Sveinn Einarsson ræðir bók sína um Guðmund Kamban

kamban

Kamban- Líf hans og störf, bókin um Guðmund Kamban, er mikil smíð, margra ára rannsóknarvinna á leikskáldinu, rithöfundinum og leikstjóranum Guðmundi Kamban. Það er ekki á hverjum degi sem slíkar bækur koma út á Íslandi. Ævisögur listamanna og leikhúsfólks fyrirfinnast vissulega, en bækur sem kafa ofan í æviverk listamanna og skoða í samhengi við samtíma þeirra eru ekki svo margar. Bókin er vel skrifuð, ítarleg, stútfull af athyglisverðum staðreyndum, merkilegum tilvitnunum og skemmtileg lesning fyrir þá sem hafa áhuga á leiklist millistríðsáranna. Sveinn Einarsson hefur skrifað mikið um þetta tímabil og þekkir vel til áhugaleikhúss þess tíma og fyrstu sprotunum í íslensku atvinnuleikhúsi. Kamban hafði ekki kost á því að vinna að list sinni hér á landi. Hann var bókhneigður, ekki framúrskarandi nemandi en þó nógu góður til að eiga erindi í nám erlendis. Það að hann skyldi hafa brotist til mennta virðist helst vera móður hans að þakka sem virtist eins og Sveinn orðaði það: „Hafa áttað sig á því að drengurinn væri ekki úr sama víravirki og systkini hans.

“

En hver var þessi Kamban? Þó verk hans séu sjaldan sett á svið nú til dags, naut hann virðingar og viðurkenningar á tímabili. Þessi Íslendingur sem skrifaði mest á dönsku kom til tals í sænsku pressunni þegar ræddar voru mögulegar nóbelsverðlaunatilnefningar á hátindi frægðar sinnar. Skáldsögur hans voru þýddar á mörg tungumál og þótt hann næði aldrei að verða miðlægt leikskáld og leikstjóri í Danmörku þá leikstýrði hann í stærstu leikhúsum landsins og var talinn með efnilegustu leikskáldum síns tíma. Því miður var frami hans þó ekki alltaf glæstur og ævilokin tragísk. Frægt er að Kamban var skotinn af dönsku andspyrnuhreyfingunni á seinasta degi stríðsins. Leikstjórnarverkefni hans á meðan hernáminu stóð voru fá en þó nógu mörg til að sumir innan þeirrar hreyfingar gátu litið á hann sem svikara. 

Ég hringdi í Svein til að spyrja nokkurra spurninga varðandi bókina.

-Hvað varð til að þú fórst að skrifa bókina?

Ég var að skrifa þriðja bindið af Íslenskri leiklist, sem fjallar um tímabilið 1920 til 1960, en þá rifjaðist upp svokallað Kambans-mál. 
Það var gríðarlegt hitamál sem snerist um samstarf Kambans og Leikfélags Reykjavíkur. Hann var orðinn þekktur út í útlöndum og hér heima sem mjög efnilegt leikskáld, og þar að auki sem leikstjóri. Hann bauð fram krafta sína áramótin 1926/27 en stjórn LR hafnar því og þeim hefur verið legið á hálsi fyrir að hafa gert það. Þeir hafa einhvern veginn ekki lagt í að vinna með honum og verið með minnimáttarkennd yfir að kunna minna en hann, hélt ég fyrst. Síðan fór ég að skoða þetta betur og þá sá ég að þetta var ekki síður Kamban að kenna. 
Hann gaf þeim nánast engan frest, hann ætlaði að koma eftir þrjár vikur og setja upp þrjú leikrit eftir sjálfan sig. Leikfélagið hafði að sjálfsögðu önnur plön, meðal annars samið við Davíð Stefánsson um hans fyrsta leikrit.

-Ég fékk svolítið þá tilfinningu við lestur bókarinnar að Guðmundur Kamban hafi verið erfið týpa.

Hann var stórlátur. Í þessu tilviki átti allt að víkja fyrir honum og menn fóru að spyrja sig, er hann raunverulega sú stærð út í útlöndum og hann lætur í veðri vaka? Og ég ákvað bara að skoða það. 
Hann var mikils metinn og eftir Vér morðingja var hann sennilega talinn efnilegasta leikskáld Norðurlanda. (Innskot: Vér Morðingjar var samið 1920. Fyrsta verk Guðmundar, Hadda Padda, hafði verið sett upp 1912, hlotið mikið lof og aðsókn í Kaupmannahöfn, sett upp í Dramaten í Svíþjóð og á Íslandi. Það var rómantísk ástarsaga með íslenskt landslag í bakgrunni, í nýrómantískum stíl. Guðmundur skrifaði nokkur önnur leikrit áður, Konungsglímu og Marmara. Hann dvaldi um skeið í Bandaríkjunum, en Marmari og Vér morðingjar eiga sér stað vestanhafs).
 Hann er líka með fleira í farteskinu eftir dvöl sína í Ameríku því hann er líka með fyrstu skáldsögu sína, Ragnar Finnsson, sem er svona hálfgert raunsæi á köflum og félagsleg ádeila. Fyrir utan Vér morðingja skrifar hann eitt sitt merkasta verk sem er Marmari, ádeila á fangelsismál. Hann safnar mikið í sarpinn þessi tvö ár sem hann dvelst vestanhafs, og snýr aftur sem mikill þjóðfélagsrefsari, sem hann er svo fram eftir öllum sínum ferli.

Í raun guggnuðu Danir á að halda honum uppi. Það var mikið afturhald í dönsku leikhúsi, og aðrar skáldspírur eins og Kaj Munk, Sven Clausen, Svend Borberg fengu heldur ekki inni. Það var mikið um deilur í kringum Konunglega leikhúsið og sá sem hafði sig mest frammi var Kamban. Hann tók stórt upp í sig og leit stórt á sig. Svo þegar honum fannst sér væri ekki sinnt sem skyldi fór hann heim. En þá gekk því miður ekki að koma á samstarfi milli hans og Leikfélagi Reykjavíkur, og hann fór aftur út.

Hann er fyrsta stórskáld okkar sem er alþjóðlegt í sniði. Sem skrifar um alþjóðleg málefni. 
Fram að þessu (Innskot: þegar Kamban reynir að snúa til Íslands 1926/27 en er hafnað) hefur sögusviðið alltaf verið Ísland nútímans en nú sneri hann sér að fortíðinni. Hann skrifaði á þessum tíma sögulegu skáldsöguna Skálholt sem er fram að Íslandsklukkunni merkilegasta sögulega skáldsaga sem við höfum átt. Og ég held nú reyndar að Halldór Laxness hafi tekið eftir Skálholti og verið undir einhverjum áhrifum þaðan.

Hann er femínisti í þessu verki, hefur reyndar alltaf verið mjög femínískur í leikritum sínum en hann lætur sér mjög annt stöðu konunnar í samfélaginu eins og sést á persónunni Ragnheiði. Hann er nokkuð einn um það að mörgu leyti á þessum tíma. Þetta er kannski sérkennilegt miðað við hvað hann var mikill patríark sjálfur, en samúð hans er klárlega með Ragnheiði biskupsdóttur en ekki Brynjólfi biskup. Önnur mjög femínísk verk eftir hann eru til dæmis: Ég sé vítt land og fagurt og Þessvegna skiljum við. Hann er að minnsta kosti með allt aðra siðgæðisvitund heldur en var ríkjandi í borgaralegu samfélagi þess tíma.

-En svo snúum okkur aftur að leikhúsheiminum, þú vilt sem sagt meina að Kamban hafi ekki komist inn fyrir í dönsku leikhúsi út af íhaldssemi?

Það er alveg öruggt. Bæði Konunglega leikhúsið og Dagmar-leikhúsið, sem eru leiðandi í leikhúslífinu á þriðja áratugnum, taka bæði til sýninga Marmara. Ég hef séð leikgerð þar sem hann styttir það verk til að verða við óskum þeirra. En bæði leikhúsin bregðast og hætta við sýningar þannig að hann verður beiskur og bitur, og finnst ekki nógu gott fóstur í Danmörku. Það er ekki af ástæðulausu sem hann dreymir alltaf um að slá í gegn á ensku. 
Það tekst honum ekki, en hann fer þó til Bretlands 1935 og er þar heilt ár. Þá lætur hann þýða leikrit sín, en þau ná aldrei vinsældum hjá Bretum eða Þjóðverjum. Þessi stóru ádeiluleikrit hans henta nasistunum auðvitað ekki. Þannig að það verða skáldsögurnar sem ryðja honum brautina. Skálholt er þýdd á fjölda tungumála, og kemur út í bæði Bretlandi og Bandaríkjunum, það er því einhver afrakstur af dvölinni þar. Þetta var mjög óalgengt fyrir norræna höfunda á þessum áratug, hann nær því býsna langt. Þetta kemur fólki eflaust á óvart, við höfum aldrei skoðað feril hans nægilega vel, hvorki sem kvikmyndaleikstjóra, eða lagt mat á hversu góður leikstjóri hann var yfirhöfuð. Við þyrftum að sinna því.

-Almennur lesandi Reykvélarinnar og reyndar ég sjálfur, við þekkjum ekki alveg stöðuna í leiklistarlífi þess tíma. Þú nefnir Kaj Munk sem dæmi um annað leikskáld sem fær mikið lof en gengur erfiðlega að fá sett upp á svið, hvað er það sem veldur því? Er það eitthvað í verkunum sem leikhúsin höndla ekki, eða er það bara af því þau eru ný? Er þetta áhættufælni?

Sko, þau eru náttúrulega að mörgu leyti nýstárleg. Það er mjög sterkt borgaralegt raunsæi ríkjandi í dönsku leikhúsi fram eftir öllu. 1912 fór Fjalla-Eyvindur á svið sem er allt annars konar rómantískt verk, skáldlegt og stórt í broti. Á sama tíma kom Inden for murene. Það er raunsæisverk og hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá Dönunum. (Innskot: Inden for murene sem naut mun meiri og langvarandi vinsælda en Fjalla-Eyvindur var verk sem sagði frá ástum gyðingadrengs og kristinnar stúlku í Kaupmannahöfn. Leikritið eftir Henri Nathansen var gert að kvikmynd 1963). 
 Danir sitja fastir í raunsæinu á þessum tíma en það eru sumir sem reyna aðrar leiðir. Svend Borberg var expressjónisti til dæmis. Sendiherrann frá Júpíter eftir Kamban er expressjónískt líka, það líður fyrir skort á dramatískri mótstöðu gegn þessum sendiboða. Ég held að það mætti samt leika sér með það í dag og setja í gegnum þýskan tætara og koma með boðskapinn eftir öðrum leiðum.

-Það er mjög athyglisvert leikrit finnst mér. Ein fyrsta tilraun Íslendings til að skrifa vísindaskáldskap.

Já, mjög. Vitsmunalega séð er það athyglisvert.
 Undir lok ferils síns fer Kamban að vinna í þýsku leikhúsi og sýnir þá það sem ég vil kalla stóru komedíurnar. Að vísu er Grandezzan ádeiluverk á hasarblaðamennsku og yfirborðsmennsku.
 Samt finnst mér ekki mikið til koma í seinni verkum Kambans.

-Hann virtist niðurbrotinn?

Já. Ekki eins stórhuga allavega.
 En það sem kemur mér á óvart er hversu mikill friðarsinni hann er, jafnvel eftir að Þjóðverjar vígbúast og stríðið hefst. Myndin sem til er af honum er of einfeldningsleg, finnst mér. Hann var vinur Þjóðverja en á sama tíma bölvar hann þessu hernaðarhelvíti sem þeir búa við.

-Hann var ekki nasisti þrátt fyrir að vera vinur Þjóðverja?

Nei, hann var ekki nasisti. En þetta var flókin tíð og hann var stórbrotinn persónuleiki, mikilhæft skáld sem lífið lék illa en maður getur spurt sig hvort hann geti sjálfum sér um kennt hvernig fór. Það einkennir líka stóru persónurnar í verkum hans að þær hafa allar hubris, eyðileggja líf sitt með stórræði sínu og gjalda líf sitt fyrir sína hugsjón.

-Ég kann að meta það í fari hans að hann er ekkert að smjaðra fyrir fólki eða fólki með völd. Eins og þegar hann fer til Stokkhólms í boði Konunglega leikhússins sem leikskáld, og heldur þar ræðu þar sem hann tilkynnir að: „Det danske teater ligger i ruin.‟ Ég efast um að það hafi orðið honum til framdráttar.

Hann tók nú oft stórt upp í sig. Og ég hafði gaman af því að lesa orð hans á stúdentafundum um stöðu danska leikhússins og leikritunar. Hann er ekkert að skafa af því. 
Annað sem mér þótti vænt um var þegar hann varð leikstjóri hjá Folketeatret, þá leggur hann sig fram við að sýna dönsk leikrit. Hann sem sagt tekur kollega sína upp á sína arma.
 Svo þegar hann er hjá hinu Konunglega leikhúsi þá setur hann upp verk eftir Peter Franken, en það dregur taum eskímóa á kostnað hinna hvítu kúgara. Sem er mjög skrítið ef menn eru að leita að nasistaáróðri í verkum hans. Í bókinni Ég sé vítt land og fagurt, dregur hann mjög í efa að hvíti kynþátturinn sé æðri nokkrum öðrum og ég undrast það reyndar að nasistar hafi leyft birtingu hennar, en þeir hnika að vísu einni setningu.

-Hvað er langt síðan verk eftir Kamban var sett upp svo við snúum okkur aftur að leikverkum hans?

Það var árið 2000. Það var Vér morðingjar en það hafa verið fjórar uppsetningar hér á landi af henni, sú fyrsta var um 1920, það var Leikfélagið. Síðan 1952 kom leikhópur Gunnars Hansen, svo í Þjóðleikhúsinu 1968, sem Benedikt Árnason setti upp. Skálholt hefur verið sett upp nokkuð oft, bæði í Reykjavík og Akureyri. Skálholt kemur strax eftir dauða Kambans, er sett upp af Leikfélaginu um haustið.

-Það er sem sagt leikgerð upp úr skáldsögunni?

Það vildi hann aldrei viðurkenna. Hann hélt því fram að þetta væru sjálfstæð verk og að hann hefði skrifað þau bæði samtímis. Leikritið fjallar reyndar ekki um nema atburði fyrri hluta skáldsögunar. Það var sett upp aftur á tíu ára afmæli Þjóðleikhússins, og svo gerði Bríet Héðinsdóttir leikgerð upp úr verkinu sem hét Jómfrú Ragnheiður. Þessvegna skiljum við hefur líka verið sett upp og svo tvö önnur verk í útvarpi, þar á meðal Grandezzan, sem ég leikstýrði, en mér finnst endilega að það eigi að setja það verk upp aftur. Hitt verkið var Þúsund Mílur, skrifað 1939, mikill friðarboðskapur sem aldrei fékkst leikinn því það passaði ekki inni í tíðarandann.

-Hvað persónulega finnst þér standa upp úr af verkum hans?

Það eru margir kaflar í Skálholti sem mér þykir glæsilegir. Mér finnst gaman af því, sökum þess að Kamban er sagður aðallega vitsmunalegur höfundur. Ég heyrði Pétur Gunnarsson lesa upp kafla úr seinni part Skálholts þar sem ungur prestur sem bendlaður hefur verið við nornagaldur horfir á mann brenndan á báli. Hann veit ekki nema hann sjálfur verði næstur og það er mikil og seðjandi frásögn sem snertir við fleira en vitsmunum.

Ég veit að Skálholt mun lifa því það höfðar til okkar, en Vér morðingjar er afskaplega vel skrifað leikrit. Og mér finnst að þegar það er sett upp megi alls ekki gefa upp að þau hafi verið saman, eiginkonan og þessi flugkennari hennar. Það fjallar um efann, það er lykillinn að því hversvegna hann drepur hana.
 Það væri gaman að láta reyna á Höddu Pöddu aftur, ég veit ekki hvort hún gengur. Danir gerðu grín að því hversu blómlegt tungumálið væri í henni en mér finnst Kamban bestur þegar hann er sjálfstæðastur og ekki líkur Jóhanni.

-Þetta er svolítið bernskubrek, hann er að herma eftir Jóhann Sigurjónssyni í rómantíkinni?

Hann er það náttúrulega, en við skulum ekki gleyma að á þessum tíma er nýrómantíkin ný stefna, andóf gegn natúralismanum. Svo kemur í ljós að svið Guðmundar er allt annað, hann fer að stæla Oscar Wilde og andríkið í samtölum hans í Marmara sem líka er merkilegt leikrit. 
Ég væri til í að sjá Stjörnur Eyðimerkurinnar sett upp, það fjallar um fína vændiskonu sem hefnir sín á kúnnunum. Fyrsti þátturinn er frábær en hinir ekki eins góðir en þarf þá bara að skera þá aðeins til. En efnið er aktúelt.
 Mér finnst Þessvegna skiljum við ekki eins gott og sumum, en það fjallar um íslenska fjölskyldu í Kaupmannahöfn og getur verið ágætt viðfangsefni að skoða. Grandezzan gafst vel í útvarpi og ég vil endilega sjá hana á sviði, en svo væri ég líka til í að sjá Ég sé vítt land og fagurt kvikmyndað.

-Gleymum ekki kvikmyndunum fyrst þú minnist á það.

Hann og Gunnar Hansen kvikmynduðu Höddu Pöddu, en myndin er óttalega bundin af leikritinu. Kamban lærði þó af því og sá að þetta voru tveir aðskildir miðlar. Hann minnist síðar á það í einkabréfum og viðtölum að næst myndi hann láta myndavélina segja meira en orðið minna. Maður sér það í seinni mynd hans, Meðan húsið svaf.

 -Það er ekki síður vert að minnast á leikstjórnarferil hans á sviði. Við það að lesa bók þína uppgötvaði ég að á þessum tíma var mjög algengt að leikskáld leikstýrðu sjálf verkum sínum, eða allavega fyrstu uppsetningu.

Já. Það var sá siður að þeir áttu rétt á því. Ekki lagalegan, en móralskan. Kamban nýtti sér þann rétt, en sumir gagnrýnendur fundu að því og fannst eins og hann svipti sig þar með sínum fyrsta og besta gagnrýnanda. Það er að segja öðrum leikstjóra. Sagt var að hann færi ekki best með sín eigin verk, og ég get ímyndað mér að það sé eitthvað til í því. 
Hann þótti mjög efnilegur leikstjóri um það leyti sem Staníslavskí hópurinn kemur til Kaupmannahafnar, hann kemur 1922 ef ég man rétt. Hann er einn af þeim sem kallaður er til vitnis um hvað sé merkilegt í dönsku leikhúsi. Hann setur upp leikrit, ekki með áhersluleik heldur með samræmingu og ákveðnum eðlileika sem var ekki ríkjandi þá. 
Annað stíleinkenni sem bendir til framsækni má sjá í sviðsmyndinni á Sendiherranum frá Júpíter. Ég sé á ljósmyndum að sviðsmyndin er barn síns tíma, en gerð er tilraun til þess að brjóta hana upp og skapa ekki neinn raunsæisheim heldur táknrænan.

-Það er augljóst af lestri bókarinnar og þessu viðtali að þú telur Kamban eiga fullt erindi til dagsins í dag, eða hvað?

Ég vil endilega sjá ungt og ferskt leikhúsfólk takast á við verk hans. Hann er náttúrulega eitt af okkar stærstu skáldum þessa tíma. Við eigum nú svo fá.

-Við eigum svo fáa klassíkera til þess að róta til í og vinna með.

Einmitt, og sérstaklega í leikritum. Þannig að við ættum að gera meira í að sinna honum, við hefðum bara gott af því. Þegar Ég sé vítt land og fagurt kom loks út á íslensku 1946 var það metsölubók ársins, og þá bók vil ég sjá kvikmyndaða. Þvílíkar mannlýsingar og atburðarás. Við fluttum Gunnar Gunnarsson heim fyrir nokkru síðan, og ég held að það sé kominn tími á að flytja Kamban heim líka og njóta þess að eiga þennan höfund.

-Kominn tími á að taka útlagana í sátt?

Já, taka útlagana í sátt. Og bjóða þá velkomna heim.

Sveinn Einarsson er fyrrum leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur og Þjóðleikhússins. Eftir hann liggja fjölmörg rit um leiklist sem og leikrit. Hann hefur sett upp leiksýningar og óperur, auk hefur hann hefur gegnt ótal trúnaðarstörfum tengdum menningarmálum. 

 Frekari upplýsingar um Guðmund Kamban má finna inn á heimasíðu leikminjasafnsins, hér.

Snæbjörn Brynjarsson.

Tengd grein: Hvar eru leikritin?

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s