Dagur 7: Kolbrún Björt segir frá Edinborgarhátíðinni

6. ágúst. Ég byrjaði daginn á því að gráta í leikhúsi.

Sýningin var SmallWar og Valentijn Dhaenes las raunverulegt bréf hermanns til barns síns sem hann hefur ekki enn séð, vitandi að dauðinn bíður hans. Mér verður fljótlega ljóst að múrinn í kringum hjarta mitt er við það að hrynja. Nokkur hljóðlát tár falla því til staðfestingar. Nú veit ég af hverju fólk fer ekki í leikhús klukkan tíu á morgnana.

Sýningin er öll samansett af textum hermanna í gegnum aldirnar og hjúkrunarfræðinganna sem hlúðu að sárum þeirra. Sumir hermannanna eru reiðir, aðrir hafa gefist upp, þó nokkrir leita til guðs, nokkrir hugga sig við orð eins og fósturjörð, réttlæti og lýðræði en flestir vita þeir að ekkert þessara hugtaka geta komið í stað þess að lifa. Allir eiga þeir erfitt með samskipti sín við aðra, hvort sem það er í gegnum síma, samtöl í eigin persónu eða í skrifuðu máli. Á nokkra vantar hendur, aðra skortir kjálka, tennur og tungu og einn er heyrnarlaus. Allir hafa þeir séð of mikið. Þetta eru þær birtingarmyndir sem við erum vön að sjá þegar lýsa á hermönnum eða stríði almennt. Engu að síður nær sýningin að fanga athygli áhorfenda sem finna á sér að það leynist fleira bak við sorgleg orðin en samúð með þeim föllnu.

Það eru vitnisburðir hjúkrunarfræðinganna sem halda sýningunni frá því að virðast ‘sentimental’. Þær eru næstum harðgerðari en þeir í skoðunum sínum, vopnaðar gáfum, kaldhæðni og styrk til að sjá veröldina sem margbrotna/mölbrotna. Einnig er sýningin einstök fyrir sakir þess að segja sögur þeirra hermanna sem lýsa gleðinni sem þeir finna við að drepa, stolti sínu yfir að hafa líf annarra í hendi sér og jákvæðu viðhorfi þeirra gagnvart nauðgunum í stríði. Líkt og í Hyde and Seek er það myrka hlið mannsandans sem knýr samsetta söguna í SmallWar. Óvinurinn er ekki franskur, enskur, bandarískur, rússneskur, múslimi eða kaþólikki, (…), heldur ófreskjan innra með okkur.

Tæknilegar lausnir sýningarinnar eru ótrúlega flottar. Valentijn fer aldrei úr hjúkkubúningnum sem hann kemur inn í, hermennirnir birtast allir á skjá fyrir aftan hann, stíga upp af flatskjá í mannstærð þar sem hann liggur á sjúkrarúmi. Á tjaldinu grípa þeir símann og reyna að tjá ástvinum afhverju þeir geta ekki komið heim, hvers vegna þeir vilja engar heimsóknir. Þeir eru allir Valentijn og hann er þeir allir. Fimm útgáfur af leikaranum birtast auk hans á sviðinu og bæta við sýninguna lag eftir lag. Þannig byggir hann upp sýningu sem hefði verið auðvelt að gera of einfalda. Snilldarlega vel valin tónlist, flutt af honum fimmfalt er punkturinn yfir i-ið.

Ég kemst ekki hjá því að bölva pínulítið í hljóði þegar út er komið. Ég hef loksins séð sýninguna sem ég hef verið að rembast við að sviðsetja í huga mér frá því vorið 2013 þegar ég setti upp afbyggðan Coriolanus á 50 klukkustundum. Andskotans. Djöfull getur leikhús verið flott.

Rigningin er heit og sveitt og gluggar strætó eru drjúpandi votir að innan og hvítir af móðu. Ský virðast umhverfa allar helstu byggingar borgarinnar og hafsjór krambúleraðra regnhlífa flýtur hjá þar sem vagninn hlykkjast um miðbæinn í átt að Leith. Ég sendi Lyn Gardner smeðjulegt bréf í von um að hún sjái verk Black Dingo á hátíðinni áður en það er um seinan og elda tvöfaldan skammt af kvöldmat, þar sem báðir eru á leið í plastbox hvort eð er. Þegar klukkan segir mér að kominn sé tími til að hoppa upp í strætó í þriðja skiptið í dag finnst mér eins og ég sé frekar gufusoðin.

Áhorfendur eru hægfara og vinalegir að mestu og dagurinn rennur hjá. Án þess að taka eftir því tekst mér að selja meira en nokkru sinni fyrr og hafa mínútur aflögu til að taka til í miðasölunni. Þegar heim er komið bíða mín myndir af kertafleytingu við tjörnina í Reykjavík. Ég ligg og velti fyrir mér hvort hermennirnir sem sprengdu Hiroshima og Nagasaki hafi réttlætt verknaðinn fyrir sér, fengið martraðir eða haft unun af því að fara með tortímingarvald og leyfa því að falla. Það er örugglega svar á Google en sagan sem ég spinn í huga mér heillar meira en staðreyndir málsins á þessu stigi. Þegar ég loka augunum sé ég fljótandi kerti dugga á toppum regnhlífahafsins. Sveppalaga ský suðar eins gamalt sjónvarp án dagskrár í bakgrunninum, hálfgegnsætt og upplitað eins og gömul svarthvít ljósmynd. Úti hvinur þruma og ótal svört dekk sleikja vott og dansandi malbikið.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s