Act Alone – Dagur 2

actalone 2

Það voru þrjár sýningar í félagsheimilinu á Suðureyri þennan föstudag og mikið í stuð í bænum. Félagsheimilið er með svipað leiksvið og má finna í flestum félagsheimilum út um land allt. Það hentar fyrir marga hluti, tónleika sem og leiksýningar, fundahald og fleira. Um kvöldið var troðið út úr dyrum á flesta viðburði sem og á kaffihúsið við hliðina. Rúta kom með fólk frá Ísafirði og fólk keyrði langt að, en því miður varð talsverð truflun af því á fyrstu sýningunni.

Fyrsta verk dagsins var einleikur Jennýjar Láru Arnórsdóttir, Elska, sem fjallaði um ástarmál Þingeyinga. Þetta var ágætis heimildaleikhús sem byggði nánast orðrétt á viðtölum við ýmis pör og þótt það yrði sjaldan dramatískt var það frekar skemmtilegt. Hún náði vel að fanga talanda persónanna þannig að maður skildi strax á hvaða aldri og af hvaða kyni þau voru. Eina sviðsmyndin var mismunandi skófatnaður sem hún nýtti til að komast í karakter. Eini ókosturinn að mínu mati var að líkamstjáningin gæti verið sterkari. Hún vann verkið að miklu leyti ein og þrátt fyrir að komast vel upp með það að flestu leyti, skorti hana leikstjóra (eða bara eitthvað leikhúsvant auga) til að hjálpa sér að fullkomna persónurnar. Verkið er lofandi og ég vona að hún vinni það lengra, því hugmyndin er góð og með því sýnir hún fram á ótvíræða hæfileika.

Eldklerkurinn var annað verk kvöldsins. Það var lengra en Elska en þó ekki svo að þörf hefði verið á hléi. (það þarf sjaldan hlé, og á hátíð eins og Act Alone sem rekur sig ekki á nammisölu á maður ekkert að standa í svoleiðis nema verk séu lengri en tveir tímar). Verkið tekur á afar athyglisverðu efni, stærstu náttúruhamförum Íslandssögunnar, (og reyndar stærsta hraungoss í sögulegum tíma), og aðalsöguhetjan er Jón Steingrímsson, presturinn á Kirkjubæjaklaustri. Flytjandinn Pétur Eggerz var kraftmikill og það leyndi sér ekki að hann hefur mikla ástríðu fyrir sögunni. Það er alltaf snúið að skipta milli fjölmargra persóna, detta í og úr hlutverki sögumanns og samt halda dampi en honum tókst það vel upp.

Verkið líður hins vegar fyrir tvennt. Það er of hátíðlegt, leyfir sér ekki að skálda nógu mikið inn í eyðurnar og búa til fleiri senur sem láta söguna vakna til lífs. Í öðru lagi er of mikið skrípó í gangi, það er ekkert að því að gera grín að embættismannakerfi átjándu aldar, eiginlega bara sjálfsagt sérstaklega þegar þau standa sig næstum jafnilla og hrunstjórn Geirs Haarde, en það verður þreytandi þegar allir Danir í verkinu eru bara grín. Danska er skondið tungumál og vinsælt að hæðast að því á íslensku leiksviði en þegar maður hefur fleiri en einn slíkan karakter verður það þreytandi. Síðan er Jón Steingrímsson gerður að hálfgerðum dýrlingi, verkið er notað til að réttlæta allar gjörðir hans og jafnvel á fimmtugsaldri er maðurinn eins og saklaus skólastrákur. Það var engin ástæða til að kafa djúpt í ævi hans, McGuffin verksins er eldgosið og móðuharðindin, og það var engin ástæða til að fegra allar gjörðir hans. Maður spyr sig, var það virkilega góðverk hjá manninum að giftast ríkri ekkju og láta húðstrýkja tólf manns sem hvísluðu í sveitinni um tilhugalíf þeirra?

Næst á dagskránni var Egill Ólafsson og stóð eflaust fyrir sínu. Ég hugsa að enginn móðgist yfir því þó ég hafi látið plássið mitt eftir handa öðrum aðdáendum, og fengið mér í staðinn bjór úti. Tónleikarnir voru lengi og með rífandi uppklappi heyrðist mér. Að sjálfsögðu drógust þeir eilítið á langinn þannig að dansverkið sem kom eftir á var sýnt um hálf eitt leytið.

Scape of Grace með Sögu Sigurðardóttur skar sig frá hinum dagskrárliðunum. Ekki bara af því það var dansverk heldur af því það var óhefðbundnara. Þrátt fyrir það og þrátt fyrir að komið væri fram yfir miðnætti var salur félagsheimilisins næstum fullur.

Saga lék sér með tvo magnara og hljóðheim endurvarpsins auk ímynd rokksins. Tímasetningin var góð, salurinn hefði ekki haft þolinmæði fyrir textaleikhúsi og ekki hvaða dans sem er heldur. Verkið var afar aðgengilegt í einfaldleika sínum. Ætli það sé ekki óhætt að segja að Saga sé mínimalisti sem bæti engum óþarfa inn. Stundum virkar það og stundum ekki, persónulega er ég ekki mikið fyrir það þegar listamenn nota feedback til að skapa mikinn hávaða, en þessi sýning var ánægjuleg og góður endir á löngu kvöldi.

Fram að þessu hefur hátíðin verið vel heppnuð og það sést á hátíðargestum sem eru með sólskinsbros þrátt fyrir skítaveður.

Snæbjörn Brynjarsson.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s