Kúnstarinnar festíval-2 hluti

Bergman, eldfjöll og tennisspaðar

Þótt að Kunsten fókuseri mestmegnis á sviðslistirnar er eitthvað um innsetningar og fyrirlestra.

Eitt athyglisverðasta samspil myndlistar og gjörninga var verk Kate McIntosh, Worktable, sem sýnt var í Palais des

Kate Macintosh

Beaus Arts. Móttakan var hvít og stílhrein vintage-búð, þar sem tennisspaðar, gamlir símar, taubangsar, ritvélar, tebollar, regnhlífar og alls kyns skran var í boði. Þátttakendur gátu valið sér einn hlut og tekið með sér í lokað herbergi.

Það má segja að ég hafi notið fyrsta hluta sýningarinnar mikið. Eftir að hafa valið postlínsvasa var ég leiddur inn í lítið herbergi með sög, borvél, mismunandi hömrum, kúbeinum og hnífum. Engin fyrirmæli komu frá leiðsögumanninum en skilaboðin voru skýr. (Mér leið eins og ég væri karakter í myndinni Hostel, bara réttum megin við pyntingartólin).

Seinni parturinn þar sem við þurftum að líma saman hluti sem aðrir höfðu brotið var hins vegar frústrerandi. (Þó að fyrir suma kunni hann að vera skemmtilegri). Að mörgu leyti var þetta eins og að vera kominn í handavinnutíma, mér tókst að troða saman vekjaraklukku í frumlegt form (límið virkaði ekki á gormana svo ég batt þetta allt saman með snæri), en lokaparturinn var athyglisverðastur þar sem maður sá saman komin tugi misbrotinna og missamsettra hluta í sýningarrými. Var þetta komment á endurnýtingu eða neyslusamfélagið? Eiginlega ekki. Þetta var leikrými þar sem manni bauðst að endurskoða hversdagsleikann, brjóta hið heilaga (innbúið hjá ömmu þinni) og sjá hvernig hægt var að endurnýta hlutina og skapa eitthvað nýtt.

Gwendolyne Robin

Gwendoline Robin, belgísk myndlistakona átti flottan gjörning í allt öðruvísi rými. Fjarri höll hinna fögru lista hinu megin við kanalinn í yfirgefinni verksmiðju sýndi hún J’ai toujours voulu rencontre un volcano. (Ég hef ávallt viljað hitta eldfjall). Engin sæti voru í tómum salnum, einungis vinnustigi og plast á gólfinu sem hún kveikti í og dró á eftir sér. Það var bókstaflega sprengikraftur í verkinu sem endaði á því að listakonan kveikti í sjálfri sér og sprengdi hjálminn á höfðinu á sér. Sem betur fer hætti enginn áhorfandi sér of nálægt.

Í yfirgefnu bíói sem nú er fallið í niðurníðslu kom sænski myndlistamaðurinn Markus Öhrn innsetningu sinni Bergman in Uganda fyrir. (Bíóið heitir Cinema Marivaux og er statt milli túristakjarna Brussels og fjármálahverfisins, en á frekar niðurníddu svæði sem einkennist af götuvændi og dagdrykkju). Verk Markúsar kannar muninn milli ríkidæmis og fátæktar og því er staðsetningin fullkomin. Áhorfendurnir sem fylla salinn milli kvikmyndatjaldanna tveggja eru úr menntaðri og meðvitaðri millistétt, komnir í slömmið til að horfa á annað slömm.

Myndin byrjar eins og hefðbundin heimildamynd þar sem kameran tekur okkur inn í eitt hreysið og eigandi þess útskýrir viðskiptin sem hann stundar þar.

Á þessum slóðum hefur enginn efni á því að fara í bíó. Það á enginn sjónvarp eða DVD-spilara heima hjá sér. En hér getur fólk komið saman.

Sögumaðurinn útskýrir að í Úganda séu til VJ, video jockeys, sem sanka að sér dvd myndum og spila fyrir fólk í litlum sölum. Það kostar minna en að fara í bíó og VJ veitir meiri þjónustu. Hann útskýrir myndina fyrir þér eins og sögumaður. Hann les textann sem þú kannt ekki að lesa, hann lýsir hegðun hvíta fólksins, venjum þeirra og siðum líkt og undirmálstexti í bók.

Að því útskýrðu beinist kameran að VJ-inum sem með hátalara að vopni útskýrir kvikmyndina. Vanalega sýna VJ-arnir hasarmyndir eða rómantískar gamanmyndir frá Hollywood en í dag eru þeir með sérstaka mynd frá SF, Svensk Filminstitut.

Fólkið í salnum hlær. Það getur ekki annað en hlegið að viðbrögðum úganskra áhorfenda og VJ-sins sem reynir að útskýra existensíalíska kvikmynd eftir Bergman. Hláturinn byrjar þegar það sem virðast vera handahófskenndar klippur, táknrænar fyrir örvæntingarfulla sálræna angist aðalpersónunnar renna yfir skjáinn. VJ-inn útskýrir að myndin sé að byrja, hún sé alveg að byrja, rétt bráðum, rétt strax. Lifibrauð VJ-sins veltur á að halda áhorfendum sínum inni í salnum. Sem reynist nokkuð erfitt í þessu tilviki enda reynir myndin mikið á þennan sal.

Þessi kona er ekki raunverulega veik, segir sögumaðurinn strax og mynd hefst og við í Belgíu hristumst af hlátri yfir viðbrögðum VJ-sins og áhorfenda hans.

Ef hún væri á úgönskum spítala væri henni hent út fyrir að sóa tíma læknanna, segir hann og hefur fyllilega rétt fyrir sér. Í þessu hverfi mætti kannski láta laga beinbrot á bráðamóttöku en það hefur enginn efni á sálrænni meðferð. Það ríkir enginn skilningur á vandræðum konunnar í Persona. Hún þjáist kannski af þunglyndi, angist yfir fóstureyðingu, tvíklofnum persónuleika en fyrir áhorfendunum í Úganda eru það lúxusvandamál.

Auðvitað hlæ ég líka. Þegar VJ-inn útskýrir að fólk í Evrópu fari stundum í sólbað, byggi sér sumarhús upp við vatn því það þarf ekki að hafa áhyggjur af malaríu, þegar hann kommentar á að fólk hagi sér bjánalega og sé að væla yfir engu þá hlæ ég. Ein óborganlegasta senan er þegar VJ-inn hneykslast á aðalsöguhetjunni sem grenjandi játar að hafa fengið fóstureyðingu. Hver ykkar hefur ekki fengið fóstureyðingu? spyr hann reiðilega. Ég held að allar konur hérna inni hafi að lágmarki fengið ellefu fóstureyðingar, þessar vestrænu konur væla yfir hverju sem er.

Inn á milli koma einlæg og djúphugul komment á lífið almennt, ekki bara í mynd Bergmans heldur úr munni VJ-sins. Hann getur ekki frasað þessa hluti eins og hann sé atvinnuheimspekingur og það fær okkur til að hlæja, en inn á milli nær hann að setja hluti í ferskt samhengi. Hvað það sé að vera vestrænn, að vera afrískur, að vera manneskja.

MarkusÖhrn

Að myndinni lokinni er ég klofinn í afstöðu minni. Hugmyndin og útfærslan á hinni er brilliant. Markus Öhrn tekst að setja spurningamerki aftan við vestræna og sænska kvikmyndahefð á svipaðan máta og þegar hann gerði Magic Bullet. Sú 49 tíma mynd inniheldur allt myndefni sem klippt hefur verið út úr sænskum myndum í ritskoðunartilgangi. Allt frá drykkjusenum á bannárunum, pólitískum boðskap á stríðsárum og svo nekt í nútímanum. (Já, sænskt samfélag gerist púritanískara, og restin af Evrópu líka sýnist mér).

Sem betur fer er listamaðurinn ekki að reyna að klippa sig inn í verkið, að kommenta eða benda á einn hlut umfram annan. Persona í úganskri túlkun er hreinlega nóg. Rétt eins og þegar ég sá 100% er ég fljótur að setja hluti í íslenskt samhengi og velta fyrir mér hvernig Stella í orlofi yrði túlkuð af úgönskum VJ en sem betur fer er ekki búið að gera þetta að heilli seríu. Ein og sér stendur innsetningin sterkari.

 

Alvaran og alvöruleysið

 

Annað vídjóverk sem mér þótti öflugt á hátíðinni var Perhaps All The Dragons eftir Antwerpska leikhópinn Berlin. Því var komið fyrir í gömlu klaustri sem búið er að endurgera sem listamiðstöð og hvort sem sýningar eru góðar er ekki, þá er húsið sjálft vel þess virði að heimsækja. Perhaps All The Dragons var nokkuð heilsteypt og tæknilega vel unnið verk sem nýtti þrjátíu mismunandi skjái til að segja þrjátíu mismunandi sögur. Þetta voru einræður, sögur frá mismunandi heimshornum sem fluttar voru af leikurum en engu að síður byggðust á sönnum atburðum. Titillinn er sóttur í Rainer Maria Wilke (Perhaps all the dragons of our lives are princesses), og sögurnar segja flestar frá einhverjum erfiðleikum sem reynast blessun í dulargervi (en ég hugsa þó að það megi upplifa sýninguna á marga mismunandi vegu því hver áhorfandi kemst bara í gegnum 5 af 30 sögum). Sögurnar tengjast innbyrðis og þrátt fyrir að þær séu fluttar samtímis þá er hljóðið það fullkomlega útfært að maður heyrir einungis hljóðið frá þeim skjá sem maður stendur fyrir framan. (Og þá einungis ef maður stendur í réttri fjarlægð frá þeim skjá). Það er auðvelt að missa sig í aðdáun á tæknilegri útfærslu verksins, hvernig hópurinn leikur sér að vídjótækninni og hljóðmynd (það hefði verið auðvelt að ná svipuðum effekt með heyrnartólum en ekki jafnflott), en mun aðdáunarverðara er hvernig 30 mismunandi eintölum er raðað upp í þrjátíu mismunandi sýningar. Mín sýning leiddi mig frá Rússlandi til Þýskalands til Portúgal til Frakklands og svo Hollands, það hefði verið forvitnilegt að heyra allar sögurnar og sjá hvernig þær tengjast þematískt, sá sem byrjaði á Þýska eintalinu fór í allt aðra röð og deildi engum öðrum eintölum með mér og fékk þar með allt aðra upplifun.

alma-o-hendrik

Perhaps All The Dragons var verk sem tók sig alvarlega og vildi segja margt um heiminn, (helst allt grunar mig). Verk Alma Söderberg og Hendrik Willekens var af allt öðrum meiði. Idioter var með vísun í annan heimspeking í leikskrá sinni: Allt sem við vitum, er að við séum hálfvitar. (Slavoj Sizek að endurorða Sókrates grunar mig).

Idioter einkenndist af bjánalegri og mínímalískri leikgleði.

Verkið var sýnt á efstu hæð vinsæls tónleikastaðar í hráu dansstúdíói þar sem loftræstikerfið tekur helminginn

af plássi rýmisins. Parketið er gamalt og í stað sæta eru sýningapallarnir berir. Það er engin tilraun gerð til þess að fela rýmið með lýsingu eða tjöldum, né gerð tilraun til þess að gera það galleríslegra með hvítri málningu. Að undanskildum stórum ál-loftræstirörunum er herbergið svipað fundarherbergi í meðalstóru fyrirtæki. Parið er látleysið uppmálað, Alma í svörtum fötum með málningarslettum, Hendrik í skyrtu og gallabuxum. Það er enginn fjórði veggur á milli, þau brosa til vina sinna í áhorfendahópnum og ekki-vina. Áður en sýning hefst er eyrnatöppum úthlutað sem er alltaf viss hótun (þótt að á endanum sé hljóðhimnan ekki algerlega sprengd).

Það er ekki mikil sviðsmynd. Varla hægt að kalla það sem er á gólfinu svið eða sviðsmynd. Það er borð með teppi yfir og undan því koma rafmagnssnúrur. Þær fara í fimm áttir, minna á senn á krossfisk og djöflastjörnu. Ein þeirra tengist míkrofón sem beinist að nokkrum geometrískum tússteikningum sem liggja á gólfinu. Restin fer í hátalara og raftengi.

Sýningin byrjar látlaust. Alma beygir sig fram og hvíslar í teppið, í það sem ég giska á að sé míkrófónn. Hennar hvísl nær út í hátalarana og myndar lágar drunur. Þegar þau taka teppið af kemur í ljós takkaborð, hljóðmixer, kassettuspilari og fleiri tól til að skapa raftónlist, en blessunarlega engin Apple tölva eða DJ sett. Þessi tvö búa til hljóð með því að frussa í eða hvísla að míkrófóninum og taka það upp, spila aftur og aftur, bæta við hljóði af segulbandi eða með því að taka jack-snúru og stinga henni í samband við nýjan effekt. Þetta er minimalísk en frískandi tónlist, einfaldir taktar, ekkert sérstaklega ögrandi en ágætlega að henni staðið.

Alma Söderberg er sænskur samtímadansari sem er lærður í Hollandi við SNDO og útskrifuð 2010. Henni hefur gengið nokkuð vel eftir útskrift, fengið glimrandi gagnrýnandi og er ein af rísandi stjörnum samtímadansheimsins. Ég hef ekki séð neinar sýningar með henni áður en ég skil hvers vegna henni er að ganga vel. Hún púllar vel mínimalismann sem er í tísku núna, er heillandi performer, það er húmor í hreyfingum hennar. Í stutta stund virðist hún hæðast að rapptónlist, síðan hæðast að okkur áhorfendum en það er góðlátlegt grín og áhorfendur kunna að meta það.

Hendrik heldur áfram að fikta. Alma gengur um og bullar á sænsku, ensku og frönsku til skiptis heyrist mér, en aðallega býr hún bara til hljóð. Þetta er skilgreint sem danssýning og þess vegna fer maður ósjálfrátt að leita að hreyfingum. Ég veit að hún hefur lært flamenco-dans og þess vegna legg ég merkingu í það þegar hún stappar í gólfið, en í raun og veru eru þetta tónleikar. Það er líka hægt að beina augunum að línulaga tússteikningum á gólfinu, ljósið er gott þannig að maður sér hvert smáatriði, en það er engin ástæða til að láta augun reika. Parið er heillandi. Þau brosa sjarmerandi til hvors annars, takturinn og látlausar hreyfingar þeirra heilla og tónlistin sem að mestu leyti er impróviseruð er ágæt. Það er gaman inni í rýminu og performansinn er hlýlegur.

Þá eru upptalin þau verk sem þessi gagnrýnandi náði að sjá og skrifa um. Brussel er góður staður til að heimsækja í Maí vilji maður upplifa mikið af mismunandi leiklist, dans, myndlist og gjörningum fyrir lítinn pening. Kunsten er rótgróið og virðulegt festíval, en sennilega róttækast af þeim sem eru á þessum skala. Kannski ekki svo ólík stemningunni sem myndast í Reykjavík í Ágústlok á Lókal og Reykjavík Dance Festival, nema bara með meiri fjölbreytni (og augljóslega umtalsvert stærra budgetti).

Partýin eru líka nokkuð góð, en það er önnur saga. Eins og listahátíðir gerast er Kunsten með þeim betri í Evrópu sem hægt er að fara á.

 

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s