Hugleiðing – Okkar á milli

Ég hef verið að hugleiða dans, dans og danssýningar og fyrir hverja þær eru.

Oftar en ekki afsaka áhorfendur sig áður en þeir þakka fyrir sýninguna með þeim orðum að þeir viti ekki neitt, að það ætti ekki að taka þá alvarlega af því þeir þekki ekki dans, að álit þeirra skipti ekki máli. Takk samt fyrir mig! Þetta var rosalega flott allt saman.

Þessum viðbrögðum ég hef orðið vitni að óteljandi sinnum og þau hafa fengið mig til að velta því fyrir mér, fyrir hvern setjum við upp danssýningar? Þarf áhorfandinn alltaf að búa yfir einhverri vitneskju um dans? Nei, auðvitað ekki! En hvers vegna er þá þessi ríka þörf áhorfandans til að skýla sér á bak við þekkingarleysi sitt til staðar. Stundum finnst mér eins og því meira sem ég veit um dans og því fleiri sýningar sem ég fer á, því erfiðara verður að njóta þeirra. Ég hætti að upplifa þetta sem afþreyingu vegna þess að ég kemst ekki hjá því að horfa á þetta gagnrýnum augum. Er jafnvel betra að vita bara ekki neitt, afsaka kunnáttuleysi sitt og fáfræði, njóta þess að horfa á og þakka pent fyrir sig. Það er auðvitað himinn og haf þarna á milli en til dæmis nútímadans virðist gjarnan koma fólki mjög spánskt fyrir sjónir og það telur sig þurfa á útskýringum að halda.

Ég fór á danssýningu um daginn. Áður en ég gekk inn á sýninguna ákvað ég að tæma hugann og skilja hugsanir, áhyggjur og daglegt líf eftir fyrir utan. Mér þótti ánægjulegt að hafa ekki hugmynd um hvað væri í vændum, hafði ekki heyrt í neinum sem séð hefði umrædda sýningu og því var óræður texti á bakhliðinni á miðanum mínum það eina sem ég hafði mér til halds og trausts áður en ég gekk inn í sýningarsalinn. Einfalt og fallega látlaust sýningarrými setti tóninn fyrir því sem koma skyldi. Þetta var verulega fallegt, óumdeilandlega áreynslulaust – yfirmáta fallegt allt saman! Ég stóð mig samt að því að vera farið að leiðast, hugurinn farinn að reika, mér var orðið heitt og ég fann hvenær sá tímapunktur kom að það var úti um einhverskonar tengingu milli mín og verksins. Ég spurði sjálfa mig á einum tímapunkti hvort það yrði aukin aðsókn á danssýningar yfir höfuð ef verk væru meira unnin eins og þessi, út frá hreyfingum og án þess að vera segja eitthvað sérstakt eða troða inn skilaboðum til áhorfenda. Tilfinningin sem þetta verk kallaði fram í mér var óbærileg meðvitund um sjálfa mig. Ég upplifði mig algjörlega eina. Fyrir utan þá augljósu staðreynd að vera í sal fullum af fólki, því mér leið eins og allir væru að upplifa eitthvað stórkostlegt á meðan ég sat og fannst ég sjá í gegnum töfrana. Það sem ég horfði á var eins og áður sagði fallegt en á sama tíma svo átakalítið að mér fannst aldrei vera tækifæri til að sogast inn í heim dansarana og njóta með þeim.

Kannski hefði þekkingarleysi komið sér vel þarna í þágu afþreyingar og ánægjulegrar upplifunar. Ég myndi þó ekki skipta út kunnáttu minni til þess eins að njóta, ég hlýt nú að geta lært það upp á nýtt.

Ástrós María Emilsdóttir

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s