Fullkomið andleysi og vonin um breytingar

kolrúnb

Það hafa ótrúlega margar áhugaverðar raddir farið að tjá sig um leiklistina að undanförnu. Sitt sýnist hverjum hver rétta leiðin til að bjarga leiklistinni sé, en engu að síður má marka kaflaskil sem einkennast af von. Hún er að einhverju leyti bundin við breytingar á leikhússtjórunum tveimur í Reykjavík. Hún er líka bundin (finnst mér) við áframhald Ragnheiðar Skúladóttur á Akureyri, metnað af hendi Guðmundar Inga Þorvaldssonar í Tjarnarbíói og flutning Magnúsar Geirs Þórðarsonar yfir til RÚV (krossum fingur að það auki fjárframlög til Útvarpsleikhússins). Hverju er vonast eftir er enn ósvarað, en vonin er þarna. Ætli það sé ekki helst vonast eftir því að nýjar áherslur geri listinni gott, að einhversskonar nýtt upphaf sé í vændum fyrir íslenskt sviðslistalíf. Hvað sem því líður er fólk allavega farið að ræða leiklist. Hefur verið talað um umræðuvor. Vonum að það blómstri og verði sumar.

Ég ætla ekki að láta eins og ég viti manna best hver lausnin sé, ég held ég viti bara hver krísan er. Ég fagna því að við erum farin að tala um hana, ekki bara í kennslustofum og krám og ekki bara á þeim forsendunum að allt sem þið eruð að gera er vont, það sem ég er að gera er betra. Krísan er örugglega heimóttarskapur eins og Þórhildur Þorleifsdóttir hélt fram á málþingi um hlutverk leikhúsanna. Hún er örugglega líka tengd því að hafa of fyrirfram mótaðar hugmyndir um hvað eigi að fara fram eins og Eva Rún Snorradóttir benti á í sinni ræðu við sama tilefni. En ég held þó að krísan sé aðallega andleysi. Og það andleysi á við um stofnanir sem og sjálfstæða geirann, um listina almennt. Fyrir mig persónulega var það andleysi allavega.

Haustið 2011 fór ég frá Íslandi. Ég átti ekki flugmiða til baka. Þá var ég búin að vera útskrifuð í þrjú ár úr Listaháskólanum. Ég átti mér ekki slæman feril sem leikstjóri þessi þrjú ár, var komin inn í fagfélagið, vann við leiklist allan ársins hring og fór barasta aldrei í leikhús án þess að þekkja 98% aðstandenda sýningarinnar persónulega. Kristinn Sigurður Sigurðsson hefði örugglega sagt að ég væri hluti af menningarelítunni. Mér fannst ég aðallega vera í harkinu sem sjálfstæð leiklist óneitanlega er, en gekk ágætlega. Var samt einhvernveginn alltaf að skrifa umsóknir. Alltaf að fá nei. En oftast langaði mig þó aðallega til að hengja mig, því að allur hversdagslegur raunveruleiki minn einkenndist af andleysi. Ég og ófáir aðrir vorum búin að missa trúna á samfélaginu. Fólk var ekki einu sinni sérstaklega reitt lengur. Það er erfitt að eiga auka orku í að vera reiður þegar maður vinnur að lágmarki ellefu tíma á dag til að eiga fyrir láninu og nokkrum hamborgurum í Bónus. Hvað þá gera sérstaklega krefjandi list.

Hvað átti svo sem eftir að segja? Hvað hafði ég við samfélagsumræðuna að bæta? Það var búið að gera devised verk um hrunið. Meira að segja innan stofnanaleikhúsanna. Það var ekki búið að tala um nokkurn skapaðan hlut annan en þetta helvítis hrun síðan Geir H. Haarde dirfðist að segja: „Guð blessi Ísland.“ Hvað átti ég að gera? Tala um eldgos? Myndirnar í sjónvarpinu sögðu allt sem segja þurfti. Átti að tala um spillingu, barnamisnotkun eða helvítis krónuna? Ég var hætt að lesa blöðin því ég þoldi ekki að heyra eitt aukatekið orð um það meir og ég hafði enga löngun til að sjá listina tala um íslenskan ömurleika líka. Nei, takk. Má ég plís fara á söngleik heldur, þessi snara er á leið um hálsinn á mér.

Ég elskaði ennþá að leikstýra, en ég bara gat ekki þetta land. Mig langaði ekki fram úr á morgnana, ef ég hefði ekki verið að gera Galdra-Loft með Leikfélagi Hveragerðis hefði ég einbeitt mér að fullum krafti að því að fitna í byrjun árs 2011. Bíddu, jú, það var einmitt það sem ég gerði, bara í hjáverkum. Og svo eyddi ég allri minni orku í að hlaupa á sama staðnum í ræktinni, með popptónlistina nógu hátt í eyrunum til að geta ekki hugsað í kjölfarið. Ég var við það að skrá mig í einkaþjálfann þegar ég reyndi síðasta verkið á Íslandi, „passion projectið“ sem ég brann fyrir. En það datt upp fyrir. Það hafði enginn tíma í svona pro-bono listarúnk og ég var örugglega ekkert sérstaklega inspírerandi. Ég trúði ekki á listina lengur, hún gat ekki neitt. Ekki einu sinni hjálpað mér að stinga höfðinu í sandinn.

Þannig að ég fór til Tælands. Sá fíla og tígrisdýr. Bjó á miðju flóðasvæðinu þegar verstu flóð landsins í manna minnum gengu yfir. Smurði mig í eiturefnum til að geta sofið fyrir skordýrabitum og fékk mér bjór. Fólk spurði hvenær ég ætlaði að koma aftur í raunveruleikann. En raunveruleiki minn var að kenna 25 yndislegum börnum ensku og hann var mér miklu raunverulegri en doðinn á Íslandi. Það var fútt í að passa að drepast ekki á skellinöðrunni á leiðinni í vinnuna. Vera ekki bitin af hundi og þurfa að fá fleiri hundaæðissprautur, þessar eftir apabitið voru nógu slæmar. Lifa af. Og það var heitt. Ég sá enga leiksýningu eða gerði nokkra list í ár. Langaði ekki einu sinni til þess. Ég reifst kannski einu sinni um pólitík, en ekki meira en það. Ég var frjáls undan íslensku tuði um hverjum allt var að kenna. Ég saknaði þess ekki neitt.

En ég saknaði þess að langa. Að finnast ég hafa eitthvað að segja. Að brenna fyrir eitthvað. Og það er um það bil þar sem ég held að íslensk leiklist sé núna. Hana langar til að langa aftur. Og í því felst von.

Mig langar allavega að hana langi.

Mig langar í manifesto.

Mig langar að skapa.

Mig langar að tala um hvernig andleysi drepur ástina.

Mig langar að tala um stríð. Alvöru stríð með byssum, sem og falið stríð með tilboðum á kóki.

Mig langar að tala um fórnir og hvort við kunnum að færa þær, kunnum að meta þær.

Mig langar að tala um hvernig maðurinn svíkur eigin hugsjónir og getur ekki lifað með sjálfum sér lengur.

Mig langar að tala um að búa í samfélagi og trúa ekki á kerfið sem rekur það (sveltir það, heftir það).

Mig langar að tala um fátækt hugmynda og geldingu listarinnar.

Mig langar að tala um að sitja á flugvelli með miða í hendi sem á að færa mann heim og vilja heldur snúa bakinu við heimahögunum en að fara um borð.

Mig langar að tala um hvað í andskotanum það þýðir að vera heima og af hverju ég hef gleymt hvernig sú upplifun á að vera.

Mig langar að tala um að hitta fólk í útlöndum og vona að það spyrji ekki hvaðan ég sé.

Mig langar að tala um traust og hvað ekkert skiptir máli þegar það er farið.

Mig langar að rökræða við fólk um hvað sé góð list á sviði, ekki bara vera sammála um að búningarnir og ljósin og sviðsmyndin hafi verið góð og jú, vissulega var þetta ágætlega leikið líka.

Mig langar að fara í leikhús og verða reið, en ekki af því að tíma mínum var sóað.

Mig langar að fara í leikhús og gleyma eigin hugmyndum um hvernig ég hefði gert þetta öðruvísi því mér hefði aldrei dottið í hug að gera þetta svona og það er frábært.

Mig langar að verða óstjórnlega glöð, gröð, hrærð, leið, uppgefin, hneyksluð, hissa.

Mig langar að skilja ekki neitt.

Mig langar að gleyma því að ég þekki leikarann á bakvið persónuna.

Mig langar að fara og þekkja engan sem að sýningunni stendur.

Mig langar að sjá/skapa eitthvað sem er satt.

Mig langar að sjá/skapa eitthvað sem er fullkomlega meðvitað um að það er lygi.

Mig langar að sjá/skapa eitthvað sem er gamalt en virkar nýtt.

Mig langar að sjá/skapa eitthvað sem er nýtt en virkar klassískt.

Mig langar að sjá verk með engri leikmynd og skítt með búningana líka ef handritið segir mér eitthvað.

Mig langar að sjá/skapa eitthvað sem er ljótt.

Mig langar að sjá verk þar sem leikurunum finnst það sem þeir segja mikilvægt.

Mig langar að langa í leikhús.

Mig langar að vita hvað ykkur langar að tala um.

En mest langar mig að leikhúsið langi að mig langi.

Ég fór aftur í skóla, fann ástina á að gera leiklist aftur á sama máta og ég fann ástina á að gera leiklist til að byrja með. Að loknu ári þar sagði ég loks skilið við andleysið og eins og þegar eldfjall vaknar undir ísnum og sprengir hann af sér rann fram sýning á eftir sýningu um allt sem mér lá á hjarta. Allt sem andleysið hafði svæft. Það gerðist þegar ég fór að „heiman.“ Það gerðist þegar ég hætti að hafa of fyrirframgefnar hugmyndir um hvaða leiklist ég gerði. Það gerðist þegar ég fór að vinna með fólki sem ég hafði aldrei hitt áður. Það gerðist þegar ég settist niður og skoðaði hvað éyfirhöfuð vildi með því að gera leiklist. Það gerðist þegar ég fattaði að svarið var ekki bara eitt og stakt, það var endalaust. Og ég er enn stanslaust að leita svara. Finnst ég ekki vita neitt enn, ekki hafa sagt neitt af því sem ég vil segja.

Það er komið umræðuvor eftir það sem Þórhildur lýsti sem þögn og andleysi er vonandi að ljúka. „Ég veit ekki hvað fólk í íslensku leikhúsi er að hugsa, ég hef ekki hugmynd um hvað íslensk leiklist er eða vill,“ sagði hún. Ég vona að með allri þessari umræðu getum við svarað spurningu Þórhildar um hvað það sé sem leiklistin vill núna. Hvað það sé sem brennur á okkur. Af hverju við erum að þessu yfirhöfuð. Ég var búin að gleyma því. Var fullkomlega andlaus. Og það var ekki mér að kenna beint, finnst það ekki leiklistarfólki að kenna heldur. Samfélagið var í sjokki og viðbrögðin voru í besta falli eftir því, depression og doði. Hvaða máli skipti það að tala um listina þegar röðin hjá mæðrastyrksnefnd sást úr geimnum? Hvaða lyst höfðum við á að ræða ástand mannsins þegar þjóðin var andlega og fjárhagslega gjaldþrota? Ég hafði enga. Ég vildi bara sjá sprengingar í bíó. En það er komið nóg. Þessum andlausa og depressíva vetri þarf að ljúka. Geri það hver á sinn máta og finnum sem flest svör, en hættum aldrei að spyrja hvað það er sem við viljum með leiklist.

Kolbrún Björt Sigfúsdóttir.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s