Aldrei verð ég gagnrýnandi

kolrúnb

Í kjölfar færslu Vignis Rafn Valþórssonar á Facebook hefur enn á ný sprottið upp umræðan um „faglega“ gagnrýni í fjöldmiðlum. Upphaf umræðunnar er tengt við uppsögn Jóns Viðars á Fréttablaðinu. Vigni þykir þar mikill missir fyrir umfjöllun á leiklist í landinu og harmar það að ekki fleiri fagaðilar séu fengnir til að skrifa fyrir blöðin.

Ég ætla ekki að útlista hvaða fagaðilum hann er að gleyma eða hnýta í þær rangfærslur sem Vignir hefur farið með og svo beðist afsökunar á. Það sem ég vil ræða er afhverju ég, sem fagaðili, myndi aldrei gerast leiklistargagnrýnandi.

Ég gagnrýndi um tímabil tónlist fyrir tímaritið Sánd. Ritið var sjálfstætt, rekið af ungum áhugamanni (Ingiberg Þór Þorsteinsson var bara táningur allt það skeið sem ritið var og hét) og þótti gríðarlega metnaðarfullt í umfjöllun sinni. Voru pennar þess fullnuma rokkskríbentar svo sem Andrea Jóns, Páll Óskar, Dr Gunni, Jens Guð og Óli Palli í bland við „amatöra“. Stjórnina sat fólk eins og Jóhann Ágúst Jóhannsson og Franz Gunnarsson í bland við leikmenn eins og mig og Ingiberg, sem var ritstjóri. Til að byrja með fagnaði tónlistarfólk umfjölluninni gríðarlega (enda er hún frekar svelt enn þann dag í dag, mun meira en nokkurntíma leiklistarumfjöllunin). En þegar leið á líftíma tímaritsins fór ég að verða vör við meiri og meiri tilætlunarsemi tónlistarfólks. Okkur var oftar og oftar sagt að við værum ekki að sinna grasrótinni nógu vel, að við gætum gert betur, að dómarnir væru ósanngjarnir, að við hefðum rangt fyrir okkur og þær áherslur sem blaðið setti endurspeglaði ekki flóruna nógu vel. Til dæmis fór hljómsveitin Maus í herjarinnar fýlu út í mig persónulega þegar dómur um plötu þeirra sem ég skrifaði var ekki nógu jákvæður fyrir þeirra smekk. Var nafn mitt notað til að sýna fram á hvað gagnrýnendur gætu verið ósanngjarnir og heimskir. Undir lokin var ég hætt að vilja skrifa um nokkurn skapaðan hlut. Ef við gátum ekki fjallað um tónlist á þann hátt sem við vildum, sem allir voru sammála um að var mjög metnaðarfullur, upplagið var gríðarlegt, dreifing um allt land, síðurnar undir gagnrýni á annan tug, fyrir utan öll viðtölin, greinarnar og ýtarefnið, þá af hverju vorum við að eyða allri okkar orku í að fjalla um íslenska tónlist? Ég byrjaði ekki að skrifa um tónlist til þess eins að meðlimir hljómsveita gætu gefið til kynna (og stundum sagt það berum orðum) að ég væri fáviti. Þvert á móti vildi ég skrifa um tónlist því að mér fannst vanta um hana faglega og ýtarlega umfjöllun. En án stuðnings tónlistarfólks (og reyndar fjárfesta) var ekki hægt að halda uppi tímariti sem til þess var skapað.

Maðurinn minn fyrrverandi, Erlingur Grétar Einarsson, skrifaði lengi um kvikmyndir á Íslandi, meðal annars fyrir Monitor þegar það var ennþá sjálfstætt tímarit. Neikvæðir dómar ollu því að honum voru sendir reiðilestrar í tölvupósti og þess gætt að honum væri ekki boðið á forsýningar þangað til að næsti jákvæði dómur birtist. Hann barðist fyrir að fá pláss undir gagnrýni fagaðila inn í Myndir mánaðarins, sem hann var ritstjóri á um skeið. Ekki þótti útgefendum það æskilegt.

Loks hef ég hef þekkt þó nokkra bókmenntagagnrýnendur í gegnum tíðina. Þeir hafa flestir verið áreittir í síma, í persónu, í tölvupóstum og í verstu tilfellunum á heimilum sínum vegna þess að þeirra faglærðu skoðanir þóttu rangar og heimskulegar. Einfaldast var auðvitað að kalla þá asna, gera lítið úr vitsmunum þeirra og þar með gera að því skóna að þeir sem væru þeim sammála vissu ekki hvað þeir voru að tala um. Það var alveg sama hvaða gráðu þeir höfðu á bakinu, hversu mikla reynslu af faginu. Ef þeir voru ekki hrifnir voru þeir augljóslega fífl. Og þeim sem fannst það ekki bitu í tunguna á sér í ótta við að styggja þá sem voru svona móðgaðir til að byrja með. Enda aldrei að vita hvort maður fengi nokkuð gefið út eftir sig ef maður dirfðist segja að nýjasta verk Girðis eða Einar Kára eða bara hvers sem er væri kannski ekki það besta sem hefði hent íslenskar bókmenntir hingað til.

Þeir sem harma uppsögn Jóns Viðars ættu að vita að fyrir hvern þann sem hefur sagst kunna að meta skrif hans eru tíu aðrir sem hafa kallað hann fífl, fýlupoka og leiðindaraft. „Fagmaðurinn“ Tryggvi Gunnarsson skrifaði til að mynda á sína Facebook síðu þar sem störf Jóns Viðars voru harkalega gagnrýnd fyrir ekki svo löngu. Ég man ekki hvort hann var kallaður ófaglegur, en því var allavega gert skóna beint eða óbeint að hann vissi ekki hvað hann væri að tala um, væri með úrelt sjónarmið. Við skulum ekki, þó hann sé ekki að skrifa um verk nákvæmlega núna, láta sem að leiklistarfólk hafi almennt séð sér sóma í því að hæla Jóni Viðari fyrir skrif sín. Hataðari mann er varla hægt að finna. Við getum svo rifist um hvort að það hatur sé réttmætt eða ekki.

Það er því engin furða að fagfólk almennt vilji frekar vinna á geðsjúkrahúsum, sem þjónar eða á sjó en að taka að sér gagnrýni. Hættan er að sama hversu vel rökstudd þín faglærða skoðun er á sýningum að þú vinnur þér fljótt hatur leiklistargeirans í heild sinni. Rétt eins og með bókmennta-, kvikmynda- eða tónlistargagnrýnendur þykir allt í einu eðlilegt að gera lítið úr vitsmunum þínum eða efast um réttmæti skoðana þinna þegar eftir þig birtist rýni. Það eru allar líkur á að þú fáir aldrei vinnu við leiklist aftur því þú skrifaðir illa um frammistöðu frænku einhvers, eiginmanns einhvers annars eða núsitjandi aðila í stjórn einhvers ráðs. Alveg sama þótt það sé vitað innan geirans að þú hafir líklega haft rétt fyrir þér, sýningin hafi raunverulega ekki verið góð, ekki einu sinni sem tilraun eða dægrastytting. Það þekkja allir alla í þessum heimi og þó við þolum að hvíslað sé á myrkum börum að sá eða hinn sé ekki að gera góða list þá þolum við ekki að það standi nokkursstaðar svart á hvítu. Við æpum ekki upp um skort á fagmennsku þegar „amatörunum“ líkar það sem þeir sjá, er það? Þá allt í einu hafa þeir eitthvað til síns máls. En ef við þolum ekki að „umræðan“ segi neitt slæmt, hví óskum við eftir henni? Það er svo miklu auðveldara að sitja bara og klappa hvoru öðru á bakið. Þá gætum við reyndar ekki verið ósátt við það hvað enginn kunni að meta okkur, hvað við séum misskilin og langt á undan okkar samtíð. Ætli við þyrftum þá ekki að vera reið út í eitthvað annað, til dæmis ráðamenn þjóðarinnar? Verst að þeir taka gagnrýni alveg jafn illa og við.

Kolbrún Björt Sigfúsdóttir

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s