Eiðurinn og Eitthvað frumsýnd í Tjarnarbíói í kvöldLeiklistarhátíðin Lókal er nú orðinn fastur haustgestur í leikhúsflórunni. Í ár er hún haldin í sjötta sinn og er það Grindvíska atvinnuleikhúsið sem ríður á vaðið í kvöld í Tjarnarbíói. Þar munu suðurnesjamenn og konur frumsýna Eiðinn og Eitthvað eftir Guðberg Bergsson. Leikstjóri er Bergur Þór Ingólfsson. Með hlutverk fara Sveinn Ólafur Gunnarsson, Sólveig Guðmundsdóttir, Erling Jóhannesson og Benedikt Karl Gröndal.  
Reykvélin heyrði í Benedikt og lagði fyrir hann nokkrar spurningar í tilefni dagsins.

Vopnaður Grindvíkingur.

Hvernig kom það til að GRAL setur upp þetta verk eftir Guðberg Bergsson?
Grindavík er ástæðan. GRAL stendur fyrir Grindvíska atvinnuleikhúsið og þegar það var stofnað af þeim Bergi Þór Ingólfssyni og Víði Guðmundssyni var eitt af markmiðum þeirra að fá grindvíska skáldið Guðberg Bergsson til að skrifa fyrir GRAL. Áður en að það kom til settu þeir upp verkin 21 manns saknað, Horn á höfði og Endalok alheimsins. Við Bergur höfðum samband við Guðberg og báðum hann um að skrifa fyrir okkur verk. Hann tók vel í það og fór meðal annars til Berlínar, skoðaði leikhús og fór út á lífið. Síðan settist hann niður og skrifaði tvo einþáttunga sem heita Eiðurinn og Eitthvað.

Í kynningarefni stendur að þetta sé hans fyrsta verk sem sé beinlínis skrifað fyrir leikhús, en leikstjórinn er skrifaður fyrir aðlögun. Í hverju felst þessi aðlögun?
Verkin tvö eru frekar ólík. Eiðurinn fjallar um Ragnheiði biskupsdóttur og Eitthvað fjallar um tvo karllæga menn sem velta fyrir sér tilgangi tilverunnar og konu sem kemur inn stöku sinnum og hristir rassinn. Aðlögunin felst fyrst og fremst í því að Bergur hefur sameinað þessi tvö verk í eitt. Hann hefur ekki bætt við einu orði. Einungis sett tvo samhljóma einþáttunga eftir sama höfund á svið sem eitt verk. Þau gerast á sama tíma og fara síðan að berjast um tilvist sína á sviðinu, í höfði skáldsins, skapara síns.

Hefur skáldið heimsótt ykkur, eða er hann bara í sumarhúsinu á Alicante?
Nei, hann hefur ekki heimsótt okkur. Við sóttumst heldur ekki eftir því. Við vildum frekar gera þetta út frá okkur og túlkun okkar á Guðbergi sem höfundi, sem leikskáldi og sem manneskju. Það gefur okkur líka ákveðna fjarlægð frá efninu og skáldinu. Fjarlægð sem hann kýs kannski oft sjálfur. Jú, ætli hann sé ekki bara á Spáni að dansa tango og hafa það gott eða kannski er hann hér heima að kafa ofan í þjóðarsálina og slúðra með vinkonum sínum í Reykjavík.

Eiðurinn og Eitthvað.


Hverslags verk er þetta? 
Ég myndi segja að þetta væri súrrealískur alþýðuleikur að hætti Guðbergs. Þetta er eitthvað svona Draumleikur Strindbergs hittir Being John Malkovich hittir Stranger than Ficton hittir Die Hard hittir Dirty Dancing. Ég meina, hvað er þetta ekki? Eins og þú sérð þá er þessi sýning fyrir alla.

Hvernig komst þú inn í GRAL?
Ég er alinn upp í Grindvík og þegar ég útskrifaðist sem leikari voru þau akkúrat að setja upp Horn á höfði. Mig langaði að vera með svo ég hringdi í Berg og bauð fram aðstoð mína. Hann þáði hana og ég kom inn í hópinn sem aðstoðarmaður. Ég hjálpaði til á lokametrunum, við leikmynd og hitt og þetta og sýningarstýrði þeirri sýningu. Síðan í Endalokum alheimsins fékk ég tækifæri á sviðinu og er nú leikari í GRAL. Ég er reyndar líka trúnaðarmaður GRAL. Ef eitthvað bjátar á í GRAL þá er ég maðurinn sem hlustar. Trúnaðarleikarinn.

Er GRAL komið til að vera? Er eitthvað í burðarliðnum?
Auðvitað er GRAL komið til að vera. Það er löngu búið að sanna sig. Við slökum ekkert á. Við ætlum að sýna Eiðinn og Eitthvað næstu vikur og svo í september tökum við upp Horn á Höfði og sýnum það fram eftir hausti. Besta barnasýning sem ég hef séð. Við erum að skoða verkefni, skoða hvað hreyfir við okkur og hvað okkur langar til að fjalla um næst. Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér en framtíð GRAL er björt.


Víðir Guðmundsson hefur hingað til farið fremstur í flokki leikara GRAL, en nú er enginn Víðir. Er búið að reka Víði úr GRAL, eða eru ástæðurnar minna dramatískar?
Já, hann var rekinn. Hann er svo rosalega frekur. Við sögðum bara hingað og ekki lengra, Víðir! Nei, án gríns væri ekki mikið GRAL til án Víðis. Hann gat ekki leikið með okkur að þessu sinni vegna anna en stendur samt sem áður eins og klettur á bakvið okkur og sér um allt sem er flókið og tæknilegt, allt frá peningum yfir í textavél.

Reykvélin mun fjalla ítarlega um Lókal í samvinnu við nemendur Listaháskóla Íslands.
Í kvöld eru einnig sýningarnar Tóm – fjölskylduskemmtun í Iðnó og Theater replacement and the World í Smiðjunni við Sölvhólsgötu. Dagskrána er hægt að nálgast á www.lokal.is

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s