Er tómið alltaf neikvætt?


Hvað er þetta tóm og af hverju er verið að sýna okkur þessa sýningu í dag?
Í Orðabók menningarsjóðs segir: „Rúm sem ekkert er í, lofttómt rúm.  himingeimurinn.“ Það er vissulega ein birtingarmynd. 
Tómið sjálft getum við túlkað í mismunandi myndum út frá okkur sjálfum og öll þekkjum við það í einhverri mynd og er það því alltaf til staðar.
Ef við spyrjum okkur þessarar spurningar koma ýmsar vangaveltur í hugann. 
Þegar ég hugsa um tómið kemur fyrst eitthvað neikvætt upp í hugann. Eitthvað svartnætti, þunglyndi jafnvel og staður sem maður myndi alls ekki vilja vera á. Manneskjan er einhvernveginn þannig gerð að hún forðast það að láta sér leiðast og fyllir upp í tóm hversdagsleikans. En svo eru aðrir sem horfa á þetta öðrum augum, að tómið sé í raun ekki tóm og kjósa sér það hreinlega. Eins og þeir sem kjósa að eignast ekki fjölskyldu, vilja búa einir og barnlausir og finnst það bara fínt. Er það þá þeirra tóm? Er tómið alltaf neikvætt?
Ég fylgdist aðeins með atferli 82 ára gamallar ömmusystur minnar sem bæði leigir mér og býr fyrir neðan mig í húsinu sem hún fæddist og hefur búið í alla tíð. Hún hefur valið sér líf sem mörgum þætti frekar einmanalegt/tómlegt, hefur aldrei átt kærasta, hvað þá mann og aldrei átt börn. Við fyrstu sýn er hún bara venjuleg og góðleg gömul kona en þegar maður tekur hana á tal skynjar maður fortíðarþrá sem einmitt grípur margt eldra fólk. Þ.e. þráin eftir tíma sem liðinn er og umræðan um það hversu gott lífið var gott hér áður fyrr. Þarna má skynja ákveðið tóm, tómarúm. Fyrrverandi kona bróður pabba var jafnvel betri en sú sem hann á í dag. Ekki út af neinni annarri ástæðu en að hún er hluti af fortíðinni. Tómið hennar virðist ekki vera bundið við það hversu einmana hún er heldur frekar þörfina til að endurvekja og upplifa gamla tíma. 70 ára gamli Westinghouse ísskápurinn hennar og heimili hennar yfirhöfuð ber þess svo sannarlega merki.
Umrædd fjölskyldumynd.

Þetta viðhorf til lífsins gerir það að verkum að stundum er eins og það vanti að njóta stundarinnar, augnabliksins, því þráin eftir gamla tímanum er svo sterk.  Til þess að reyna að upplifa liðna tíð eru spilaðar gamlar plötur og maturinn er framleiddur á sama hátt og þá.  Þráin er það sterk að hún reynir að fá fólkið í kringum sig til að bindast sömu þrá. Fyrir mig er þetta ákveðið tóm – en fyrir hana er það ef til vill ekki.

Sýningin Tómið sem sýnd var í Iðnó á Lókal fjallar það hvernig ákveðin fjölskylda upplifir tómið. Fjölskylda Ragnheiðar Hörpu Leifsdóttur samanstendur af foreldrunum tveimur, þremur systrum og einum bróður, sem var reyndar ekki á staðnum.  Tómið getur haft margar birtingamyndir og þarna er farið í gegnum það hvernig hver og einn upplifir það. Ég er ekki frá því að það sé vottur af fortíðarþrá í sýningunni sjálfri.  Hér er verið að reyna að ná fjölskyldunni saman til að endurvekja gamlt fjölskylduportrett sem tekið var í molli í Bandaríkjunum árið 1995. En börnin hafa stækkað og flust til útlanda, því er erfiðara og erfiðara að halda þessari kjarnafjölskyldu saman. 

Meðlimir fjölskyldunnar koma upp einn af öðrum og segja frá sinni upplifun á tómi og var það allt frá hugmyndum um fjarlægð frá ástvinum til risastórra pælinga um alheiminn sem umlykur okkur. Þarna er greinilegt að hugurinn leitar til baka, allir hafa elst, hlutirnir hafa breyst og fjölskyldan hefur þroskast.  Það er eins og verið sé að rifja upp gamla góða minningu.
Nýlegri mynd af Leifsdætrum.

Blúndudúkur sem hengdur er upp á svörtum grunni er vissulega tenging í portrett myndinna sjálfa þar sem fjölskyldan stillir sér upp í stúdíóinu fyrir framan svipaðan dúk eða gardínu. En ef maður hugsar þetta lengra, hvað er á bakvið þetta fallega yfirborð – hvað er á bakvið blúndudúkinn? Hvað er þetta svarta óútskýranlega sem við forðumst að horfa í augu við? Snýst allt saman í dag um það að hafa þessa fullkomnu tilbúnu ímynd? Eða er lífið bara leikrit, er þessi fjölskylda sem við sáum á sviðinu táknmynd þessa leikrits sem þau setja á svið fyrir aðra? Þetta virkaði á stundum þannig á mig. Þessi tilbúna og fyrirfram hannaða sjálfsmynd birtist auðvitað í öðrum myndum, svo sem á samskiptamiðlum sem eru mjög áberandi í dag og snúast aðallega um það að líta sem best út fyrir fjölskyldu, vini og tja, óvini.
Facebook er gott dæmi um það. Hver síða er hönnuð og jafnvel skálduð og þar með sjálfsmynd hvers og eins. Því er þetta enn eitt dæmið um það hvernig fólk er alltaf að reyna að fylla upp í tóm hversdagsleikans og líta vel út á yfirborðinu. Það er hægt að velta því fyrir sér hvort maðurinn hafi svo mikla þörf til að reyna að lifa fullkomnu lífi að hann er jafnvel til í hagræða sannleikanum til þess að svo verði? Til þess að undirstrika hversu mannskepnan er sjálfhverf hefur hún líka þörf fyrir tómið, sem einmitt birtist í hugleiðslu, slökun og jóga þar sem útgangspunkturinn er að tæma hugann. Til að komast í tómarúmið og beinlínis hafa þörf fyrir að horfast í augu við þetta fyrirbæri sem tómið er.
Tímarnir hafa svo sannarlega breyst, ég hef iðulega fengið að heyra hvernig fjölskylda ömmusystur minnar settist niður á sunnudagskvöldum og hlustaði á útvarpssögu eða útvarpsmessu. Í dag heyra þessar stundir sögunni til og við hafa tekið snjallsímar, tölvur og önnur töfratæki okkar kynslóðar og eru flestir viðburðir skipulagðir í gegnum þessa miðla.
Sýningin fékk mig svo sannarlega til að hugsa hvort að við séu hreinlega ekki nógu góð við hvort annað og eyðum ekki nægum tíma að hlúa að því sem að virkilega skiptir máli. Þetta tóm sem ég finn gæti þess vegna verið söknuður til fjölskyldu  minnar eftir að ég flutti út og ég stend mig oft að því að vera ekki hér og nú, en galdurinn er einmitt að lifa í augnablikinu og njóta stundarinnar meðan ég get.

Ég á örugglega eftir að komast að því að þetta tóm hefur þroskandi áhrif því lífið er ekki alltaf eitt stórt stuð. Þessi sýning fær mann til þess að sjá að tómið hefur nokkrar birtingamyndir og ekkert endilega bara slæmar. Tómið sem þessi fjölskylda upplifir er ekki eins og mitt tóm, ekki eins og tóm frænku minnar og ef til vill upplifir hver og einn sitt eigið tóm. Eftir þessar vangaveltur held ég að tómið hafi þann tilgang að þroska okkur sem manneskjur, því tómið er vitrænt ástand sem allir þurfa einhvern tíma að horfast í augu við. Þetta sýnir okkur hversu mannskepnan er margflókið fyrirbæri og gefur okkur einnig tækifæri til að sjá að við erum öll einstök. Það er bara til eitt eintak af hverri manneskju í þessum heimi. Sýningin hafði með öðrum orðum þau áhrif að ýta við mér og fá mig til hugsa nánar og dýpra um þetta fyrirbæri sem tómið er.

Kristín Pétursdóttir.
Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s