Toppurinn og tómið fyrir neðan

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir er óhrædd við að spyrja stórra spurninga. Eftir útskrift úr Listaháskóla Íslands hefur hún sett upp þrjár sýningar. Sú fyrsta fjallaði um eldingar, önnur um hyldýpi og sú þriðja um tómið. Það má því segja að tómið sé einskonar lokaþáttur í leiksýningaþríleik Ragnheiðar Hörpu. En reginmunurinn á þeim fyrrnefndu og Tóminu er sá að tómið er hugtak. Hugtak sem erfitt er að henda reiður á og skilgreina. Tóm er ekki áþreifanlegt og það getur í raun verið hvað sem er. Ragnheiður fékk fjölskylduna sína til að deila með áhorfendum hvað þau skilgreindu sem tóm.

Systur Ragnheiðar komu einnig fram í Dagskrá um eldingar
Systurnar sáu tómið í fjarlægð á milli fólks og í óvissunni um framtíðina en móðirin afneitaði tilvist tómsins, eða vildi allavega ekki tala um það. Ragnheiður talaði um að tóm væri hulduefni sem er ósýnilegt efni í alheiminum, afinn sá tómið í dauðanum og minningunum, frændinn vildi meina að tómið væri af hinu góða og það væri hægt að skapa mikla list ef maður hleypti tóminu inn.
Með þessum mismunandi skilgreiningum eru Ragnheiður Harpa og fjölskylda í raun að taka fyrir og um leið að búa til hugtakið tómið og fá áhorfendur til þess að spyrja sig hvað það er fyrir þeim og þannig um leið að hjálpa til við sköpun þess. En afhverju að tala um tóm? Og afhverju núna?
Því langar mig að reyna að svara með annarri spurningu. Af hverju fór ég á ,,skemmtidagsskrá’’ en gekk tóm út?
Horft út í tómið.

Fjölskyldan talar um tómið milli þess sem þau skemmta, syngja og segja sögur af sjálfum sér en sjálf sýningin var líka tóm. Fjölskyldan á sviðinu var eitthvað svo ljóshærð, falleg og fullkomin og allt var svo frábært að áhorfandinn trúir því ekki. Þetta var ekki raunveruleikinn sem maður sá heldur einhverskonar ímynd af fjölskyldu og því lengur sem ég sat þarna og hlustaði á meiri sögur, þeim mun meira tóm myndaðist milli mín og þeirra. Mér varð hugsað til hafísjaka. Maður sér bara 10 prósent hans sem er á yfirborðinu en undir niðri eru hin 90 prósent hans. Því meira sem maður sá af yfirborðinu, þeim mun meira hugsaði maður, hvað er ósagt? Hvað er undir yfirborðinu? Í tóminu sem við sjáum ekki? Þau voru ekki að leika, þau voru þau sjálf á sviðinu en þar var samt jafn mikill leikur og í uppsetningu Þjóðleikhússins á Macbeth. Hvað er Ragnheiður Harpa að segja með því að setja alvöru fjölskyldu og þeirra daglega líf á svið í Iðnó og láta okkur horfa á það eins og sýningu? Kannski það að þau séu ekki neitt minna að leika heldur en leikarar. Erum við ekki alltaf að leika í okkar daglega lífi? Við erum stöðugt með einhvern front, einhverja grímu, eitthvað hlutverk sem við viljum passa inn í. Þetta er ekki nýtt af nálinni en við höfum aldrei haft jafn mikið af verkfærum til að búa til þessar grímur. Í nútímasamfélagi er stöðugt verið að selja ímyndir. Við kaupum fjöldaframleiddar hugmyndir eins og merkjavörur, því næst teljum við okkur trú um að það sýni hver við erum. Með tilkomu samskiptasíðna getum við breytt öllum okkar myndum, ritskoðað allt sem við segjum og tekið til baka allt sem við vildum láta ósagt. Á Facebook tölum við ekki saman af einlægni heldur komum við með hugsun, skrifum hana niður, endurorðum svo og fínpússum áður en við loksins svörum. Einmitt núna á meðan ég var að skrifa þessa hugleiðingu var ég að spjalla við vin minn þar sem ég skrifaði sömu setninguna fjórum sinnum.
Þarna liggur tómið, á milli okkar. Við sjálf erum svo falin á bakvið allskonar grímur að við sjáum bara tíu prósent af hvort öðru.

Jú, Macbeth er hér.
En erum við þá bara óeinlæg og tóm? Hvar getum við tengst? Hvar getum við minnkað tómið á milli okkar? Kannski einmitt í leikhúsinu? Innan veggja leikhússins skrifa áhorfandinn og leikarinn undir ósýnilegan samning. Báðir aðilar samþykkja að annar sé að leika og hinn að horfa á. Ef við í okkar daglega lífi erum alltaf að leika hlutverk undir þeim formerkjum að það séum við sjálf, er þá kannski meiri einlægni í því þegar við leikum fyrir hvort annað? Leikarinn er einlægur í leik sínum og gefur eitthvað af sjálfum sér en það er samt ekki hann sjálfur, hann er að leika karakter, karakter sem er ekki til en er fullkomlega einlægur. Þannig að kannski er karakterinn tengingin á milli leikarans og áhorfandans.
Leikarinn er í rauninni að dylja sjálfan sig með karakternum og getur með því móti verið óhræddur við að sýna sjálfan sig áhorfandanum, sem er á móti óhræddur við að tengja sig hlutverkinu. Þannig mætti skilgreina leikhús í dag sem mekku mannlegrar tengingar og er einn af fáum stöðum þar sem við getum viðurkennt ,,tómið’’ og þar með minnkað það.
Á fjölskyldusýningunni Tómið komu ,,leikararnir“ fram sem þau sjálf á sviðinu. En upplifunin var sú að þau væru ekki einlæg. Þess vegna gekk ég tóm út. Það vakti mig til umhugsunar um hvar andstæðan við tómið, einlægnina, væri að finna. Liggur ekki beinast við að hana sé þá að finna í andstæðu þess að koma fram sem maður sjálfur? Þegar maður fer á hefðbundna leiksýningu þar sem leikarinn gengst undir því að hann sé að leika karakter og er þá einlægur í óeinlægni sinni. Þar má finna minna tóm en í matarboði hjá fjölskyldunni. Maður getur aldrei séð allan ísjakann fyrir tóminu en að viðurkenna að það sé til staðar er að minnsta kosti byrjun.
Þuríður Blær

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s