Hlutverk opinberra leikhúsa

 Eva

Fyrir nokkrum dögum var ég á spjalli við vin minn, lettneska leikstjórann Valters, sem hefur starfað í tvö ár sem leikstjóri við þjóðleikhúsið í Riga, gengið vel, er ánægður þar, hefur fengið að sinna sinni framsæknu leit innan ramma þjóðleikhússins. Hann segir þó: Ég ætla að hætta. Nú afhverju, spyr ég? Af því að ég hef fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hvernig ég eigi að vinna hérna. Vá, hugsaði ég, hugrekkið, alvaran og hjartað í þessum listamanni. Virðing! Ég vildi að fleiri hugsuðu eins og þú.

Ég ætla ekki að tala um peninga. Við lendum alltaf í holum þegar við tölum um peninga. Hér er til nóg af peningum. Hér flæðir allt í peningum. Áhrif og umsvif listarinnar eru auðvitað mun veigameiri og mikilvægari en peningar, verða aldrei talin í júrum og krónum, aldrei sett fram í excelskjali. Þú getur ekki rökstutt blóm. Peningar eru bara kerfi sem mennirnir bjuggu til. Mig langar aðeins að fara yfir þau atriði sem mér finnst að mætti skoða, setja spurningarmerki við, endurhugsa, og fara yfir, varðandi opinber leikhús.

Það fyrsta sem kemur mér til hugar er húsnæðið. Við ættum að skoða rækilega hvort það þurfi að vera stórt opinbert leikhús á höfuðborgarsvæðinu sem er í sviðsmiðaðri byggingu? Hvað þá tvö. Ég tel að svo sé ekki. Við vitum um þjóðleikhús sem ekki eru bundin við rými. Ég upplifi leikhúsið sem miðil alveg hrikalega bundinn í viðjar, ég mundi í raun tala um sviðsvæðingu, svona ákveðin einkavæðing, eða stagification, eins og russification. Miðilinn er í gíslingu. Þessi gríðarlega miðja sem allt hverfist um, sem er svið, leikarar, handrit og áhorfendur í sal í myrkri, – allt annað er afgreitt sem tilþrif  á jaðrinum, sérliður í áætlunum, undir tilraunamennsku. Hvernig varð þetta svona? Hvernig viðhelst þetta? Af hverju? Þessi gísling kom mér í hug þegar ég las um The Eleusian Mysteries, sem var tíu daga ritual í forn Grikklandi, þar sem fólk kom og gekk í gegnum eigin dauða, undirheimaferð og endurfæðingu. Sýningin var mikilvægur partur af lífi fólks, sett upp á hverju ári, fólk mætti aftur og aftur og staða þeirra sem þátttakenda innan verksins breyttist eftir því hversu oft það kom. Þetta magnaða leikhús gerði það að verkum að fólk losnaði undan óttanum við dauðann. Mín sterkustu viðbröð við leikhúsi voru þegar ég fór út eftir tíu klukkustunda sýningu Signe Sörensen, þar sem ég var lögð inn á geðspítala, ég fór út ein og ég gat ekkert gert nema hlaupið um stræti borgarinnar. Lengi. Og ég verð aldrei söm.

Auðvitað hef ég séð margt mjög gott á sviði og mundi ekki tala fyrir því að það væri lægri eða verri leið, það er bara ekki helgari leiðin, réttari leiðin, sannari leiðin og ég kalla eftir afmiðjun sviðsins. Sviðið er ein leið í flórunni. Það sem mér finnst magnað við leikhús, leiklist, þennan miðil og ástæðan fyrir því að ég valdi að vinna með hann, er það ótrúlega magnaða tækifæri að hafa aðgang að fólki. Þessi nærvera, aðgangur að tíma þess, gjörðum og hugsunum. Leikhús eru aðstæður. Þú getur stillt upp hvaða aðstæðum sem er. Þjóðleikhúsið gæti til dæmis opnað hæli, í gamla heimavistarskólanum á Eiðum, fyrir vankaða þjóð sem er föst í ofbeldissambandi. Þjóð sem er öll föst í kjallaranum í Bláskjá.

Leikhúsið ætti líka að vera í beinum samskiptum við aðra miðla og fólk sem vinnur utan veggja þess.  Fólk úr öðrum fögum, fræðingum, sem og fólki með víðtæka reynslu. Vinna með fólki sem tengist efni verkefnisins. Ég upplifi ákveðið sambandsleysi, sem getur verið hreint og beint afglapalegt, eins og við Kvissur bentum á hér forðum við uppsetningu á Nei ráðherra, og ég segi það bara aftur, mér finnst til dæmis að það ætti að hafa kynjafræðing í teyminu sem ákveður að setja upp farsa. Þetta snýst um ekki bara um samtal við samfélagið, að miðillinn einangri sig ekki, heldur líka um samfélagslega ábyrgð.

Opinber leikhús sem skrifstofa út í bæ, sem væri einskonar framleiðsluaðili með starfsfólk sem hefur víðtæka þekkingu, fyndist mér mun meira spennandi og gjöfulla fyrirkomulag heldur en þessar sviðsbyggingar með fastráðnum listamönnum. Skrifstofan gæti haldið úti einu rými í fjármálaráðuneytinu, verið með raðhús í Fellahverfinu og sal á Hallveigarstöðum miðstöð kvennasamtaka, hjólhýsi á Laugavatni. Eitt verkefni í hverju kvótalausu þorpi. Þessi rými gætu rokkað á milli ára. Eða engin rými, þau yrðu alfarið bundin verkefnum hverju sinni. Og þetta þyrfti ekki að þýða að innviði stofnunarinnar færi með húsinu. Ég væri mjög til í að vinna með tæknimönnum og sviðsstjórum Borgarleikhússins og fá notið þekkingar þeirra úti í auðn og hrauni Reykjanessins, þar sem við í Kviss búmm bang setjum upp næstu sýningu okkar.

Það er fleira sem mér finnst að mætti breytast í leikhúsheiminum, sem opinberu leikhúsin gætu rutt brautina fyrir, það er t.d. að minnka product-vægi leiklistarinnar. Vinna dýpra inn í samfélögin og opna vinnuferlið. Hvernig væri til dæmis að hafa tvisvar, þrisvar einkonar sýningu eða samtal, melting-point eða meeting-point í einu verki. Í stað þess alltaf að vinna innilokuð fram að frumsýningu? Og eftir frumsýningu þá er verkið tilbúið, – byrjum á næsta. Það væri einnig hægt að hafa þrjár lokaútkomur á einu verki. Þetta er eitthvað sem ég og Kviss búmm bang erum mikið að skoða. Og ég hef trú á að þetta gæti varðað framtíð miðilsins.

Við í Kviss búmm bang höfum upplifað, nokkuð sem mér þykir mjög áhugavert og umhugsunarvert – að þeir sem eru með hvað mest formaðar hugmyndir, innri skilgreiningar, aðgreiningarbox, þeir sem eiga oft erfiðast með að upplifa verkin okkar og fara alla leið inn í þau, er leikhúsfólk. Þessi box þvælast oft fyrir og trufla upplifunina. Skera verkið niður í leikmynd, props, búninga. Þegar verkið gerist bara á hóteli, og leikmynd sem slík er eitthvað sem við höfum ekki verið að vinna með. Verkið gerist bara þarna úti í lífinu, við unnum ekki með búninga. Þetta er bara leigubílstjóri. Þetta er ekki dómur um leikhúsfólk, heldur merki um að leikhúsið, leiklistin sem miðill, þurfi á ræktun og opnun að halda. Sleppa tökunum og opna dyrnar, brjóta veggina út í samfélagið og til áhorfandans.

Mér finnst nefnilega að öll markaðsáherslan og sviðsvæðingin geri lítið úr áhorfandanum. Hann er ekki óður í farsa og það sem selst best. Ef annarskonar leiklist væri meira boði, eins og opin samtöl, nærgöngulir hittingar; hæli á Eiðum, Hamlet með morðingjum, þá er ég ekki í nokkrum vafa um að fólk mundi rjúka til fullt af tilhlökkun, með opin hjörtu. Áhorfendur eru til í áskoranir, ögranir, eru til í að láta leikhús bera sig á jaðar sjálfs síns. Það tæki kannski tíma – en leyfum hlutunum að taka tíma, og óvissuástandi að ríkja, litla aðsókn ef það þarf, vægi verka er ekki metið í fjölda áhorfenda – tökum djörf skref í langhlaupinu út úr kassanum. Út úr uppklappinu. Hópur af hjúkrunarkonum af Landspítalanum er búnar að panta miða á Djöfulgang, nýja verkið okkar í Kviss búmm bang, sem er sex tíma óvissuferð um innra mykrur í auðninni á Reykjanesinu. Við erum sem sagt, hægt og rólega að vinna okkur út úr kreðsunni.

Annað sem ég er efins um eru fastráðningar. Ég get ekki alveg séð hvernig það virkar auðgandi, gróskandi og skapandi. Ég sé kannski ekki alveg af hverju það er frábært fyrir nýútskrifaða leikara að fá að vera í tíu mismunandi verkum á einu ári, í litlum hlutverkum, og fá þrjá frídaga samtals. Eða vera settir í önnur verk, til að nýta vinnuaflið, þau eru nú að fá launaseðil. Fastráðningar eru ekki fyrirkomulag í öllum opinberum leikhúsum, það er ekki meitlað í stein. Mér fyndist betra og kraftmeira fyrir allt listafólkið í miðlinum ef hægt væri að tryggja atvinnuöryggi með öðrum hætti en með fastráðningum.

Ef við ætlum á annað borð að halda úti opinberum leikhúsum (sem er ekki endilega sjálfsagður hlutur, það er alveg hægt að verja peningunum öðruvísi) finnst mér að virkilega þurfi að henda starfsemi þess uppi loft og raða hlutunum aftur uppá nýtt. Opinberu leikhúsin geta staðið í framvarðarlínunni í að leiða miðilinn, þau þurfa ekki að fyllast þungu stofnanalofti.

Ég trúi alla leið á leiklistina og listina, sem samfélagsafl, byltingarafl, afl sem tengir okkur, skapar nýjar leiðir til að tala saman, óvænta snertifleti og hittinga. Leiklist getur rakið heiminn upp og skapað hann á ný. Allir ættu alltaf að nálgast miðilinn á fordómalausan hátt, frelsa hann undan hverskyns viðjum og fyrirframgefnum hugmyndum, við öll, sama hvar við stöndum í faginu. Ég held að það ætti að vera miklu oftar samtal um það hvers leikhúsið er megnugt. Kannski gætum við unnið meira saman, haft meiri áhrif á hvort annað, hjálpað hvort öðru að týnast, villast, og finna nýja staði.

Í sambandi við þessa ömurlega niðurdrepandi umræðu um peninga, og hvort við höfum efni á listum og hvert hlutverk hennar sé, langar mig að koma með einn punkt. Víetnamski munkurinn Thich Naht Hahn spurði lærlinga sína eitt sinn þessarar spurningar: Af hverju borðar þú morgunmat? Hann fékk allskonar svör: Til að safna orku fyrir daginn, mikilvægasta máltíðin og svo framvegis. Svo kom svarið sem hann var að leita eftir: Til þess að borða morgunmat. Við borðum morgunmat, til þess að borða morgunmat. Og það er eins með listina. Við búum til list, til þess að búa til list. Það eru í raun nægilegar forsendur fyrir tilverurétti hennar. Listin hefur alla burði til að breyta heiminum og ef þessi hugsun nær í gegn þá breytir það heiminum um leið í betri stað.

Ég held að allir, sama hvaða störfum þeir sinna, í hvaða geira sem er ættu að taka orð Valters vinar míns til fyrirmyndar, að hætta ef við höfum of fyrirfram mótaðar hugmyndir um hvað skuli fara fram. Þannig getum við innan leiklistarinnar haldið áfram að ögra okkur, þroskast og vinna að framþróun miðilsins og samfélagins um leið. Og ég hvet eindregið þá sem fá það mikilvæga hlutverk að taka við í húsunum tveimur að ganga rækilega og spyrjandi um húsakynnin og lofta út um hefðina, og nálgast verkefnið af hugrekki og opnu hjarta fyrir miðlinum, í öllum hans margbrotnu, enn óuppgötvuðu og takmarkalausu myndum.

Eva Rún Snorradóttir.

Advertisements

One thought on “Hlutverk opinberra leikhúsa

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s