Lausnin: Pistill innblásinn af málþingi um opinbera stefnu stóru leikhúsanna

Image

Umræðan er vöknuð til lífs, um það er ekki hægt að deila. Hún er jafnvel farin að snúast um meira en bara peninga. Við erum farin að þræta um fagurfræði, myndir og merkingu þeirra, orð og orðaleysi, stefnu leikhúsanna og leiksýningar í ljósi annarra atriða en frammistöðu leikara og/eða persónur þeirra. Það er umræðuvor, að minnsta kosti miðað við hvernig það var þegar ég var í námi við Listaháskóla Íslands.

Fátt er meira gagnrýnt en einmitt þessi umræða og ég ætla að slást í þann hóp. Þegar öllu er á botninn hvolft snýst umræðan alltaf bara um umræðuna. Mér finnst mikið um nöldur og fátt um tillögur. Nöldrið er vel framsett, á fullan rétt á sér en færir okkur ekkert áfram. Listamenn eiga að hafa stóra drauma. Það var þannig sem Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið, stóru risarnir sem umræðan snýst um, urðu upphaflega til.

Þegar talað var um leikhússtjórastöður og hver myndi fylla þær var nánast alfarið talað um persónur en ekki raunverulega stefnu. Bergur hefði verið fínn, Marta Nordal hefði verið fín, og Kristín Eysteinsdóttir er mjög fín. Ég hef heyrt og finnst margt jákvætt um þau öllsömul en er engu nær um hver stefna þeirra er, verður eða hefði orðið. Er ekki synd að þetta ráðningarferli fari fram að mestu leyti fyrir luktum dyrum og að við sjáum ekki tillögur umsækjenda, hugmyndir þeirra um hver stefna leikhúsanna ætti að vera? Af hverju ekki opinberar rökræður? Það gæfi okkur öllum eitthvað til að íhuga og læra af.

Málið snýst nefnilega ekki um persónur, þetta snýst um stefnu. Ef það var eitthvað sem ég áttaði mig á við að hlusta á umræður nýliðins málþings í stefnum opinberra leikhúsa þá er það að fólk þyrstir í stefnu. Eða öllu heldur bara einhvern mismun á leikhúsunum stóru. Það er krísa dagsins í dag. Okkur finnst leikhúsin bjóða okkur upp á sama bland í poka.

En við lifum til að finna lausnir.

Til að finna lausnina þarf greiningu og tillögur. Ég er ekkert leikhússtjóra-materíal, en ég býð hér með fram ókeypis ráðgjöf og framtíðarleikhússtjórum er velkomið að senda á mig póst eða hringja valdi staða þeirra þeim hugarangri. Þeir geta líka lesið Reykvélina. Ég er örlátur maður og deili skoðunum mínum meira að segja með þeim sem vilja ekki heyra þær.

Greiningin

Á Íslandi eru tveir risar, einn dvergur og nokkrir trítlar. Trítlana tekur vart að nefna þegar umræðan snýst um opinbera stefnu. Ég vona að Íslenski Dansflokkurinn beri þá gæfu að ráða hæfa (og vonandi erlenda) stjórnendur í framtíðinni. Ef íslenski leiklistarheimurinn er lítill, þá er dansheimurinn pínulítill, og ekki eins bundinn íslenskri tungu og leikhúsið (ekki það að erlendir stjórnendur í íslenskum leikhúsum væru endilega slæm þróun, kannski tilraun sem væri þess verð að gera).

Dvergurinn er Leikfélag Akureyrar, eða þjóðleikhús norðurlands (það er óopinbert leyndarmál að Þjóðleikhúsið sjálft sé í raun bara þjóðleikhús Reykjavíkur, eða í besta falli stórhöfuðborgar-svæðisins. Það er ekki þjóðleikhús í neinum skilningi orðsins sem felur í sér leikhús þjóðarinnar. Þeir sem sjá sýningar í því húsi tilheyra ákveðnu svæði og ákveðnum tekjuhóp).

Risarnir tveir eru þá eftir og lesandinn eflaust búinn að geta sér til um hverjir þeir eru. Það sem hefur kveikt í báli umræðunnar eru umskiptin sem fara fram um þessar mundir. Loksins nýir stjórnendur. Loksins eftir margra ára frost kemur þiðnun, klakinn gliðnar, jökullinn rennur af stað og nýtt landslag mótast. Auðvitað munum við sitja uppi með það landslag til margra ára. Snjórinn mun hylja jarðveginn frjóa, og í framtíðina munu jarðfræðingar þurfa að bora jökulinn til að skoða leikskrár liðinna áratuga til að átta sig á hvernig þessi leikhúsáratugur var frábrugðinn hinum (líklega til þess eins að komast að því að breytingin var minni en vonir stóðu til).

Þetta er krísan. Breytingaleysið. Eða sú upplifun okkar að ekkert breytist.

Spegilmyndin

Risarnir tveir eru spegilmynd af hvor öðrum. Ef einn setur upp Les Miserables setur hinn upp Mary Poppins og hinn síðan Spamalot. Þeir finna báðir alþjóðlegan leikstjóra til að setja upp Shakespeare á sama tíma. Þeir eru báðir fremstir í flokki þegar kemur að eflingu íslenskrar leikritunar. Báðir búa við sömu kröfu um að selja næga miða til að fjármagna reksturinn, og eru þar af leiðandi í stöðugri samkeppni, baráttu um áhorfendur og þótt þau séu skuldbundin lagalega til þess að taka á móti sjálfstæðum leikhópum, finna þau sig knúna til að ýta þeim út, (helst sem fyrst) af áhættufælni (oft eigna þau sér heiðurinn af verkum þeirra ef vel gengur þrátt fyrir að hafa lítið gert þeim til stuðnings). Risarnir eru eins í eðli sínu. Eins í stefnu sinni. Og alltof stórir.

Það er smæð okkar sem gerir þá stóra. Borgarleikhúsið er ekki stærra en meðal-hverfisleikhús í Parísarborg (nei, ég á við Berlín, við skulum ekki láta eins og leikhús annars staðar skipti máli). Þjóðleikhúsið er ekki margfalt Volksbühne þótt það setji upp nærri 50% leiksýninga hins íslenskumælandi heims. Við erum bara svona lítil. Það er ekkert City-theatre erlendis sem setur jafn mikla mynd á sitt málsvæði og Borgarleikhúsið, og ekkert centre dramatique nationale sem dómínerar svona erlendis. Þess vegna er sú krafa að þessi leikhús fullnægi þörfum allra. Fyrir utan sjálfa tekjuhliðina, en íslensk ríkisleikhús eru með 60% fjárveitingu ólíkt skandínavískum, þýskum og frönskum þar sem 80-90% er fjármagnað og miðasalan bara jaðar-titringur.

Tillagan

Út í hinum stóra heimi er ekki svona sjóðheit umræða um „stóru‟ leikhúsin. Þau eru litlar doppur í fjárlögum, eitthvað sem íhaldsömum pólitíkusum finnst varla taka að skera niður, jafnvel eitthvað sem þeir halda upp á, því það minnir þá á glæsta og forna tíð. Þær stofnanir sem leiða þróun sviðslista heita ekki „royal‟, „royale‟ eða „kongelig.‟ Það eru smærri listamiðstöðvar sem eru kennd við hverfi, yfirgefnar verksmiðjubyggingar sem öðlast hafa ný hlutverk eða gömul þjóðleikhús ríkja sem ekki eru til (Volksbühne). Við búum ekki við aðra valkosti og þess vegna viljum við þvinga fjölbreytileika upp á stofnanir sem eru hannaðar fyrir aðra hluti. Þjóðleikhús eru ekki ætluð til þess að vera í framvarðasveit. Þau eru musteri, ætluð til varðveislu. Og til þess að þau geti gegnt slíku hlutverki almennilega þarf að skilgreina þau rétt. Safn er ekki skammyrði. Að vera safn er ekki slæmt í sjálfu sér.

Hér er það sem ég legg til:

Í stað þess að Þjóðleikhúsið keppi við aðra í försum, söngleikjum, nýjum dramatískum verkum, þá einbeiti það sér að því að viðhalda og kynna menningararf.
 Dagskrá þess ætti að samanstanda af tveimur Shakespeare verkum eða einhverju álíka. Einu Ibsen eða Strindberg. Klassískum íslenskum verkum eftir Jóhann Sigurjónsson, Jökul Jakobsson, Halldór Laxness og einhverja konu svona til málamynda.
 Þessa hluti mætti síðan krydda með mis-róttækum leikstjórum, og í kjölfarið myndum við fá leikstjóra, leikara og dramatúrga sem myndu gjörþekkja söguna, hefðina, málið og veita því þá þjónustu sem það á skilið. Sérhæfing er fagmennska.

Borgarleikhúsið ætti að einbeita sér að nýjum dramatískum, bæði íslenskum og erlendum samtímaverkum. Besta leikár þess (sem ég man eftir), var fyrsta leikár Magnús Geirs þegar öll Söru Kane verkin voru þýdd á íslensku, leiklesin og eitt þeirra sett upp. Það ásamt nýrri íslenskri uppsetningu og ákvörðun um að fastráða leikskáld fannst mér veita leikhúsinu tilgang. Það eru mörg leikskáld sem er áríðandi að þýða í heild sinni. Sum sem hafa hlotið Nóbelsverðlaun, látin eða við grafarbakkann, sum spriklandi um í núinu. Leiklesum, höldum ráðstefnur, setjum upp ný dramatísk samtímaverk og ráðum til verks nokkur leikskáld og nokkra þýðendur ár hvert. Slík sérhæfing gæfi af sér dramatúrga sem kynnu að ráðleggja leikskáldum um verk þeirra, leikstjóra sem kynnu að höndla frumflutning og leikara með opin augu. Sérhæfing er fagmennska.

 Ég skil LA útundan. Dvergurinn fær ekki að vera með í bili. En það ætti enginn að vanmeta nauðsyn dvergsins. Við þurfum fleiri dverga. Einn dverg á Egilsstaði, einn dverg á Ísafjörð. Varðandi landsbyggðarstefnu í leikhúsmálum bendi ég á grein mína: Menning handa þjóð.

Farsar og söngleikir tilheyra líka stóru sviðum leikhúsanna og eru gott tekjuöflunartæki. Sjálfstæðum leikhópum yrði mikil búbót að fá þá upp í hendurnar. Litlir leikhópar með stóra drauma í samvinnu við áhugamenn og menntaskólaleikfélög gætu hæglega sinnt þeim, og samið við stóru leikhúsin um sýningar á stóru sviðunum hluta ársins. Þannig gætu stóru leikhúsin mögulega haldið einhverju af tekjunum sem þeim fylgja á meðan sjálfstæða senan væri efld enn frekar.

Sjálfstæðu leikhóparnir ættu vitanlega að fá fleiri styrki. Um það eru allir lesendur Reykvélarinnar sammála og allir kommentarar DV ósammála.

Eva Rún Snorradóttir bekkjarsystir mín lagði til á málþinginu að í stað stóru stofnanaleikhúsanna væri tilvalið að hafa bara skrifstofu þar sem fagfólk aðstoðar hvort annað við að koma verkefnum í framkvæmd. Það væri tilvalin viðbót fyrir Ísland. Skrifstofa sem sérhæfði sig í ósviðsbundinni leiklist gæti verið staðsett á Seyðisfirði og ef einhver gefur mér símanúmer forsætisráðherra skal ég smassa á hann og biðja um 150 milljónir fyrir verkið. Ef einhver hefur sannfært mig um að peningar séu í kassanum þá er það hann. Aðeins ómöguleikinn er ómögulegur.

En af fullri alvöru þá væri það ekki vitlaus hugmynd að víkka sjóndeildarhringinn og íhuga slíkan valkost til að anna ekki bara „óhefðbundinni‟ leiklist (hvað svo sem það nú þýðir) heldur líka „hefðbundinni.‟  Slíkt fyrirkomulag hefur reynst kvikmyndaheiminum vel, og til þess að sem flestir skattgreiðendur geti orðið áhorfendur þarf að koma leiklistinni út um sem víðastan völl. Þess vegna er óhollt að sjá heiminn í tveimur turnum. Við þurfum að vinna gegn smæðinni og fjölga vinnustöðunum til að koma með mótvægi. Annars sitjum við uppi með tvo spegla, demókrata á móti repúblikönum sem vilja allt fyrir alla gera, en gera í raun ekkert nema alltaf það sama.


Snæbjörn Brynjarsson.

Snæbjörn er rit- og sviðshöfundur búsettur í Brussel og starfandi í heiminum.

Advertisements

One thought on “Lausnin: Pistill innblásinn af málþingi um opinbera stefnu stóru leikhúsanna

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s