Klassísk kvenfyrirlitning

kolrúnb

Það er alltaf merkilegt að horfa á leikhús í öðrum löndum. Ég myndi segja öðrum menningarheimum, nema hvað að ég hef litla reynslu af öðru en því sem við í daglegu máli köllum hinn vestræna heim. Þó að fallegt regnhlífarhugtak sé til yfir eins ólíkar þjóðir og Bandaríkjamenn og Frakka er þó ekki þar með sagt að menning þeirra sé eins. Er það engan veginn ætlunin að alhæfa um þjóðir, menningu eða hugarfar. Markmiðið með þessum pistli er einungis að koma orðum að ákveðnu málefni innan leiklistarinnar sem ég þekki. Vekja fólk til umhugsunar.

Ég hef um nokkurt skeið lagt áherslu á að vinna með konum. Meira af hentisemi en pólitískum ástæðum, ég var í bekk með átta konum og einum karli í heilt ár og var val á samstarfsfélögum eftir því. Léku konur því karla oftar en ekki og fannst engum það tiltökumál. Fann ég engan sérstakan mun á vinnuferlinu, sumt var auðveldara að ræða við samstarfskonur mínar en í blönduðum hóp, annað ekki, eins og gengur og gerist. Konurnar voru af ýmsu bergi brotnar en allar úr því sem við köllum hinn vestræna heim. Verkefnavalið var ekkert sérstaklega pólitískt og orðið feminismi var yfirleitt fjarri í umræðum um vinnuna, bæði hjá áhorfendum og listrænu teymi. Ӕtli ég geri ekki einfaldlega ráð fyrir því, hvort sem ég vinn með konum eða körlum, að við séum sammála um að konur séu jafnháar körlum, þeirra persónur jafn mikilvægar. Þar sem konurnar sem ég vinn með eru afbragðs leikarar geri ég ráð fyrir að þær geri sínum persónum skil af næmni, hvort sem þær leika kven- eða karlpersónur. Og þar sem ég er feministi sjálf geri ég ráð fyrir að sýningarnar mínar séu það að einhverju leyti líka. En það er yfirleitt ekki ætlunin. Ӕtlunin er að segja sögu sem hreyfir við fólki, fær það til að hugsa, upplifa, sjá heiminn upp á nýtt. Auðvitað er það að sjá heiminn upp á nýtt rammpólitískt, en ég spái yfirleitt ekki í það. Sviðset mína sýn svo til umhugsunarlaust. En sem áhorfandi vil ég að þeir sem setja upp sýningar spái í hvað þeir eru að bera á borð fyrir mig. Og þar liggur vandinn.

Ég sá sýningu í Gautaborg síðastliðið haust sem vakti mig fyrst til almennilegrar meðvitundar um hversu mikilvægt er að skoða birtingarmyndir kvenpersóna á sviði og pólitík þess texta sem verið er að vinna með. Verkið var Fröken Júlía og var uppsetningin í alla staði vel gerð. En eftir sat samt spurningin hvers vegna verkið var valið til að fara á fjalirnar síðla árs 2013 í hinu kynjafræði upplýsta Svíalandi. Hvað var kvenfyrirlitning Strindbergs að vilja upp á dekk? Nú rísa örugglega margir upp og mótmæla þessari alhæfingu og einföldun. Málið er nefnilega ekki einfalt. Flestir eru sammála um að stykkið sé vel skrifað. Strindberg mikilvægt leikskáld. Eðlilegt að klassíkin fái endurskoðun. Þessu get ég öllu verið sammála. En sýning þar sem segir af ríkri stúlku sem ákveður að taka líf sitt eftir að hafa sofið hjá manni af lægri stétt verður að taka afstöðu til annaðhvort stéttabaráttu eða jafnréttisbaráttu. Ef hún gerir hvorugt, eins og þessi annars ágæta sýning, er hætta á að ég sem áhorfandi sitji eftir með skilaboðin: Það er eðlilegt að konur sem eru svo lauslátar að sofa hjá starfsfólki föður síns séu beinlínis hvattar til sjálfsmorðs. Ég er þess fullviss að það var ekki vilji listrænna stjórnenda að sýningin fengi þann lestur. Þau voru bara að setja upp klassík, umhugsunarlaust.

Stuttu seinna sá ég uppsetningu sama leikhúss á Sem yður þóknast. Verkið var staðfært til borgarastyrjaldarinnar á Spáni, nokkuð nær okkur í tíma en sá sem við bendlum við Shakespeare. Mér til mikillar skelfingar var Rósalind hinsvegar ekki sú klóka kona sem ég þekki úr textanum, sú sem vefur Orlando um fingur sér til að tryggja að ást hans sé sönn, talar önnur pör til og stuðlar að sáttum innan ríkisins. Silfurtungan hvarf fyrir danshæfileikum, ómerkilegu dragi og hysteríu yfir drengnum sem hafði ekkert gert sér til frægðar annað en að glíma smá og skera nokkur illa skrifuð ljóð í trjáberki. Kvenpersónan sem hafði hreðjar nægar til að þykja sannfærandi í að blekkja hið karllæga samfélag samferðamanna Shakespeare var smækkuð niður í ástsjúka unglingsstúlku. Skítt með það þó að klassíski textinn bendi til þess að hún væri manna gáfuðust innan verksins. Ég er þess einnig fullviss að ætlun listræna teymisins var ekki að gera lítið úr gáfnafari kvenna. Þau voru bara að miðla sinni sýn á verkið.

Um jólin sá ég Þingkonurnar í Þjóðleikhúsinu. Gladdist yfir að sjá svona margar konur á sviði, margar hverjar okkar bestu listamenn. Verkið þótti klassískt og þarafleiðandi eiga erindi við íslenska áhorfendur í lok árs 2013. Segir þar af kvenskörungum sem ná völdum með kænsku og ætla samfélaginu miklar breytingar til batnaðar. Endar verkið hinsvegar á senum þar sem konur berjast um hverjir fá að ríða sætustu strákunum og almannafé er eytt til að halda innantómt partí. Líklega átti að deila á sukk stjórnvalda í aðdraganda hrunsins illræmda. Og af sýningunni mátti lesa þau skilaboð. Allt eins auðveldlega mátti ætla að boðskapurinn væri að konur gerðust spilltir pólitíkusar ef þeim væru falin einhver völd. Best að þær héldu sig bara heima. En ég er þess fullviss að það var ekki hugmyndafræðin sem lagt var upp með.

Í síðustu viku sá ég uppsetningu á verki Noel Coward, Private Lives, í Edinborg. Verkið flokkast líklega undir farsa og er einhverskonar nútímaklassík, allavega nógu vel metið til að vera reglulega sett upp víða um Bretlandseyjar. Konur verksins eru tvær. Önnur er dyramotta sem er tilbúin að fyrirgefa eiginmanninum að hafa yfirgefið sig fyrstu nótt hveitibrauðsdaga þeirra fyrir sína fyrrverandi, sem er lýst sem klikkaðri og undirförulli. Á sviðinu er hún barin í spað, sparkar reyndar frá sér, en þetta er allt gert á sem fyndnastan máta. Það er nefnilega svo fyndið að sjá heimilisofbeldi og steríótýpur. En uppsetningin ætlaði sér ekki að taka á ofbeldi gagnvart konum eða innan sambanda. Það var bara verið að setja upp skemmtilegt verk í períódubúningum. Vonast til að fólk hlægi.

Ég er ekki að reyna að halda því fram að nokkur sem að sýningunum fjórum stóðu, í þessum vel upplýstu vestrænu löndum, hafi ætlað sér að vera niðrandi. Flestar þeirra höfðu allavega einn heimskan kall sem jafnvægispunkt við það sem eflaust átti aldrei að vera kvenfyrirlitning. Þær voru faglega unnar allar saman, með kvenkyns listrænum aðilum innanborðs. Það eina sem þær eru sekar um er að spyrja sig ekki hver pólitík sýningarinnar væri í raun, hvaða gildi lægju að baki „klassíkinni“. Ég hef gerst sek um slíkt hið sama. Ég kalla ekki eftir fordæmingu á verkunum eða listamönnunum. Bara á samfélagi sem er svo blint á eigin „arfleið“ að listamenn hennar halda henni við ómeðvitað og umhugsunarlaust.

Eða kannski það sé ekki umhugsunarlaust? Ef ekki, kalla ég eftir umræðu um hver afstaða listamanna sé til leiklistararfs vesturlanda, þ.e. hvort mönnum þyki að ef kvenfyrirlitning er að finna í upprunalega textanum sé eðlilegt að halda henni til haga þegar unnið er með textann fyrir samfélag dagsins í dag sem einhverskonar minnismerki um forna tíð. Margir tala um illræmda einræðu Kate við lok verksins Skassið tamið sem mikilvægt tól til að benda á hve sjálfsagt það hefur þótt í gegnum aldirnar að konur beygi sig undir vilja karlmannsins. Haldið er fram að uppsetningar á verkinu í dag séu til þess fallnar að vekja upp umræðu um hvort að viðhorfin hafi raunverulega breyst, eða ekki. Ef það er ætlunin þá hefur áður upptöldum sýningum tekist ætlunarverk sitt. Þá er ekki verið að setja upp textann umhugsunarlaust heldur af ástæðu. Væri þá gott að þessi stefna sé öllum ljós, svo ég sem áhorfandi viti að verið sé að kanna viðbrögð mín við þessum földu birtingarmyndum fyrirlitningarinnar. Ekki halda þeim að mér sem eðlilegum.

Séum við hinsvegar á því að gagnrýna megi/eigi upprunalega textann, klassíkina, er eðlilegt að spyrja hvort listamennirnir hafi verið meðvitaðir um hvaða boðskap má lesa í verkin? Auðvitað eru verkin börn síns tíma, en þau hafa verið flutt fram í nútímann fyrir töfra leikhússins og að kalla þau klassík gefur til kynna að gildin sem fram í þeim koma séu tímalaus. Nema hvað að leiklistin er aldrei tímalaus. Hún gerist aðeins í núinu. Er því ekki eðlilegt að spyrja hvort að verkin standist kröfu nútímans að konum, dætrum okkar, systrum, frænkum og mæðrum sé ekki gerður sá grikkur að alast upp við að myndir af konum á sviðinu séu til þess fallnar að smækka þær? Er ennþá eðlilegt að setja upp verk sem stimpla þær sem hórur, draga vitsmuni þeirra í efa eða gera lítið úr þeim hæfileikum sem þær eru gæddar, rengja burði þeirra til að fara með vald eða segja þeim að ást og heimilisofbeldi sé fullkomlega eðlileg blanda, jafnvel hlægileg? Myndum við ekki gagnrýna ný verk sem innibæru sömu hugmyndafræði? Eða erum við blind á þetta allt?

Héðan í frá mun ég gera þá kröfu á eigin verk, hvort sem ég vinn með konum eða körlum, að þær standist skoðun um heilbrigð kyngervi. Að ég sé meðvituð um hvernig persónurnar sem ég læt draga andann í sama rými og áhorfendur nútímans spegla þann nútíma ellegar gagnrýni hann. Ég vona að hinn upplýsti vestræni heimur geti tekið afstöðu hvort hann metur meira, framtíðarbirtingarmyndir kynjanna, eða klassíska kvenfyrirlitningu.

Kolbrún Björt Sigfúsdóttir, leikstjóri.

Advertisements

One thought on “Klassísk kvenfyrirlitning

  1. Flott Kolbrún að vekja máls á nokkru sem er tabú í íslensku leikhúsi. Þar ganga sífellt aftur ótrúlega einsleitar kvenmyndir og steríótýpur – athugasemdalaust, þó á því séu auðvitað gleðilegar undantekningar. Umræður um þessa staðreynd, sem reyndar er látið eins og sé ekki til staðar, pirrar helmingin sem öllu ræður. Hann heldur nefnilega að sjónsvið sitt sé 360 gráðu, þegar það er í raun aðeins 180. Sjónsvið hins helmingsins er miklu meira en 180 þar sem hann er alinn upp í menningu hins. En sá helmingur þegir þunnu hljóði og pískrar í besta falli sín á milli. Gaman væri nú ef farið væri að tala upphátt og gera kröfur til þess að 180 gráðu helmingurinn fái sér ný gleraugu til að víkka sjónsviðið. Opin umræða er góð byrjun.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s