Að tjá sig gegnum tónlist – Málmhaus eftir Ragnar Bragason

Tónlist er sameiginlegt tungumál. Þegar orðunum sleppir tekur tónlistin við. Hún getur sameinað fólk, blásið lífi í byltingar, veitt okkur kjark í mótlæti. En hún getur líka huggað okkur á erfiðum tímum, tónlistin er sálusorgari, vinur sem er alltaf tilbúinn að hlusta.

Image

Málmhaus er mynd um tónlist. Hera Karlsdóttir missir eldri bróður sinn í slysi á sveitabæ og nokkrum árum síðar er fjölskyldan enn í sorgarferli. Foreldrar Heru hafa byrgt sorgina inni og lifa í afneitun á raunveruleikanum. Hera er einnig ófær um að kljást við raunveruleikann og hennar flóttaleið er heimur málmsins, harðasta rokkið sem bróðir hennar dýrkaði og dáði. Engin þeirra fær flúið sveitabæinn, kýrnar og hagana, en öll nota þau tónlistina sem útgönguleið úr hversdeginum. Meðan Hera lokar sig inn í herbergi umkringd guðum þungarokksins mæta foreldrar hennar á kirkjukórsæfingar – gítar föður hennar liggur óhreyfður upp í hillu – meðan sorgin ríkir, stendur tíminn í stað.

Það er enginn asi í myndinni og hún er að mörgu leyti byggð upp eins og tónverk. Það eru ekki allar persónur jafn vel úr garði gerðar. Æskuvinur Heru sem síðar verður eiginmaður er ögn of lúðalegur, nýi presturinn sem hlustar á þungarokk í laumi er ágætis uppkast að persónu en hans saga er aldrei sögð til enda. Sveitafólkið sem maður kynnist á ballinu og í safnaðarnefndinni eru myndir af persónum en ekki fólk af holdi og blóði – Benedikt Erlingsson náði mun betri tökum á þessum íslensku sveitaerkitýpum í myndinni Hross í oss. Og þungarokkararnir frá Noregi eru skemmtilegt ,,comic relief” en gufa svo upp.

Sú persóna sem mestu máli skiptir er hins vegar tónlistin. Í lífi Heru Karlsdóttir verður tónlistin tákn um frelsi, lausn frá þessum skandinavíska ömurleika. Þegar Hera leikur á gítarinn í fjósinu taka kýrnar undir, þegar hún spilar þungarokk í hátalarakerfi sláturhússins er hún rekin úr vinnunni; allt sem Hera tekur sér fyrir hendur snýst um tónlistina sem hún elskar. Hennar guðir eru á þungarokksplakötum en hún fyrirlítur guðinn sem tók líf bróður hennar, þegar hún heimsækir leiði bróður síns tekur hún ferðamagnara með sér og spilar undir berum himni.

Boðskapur myndarinnar er ekki flókinn. Til þess að lifa lífinu þarf að sleppa tökum á fortíðinni. Það er það sem fjölskyldan neyðist til að gera eftir því sem líður á myndina. Þau sleppa tökunum, brotna niður hvert í sínu lagi, opna augun fyrir þeirri lygi sem þau hafa lifað í og reyna að fóta sig á ný.

Ragnar Bragason notar svo tónlistina í stað orða til að lýsa þroska persónanna. Eitt af lágstemmdari en áhrifamestu atriðum myndarinnar er þegar Hera læðist niður í eldhús og heyrir óm úr stofunni, Karl faðir hennar er kominn með gítarinn í hendurnar og syngur með eiginkonu sinni og hlær. Það er tónlistin sem er græðir sárin. Hera nær sátt við bæjarbúa þegar hún treður upp með eigin bandi á þorrablótinu. Við getum gert okkur framhaldið í hugarlund, þungarokkstónar Heru hafa þegar vakið athygli málmhausa í Noregi, hennar bíður nýtt ferðalag, nýir áfangastaðir. Lokaatriði myndarinnar er jafnframt það sterkasta, móðir Heru réttir fram sáttarhönd en hin raunverulega sátt næst gegnum tónlistina – þegar móðir og dóttir ,,slamma” við þungarokkstóna úr kasettutækinu, svo slæst Karl með í hópinn. Þegar orðunum sleppir tekur tónlistin við, tónlistin og dansinn, hin eilífa hreyfing sem fylgt hefur mannkyninu frá upphafi alls.

Símon Birgisson. 

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s