Opið bréf til Þórhildar Þorleifsdóttur: Í framhaldi af framlagi þínu til málþingsins um hlutverk stofnanaleikhúsa sem haldið var í Tjarnarbíói á dögunum.

vala

Kæra Þórhildur.

Ég hef fengið hvatningu frá kollegum mínum á Reykvélinni um að leggja orð í belg í þeirri umræðu sem hefur skapast í framhaldi af málþinginu í Tjarnarbíói á dögunum. Ég er reyndar búin að að lúra á einhvers konar innleggi í umræðuna síðan á umræddu kvöldi, en eitthvað gerði það að verkum að ég hafði ekki kjark í mér til að setjast niður og skrifa. Tilhugsunin um að tala af mér og segja einhverja vitleysu er mér nær óbærileg. Hvaða forsendur hef ég, lítt menntuð og yfsilónblynd manneskjan, til að gagga eitthvað um leikhús? Um leikhúsbransann sem ég er varla komin með tærnar inn í? Hógværð mín, eða hræðsla (eftir því hvaða nafni við kjósum að kalla það), nær slíkum hæðum að orðin bókstaflega yfirgefa mig í aðstæðum þar sem einhver hætta er á því að það sem ég hef að segja verði kveðið niður af orðheppnum, rökföstum einstaklingi sem getur gripið til staðreynda og ártala og kvarða og nafna á dauðum köllum máli sínu til stuðnings. Ég er nefnilega því miður þannig úr garði gerð að heilinn minn meðtekur frekar eitthvað samhengi hlutanna en tölulegar staðreyndir. Ég get sungið laglínuna en man ekki hver samdi hana, get skilið kenninguna og sett hana í samhengi við hversdaginn minn en gæti ekki fyrir mitt litla líf sagt þér hver lagði hana fram eða notað flottu hugtökin sem hann/hún notaði. – Af hverju er ég að segja þér þetta? Ég veit það ekki alveg ennþá… en það kemur.

Jú, það hefur eitthvað með það að gera að ég hreifst mikið af orðum þínum á málþinginu. Margt sem þú sagðir varpaði nýju ljósi á takmarkaðan skilning minn á íslensku leikhúslífi, þróun þess og sögu. Ég hreifst líka á einhvern óræðan hátt að framferði þínu; svo blönt og stórorð og stórtæk og óþekk- það er eitthvað valdeflandi við að sjá konu hegða sér svona eins og þú gerðir. Mig hefur alltaf langað til að geta talað blaðlaust og stórt og notað orð eins og „heimóttarskapur“ og „djöfulsins vitleysa og kjaftæði“ og hrist hausinn og stunið yfir kommentum sem mér þykja heimskuleg. Nota brjóstvitið, pota og segja það sem ekki má og komast þá frekar að kjarna málsins þótt einhverjir verði kannski sárir, fremur en að tipla endalaust á tánum í kringum fílinn í stofunni af einhverri helvítis kurteisi alltaf hreint og komast aldrei áfram því enginn segir það sem raunverulega þarf að segja. Og af því þú varst stórorð og blönt og óþekk og alhæfðir þá sagðirðu líka hluti sem komu við kauninn á mér. Ég veit ekki hvort orðin þín beinlínis særðu mig, eða manneskjubarnið mig eða konuna mig eða listakonuna mig. Hvort ég er einfaldlega bara ósammála og langar að velta þessu upp og ræða þetta, þá allavega var það þannig að af öllum þeim merkilegu hlutum sem nefndir voru þetta kvöld, varðandi landslag leiklistar, hlutverk og möguleika og ómöguleika bransans, þá situr eftir í mér ákall þitt til ungu kynslóðarinnar um sjálfsgagnrýni. Og ekki bara það sem þú sagðir, heldur líka viðbrögð viðstaddra við orðunum þínum. Eins og ég skildi það þá vilt þú meina að það sem unga leikara og leikhúsfólk skorti mest sé sjálfsgagnrýni. Við erum ófagleg, úr tengslum við umheiminn, teljum okkur trú um að við höfum eitthvað að færa leikhúsheiminum eftir ófullnægjandi og heimóttarlegt nám í Listaháskólanum, og af þessu orsakast stöðnun og amatörismi innan íslensks leikhúsbransa.

Þetta setti mig í svolitla klemmu þar sem ég sat í sætinu mínu og dáðist að þessari sterku og óþekku konu sem talaði frá brjóstinu, því mín upplifun var sú að orðin sem komu frá þér væru í hrópandi ósamræmi við allt framferðið. Og eins valdeflandi og framferði þitt virkaði á unga femíníska listaspíru, kaffærðu orðin þín mig í efasamdum um sjálfa mig. Hvað vil ég upp á dekk? Með heimóttarlega gráðu úr heimóttarlegum skóla og yfslónblynd og gæti aldrei talað blaðlaust þar sem orðin yfirgefa mig á ögurstundum (ég átta mig á að þessi viðbrögð mín hafa mikið með mína eigin viðkvæmu sjálfsmynd að gera og ég kenni þér á engan hátt um þessar öfgafullu og óvægu raddir í hausnum mínum). Og þetta var ekki búið. Það er hálf fyndið eftir á að hyggja að það var eins og þú værir sérstaklega að tala til mín, þar sem þú tókst dæmi, máli þínu um heimóttarháttinn til stuðnings, um það ef fólk, sem ekkert kynni fyrir sér í tónlist, færi að troða upp með ekkert annað en sjarmann að vopni og kallaði sig tónlistarfólk. Það vill nefnilega svo skemmtilega til Þórhildur að meðfram því að að vera óreynd og lítt menntuð leiklistarkona með BA gráðu frá sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands, er ég í hljómsveit. Við erum tvær, köllum okkur Hljómsveitina Evu, og eigum það sameiginlegt að vera algjörlega ómenntaðar á því sviði. Þegar hljómsveitin var stofnuð var hljóðfærakunnátta okkar samanlögð þrjú grip á gítar. Við áttum báðar stóra barnæskudrauma um að syngja og semja lög en sökum sjálfsgagnrýni leyfðum við okkur aldrei að hugsa þá hugsun til enda af augljósum ástæðum. Við áttum ekkert í þetta, ómenntaðar, og ekki einu sinni nátttúrutalent af guðs náð. Það var algjört breikþrú fyrir okkur báðar þegar við sigruðumst á sjálfsgagnrýninni og hugsuðum fokk it! Við þurfum ekki að vera fullkomnar til að elta drauminn. Og við byrjuðum að semja lög um okkar hugðarefni, um kvenlæga hógværð og viðbein og sjálfstæðar konur og huglægar þráhyggjur og hressismann í þjóðfélaginu og ástina. Hljómsveitin Eva hefur fengið ótrúlegar viðtökur, við sjáum um tónlistina í Gullna Hliðinu hjá Leikfélagi Akureyri, erum með söngleik í skrifum fyrir Borgarleikhúsið, en mestu sönnurnar á því að við erum að gera eitthvað sem skiptir máli fáum við frá klökkum áheyrendum. Konum og körlum sem þakka okkur fyrir hugrekkið, fögru tónana, segjast eflast öll að innan við að sjá okkur taka skrefið út úr sjálfsgagnrýninni og elta hjartað. Við fáum að vera valdeflandi fyrir fólk, eins og þú varst fyrir mig með óþekkt þinni á málþinginu.

En hvað um það, nú tekurðu orðrum mínum kannski sem svo að ég sé að reka ofan í þig orðin þín á málþinginu með þeim rökum að í mínu tilfelli sé þetta öðruvísi, fyrst þetta sé ekki reynsla mín þá geti þetta ekki verið rétt hjá þér. Ég hugsaði þetta alls ekki þannig. Auðvitað eru alltaf undantekningar og ég hugsaði þessi orð um hljómsveitina mína meira sem innsýn í mínar forsendur og til að útlista betur ástæður þess að orðin þín komu sérstaklega við mig, svo mjög að þau hvöttu mig til að stíga inn í óttann og skrifa þetta bréf, sem er auðvitað mjög gott. Ég er heldur ekki að tala á móti því að fólk mennti sig. Bara svo þú misskiljir mig ekki. Ég stefni á frekara nám í framtíðinni og er mjög hlynnt því að fólk fari erlendis og mennti sig. Ég hef sjálf búið erlendis, bæði við nám í Glasgow og í Chile og varði skiptináminu mínu á Indlandi og það hefur gert mjög mikið fyrir mig. Ég velti því þó upp, bara sem útúrdúr, fyrst við erum að líkja leiklistarbransanum við tónlistarbransann; hvernig íslenskt tónlistarlandslag væri ef enginn þyrði að stíga á stokk fyrr en að lokinni erlendri mastersgráðu í tónlist. Hvar væru Björk og Sigurrós og Hjaltalín og Gus Gus og Birgitta Haukdal og Hljómsveitin Eva og allir hinir ef svo væri? Nei, það er þetta með sjálfsgagnrýnina og nú vona ég að orðin svíki ekki og því segi ég það bara: Ég trúi á skapandi og gagnrýna hugsun. Ég trúi því að hún sé aflið sem knýr okkur áfram, búi til hreyfingu þar sem stöðnun er fyrir og sé það mótstöðuafl sem við þurfum á að halda til að lifa, eins mikilvæg okkur og myrkrið ljósinu. En til þess að skapandi hugsun (og þar með gagnrýnin hugsun) geti þrifist þarf hún næringu. Það krefst hugrekkis að vera skapandi í hugsun, og það sem vökvar hugrekkið er trú. Trú á eigin verðleika, trú á að geta breytt heiminum, trú á að geta staðið upp þegar kona dettur, trú á að vera verðugt verkfæri listarinnar sem getur gert sitt besta, þreifað sig áfram, lært, gert betur næst. Að hafa eitthvað að gefa hér og nú, ekki síður en eftir MA eða MBA gráðuna. Sú sjálfsgagnrýni sem þú varst að kalla eftir á málþinginu þykir mér meira í ætt við sjálfsniðurrif, svipu eða þyrnikórónu, og er að mínu mati eitur í beinum alls sem lifir og sérstaklega fyrir þá sem eru svo hugrakkir að ætla sér að þjóna því krefjandi verkefni að helga líf sitt listinni.

Og fyrst ég er byrjuð þá geng ég bara alla leið, nota stóru orðin, alhæfi og er óþekk eins og þú (og reyndar fleiri og fleiri upp á síðkastið – kannski þú sért búin að koma af stað ákveðnu trendi – gaman.). Hér kemur það: Engan hóp fólks hef ég nokkurn tíma vitað, á minni stuttu og ófaglærðu ævi, sem er jafn yfirkominn, lamaður, og óyfirstíganlega grafinn upp fyrir haus af sjálfsgagnrýni og ótta á áliti annara, eigin orðspori og afkomu, og leikhúsfólk. Þessi ótti gerir okkur ómögulegt um vik, við þráum viðurkenningu og hrós en þegar við fáum það, er okkur ómögulegt að taka við því. Við erum með fimm svipur á okkur í hverju einasta skrefi og erum orðin háð því ofbeldi sem tíðkast innan bransans, til að mynda í samskiptum leikstjóra og leikara. Leikstjórar sem ekki beita reiði- og blammeringastjórnun eru sakaðir um linkind, eru búnir að missa tötsið. Við breiðum svo yfir þennan ótta með mismunandi hætti. Sumir breytast í stjórnlaust já-fólk og verða svo óþolandi meðvirkir og ónæmir á eigin mörk að þeir keyra sig í kaf á nokkrum árum. Fá taugaáfall, missa hárið. Aðrir halda kúlinu á daginn og gráta á barnum. Margir karlmenn í bransanum klæða óttann í leðurjakka og typpalæti strax á fyrsta ári í skólanum og reyna að marinera sig upp úr ástandinu á Ölstofunni með öllum hinum lengra komnu leðurjökkunum. Öll eigum við það svo sameiginlegt að vera svo yfirkomin af þessum ótta og tilraunum til að flýja hann með einum eða öðrum hætti, oft skemmandi, að okkur er algjörlega um megn að gera nokkuð meira en það sem við þurfum nauðsynlega að gera til að halda vinnunni og mannorðinu. Yfirkomin af sektarkennd og ónytjungstilfinningu tekst örfáum okkar kannski að finna kraftinn til að skríða inn á málþing um hlutverk stofnanaleikhúsa (gott fyrir reppið, sýna sig og sjá aðra.) Og þegar mikilsmetin kona í bransanum situr við pallborðið, öll sjarmerandi og valdeflandi, skammar okkur fyrir heimóttarskapinn og skort á sjálfsgagnrýni þá jánkum við ámátlega, kinkum kolli yfirkomin af blygðun, -það hlýtur að vera það!… nú panta ég spánýja svipu og þyrnikórónu á Ebay… strax á fimmtudaginn. Ahhh, þetta var gott! Algjör útrás að nota stóru orðin, blammera og skjóta niður bransann minn og samferðafólk, segja þeim til syndanna. Blamm Blamm Blamm.

Eins og þú, Þórhildur, og eins og Kristinn Sigurður Sigurðsson, bekkjarbróðir minn og vinur, sem situr nú atvinnulaus og ástfanginn í Finnlandi á mörkum Rússlands og hakkaði um daginn í sig leiklistarlíf á Íslandi eins og það leggur sig, án þess að hafa unnið sér inn eina einustu innistæðu fyrir orðum sínum, (annað en það orð sem fer af honum að vera annaðhvort geðveikur eða snillingur.) Ég las pistilinn hans og hafði gaman af, þvílíkur penni sem hann er, þvílíkur orðaforði og dirfska. Mæli með honum. Gaman af þessu. Fólk loksins að segja hlutina hreint út! Æji, ég veit það samt ekki. Mér líður einhvern veginn skringilega. Vellíðunartilfinningunni fylgir eitthvað súrt eftirbragð og ég held mér sé orðið illt í maganum. Ááái. Ég datt niður á æðislega áhugaverða þætti á Gufunni á laugardagsmorgnum í febrúar, sem fjölluðu um gildi þess að eiga í verðugu samtali við sjálfan sig og samfélagið. Ég man auðvitað ekki hvað þátturinn heitir eða maðurinn sem stjórnaði honum, en hann var að impra á því hvað það sé mikilvægt að við tölum við sjálf okkur og aðra í kring um okkur af virðingu og ást. Fræðimaður sagði honum að líkt og heili barna og heilbrigt sjálf þroskast hraðar þegar talað er við það af ástúð, er því eins farið með okkur fullorðnu (hvað svo sem það þýðir). Kannski er það þessi margumrædda sjálfsgagnrýni eða kvenlæga hógværð, nema hvort tveggja sé, en ég get ekki alveg sett punktinn hérna. Það er gaman að hafa líflega umræðu, algjörlega, en ég veit svo sem ekki hvaða gagn það hefur fyrir heiminn að blammera og skamma alla og setja setja svo punkt. Ég held kannski, Þórhildur, að sama hvort það var sannleikur í þessum orðum þínum á málþinginu, eða stóru orðunum mínum hér að ofan, þá geri það ef til vill meira ógagn en gagn að skamma fólk svona. Ég veit ég er búin að hrósa þér í hástert fyrir óþekktina og hispursleysið, og ég held alveg ennþá með því að einhverju leyti. En eftir að hafa prófað það sjálf þarna áðan, þá sit ég eftir með einhverja bakþanka. Þegar við skömmum fólk svona í hóp á málþingi eða í opnu bréfi, er þá ekki mikil hætta á að þeir sem ættu að taka orðin til sín, ef einhverjir eru, séu víðsfjarri? Að þeir hafi ekki mætt á málþingið, lesi ekki þennan pistil, séu of uppteknir við að heimóttast einhvers staðar. En að þeir sem mættu og lesa pistilinn og taka orð okkar til sín, megi síst við því?

Já, ég finn það mjög skýrt núna, ÉG TEK STÓRU ORÐIN TIL BAKA. Fyrirgefið kæru kollegar! Ég var að alhæfa, og ég tek það allt til baka. Stopp, kæra vinkona. Einn, tveir, þrír og inn í herbergi. Nú þarf ég að kjarna mig, vanda mig og tala af þeirri ástúð sem fræðimaðurinn í þættinum á Gufunni talaði um. Þú fyrirgefur mér vonandi Þórhildur mín þótt ég beini lokaorðum þessa persónulega en opna bréfs til kollega okkar, að þér meðtalinni að sjálfsögðu. Kæru kollegar, ég ber ómælda virðingu fyrir ykkur öllum. Öllum þeim sem ákváðu að stökkva út í fenið, þvert á öll rök, alla praktík, against all odds, svolítið eins og með ástina, því listin er eins og ástin, órökstyðjanleg og ófyrirsjáanleg og oft óheppileg, alltaf umdeilanleg en um leið óheyrilega dýrmæt og ómissandi. Ég ber virðingu fyrir geðveikinni, fyrir snilligáfunni, fyrir eljunni og dugnaðinum og opna huganum og hugrekkinu, og óþekktinni og sjarmanum og voninni, fyrir MA og MBA, fyrir barnum, fyrir upptalningum sem hljóma eins og Coca-cola auglýsing, fyrir pómó, fyrir klassík, fyrir okkur. Við erum blóm, það er ekki hægt að rökstyðja okkur. Við bara erum, við erum verkfæri listarinnar og höfum fullan tilverurétt sem slík, hvað sem við ákveðum að gera. Ef við vitum það og trúum því, þá kannski öðlumst við það hugrekki sem þarf til að vera forvitnari, áræðnari og taka stærri sénsa með skapandi og gagnrýnni hugsun. Svipunni og þyrnikórónunni er örugglega hægt að koma í verð á bland.is, eða nýta í næstu uppsetningu á Jesus Crist Superstar. Kæra Þórhildur, ég þakka lesturinn, endilega láttu mig vita ef þú hefur einhverjar pælingar hvað þetta allt varðar.

Bestu kveðjur,

Vala Höskuldsdóttir.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s