Nemendapistill: Predator – Í diskó eyðimörkinn

Reykvélin heldur áfram að birta umfjallanir nemenda LHÍ um verk á Lókal og Reykjavík Dance Festival. Preddi Torlacius fær orðið: 

Ég fór að sjá verkið Predator eftir Sögu Sigurðardóttir sem var sýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu.

1407490799508

Mynd. Hulda Sif Ásmundsdóttir

Strax í upphafi sýningar byrjaði ég að sjá myndir. Það var ákveðin diskóstemmning yfir sviðsetningunni, glimmertjöld hengu niður úr loftinu og mynduðu einskonar vegg og inní veggnum var plötusnúðaherbergi. Fyrir framan vegginn var autt gólf en nokkrir hringir sem mynduðu einhvers konar palla á gólfinu.

Verkið var í þremur þáttum en fyrsti þáttur verksins bar titilinn: Að finna til í fegurðinni. Þegar dansararnir byrjuðu að kanna teppið, sem lá yfir stórum hluta af sviðinu, byrjaði ég að sjá myndast einhvers konar eyðimörk. Ég sá sviðið breytast í diskótek í eyðimörkinni. Dansararnir færðu sig síðan undir teppið og byrjuðu að skapa myndir sem voru sumar hverjar virkilega fallegar. Verur byrjuðu að myndast undir teppinu, rafræn tónlist byrjaði að heyrast og dansararnir sungu í margrödduðum samhljóm sem var fallegur, stundum óhreinn en heillandi. Textinn var einfaldur en þau endurtóku orðið „Predator“ og setninguna „Ég finn til“. Þetta var flott allt saman en ég var byrjaður að vera svolítið leiður á þessu undir lokin, en þá sem betur fer brutu þau þetta upp og inn kom plötusnúða tvíeyki og við tók dynjandi dansmúsík og partýstemning og þá byrjaði annar þáttur verksins.

Að finna til í striti og velúr. Dansaranir virtust mjög hamingjusamir að dansa en dansrútínan samanstóð af líflegum dansi og líkamsæfingum. Þeir voru klæddir velúrgöllum sem mér fannst undirstrika þennan diskó-fíling sem ég fékk yfir mig við það að horfa á þetta verk. Dansrútínan endurtók sig nokkrum sinnum og það var forvitnilegt að sjá dansarana takast á við dansrútínuna þegar á leið á sýninguna. En stemningin minnti mig svolítið á fitnesskeppni þar sem dansararnir brostu í gegnum allt erfiðið og stóðu svo dansandi á hringlaga pöllunum á meðan þau biðu eftir að það kæmi aftur að þeim. En til að toppa fitness diskótekið í eyðimörkinni fengu dansararnir sér tyggjó og tyggðu það og blésu kúlur á meðan þau dönsuðu. Það var ótrúlega skemmtilegt að horfa á þau og reyna að sjá hvort einhver væri að fara að gefast upp á öllum þessum hamagangi. En þegar á leið fór ég að finna fyrir því að þreytan og erfiðin hjá sumum dönsurunum byrjuðu að smita mig þar sem ég sat uppí sal. Ég veit ekki hvort það hafi verið út af samkennd eða hvort ég hafi verið búinn að fá nóg af þessu partýi.

Þriðji og síðasti hluti verksins bar titilinn Að finna til í náðinni. Það var mjög áhugavert að horfa á dansarana þarna uppgefin fyrir framan mig eftir allt partýið. Sumir stóðu, aðrir lágu og sumir láku hægt niður í gólf. Allt var eitthvað svo tómlegt og dauft. Ég fór að hugsa hvort að þetta væri einhver ádeila á fitness samfélagið. Allir að æfa á fullu, borða lítið sem ekkert síðustu dagana fyrir keppni, bara drekka vatn og tyggja tyggjó til þess að fá eitthvað bragð uppí munninn, bera á sig olíu og brosa sínu breiðasta vaselín smurða tannhvítu brosi framan í heiminn eftir öll átökin sem þau eru búin að ganga í gegnum. Vanlíðanin klórar þau í hnakkann en þá setja þau bara meiri olíu á sig til þess að fela þessa vanlíðan. Svo fara þau heim á facebook skoða myndirnar af mótinu og bíða eftir hrósum frá ættingjum og vinum skola af sér olíuna og eftir standa þau uppgefin og svöng og langar helst uppí sófa að borða pítsu með skinku.

Síðasta augnablikið, rétt áður en ljósin slokknuðu, fannst mér það fallegasta. Tónlistin hætti, dansararnir voru kyrrir á pöllunum og að var algjör þögn í salnum. Þessi kyrrð var svo falleg. Þetta augnablik hefði jafnvel mátt vara aðeins lengur.

Ég skemmti mér vel þó svo að mér hafi fundist sýningin á tímabili vera svolítið langdregin. Þetta var mjög sjónræn og skemmtileg sýning og fyrir mér var þetta ádeila á útlitsdýrkun. Allur þessi dans í diskóeyðimörkinni, dúndrandi tónlist og engin næring nema tyggjó til þess að jappla á til þess að breiða yfir vanlíðan og hjálpa til með að viðhalda kúlinu.

 

– Preddi Torlasíus

 

 

 

 

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s