Bréf frá Berlín: Nýr stór sannleikur

Það er komið haust í Berlín. Kalt og skýjað og grái liturinn er í þann veginn að fara að taka yfir allt. Ef ekki væri fyrir roðagyllt haustlaufin.

Um daginn gekk ég fram hjá vegg sem búið var að þekja með plakötum frá Hebbel am Ufer leikhúsinu í Kreuzberg. Feitletraðar yfirlýsingar, nöfn sýninga og hópa í bland við einkennisskammstöfun leikhússins, HAU. Ég tók sérstaklega eftir tveimur plakötum: Die Ende eftir She She Pop og Western Society eftir Gob Squad. Tveir af stærri hópum hins póstdramatíska samtímaleikhúss og tveir mjög stórir, jafnvel epískir, titlar.

hau-plaköt

Fyrr í vor sá ég sýningar eftir tvo aðra hópa, álíka mikilvæga, og nöfn sýninganna voru á svipaða leið: The Coming Storm eftir Forced Entertainment og Life and Times eftir Nature Theater of Oklahoma. Ekkert verið að skafa af því, hér eru stóru nöfnin að takast á við eitthvað stórt, eitthvað rosalegt, epískt jafnvel. Yfirskrift Lókal í ár var einmitt beinlínis á þá leið:

‘It’s epic!’.

Hvað er eiginlega á seyði? Hvað er um að ske hér?

Það er eins og hinn ódrepandi póstmódernismi sé endanlega steindauður og jarðaður og að eitthvað stórt og satt sé komið aftur í tísku, eitthvað epískt. En hvað? Við fyrstu sýn virðist allt eins og það á að sér að vera hjá þessum leikhópum, einlæg kaldhæðnin í hámarki, leikur með form, framandgerving, fjórði veggurinn brotinn niður o.s.frv. En það er eitthvað aðeins öðruvísi, umfjöllunarefnið er orðið aðeins fókuseraðra, persónulegra jafnvel.

Tökum Life and Times sem dæmi. Verkið er epískt á marga vegu. Nú þegar er hópurinn búinn að frumsýna fyrstu sex hlutana af tíu.  Þessir fyrstu sex hlutar eru rétt tæpir fimmtán klukkutímar (verkið verður 24 tímar þegar það er tilbúið), fyrstu sex tímana er hvert einasta orð og hik og humm sungið, samhæfðir sovéskir dansar eru einkennandi, risa american bbq fyrir alla í hléi o.s.frv. En sagan er líka epísk og sver sig í raun í ætt við forn grísk og rómversk hetjuljóð, nema í þessu tilfelli er hetjan hin 35 ára gamla Kristin Worral, meðlimur leikhópsins. Hún er líklega eins venjuleg millistéttarkona og hægt er að vera. Verkið er nákvæm ævisaga hennar til þessa, hlutar eitt til sex spanna árin frá fæðingu til átján ára aldurs. Í þessu felst epíkin og hinn nýi stóri sannleikur, hið persónulega, hið raunverulega.

Actors from the Nature Theater of Oklahoma perform on stage during a dress rehearsal of the play "Life and Times - Episode 2" in Vienna

Life and Times

Annað dæmi. Verkin á Lókal í ár voru, samkvæmt yfrskriftinni, epísk. Ekkert þeirra var hins vegar neitt sérlega stórbrotið í lengd eða umgjörð. Það er kannski einna helst Build Me A Mountain eftir Verk Produsjoner sem tók að sér augljósustu epíkina en þar var unnið með hugmyndir Brechts um hið epíska leikhús. Ég held þó að það skipti ekki höfuðmáli í samhengi þessarar yfirskriftar, í raun má segja að allt póstdramatískt samtímaleikhús sé barnabarn Brechts, og þar með hluti af hinu epíska eða dialektíska leikhúsi. Það sem skiptir máli var að flest verkanna snérust öðrum þræði í kringum hið persónulega og raunverulega, sérstaklega Tómið, Dansaðu fyrir mig og Winners and Losers. Verkin Tiny Guy og Execution Stories dansa á línunni, í þeim nota listamenn sína persónu sem útgangspunkt og byggja verkið á skýrum tenglsum við hinn raunverulega heim handan leikhússins. Þar var þó ekki gengið eins langt og í hinum þremur fyrrnefndu.

Opinberun og sviðsetning hins persónulega og raunverulega virðist hinn nýi sannleikur og í þessu felst epíkin. Það er auðveldlega hægt er að lesa Tómið hennar Ragnheiðar Hörpu sem eins konar epíska hversdagskviðu, ljóðabálk um krúttlegheit fjölskyldunnar þar sem persóna listamannsins og prívatheimur hans er í forgrunni alls. Súper egó. Það sama á við um Dansaðu fyrir mig og Winners and Losers: við fáum að sjá inn fyrir, það glittir í raunveruleikann, í eitthvað sem er alvöru, satt og rétt, hreinskilið og einlægt.

It’ epic.

Og auðvitað leitum við inn á við í okkar eigin persónulega sjálf. Við þekkjum ekki annað eftir þriggja áratuga heilaþvott póstmódernismans og kapítalskrar áherslu á kraft einstaklingsins. Enda hefur hugmyndin um einstaklinginn jafnvel aldrei verið eins sterk og kraftmikil og í dag. Hún hrundi ekki. ‘Einstaklingurinn’ verður þannig hinn eini sanni stóri sannleikur og miðast nánast allt í okkar samfélagi út frá sköpun okkar og framsetningu á eigin sjálfi.

Ég sá Western Society eftir Gob Squad núna fyrr í haust og ég bjóst við bombu. Nú yrði bara allt með öllu tekið fyrir í einhverju risa pómó spektakúli. En annað kom á daginn. Sýningin var róleg og yfirveguð, engin konfettiflugeldasýning, engar tívolíbombur, og útgangspunkturinn hógvær: Stutt myndbrot af netinu sem sýndi vestræna, afslappaða fjölskyldu að borða köku í afmæli. Og hvað gerðu listamennirnir annað en að máta sitt eigið hversdagslega og prívat sjálf við þessa fjölskyldu, þessa mynd af okkur öllum? Jú, verandi Gob Squad, fengu þau okkur áhofendur með sér í lið, þ.e. nokkra sjálfboðaliða, til að hjálpa við að opna þennan heim hins epíska.

gob_squad_western_society_david_baltzer_10

Western Society 

Og ég elskaði það. Ég sökkti mér inn í raunveruleikann og alvöruna. En svo rankaði ég við mér. Ég mundi allt í einu eftir því að leikhúsið, eins persónulegt og nálægt og nærgöngult það er, getur aldrei verið neitt annað en blekking. Leikhús er lygi. Hvers virði verður sannleikurinn þá? Get ég einhvern tímann komist að kjarnanum, að hinu raunverulega og persónulega og sanna á forsendum lyginnar? Felst epíkin kannski einmitt í þessari þversögn; það er sama hversu djúpt eða langt inn á við við förum, við sleppum aldei undan blekkingunni og lyginni sem grundvallar sjálft listformið?

It’s epic.

Karl Ágúst Þorbergsson.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s