Kúnstnarinnar festival – Fyrsti hluti

Það var mikið húllumhæ á Kunsten-Festival des Arts í Belgíu um daginn. Hátíð sem árlega er varið frá 2.-24. Maí, rúmlega þrjár vikur þar sem mögulegt er að komast í tæri við helstu strauma í samtímalist Evrópu. Hátíðin snerti á öllum listgreinum, fyrirlestra um Suður-ameríska pólitík, tónleika, kvikmyndasýningar, danssýningar og ný leikverk, en aðaleinkennismerki hennar er róttæknin. Gjörningar, smærri danssýningar og tilraunaleikhópar eru í aðalhlutverki.

Listahátíðin nýtur góðs af senunni í Brussel, þar sem mikið af dönsurum og myndlistarmönnum hafa vinnuaðstöðu og aðsetur. (Svo ekki sé minnst á borgir í nágrenninu, Ghent og Antwerpen). Eitt af því sem gerir borgina líflega er fjöldi listamiðstöðva, leikhúsa og gallería, sem að einhverju leyti skýrist með tungumálamun. Sum leikhús höfða til frönskumælandi áhorfenda, önnur til flæmskumælenda og þau reyna oft að vera alþjóðlegri því Frakkarnir eru í meirihluta. Þetta gerir það að verkum að stofnanaleikhúsin eru tvöfalt fleiri en í sambærilegum evrópskum borgum, en grasrótin er ekki síður skipt. Svo er danssenan eiginlega í sérklassa. Brussel er höfuðborg Evrópu, ekki bara í búrókratískum skilningi heldur líka í samtímadans.

Ef þið viljið skoða prógram hátíðarinnar þá er linkurinn: hér. Ekki verður fjallað um allar sýningar.

 

Brussel í návígi

 

Fyrsta sýningin sem ég sá á hátíðinni var 100% Brussel sem var eitt af stærstu verkum hátíðarinnar en þó ekki það nýlegasta.

 

Rimini Protokoll (hópur sem ætti að vera íslenskum leikhúsáhorfendum kunnur en verk þeirra Black Tie var sýnt á Lókal fyrir einhverjum árum) frumsýndi 100% Berlín árið 2008. Síðan þá hafa þau gert 100% Melbourne, Karlsruhe, Köln, París og London. Þetta er því engin heimsfrumsýning á þessu konsepti en engu að síður áhugaverð sýning. (Sérstaklega fyrir þann sem er nýfluttur til borgarinnar).

Rimini
Þátttakendur.

 

Sýningarrýmið var Halles de Schaerbeek, einn af nokkrum yfirbyggðum 19.aldar mörkuðum Brussel. Þessi hýsir ekki lengur neina bændamarkaði heldur er oftast nýttur í tónleika fyrir meðalstór indie-bönd og er staddur í Schaerbeek, millistéttar hverfi með slatta af spænskum innflytjendum og Belgum af marokkósku bergi brotnu.

 

Verkið gengur út á tölfræði. Þegar áhorfendur höfðu sest og ljósin slokknað blasti við stór grænn hringur í loftinu og annar á gólfinu. (Hann var nógu stór til að rúma 105 manns á þægilegan máta, eða ágætis rokktónleika). Á þennan hring steig þrítugur borgarstarfsmaður og útskýrði fyrir fólki að hann ynni við að taka saman tölur. Hann hafi gert súlurit og kringlurit, og áætlað að í Brussel búi 1 milljón 154 þúsund 635 manns:

67% þeirra eru Belgar, 5% Frakkar, 3% Ítalir 3% frá Marokkó 2% og svo framvegis. Portúgalir, Spánverjar og Rúmenar einnig með ágætis sneið af fólksfjöldakökuna. Það séu 51% íbúa kvenkyns, 49% karlkyns. Meira en einn tíundi frá aldrinum 0-9 ára, 1% yfir nírætt og þar frameftir götunum heldur upptalningin áfram, kynhneigð, trúarskoðanir, atvinnuleysi og áhugamál öll talin upp. Að því loknu stigu 10   5 þátttakendur á sviðið. Öll hafa þau einhverja sögu, einhvern hlut, eitthvað athyglisvert. Sum eru heimilislaus, sum erlendir diplómatar, ein er tölvufræðingur frá Víetnam (einn af tveim þátttakendum sem standa fyrir þau 2% frá asíulöndum), ein er níræð (til að standa fyrir prósentuna sína).

Í stuttu máli fengum við 100 manns til að fylla inn opinbera prósentutölu Brussel, og fimm manns sem eru í borginni ólöglega, flóttamann frá Afganistan og fleiri sem hverfa inn í mengið nærri því ósýnileg en samt til staðar innan um hina opinberu borgara.

Þetta fólk talar saman. Það spyr spurninga, heldur atkvæðagreiðslur. Hinir atvinnulausu eru látnir stíga til hliðar. Hinir trúlausu, hinir kaþólsku, þeir sem ekki mega kjósa, þeir sem hafa rasískar skoðanir. Á einhvern undarlegan máta er þetta ekki verk sem snýst um að brjóta staðalímyndir, það er engin sérstök túlkun lögð á skoðanir fólks. Þegar slökkt er á ljósunum nota þátttakendur vasaljós til að játa á sig syndir sínar, sumir viðgangast skattsvik, aðrir játa á sig framhjáhald eða hrikalega skuldastöðu. Við sjáum engin andlit bara ljóspunkta á spegli í myrkri.

 

Rimini2
Þátttakendur röðuðu sér eftir afstöðu til ýmissa mála.

Sýningin rambar milli þess að vera samfélags-leiklist og að vera heimildar-leiklist. Þetta er vissulega fræðandi sýning en aðaláhrifin felast í þeirri ímynd sem hún mótar af borginni. Allt þetta fólk sér maður á götum. Maður þekkir týpuna og fordómar manns eru staðfestir í sumum tilvikum, öðrum ekki. Maður gengur ekki út betri maður, en upplifun manns á borginni hefur orðið dýpri. Sá sem sér 100% líður eins og hann hafi kynnst persónulega litlum þverskurði af mannkyninu. Tölfræðin hefur öðlast andlit, hefur öðlast persónugervingu. Tölfræðin er níu ára stelpa sem getur ekki staðið kyrr, hún er þroskahamlaður þrítugur strákur í leit að kærustu, hún er marokkóskur DJ og nítíu og þriggja ára kona sem man ennþá eftir því þegar pabbi hennar gaf móður hennar ljónsunga að gjöf og hvernig það var að alast upp sem dóttir liðþjálfa í afrískri nýlendu. (Ljónsunginn lét lífið sökum kulda í dýragarðinum í Antwerpen stuttu fyrir heimskrísuna).

Ég er ekki hrifinn af klisjunni um að leikhús sé spegill samfélagsins eða list almennt. En þetta var besta tilraun til þess að gera það og í þetta sinn virkaði formúlan hjá Rimini. Framsetningin var óaðfinnanleg, þótt að sýningin hafi valið rangan endapunkt. Það er ekki beint hægt að tala um kaþarsis, en sýningin var aldrei leiðinleg. Ég gat ekki annað en mátað hana við Reykjavík í hausnum á mér, og held að það væri ekki afleit hugmynd fyrir Borgarleikhúsið að kaupa hana inn. Það væri smart hjá nýjum leikhússtjóra, sýningin myndi eflaust draga inn mikinn fjölda sem ekki hefði áður upplifað slíka sýningu og gæti komið í staðinn fyrir stórsöngleik í leikárinu. (Efast ekki um að Þjóðleikhúsið og Verzló myndu fylla upp í tómið).

 

 

Annað verk sem gekk mikið út á að kynnast borginni og opna óvænt tengsl milli íbúa var Untitled eftir Söru Vanhee. Sú sýning hófst við listasafnið Wiels (sem er gömul fabrikka og eitt flottasta nútímalistasafn borgarinnar).

Sarah Vanhee
Sarah Vanhee í ‘Untitled’.

Í Untitled fengu áhorfendur kort af hverfinu í kringum Wiels og tvö heimilisföng til að finna. Þetta er voða menningarnætur-legt. Tekið er á móti litlum hópum inn á heimili fólks og fólkið sýnir uppáhalds listaverk sín og spjallar um þau. Boðið er upp á frönskumælandi, flæmskumælandi og enskumælandi heimili.

Fyrsta húsið í okkar hóp (frönskumælandi) var hjá atvinnulistfræðingi sem safnar verkum eftir þroskahamlað fólk. Það var verulega heillandi. Konan átti mikið af efni í stórri möppu og hafði frá miklu að segja, en það skaðaði innileikann sem sýningin var að reyna að spila með að hafa svona atvinnumanneskju. Seinna heimilisfangið leiddi okkur til konu á þrítugsaldrinum í laxableikri íbúð sem mér fannst talsvert minna smekkleg. Ég barðist við að sýna ekki vanþóknun á styttunum og myndunum sem hún sýndi okkur, en verð að játa að það var athyglisvert að komast að því hvers konar fólk kaupir spreyjuð málverk af götulistamönnum. (Já, ef þú hefur gert eitthvað slíkt á Spáni eða Krít þá ættirðu að skammast þín fyrir smekk þinn).

Konseptið var sniðugt og það mátti finna fyrir leiðbeinandi hendi Söru Vanhee í textanum sem fólk fór með. Fólk var ekki algjörlega óæft. Það hefði kannski verið gaman að finna fyrir meiri einlægni en það er ekki auðvelt, í fyrsta lagi fer það algjörlega eftir þátttakendum, bæði þeim sem eru reiðubúnir að segja frá og þeim sem kaupa sér miða og koma sem gestir. Ég get ímyndað mér að sýningin sé mjög frábrugðin eftir dögum, gestum og tungumáli, og er ekki í vafa um að verkið muni finna sér fleiri hátíðir og borgir.

 

Næsti hluti fjallar um sköpun, tortímingu og látlausa leikgleði. Fylgist spennt með!

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s