Build me a Mountain – Verk Produksjon


Berthold Brecht og Hella Wuolijokií sömdu leikverkið Hr. Puntila og Matti þegar þau dvöldu í Märleback, Finnlandi 1940. Verkið fjallar um landeigandann Puntila og dóttur hans Evu sem er ástfangin af bílstjóra föður síns, Matta. Puntila, sem á við mikið drykkjuvandamál að stríða, þarf að ákveða hvort hann leyfi þeim að giftast eða gifta Evu flottari manni. Samstarf Brechts og Wuolijoki gekk hins vegar ekki snuðrulaust og deildu þau m.a. um það hvernig leikstílar myndu henta persónunum. Brecht vildi t.d. notast við farsa eða commedia dell’arte fyrir Puntila en Wuolijoki vildi heldur sýna hann öllu alvarlegri. Hafði Brecht betur og sýnir hann sjúkt ástand alkólistans Puntilla með farsakenndum hætti. Á þessum tíma geysaði styrjöld í Evrópu, Brecht var eftirlýstur af nastistaflokknum og búinn að vera á flótta í sjö ár. Beið hann eftir áritun til þess að komast til Ameríku, til Hollywood. Sá grimmi raunveruleiki sem átti sér stað í heiminum stangast því verulega á við þann áhyggjulausa raunveruleika listarinnar sem Brecht og Wuolijoki lifðu í “Múmíndal” og þá kómedísku nálgun sem skáldið vill ná fram í verkinu. Þessi klemma verður Verk Produksjon að yrkiefni í sýningunni Build me a Mountain. 

Build me a Mountain.

Leikmynd sýningarinnar var talsvert fyrirferðarmikil, á víð og dreif lágu hvítmálaðar gínur og á gólfi, mottur, plasstólar, pottaplöntur og kertastjakar. Einhverskonar feng shui. Leikendur horfðu í augun á áhorfendum og töluðu í míkrafón án þess að sýna tilfiningar. Öskruðu þeir nokkrum sinnum: “Wake up!”. Má túlka það svo að þarna hafði þau verið að vísa til þess hversu raunveruleikafirrt ástandið var í skóginum og eða í dag. Það sofa allir sínum væra og þægilega svefni og ástand heimsins er aðeins fjarlæg martröð.
Brecht og Wuolijoki drukku amerískt kaffi, fengu sér svo bláber eftir saunu milli þess sem þau sömdu leikverkið. En úti var fólk að deyja og borgir í rúst.
Verkið var í raun uppsetning Verk Produksjon á sjálfu verkinu, Hr. Puntilla og Matti,í gegnum kvöl Brechts sem höfundar og kenningasmiðs á baráttutímum í leikhúsheiminum.

Alvöru leikhúsfólk reykti vindla. Í dag hleypur það maraþon.

Það var margt mjög áhugavert sem gekk á en einnig mjög margt óáhugavert. Unnið var að því að byggja upp söguþráðinn og rífa hann niður aftur og aftur, sem var áhugavert út af fyrir sig. Það ögraði mér sem áhorfanda og tók frá mér allt sem ég bjóst við í framvindu verksins. Skáldin voru sýnd glíma við persónur sínar og rífast sín á milli ásamt allsherjarglímu við persónurnar sjálfar sem stundum tóku völdin. Samt sem áður var það fljótt leiðigjarnt. Þetta virtist ekki ná neitt sérstaklega langt og manni hætti að vera sama um það hvert þetta myndi fara. Ef til vill var viðfangsefnið einfaldlega ekki nógu brýnt. Ég spurði mig í sífellu; af hverju þetta núna? Og hvað svo? Ég velti því fyrir mér fyrir hvern sýningin væri. Hvort ég þyrfti að vera doktor í leikhúsfræðum til þess að mega hafa skoðun eftir á. Jæja þá. Eftir lestur á lýsingu verksins í leikskrá situr maður svo eftir mjög ringlaður, því þar segir: „Sýningin fjallar um fólk sem afneitar raunveruleikanum um leið og það býr til nýjan veruleika. Hvernig eigum við að bregðast við atburðum líðandi stundar? Hvernig getum við haldið áfram að lifa þegar tálsýnir okkar eru horfnar?“

Puntila og Matti, í Bochum 2010.

Þessi lýsing hljómar ágætlega. Það er hún sem er spennandi og fær mann til þess að fara á flug og spyrja sig spurninga. Hún tekur í raun alveg yfir sýninguna sjálfa. Hvernig á maður að haga sér í heimi sem er í stöðugu stríði? Hvaða raunveruleika er ég að horfa framhjá dagsdaglega? Við erum í stöðugu fréttaflóði, við vitum svo ótrúlega margt. Upplýst allan sólarhringinn. Svo gerir maður ekki neitt. Flettir bara á næstu síðu eða lokar tölvunni og fær sér Mountain Dew. Þetta er gömul tugga sem allir hafa fyrir löngu heyrt og flestir sem ég þekki eru meðvitaðir um eigið meðvitundarleysi. Þú hefur alltaf val, hvort þú ætlarð að samþykkja ríkjandi ástand eða ekki og gera þá eitthvað í því? Er ekki bara fínt að við kaupum okkur fötin sem greitt er lífsgjald fyrir í verksmiðjum? Virkja og styðja stríðsvopnaframleiðslu í leiðinni? Þú veist að ef þú flokkar ekki deyjum við öll. Heimurinn heldur hinsvegar áfram eins og ekkert hafi í skorist því öll gildi eru afbökuð í teflonhúðuðu samfélaginu. Íslendingar versla að meðaltali 34 Range Rover bifreiðar á mánuði, flott mál. Ekki kaupa appelsínur frá Ísrael, fáum okkur samt mangóið sem 7 ára barn lét lífið við að tína. Hlustum á FM95Blö því þeir eru svo fyndnir strákarnir. Kaupum súkkulaðibrosið-molann með kaffinu en lesum ekki fréttirnar frá Bagdad. Hlaupum í maraþoninu, söfnum ég veit ekki hvað mörgum milljónum fyrir góðgerðarmál en sprengjum svo sömu upphæð í loft með þremur tonnum af flugeldum um kvöldið.
Hversu sýktur er heimurinn af afstöðuleysi? Það er bara svo fallegt að horfa á flugeldana. Það er svo ógeðslega gott að borða mangó. Þráum við það ekki öll að hafa það gott, á þessum stað? Allir, af öllum stéttum eða geirum eða hvað sem það er? Er pláss fyrir meðvitund í sjúkum heimi? Þetta kafaði í raun og veru ekkert þannig séð dýpra en þetta. Yfirborðspælingar sem við stöndum alltaf frammi fyrir..

Höfundarnir á góðri stundu.

Það hafði valdið Brecht miklu hugarangri að vera ófær um að skrifa um stríðið svo Hr. Puntila og Matti urðu frekar til. Hvernig átti hann að haga sér öðruvísi? Hvernig á ég að haga mér öðruvísi? Ég á ekkert í þetta stöðuga stríð, en ég get reynt að velja eins vel og ég get hverju sinni. Gera það besta úr því versta.

Að lokum, þá tel ég að margt í grunnhugmyndinni hafi verið ágætt, fá fólk til þess að vakna til meðvitundar og sýna okkur hversu týnd við erum í okkur sjálfum. Manneskjan er svona gerð, fyrir sjötíu árum var það sama í gangi og eflaust sjötíu árum þar á undan. Í dag eru öfgarnar bara svo gífurlega miklar. Heimurinn er í stöðugu stríði. Ég tel að útfærsla Verk Produksjon hafi einfaldlega verið of sértæk. Að nota sálarglímu Brechts á meðan hann skrifar leikverk í miðju stríði sem form gerði í raun sögnina ruglingslegri, of sértæka til að fylgja með. Það hefði mögulega hentað betur t.d. í góða grein í blað eða jafnvel bara einn vandaðan facebook status.

Katrín Halldóra Sigurðardóttir
Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s