Dagur 4: Kolbrún Björt segir frá Edinborgarhátíðinni

Borgin er falleg og hljóðlát korter í níu á sunnudagsmorgni. Auglýsingabæklingar gærdagsins faðma reyndar votar göturnar eftir skúrir næturinnar og þeir hörðustu í djamminu eru ekki enn farnir heim, en það skiptir engu. Það er strætó á leiðinni og sólin skín í bili. Vinnudagurinn líður hratt, hádegismatinn er að finna á kaffihúsi Filmhouse bíósins hinum megin við götuna og Lyn Gardner spjallar við mig um hversu yndisleg HUFF innsetningin er og hvenær er líklegt að hún geti séð sýningarnar á vegum Black Dingo sem ég er búin að senda henni ótal pósta um. Gary á skrifstofunni kemur með nammi á línuna og ég fæ að hætta snemma. Símarnir virka ekki og ég fékk að vera lengur í gær, kemur út á eitt. Ég hoppa inn á skrifstofu til fjölmiðlafulltrúanna og reyni að væla út viðtal fyrir Víðsjá. Svo eigum við sólin stefnumót.

Klukkan korter yfir sex dreg ég kærastann á Spoiling. Verkið fjallar um utanríkisráðherra sjálfstæðs Skotlands nokkrum mánuðum eftir kosningar. Þennan daginn á hún að halda blaðamannafund með enska utanríkisráðherranum en neitar að fara með ræðuna sem flokkurinn hefur samið henni við þetta tækifæri. Traverse eru ekki þeir einu sem reyna að tækla sjálfstæðisbaráttuna á sviði, það virðist sem annaðhvort sé verið að tala um fyrstu heimstyrjöldina eða sjálfstæði í næstum öllum sýningum hátíðarinnar. Tilraun til að skrifa ‘Thick of It’ eftiröpun um málefni líðandi stundar fer misvel í áhorfendur, líklega eftir því hvaðan þeir koma og hvað þeir ætla að kjósa. Það sýður á kærastanum, Englendingnum, þegar við komum út. Fyrirlitning leikskáldsins á hans ættarjörð hefur ekki farið fram hjá honum. Tilraunin til að gera það sem virðist rótgróið hatur og biturleika skosku þjóðarsálarinnar að aðhlátursefni kann að heilla suma, og textinn er ekki slæmur sem slíkur ef maður gleymir pólitíkinni á bakvið hann, eða þá uppsetningin, en minn maður situr ekki á skoðunum sínum. ‘Horseshite’. Þá er það afgreitt. Sjálf er ég of illa að mér í sögu þjóðanna til að skilja hvað það er nákvæmlega sem fer mest fyrir brjóstið á honum. Skil hinsvegar vel að það að sitja undir formælingum á landi sínu og þjóð getur ekki verið skemmtilegt. Hvað þá þegar fordómarnir eru framsettir undir nafninu ‘gamanleikur’. Það er þó verst að sýningin spyr hættulegrar spurningar af áhorfendum; getur land sem einu sinni hefur afsalað sér sjálfstæði nokkurn tíma leyft sér að gleyma því?

Seinni sýning kvöldsins hefur ekkert að gera með pólitík eða nútímann eða nokkuð sem orð fá auðveldlega lýst. Riverrun er aðlögun á verki James Joyce, Finnegans Wake. Frekar en að ráðast á hafsjóinn allan er markmiðið að miðla rödd ánnar. Olwen Fouéré er nógu heillandi til að halda áhorfendum helteknum í 65 mínútur af flaumi orða og hugrenningatengsla. Það er erfitt að slíta augun af henni þar sem hún er dúandi sem dynjandi og flöktandi sem stjarna á milli hreima og tóna, frá hvísli til öskurs og allt þar á milli. Það má liggja milli hluta hvort skilningur á merkingu orðanna er mikilvægur fyrir upplifun manns á verkinu. Fyrir mér var eitthvað fallegt við að verða vitni að einhverju sem höfðaði til annars en hugans, hitti blóðið líkt og beljandi foss og hirti engu um getu manns til að greina og tæta á akademískan hátt.

Í þessum skrifuðu orðum sit ég á Sandy Bell’s pöbbnum og stappa fótunum í takt við hefðbundna skoska og írska þjóðlagatónlist. Held að Joyce yrði bara sáttur við það.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s