Um hvað var Sýning ársins? Vangaveltur listamanns.

Tæpt ár er síðan 16 elskendur frumsýndu Sýningu ársins. Ég held að ég geti sagt með nokkurri vissu að sýningunni hafi verið vel tekið, við fengum ágætis dóma, fullt var á allar sýningar og við fengum Grímuverðlaun. Ég get ekki verið annað en ánægður og stoltur með árangurinn og vini mína og félaga í 16 elskendum.
Karl Ágúst.
     Það er hins vegar eitthvað sem hefur truflað mig frá því að við frumsýndum. Mér líður stundum eins og okkur hafi að einhverju leyti mistekist þrátt fyrir þennan góða árangur, að fólk hafi hreinlega ekki náð því sem við vorum að segja. Kannski sögðum við það ekki nógu hátt eða klæddum alvarleikann of miklu djóki og kaldhæðni. Fjölmiðlagagnrýnin var hins vegar nánast samhljóða og sammála: að búa til verk unnið upp úr skoðanakönnun á viðhorfum almennings til leiklistar er ekki bara frumlegt og skemmtilegt heldur einnig er könnunin sem slík mjög mikilvæg heimild um viðhorf fólks til ólíkra þátta sviðslista. Fyrir mitt leyti var þessi lestur ekki nóg og ég hefði viljað ná lengra með sýningunni, kannski ekki að breyta heiminum en allavega komast út fyrir ramma leiklistarinnar. Sýning ársins hafði að mínu mati lítið sem ekkert með leiklist að gera. Mér finnst þessi vettvangur ágætis staður til að fara yfir það sem ég taldi vera markmið og sögn Sýningar ársins og velta því fyrir mér af hverju það komst ekki til skila. Það skal tekið fram að þessar hugleiðingar eru í mínu nafni, ég kann ekki vel við að leggja öðrum orð í munn, og þegar ég segi við þá er ég því að tala um upplifun og skoðun mína.
    
Fyrirsjáanlegur ófrumleiki
Ferli Sýningar ársins var langt og viðamikið. Við unnum könnunina í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og tók það góða samstarf töluverðan tíma þar sem við sömdum hundruði spurninga. Flestar fóru í ruslið, en restina unnum við áfram, lagfærðum, sameinuðum, breyttum orðalagi, gerðum sumar almennari, aðrar víðari, breyttum viðmiðunarhópum o.s.frv. Við vorum mjög sátt við endanlega útgáfu könnunarinnar, sem að okkar mati náði að vera almenn en um leið mjög sértæk, bæði hvað varðar fjölbreytta en skýra valmöguleika og einnig ef tekið er mið af viðmiðunar og samanburðarhópunum. Tvennt var hins vegar skýrt frá byrjun: hugmyndin var alls ekki frumleg og helstu niðurstöður könnunarinnar lágu fyrir strax í upphafi ferlisins.
Komar og Melamid.

     Á árunum 1994-97 vann rússneska listamannatvíeykið Komar og Melamid að verkinu Val fólksins (People’s Choice). Verkið var sýnt um allan heim, t.d. á Kjarvalsstöðum, en í því framkvæmdu þeir félagar skoðanakönnun, í samstarfi við fagaðila í hverju landi, á viðhorfum fólks til myndlistar. Þeir máluðu svo tvö verk; Vinsælasta málverkið og Óvinsælasta málverkið, eftir niðurstöðum könnunarinnar í hverju landi fyrir sig. Þetta verk Komars og Melamid var ekki bara inspírasjón í okkar vinnu heldur tókum við meðvitaða ákvörðun um að kópera hugmyndina nánast í heild sinni og yfirfæra á sviðslistir. Þetta var skýrt frá upphafi og fórum við aldrei í felur með þennan ‘stuld’ eða ‘vísun’ enda engin ástæða til þess. Svo mikill var frumleikinn.
     Þar sem að við unnum út frá forsendum Komar og Melamid gátum við auðveldlega gefið okkur að niðurstöður okkar yrðu nokkurn veginn þær sömu. Verkin þeirra eru nánast öll eins. Vinsælasta myndin alltaf landslagsmálverk með áberandi bláum tónum, fjallasýn og hálfklæddri manneskju í forgrunni aðeins til hliðar við miðju. Óvinælasta myndin var alltaf lítil abstraktmynd.
     En fyrst að hugmyndin var ófrumleg, fyrir utan yfirfærslu í annað listform, og niðurstöðurnar nokkurn veginn skýrar fyrirfram, hver var þá tilgangurinn með sýningunni? Og af hverju vorum við að endurtaka verk Komars og Melemid árið 2012?
    
Hið vafasama fyrirbæri lýðræði
Sýning ársins var fyrir mitt leyti tilraun til að setja spurningarmerki við eitt vafasamasta fyrirbæri samtímans, lýðræðið. Að því sögðu er rétt að taka það fram að ég er enginn fasisti eða einvaldssinni, ég held að ég geti sagt með nokkurri vissu að við vesturlandabúar séum upp til hópa hlynnt lýðræði og þátttöku almennings í stjórnmálum. Hins vegar má vel setja spurningarmerki við birtingarmyndir lýðræðis í dag, sérstaklega í ljósi þeirrar endurskoðunar sem fylgir hruni fjármála og stjórnkerfis landa. Árið 2011, þegar við vorum að móta hugmyndir okkar um Sýningu ársins (þremur árum eftir hrun),virtist hreinlega ekki mikið vera að breytast í þróun lýðræðis á Íslandi. Vissulega varð bylting, sú eina í sögu okkar litla lýðræðisríkis og því söguleg, og kosningar stutt seinna sem snéru valdatafli hægrimanna nánast á hvolf. Haldinn var þjóðfundur og og kosið til stjórnlagaþings, þar sem átti að semja uppkast að nýrri stjórnarskrá. Þrátt fyrir þessar drastísku breytingar í pólitíkinni virtist hið lýðræðislega kerfi einhvern veginn gera lítið úr þeim. Niðurstaða þjóðfundarins koðnaði hreinlega niður í víðáttu sinni (skilgreinið kærleik og réttlæti fyrir lýðræðiskerfinu) og stjórnarskráin átti aldrei séns eins og raunin varð nú í vor. Lýðræðið er yfirleitt sett fram sem nánast fullkomið kerfi þar sem öllum er tryggð rödd og að valdið liggi algjörlega hjá fólkinu, eða í versta falli hjá kjörnum fulltrúum þess. Lýðræði dagsins í dag er vafasamt að því leyti að það er sett fram eins og það sé algilt og almennt, að allir séu jafnir, að skoðun hvers og eins vegi jafn mikið og annarra. Enn fremur að í því felist frelsi (annað orð sem mætti leggja fyrir kerfið), þar sem hver og einn stjórnar sinni skoðun og vali. En lýðræðið reiðir sig hins vegar á ákveðin stjórnvaldstæki til að stýra skoðunum manna. Þau tvö mikilvægustu eru fjölmiðlar annars vegar en hins vegar skoðanakannanir.
Gallup.
    
Almenningsálitið er ekki til
Í fyrirlestri sem bar yfirskriftina Almenningsálitið er ekki til frá 1972 fjallar félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu um skoðanakannanir, hlutverk þeirra og áhrif á lýðræðissamfélagið.  Hann segir m.a.:
            „Viðfangsefni skoðanakannana eru lituð hagsmunum. […] Við núverandi aðstæður eru skoðanakannanir stjórnvaldstæki. Líkast til er mikilvægasta hlutverk þeirra fólgið í því að koma á þeirri tálsýn að til sé almenningsálit sem samanstandi einfaldlega af samanlögðum skoðunum einstaklinga. […] Megin áhrif skoðanakannana eru að þær glæða trú okkar á tilvist samhljóða almenningsálits, réttlæta þannig ákveðna stjórnmálastefnu og styrkja þau valdatengsl sem hún hefur að undirstöðu eða gera hana mögulega.“
Elskendurnir 16.
     Áður en við lögðum skoðanakönnunina fyrir 1500 manna úrtak vissum við að niðurstaðan myndi ekki bara vera í grófum dráttum fyrirfram gefin, heldur varð það nánast vitað að hún myndi nokkurn veginn staðfesta allar þær klisjur sem við gáfum okkar um ólíka hópa samfélagsins. Það sem var kannski einna mest sjokkerandi, þegar við fengum skýrsluna í hendur, var hversu ótrúlega skýrar og mótaðar klisjurnar voru, nánast eins og í virkilega lélegum Spaugstofubrandara.  Þarna átti lýðræðislegur raunveruleikinn að vera holdi klæddur, því ekki er hægt að efast um áreiðanleika könnunarinnar sem var unnin eftir forskrift hinnar hefðbundnu skoðanakönnunar, í samstarfi við virta og óháða stofnun.
    
Jaðrar og meðaltöl
Í greiningu sinni fjallar Bourdieu um nokkrar kreddur sem hann telur ríkjandi í viðhorfi til skoðanakannana, m.a. að allar skoðanir sé jafngildar. Hann sýnir hins vegar fram á hið gangstæða og tekur sem dæmi að hafi fólk áhuga á ákveðnu efni er líklegra að það láti sig málið varða og komi skoðun sinni á framfæri. Þetta nýta stjórnmálin sér í formi stjórnandi valdaorðræðu. Flokkar segja það sem fólk vill heyra svo að það segist ætla að kjósa þá í næstu könnun. Þar með eykst fylgið og orðræðan tekur völdin, sem hefur aftur áhrif á það fólk sem leitast eftir að samsama sig með meirihlutanum, því enginn vill vera á jaðrinum.
     Meðaltalið sem grundvallar skoðanakönnunina og lýðræðið, gerir um leið einmitt ráð fyrir því að samfélagið sé með öllu jaðralaus. Öfgar í báðar áttir eru strokaðir út til að fá sem skýrasta mynd af ástandi máli. Fjöldi þeirra sem ekki tekur afstöðu eða neitar að svara er þar að auki ekki talinn með þegar niðurstöðurnar eru gerðar opinberar. Þar koma fjölmiðlarnir, með alla sína hagsmuni í farteskinu, inn í myndina. Samkvæmt könnun MMR fyrir Stöð 2 og Vísi.is, sem birt var þann 5. apríl, sögðust 40% landsmanna ætla að kjósa Framsóknarflokkinn í næstu kosningum. En mjög erfitt er að átta sig á því að aðeins rúmlega 60% þeirra 800 sem tóku þátt svaraði könnuninni. Hegemonísk orðræða lýðræðisins á bullandi siglingu. Þess má geta að samkvæmt könnun 16 elskenda bera tæp 70% svarenda mikið eða frekar mikið traust til skoðanakannana.
Niðurlag
Listamaðurinn í mér, sem samkvæmt klisjunni berst við að útskýra verk sín fyrir áhorfendum er ofurlítið leiður yfir því skrifa svona pistil. Það hefði náttúrulega verið best ef áhorfendur hefðu fallið í trans á sýningunni, fengið kaþarsis í bæði hnén og rétt skriðið út hlæjandi og grátandi yfir örlögum sínum og stöðu lýðræðisins öskrandi Ó! Hvílíkir bjánar erum við! Og í kjölfarið breytist heimurinn. Eða hvað? Hefði það kannski gert málin bara flóknari og verri? 
Ég var persónulega mjög ánægður með allt ferlið í kringum Sýningu ársins og með þær viðurkenningar sem hópurinn hlaut fyrir hana. Við hefðum getað gert margt öðruvísi og áttum við á köflum mjög erfitt með umfjöllunarefnið sjálft enda viðamikið og flókið. Ég er líka á því að gagnrýnendur hefði mátt kafa dýpra og spyrja sig flóknari spurninga um vísanir og ástæður sýningarinnar. En í það minnsta finnst mér mjög mikilvægt og hollt að fara yfir þetta núna þegar stutt er í kosningar og valdastýrningartæki lýðræðisins keppast við að staðfesta tálsýnina og að valdatengslin „breiði yfir það sem þau eru í raun og veru og beita afli sínu þá fyrst þegar þau taka á sig slíkt gervi.“
Karl Ágúst Þorbergsson.
Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s