðina eftir gæðum eða fagurfræði heldur gildir reglan fyrstir koma, fyrstir fá. Því er töluvert um misáhugaverða áhugahópa, sumir ágætir, örfáir gullmolar og nokkrir svo slæmir að þeir verða á einhvern furðulega hátt eitt það mest spennandi við hátíðina. 

Hátíðin stendur yfir frá fimmtudegi til sunnudags, sýningar eru rúmlega 100 talsins og því úr nógu að velja. Stuttar lýsingarnar á verkunum í bæklingnum hjálpa ekki mikið við valið, því þó að lýsingin hljómi áhugaverð virðist það nánast vera hending ef það skilar sér í sýningunni sjálfri. En ef manni leiðist þá er hægt að horfa á tilraunakennd vídjóverk (t.d. eftir nema Ólafs Elíassonar í Raumexperimenten) eða hlusta á fagfólk (t.d. Jóhönnu Freiburg úr She She Pop/Gob Squad) analýsera hátíðina. Þar að auki eru flestar sýningarnar stuttar, um 40-50 mínútur, og miði á alla viðburði hátíðarinnar kostar 30 evrur (um 5000 kall). Enn fremur er hátíðin vel sótt og gefst manni tilvalið tækifæri til að tengjast fólki í svipuðum pælingum yfir list, ódýrum bjór og súpu.
Aber was kocht? Hvað er að gerast í grasrótinni hér í Berlín? Í fyrsta lagi verð ég að taka fram að þó að skipuleggjendur vilji forðast ákveðna stefnu í fagurfræði þá er það samt sem áður svo að flestar sýningarnar bera svipaðan keim. Þessi keimur skýrist að einhverju leyti af sýningarstöðunum, þ.e. Hebbel am Ufer leikhúsinu og Sophiensæle. Báðir staðir leggja áherslu á tilraunir í samtímasviðslistum þar sem leikur með formið er oftar en ekki í forgrunni. Samtímadans og konsept leiklist er ábernandi en hefðbundnara leikara- og textaleikhús hefur minna vægi. Þessi áhrif endurspeglast vel í verkunum á 100°, þó með nokkrum undantekningum, og má til dæmis nefna að margir listamenn koma úr skólunum í Gießen og Hildesheim og úr HTZ í Berlín.
Fyrir utan þessar tilraunir með formið var hægt að sjá nokkur önnur leiðastef í verkunum í ár. Einna mesta áberandi var hve mörg verk voru með sterkum sjálfsævisögulegum undirtóni, og skipti þá litlu hvort að verkin fjölluðu öðrum þræði um kapítalisma, sundföt eða útrýmingu gráa íkornans úr skógum Þýskalands. Útgangspunkturinn var mjög persónulegur og samfélagslegar vangaveltur spruttu út frá honum. Sem dæmi má nefna verkin There is no orchestra eftir Schelhas Co.Operation og I’ve got you under my skin eftir Alessöndru og Viviönu Defazio. Í báðum verkunum unnu systur út fá sínum draumum, þrám og samskiptum um leið og að mátuðu þessa baráttu sína við samfélagið. Systkinaþemað var einnig meginstef dansverksins ‘…about marriage.’ eftir   Katharinu M. Horn og Chris Scherer. Í verkinu komu þau fram sem nýgiftir og mjög ástfangnir, tyggjójórtandi, dansandi sálufélagar og tvíburar. Pabbi þeirra rakti svo sögu ástar þeirra á milli þess sem hann söng collage úr nánast öllum þekktustu ástarlögum 9. áratugarins. Simone Dede vann einnig út frá sjálfsævisögulegum forsendum í verkinu sínu Krieg der Hörnchen þar sem hún setti samasammerki milli fordóma í garð innflytjenda og þeldökkra og útrýmingu gráa íkornans sem er talinn vágestur í merkingarþrungum skógum Þýskalands. Hópurinn cobratheater.cobra snéri hins vegar tiltölulega þreytandi og hefðbundnu devised verki sínu, Ma Ma Hu Hu, upp í mjög áhugaverðar umræður milli sín og áhorfenda þegar þau stöðvuðu sýninguna og veltu fyrir sér ástæðum og merkingu hins sjálfsævisögulega fyrir listamanninn, t.d. út frá framsetningu á tilfinningalegu innra privatlífi listamannsins sem söluvöru til þess að hann geti keypt sér mat. Þannig skapaðist mjög áhugaverður núningur við þetta helsta sameiginlega einkenni verkanna.

Annað áberandi þema, sem helst kannski í hendur við hina sjálfsævisögulegu einlægni, var hversu sterk tengsl margir listamenn settu á milli hins hversdaglega og hins pólítíska. Margar sýningarnar voru mjög póltískar og voru listamenn óhræddir að setja á svið skoðannir sínar og yfirfæra samfélaga merkingu og ábyrgð yfir á sinn prívat hversdagleika. Verk the tremor art project, Blank2: ich weiß, fjallaði til að mynda um hversu viðvarndi, obinber og áberandi forréttindastaða hvítamannsins gagvart ‘hinum’ er í hversdagleika samfélagsins, og þá sérstaklega hversdegi leikaranna sem notuðu óspart dæmi úr sínu lífi. Í verki La Famila Collective, Shuffle, var þetta samspil hversdags og samfélags einnig áberandi en í því var tekið á tilgangsleysi samfélagskerfa út frá hugmyndum um hversdagsleg samskipti sem birtast í reglum leiksins.
Ma ma hu hu.

En þrátt fyrir yfirráð hins einlæga er kaldhæðnin langt frá því að vera dauð og tókst Björn de Wildt vel upp í Chosen með að losa lýðræðislega, og um leið fáránlega, valinn hóp áhorfenda við einkennandi sektarkennd hins hnattræna og firrta samfélags með tilheyrandi freyðivíni og fölsku brosi. Einnig endaði áðurnefnd Ma Ma Hu Hu á því að þegar umræðunum um prívatlífið lauk, sló hópurinn þessu upp í kæruleysi með 20 mínútna leisershowi með dúndrandi teknói.
Hátíðin er hins vegar ekki bara eitt stórt partý heldur eru veitt verðlaun fyrir áhugaverðustu sýningarnar og er það líklegra en ekki að þeir sem hnossið hreppa fá mjög gott start inn í ferilinn. Þrátt fyrir að hafa séð um 20 sýningar þá tókst mér að missa að öllum verðlaunasýningunum en í staðinn sá ég t.d. mann með buttplug og myndavél á typpinu dilla sér við ærandi suð úr gervityppun með míkrafónum og einstaklega nákvæma og hræðilega slæma endurgerð af The Shining með fólki í svörtum spandexbúningum.
Þrátt fyrir gríðarlega fjölda verka og hátt hlutfalla af miðlungs og vondum sviðsverkum þá gera gullmolarnir inn á milli 100° að vel heppnaðri hátíð. Kannski ekki þess virði að splæsa í rándýrt flugfar frá Íslandi en ef fólk er á annað borð í Berlín á þessum tíma þá ætti það ekki að láta hana fram hjá sér fara.

Karl Ágúst Þorbergsson.

Advertisements

One thought on “100°Berlin 2013

  1. Það verður að segjast að shining senan þeytti manni svo marga hringi í kolllinum að harðasti súrrealisti hefði orðið glaður!

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s