Dagur 5 og 6: Kolbrún Björt segir frá Edinborgarhátíðinni

Mánudaginn 4. ágúst er ég í fríi.

Það er að segja ég þarf ekki að mæta í miðasöluna en hef ýmsum hnöppum að hneppa. Um hádegi tek ég viðtal við Evu O´Connor fyrir Víðsjá í eldhúsi St John kirkjunnar. Af öllum stöðum í byggingunni er minnsti sjarminn yfir þessum en hér er einnig mesta næðið. Hún er nýbúin að taka tæknirennsli með leikstjóranum sínum og keyrir gamlan brúnan barnavagn fullan af leikmunum milli kirkjunnar og Scottish Storytelling Centre þar sem verk hennar My Name Is Saoirse er flutt af henni sjálfri um það bil kvöld hvert yfir hátíðina. Hún lítur nú þegar út fyrir að vera á seinasta snúning, en innan við þreytt yfirborðið leynir sér ekki þorstinn sem drífur hvern þann sem kemur fram á hátíðinni. Hingað koma þeir sem ætla sér stóra hluti og hún er klárlega ein af þeim.

 

Þar sem kærastinn er á leið norður til Shetlands eyðum við eftirmiðdeginum í tiltekt og góðan hádegismat á Wagamama. Við skömmumst okkar reyndar fyrir að borða á keðju í matarborginni miklu en berum fyrir okkur að ég hef aldrei snætt á Wagamama veitingastað áður. Katsu grænmeti og ‘sticky’ hrísgrjón falla í ljúfan farveg og sólin brýst út úr skýjunum. Hann kaupir sér gallabuxur meðan ég sé um Twitter og nappa Michael Daviot í spjall á Hotel du Vin. Þeir á hótelinu láta okkur eftir koníaksstofuna þegar hljóðneminn skríður upp úr töskunni. Okkur Michael líður eins og við séum meira en lítið spennandi og drekkum sódavatn í djúpum leðursófunum eftir að viðtalinu lýkur. Það er nóg um að tala, leiklist elur af sér endalausa þræði sem tengja fólk þvert á landamæri og aldur. Mest tölum við um hvers Skotlands þarfnast varðandi ný skrif fyrir svið. Við vitum allt, getum allt og það er auðvelt að gleyma tímanum. Hann stekkur af stað, þarf að undirbúa sýningu sem ég er að gagnrýna seinna um kvöldið. Ég hoppa inn á háskólatorgið, nú óþekkjanlegt þar sem fjólublá kýr fyllir upp í meirihluta þess sem áður var opið rými og restinni hefur verið umbreytt í bari og matarstanda, miðasölur og auglýsingaskilti. Nei annars, ég hef ekki áhuga á fleiri sýningum í bili. Takk samt.

 

Sýning Michaels, Hyde and Seek, fjallar um hann sjálfan, ævi Robert Louis Stevenson og verkið Doktor Jekyll og herra Hyde. Það flæðir svo til hnökralaust milli þessarra þriggja þar sem Deviot kannar eigin sjálfsmynd, myrku hliðar og stöðu í samfélagi Skota sem hann yfirgaf fyrir um áratug síðan og hefur nýverið reynt að aðlagast að nýju. Sögur af eigin LSD notkun, hryllilegum martröðum Stevenson, taugaáföllum beggja og misheppnuðum samböndum sýna þemu Jekyll og Hyde í áhugaverðu, ef eilítið flóknu ljósi. Þekking Daviot á verkum og ævi Stevenson gera verkið að fínasta leiðarvísi fyrir þá sem vilja kynna sér verk Stevenson. Það er hinsvegar innsýnin inn í hans eigin líf sem heillar enn frekar, næstum ofsafengin þráhyggja hans við að tengja eigin líf við líf höfundsins og ná utan um brotin í eigin lífi með því að kanna brotið í manninum almennt. Maðurinn er ekki tveir í einum, heldur einn í tveimur og þar liggur efinn sem nagar.

 

Kvöldið líður fljótt þar sem ég rembist við að taka upp sjálfa mig, klippa og raða saman brotum úr viðtölunum tveimur og gera einhversskonar heild úr safninu fyrir Víðsjá. Ég man varla hvað ég heiti þegar ég skríð uppí rúm um þrjú.

 

Næsta morgun klukkan tíu fer ég án þess að hafa gert nokkuð annað en að klæða mig beint í Traverse leikhúsið að sjá írska leikhópinn Dead Centre sýna verkið LIPPY. Sýningin hefst á því sem virðist vera opið spjall við leikara eftir sýningu sem við höfum ekki enn séð. Talið gerir okkur ljóst að um er að ræða verk sem fjallar á afbyggðan máta um varalestur og eru sýnd ýmis atriði úr frægum bíómyndum þar sem varalestri er beitt til að hnekkja á krimmum og koma upp um svik og pretti undir því skini að vera innblástur sýningarinnar sem við höfum ekki enn séð. Spjallið leysist upp hægt og rólega og á endanum stendur leikarinn sem hefur sagt okkur að hann hafi lært varalestur af því að eiga heyrnalausa dóttur einn á sviðinu. Þekkingu sína segist hann hafa þurft að reyna við að horfa á CCTV upptökur af tveimur ungum konum í verslunarleiðangri sem seinna fundust látnar ásamt frænku sinni og systur á heimili þeirra. Hann var fenginn til að lesa varir þeirra í von um að geta ljóstrað upp hvað lá á baki þessu fjöldasjálfsmorði, en þær sveltu sig í hel. Sýningin tekur þar óvænta stefnu og okkur er sýnd útgáfa af því sem gerðist, ávallt þó með þeim formerkjum að varalestur er í eðli sínu ágiskun, raddir kvennanna fjögurra eru okkur tapaðar að eilífu.

 

Það er skemmst frá því að segja að ég var yfir mig hrifin af verkinu og uppsetningu hópsins á því. Það kom mér í uppnám sem fylgdi mér út úr salnum og lætur mig ekki enn í friði eftir heilan dag fyrir framan skjá að reyna að hanna auglýsingar og svo við að selja miða. Verk sem takast á við svo stór þemu sem dauðann, trúmál, sekt, fjölskyldu, tungumálið og vilja mannsins eru yfirleitt að reyna að gera of mikið og þeim fipast iðulega. LIPPY nær að spyrja spurninga sem snerta á því sem nagar okkur mest, en fá okkur til að njóta þess að spyrja, hlæja að viðteknum sannleikum og bölva þeim í sama mund. Klukkan er tvö og myndir af ungum sveltum líkömum undir lagi af tættum persónulegum skjölum sækja á hugann. Í fyrramálið eru það hjúkrunarkonur hermanna sem hefja með mér daginn.

 

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s