Menning handa þjóð
: Nokkrar hugleiðingar um mikilvægi menningar og aðgengi að henni.

Svör við gagnrýni á gagnrýni

„Íslenskur maður er suður í Kaupmannahöfn og yrkir leikrit á dönsku, af því hér er ekkert leikhús til. Honum er að sómi en oss er að minkun.“

Ísafold, 22. apríl 1908

Um daginn var ég í flugvél og las þar í lúnum bæklingi sögu um borgina Perm. Borg á hjara Síberu þar sem fólk býr við bágt efnahagsástand og verra veðurfar. Hún virðist engu að síður vera í miklum vexti og íbúarnir fullir bjartsýni. Unga fólkið sem áður flutti þaðan í vonleysi er að flytja aftur heim í stórum stíl. Ég hef aldrei komið til Perm en þetta fyllti mig forvitni. Ég gat ekki skilið hvers vegna ungt fólk vildi búa eða starfa á þessum stað sem fyrir mér virkaði óheillandi.
 Neyðarástand hafði ríkt þar og nærri 160.000 manns fluttu frá borginni á einum áratugi (íbúar voru ein milljón svo þetta er meira en einn tíundi).

Hvernig átti þá að manna spítalana og tryggja heilsu fólks? Hvernig átti að finna hæft fólk til að sjá um allt innviði borgarinnar, löggæslu, kennslu og önnur störf? Svarið reyndist vera fólgið í því að styrkja listalífið. Með því að verja áður óséðum upphæðum í listir og menningarlíf tókst að snúa þróuninni við. Unga fólkið sem áður hafði stefnt til Moskvu, St. Pétursborgar eða jafnvel erlendis, sá að heimaborg þess hafði þrátt fyrir allt sína kosti. Þetta var góður staður til að búa á, skemmtileg og nýtískuleg borg með metnað. Í dag er Perm miðstöð lista og menningarlífs í Rússlandi og laðar meira að segja að sér Rússa sem flutt höfðu til Bandaríkjanna eða annarra Evrópulanda.

Þið sjáið eflaust hvert ég er að fara með þessum pistli. Enn einn listamaðurinn að reyna að réttlæta fjárstyrki til menningarlífs. Enn einn pistillinn sem reynir að svara hinni eilífu spurningu um hvers vegna við ættum að styrkja listir í landi þar sem til er veikt fólk í neyð og skuldir heimilanna aukast. Ég nenni ekki að sóa tíma mínum í umræðu sem etur saman lattélepjandi lopatreflum og lopaframleiðandi mjólkurbændum sem andstæðingum, frekar en samherjum í einhvers konar vistkerfi. Frekar vil ég spyrja hvers vegna listalífið mætir svo miklum fjandskap og andstöðu?

Sjálfur tel ég ástæðuna vera þá að stór hluti fólks á Íslandi nýtur ekki nema brotabrots af því listalífi sem það hjálpar til við að fjármagna. Hinir efnaminni hafa ekki fjárráð til að njóta listar og fólk sem býr á landsbyggðinni nýtur ekki góðs af því starfi sem fer fram í 101 Reykjavík. Augljóslega er fullt af góðri list utan þess hverfis, en Reykvíkingar eiga þó kost á því að sjá fleiri listasýningar en aðrir landsmenn. Við munum seint breyta því að mest listsköpun sé bundin við höfuðborgina en við getum gert ýmislegt til þess að auka aðgengi allra að henni.

Menningarstarfið á að vera fyrir fólkið í landinu en af einhverjum völdum upplifir stór hluti fólks eins og þessi menning sé ekki fyrir sig. Talað er um listamenn líkt og þeir búi allir í sama kjallaranum í 101 og bori í naflann á sér (að sjálfsögðu einungis eftir að þeir hafa vaknað skelþunnir um hádegi og fengið sér fyrsta kaffibollann). Þessu þarf að breyta. Listakonur og menn eru stelpurnar og strákarnir okkar, alveg eins og íþróttaliðin. Eitthvað sem ætti að vera sameiginlegt stolt allra sem búa í landinu, en ekki bara sérviska útvaldra Reykvíkinga. Við listamenn þurfum að skoða hvers vegna fólk upplifir það að við séum ekki með þeim í liði. Íslensk list er því miður óaðgengileg stórum hluta fólks, ekki þannig að listin sé svo óskiljanleg heldur frekar af því hún er kostnaðarsöm og langt frá fólki. Það þarf að styrkja höfunda svo þeir geta ferðast um landið og lesið upp úr bókum sínum, það þarf að veita Þjóðleikhúsinu bolmagn til að geta sent sýningar sínar út á land, það verður að tryggja að fólkið sem fjármagnar menninguna með sköttum sínum geti líka notið hennar.

Hvers vegna ekki að hafa útibú frá Þjóðleikhúsinu eða Listasafni Íslands á nokkrum vel völdum stöðum út á landi? Eða aðrar menningarstofnanir sem gætu tekið á móti leiksýningum, danssýningum og kvikmyndum? Í Frakklandi og Þýskalandi eru leikhús í úthverfum og jafnvel smáþorpum sem geta keypt til sín sýningar. Ef slíkt kerfi væri við lýði myndum við í stað eins Þjóðleikhúss hafa mörg. Til dæmis fengi Ísafjarðarbær úthlutað ákveðnu fjármagni sem hann gæti nýtt til að kaupa sýningar; eina frá Borgarleikhúsinu, tvær frá sjálfstæðum leikhópum, eina frá Leikfélagi Akureyrar og kannski tvær frá Þjóðleikhúsinu. Þetta hljómar dýrt en það þarf ekki að vera það, þetta væri bara öðruvísi nýting á fjármagni sem við eyðum nú þegar. Á Ísafirði er til dæmis þegar aðstaða til að taka á móti leikhópum, það vantar bara fjármagn og listrænan stjórnanda til að velja inn í leikárið. Sá aðili gæti líka framleitt sitt eigið efni með því að bjóða listamönnum að koma til bæjarins að vinna, eða nýtt þá listamenn sem þegar eru til staðar til að framleiða sýningu sem leikhúsin á Egilstöðum og Reykjavík gætu hugsað sér að panta. Við erum að tala um nokkrar manneskjur með gráðu í menningarstjórnun, nokkra tæknimenn og ferðastyrki handa listamönnum, í bland við áframhaldandi verkefnastyrkjakerfi (listamannalaun eru rangnefni. Þetta eru verkefnabundnir styrkir gefnir til skamms tíma ekki áskrift upp á laun … Þá er sá misskilningur leiðréttur).

Það er þó ekki bara staðsetningin sem gerir menningarupplifanir fjarlægan draum. Við megum ekki gleyma að leikhúsmiðar og aðgangseyrir á listasöfn er óhemju hár. Þetta er sökum þess að þó sýningar séu að hluta til styrktar, þarf samt sem áður að selja miða til að koma ekki út í tapi. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, við niðurgreiðum lambakjöt en við búumst ekki við að lambalæri séu ókeypis í búðum. Vonandi eru allir sammála um að enginn ætti að þurfa að svelta á landinu.

Ég segi að enginn ætti að svelta, hvorki líkamlega eða menningarlega. Fullt af fólki sveltur því miður menningarlega því það getur ekki leyft sér leikhúsmiða á 4500 krónur ef það er með verðtryggt lán á bakinu sem hefur tvöfaldast eða er háð matargjöfum hjá Fjölskylduhjálp (í staðinn fyrir að bjóða börnum sínum á Mary Poppins kaupir það eðlilega frekar handa þeim mat eða ný föt). Það er synd að stór hluti fólks upplifi þar af leiðandi ekki danslist, ekki myndlist, ekki leiklist eða íslenskar kvikmyndir. En hvers vegna ekki að bjóða upp á menningarávísanir, tékka sem einungis hægt væri að leysa út í leikhúsi eða með því að fara á íslenska kvikmynd? Slík aðgerð þyrfti ekki að kosta mikið, í raun mætti færa hluta af styrkjum liststofnana yfir í að gefa hverri kennitölu ákveðna upphæð sem einungis er hægt að nýta í menningarviðburði. Með þessu móti væri hægt að tryggja öllum aðgengi að list, skyldu þeir óska þess. Ef tékkinn er ekki nýttur rennur upphæðin einfaldlega aftur í verkefnastyrki til listsköpunar eða svipaðra fyrirbrigða.

Sagan segir að þegar heimsstyrjöldin síðari var í algleymingi og Bretar þurftu að lifa við matarskömmtun og stöðuga ógn af sprengiárásum var Churchill spurður hvers vegna ríkistjórn hans héldi áfram að styrkja listir og menningu? Hann játaði að peningunum gæti verið varið í byssukúlur, sprengjur og aðra hluti sem menn nota til þess að drepa hvorn annan. Síðan sagði hann:
 Allt eru þetta hlutir sem við berjumst með, en ef við höfum ekki listir eða menningu, fyrir hverju erum við þá að berjast?

Dæmisöguna um Churchill (sem kannski er sönn, kannski ekki) má skilja sem svo: Við gætum eytt allri okkar orku í að berjast gegn nasistum og þeirra hrylling, en það sem skilur okkur frá þeim er líka menningin. Nasistarnir börðust gegn ákveðinni gerð menningar (nútímalist eins og hún leggur sig), sem lýðræðissamfélög nútímans hafa ákveðið að styrkja. Listsköpun skilgreinir og endurnærir samfélagið í kringum sig. Án hennar tekur því ekki að vera sjálfstæð eða búa á ákveðnum stað. Án Íslendingasagnanna og annars menningararfs hefðum við aldrei nennt því að vera sjálfstæð. Danir hefðu vel getað borað göng, séð um löggæslu og haldið uppi velferðarkerfi á Íslandi fyrir okkur (þeir hefðu líka veitt okkur stöðugri gjaldmiðil, betri húsnæðislán og styrki til háskólanáms). Þeir hefðu þó seint skilið mikilvægi íslenskrar menningar eða hversvegna einhver nennir að búa hérna. Ef við spörum okkur menninguna munum við á endanum gleyma til hvers við erum Íslendingar og aðrar menningarríkari þjóðir munu heilla meira, því ekki búum við hér vegna veðurfarsins eða bankalánanna. Ef Ísland á að eiga nokkra framtíð þá verður það að halda uppi öflugu listalífi og allir verða að fá að njóta þess. Ég sé tvo framtíðarmöguleika: Framtíð þar sem fólk vill búa hér og aðra, ekki svo fjarlæga endilega, þar sem fólk vill ekki búa hér.

Veljum rétt. Veljum Perm. Minni nasisma og meiri list.

Snæbjörn Brynjarsson.

Höfundur er lopatrefill búsettur í Brussel og hefur lifibrauð sitt af því að fíflast á fransk-íslenskri kreól-mállýsku á alþjóðlegum listahátíðum. Hann hefur einnig skrifað fantasíubókaröð í samstarfi við Kjartan Yngva Björnsson og hlotið verðlaun fyrir en ekkert lifibrauð.

http://www.nytimes.com/2011/07/24/travel/perm-russias-emerging-cultural-hotspot.html?pagewanted=all&_r=0.

Advertisements

3 thoughts on “Menning handa þjóð
: Nokkrar hugleiðingar um mikilvægi menningar og aðgengi að henni.

  1. Það væri líka hægt að senda út beinar útsendingar frá Þjóðleikhúsinu. Það er t.d. gert í Englandi þar sem það eru sendar beinar útsendingar frá t.d. National Theater í bíóhús í úthverfunum svo fólk þurfi ekki að ferðast langar leiðir til að komast í leikhús.

  2. Takk fyrir góðan pistil Snæbjörn. Í þessu samhengi má benda á að í þeim tilvikum, sem eru allt of fá, þegar list og menning hefur náð fótfestu utan 101 hefur henni verið tekið opnum örmum og af mikilli vinsemd og áhuga. Menningarlífið á Seyðisfirði er t.d. mjög ríkt og lifandi (en þar er reyndar að finna allsvakalega kaffivél), á Egilsstöðum, Patreksfirði og Grundarfirðu eru mjög áhugaverðar kvikmyndahátíðir, listahátíðin Æringur ferðast milli bæjarfélaga, var t.d. einu sinni á Stöðvafirði og út frá því var farið að vinna í því að gera menningu og listum að einhvers konar miðpunkti í þeim kjarna, t.d. með þvi að nýta gamla frystihúsið. Ég held að það þurfi að gera meira af svona, það eru t.d. óteljandi tóm frystihús sem mætti nýta og koma upp residensíum út um allar trissur. Ég held meira að segja að það sé tiltölulega auðvelt að kosta þetta, aðallega með styrkjum frá þessum sveitafélögum.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s